Ferðalög

Hin árlega Londonferð tvíburanna

20190824_090653

Það vildi svo skemmtilega til að við vinkonurnar fórum aftur til London síðustu helgina í ágúst 2019, alveg eins og við gerðum árið 2018.

Við flugum út á miðvikudagsmorgni, þann 21. ágúst. Eini munurinn er að nú fengu eiginmennirnir að koma með!

20190825_085734
Setustofan við barinn á Ashburn Hotel.

Við lentum á Gatwick kl. 11.45, og fórum og fundum hótelið okkar. Ashburn hotel í South Kensington. Hótelið var lítið, krúttlegt og ótrúlega sjarmerandi, og við völdum það aðallega vegna þessa.

Annars var fyrsti dagurinn tekinn rólega, við átum og versluðum örlítið, opnuðum Amazon pakkana og svo áttum við bókað í tvö þrautaherbergi. Það var ágætis ferðalag að koma okkur í þrautaherbergin, en þau voru í The Biscuit Factory í Bermondsey. The Biscuit factory var, eins og nafnið gefur til kynna, kexverksmiðja en er nú notað fyrir líkamsrækt, þrautaherbergi, vinnustofur listamanna o.s.frv.

20190821_192744
@ The Biscuit Factory

Við fórum annars vegar í Grandpa’s last will, þar sem við þurfum að finna erfðaskrá látins afa okkar, og hins vegar Alastair Moon’s House hjá Lock’d. Grandpa var skemmtilegt herbergi, en gert fyrir byrjendur og því vorum við svolítið fljót í gegn. Því miður kom það upp að leikstjórinn í Alastair Moon var að óviðráðanlegum ástæðum ekki við og því var okkur boðið að fara í Perpetuum Mobile í staðinn. Það hins vegar var ekki mjög spennandi herbergi og lítið í það lagt.

20190821_211146

Daginn eftir áttum við bókað í skoðunarferð um State Rooms í Buckingham höll, The Royal Mews og The Queen’s Gallery. The Royal Mews geymir hestvagna og bifreiðar drottningarinnar og í galleríinu var sýning um líf og starf Leonardos Da Vinci.

20190822_110907
Hestvagninn sem er aðeins notaður við krýningarathafnir.

Galleríið er í gamalli kapellu sem hefur fengið nýtt hlutverk, en upprunalega var lokið við að reisa hana árið 1831. Hún eyðilagðist í loftárásum árið 1940, og árið 1962 var farið að nota hana sem sýningarsal.

20190822_101215
Hin fræga spegilskrift Da Vincis.

Höllin sjálf höfðaði langmest til mín. Hver og einn var með Audio guide, og við ráfuðum hvert í sínu lagi um höllina. Auðvitað var urmull af fólki á staðnum, en þrátt fyrir það var þetta upplifun.

20190822_125315
Bakhlið hallarinnar, frá hallargarðinum. 

Churchill’s War Rooms eru neðanjarðarskrifstofur og vistarverur fyrirmenna á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Ferðin um safnið með Audio guide var mjög áhugaverð. Þarna var sérstök hvelfing tileinkuð Churchill, en auk þess mátti sjá svefnherbergi þeirra sem þarna dvöldu, skrifstofur og vinnurými.

Frá þessum niðurgröfnu vistarverum var hernaðarþátttöku Breta í seinni heimsstyrjöldinni stjórnað, auk þess sem ráðherrar og hernaðarsérfræðingar bjuggu.

20190822_154906
Churchill merkti þau skjöl sem vinna þurfti samdægurs með svona merki, og ef þau voru ekki unnin var ekkert víst að sá starfsmaður þyrfti að mæta aftur!

Roll Out the Barrel var annað þrautaherbergi hjá Escape Plan Shoreditch, en herbergin þeirra hafa skemmtilega sögulega tengingu. Við vorum dátar á tímum seinni heimsstyrjaldar, sem vorum að koma búsinu undan yfirmönnunum. Herbergið var mjög frumlegt og einstaklega skemmtilegt. Okkur langar mikið að fara í hin herbergin þeirra, en þau fá öll mjög góða dóma.

FB_IMG_1566596823311
Já, það þurfti að koma tunnunni út!

Dagurinn eftir hófst á því að ég átti tíma í klippingu, en ferðafélagarnir fóru í Tower of London á meðan. Ég hafði nefnilega fundið á netinu hárgreiðsludömu sem hafði lært krulluklippingar hjá Lorraine Massey, upphafskonu Curly Girl Method. Það er nefnilega svo skemmtilegt að komast að því, þegar maður er rúmlega þrítugur, að það er ástæða fyrir því að maður kemur í 90% tilvika óánægður úr klippingu. Það virðast nefnilega vera fáir hársnyrtar sem „kunna“ á krullað hár.

20190822_101829
Teikning Da Vincis.

Stephanie, hjá Curly Hair London, var alveg dásamleg. Það var svo gaman að fylgjast með henni klippa hárið þurrt krullu fyrir krullu! Ég var hjá henni í hátt í tvo tíma, fyrst var „consultation“ eða ráðgjöf, og svo klipping og styling. Hún fór yfir með mér hvaða vörur ég væri að nota og hvernig, og kom með áhugaverða punkta um hvað mætti gera betur. Aftur á móti var hún alls ekki að reyna að selja neitt, þótt hún væri í samstarfi við Innersense og væri með vörurnar þeirra til sölu. Mér þótti það frábært.

20190824_163057

Eftir klippingu hitti ég ferðafélagana aftur og við gripum okkur bita áður en við áttum bókað í síðasta þrautaherbergið. Það herbergi var í bílakjallara, sem var búið að innrétta á mjög frumlegan hátt. Herbergið var í þema Da Vincis, og ágætt sem slíkt, en eftir á var ekkert mikið sem stóð upp úr.

20190823_171745
Liðin skrifa tímana sína á post-it og líma á herbergið.

Eftir herbergið lögðum við leið okkar á söngleikinn Book of Mormon í The Prince of Wales leikhúsinu, og var hún mjög skemmtileg.

Við vissum að síðasti dagurinn yrði langur, en við gerðum okkur ekki grein fyrir hve langur hann yrði! Við byrjuðum daginn á skoðunarferð í Westminster Abbey, þar sem við dvöldum dágóða stund.

20190824_092131

Klukkan 12.00 áttum við svo rútuferð frá Victoria Coach Station, þaðan sem við héldum til Ipswich til fundar við Ed okkar Sheeran. Mennirnir okkar hefðu sennilegast valið einhvern annan tónlistarmann, en þeir voru alls ekki óánægðir að tónleikunum loknum!

20190824_183157

Það voru þrjú upphitunaratriði fyrir kappann, en þar stóð hæst Passenger, sem sagði ófáa brandarana. Ef þú telur þig ekki vita hver Passenger er, ýttu á hlekkinn.

20190824_204225

Ed Sheeran sjálfur, eins og flestir landsmenn vita, stóð sig með afbrigðum vel og kvöldið var dásamlegt. Á tónleikunum í Ipswich kvöldið eftir tilkynnti hann að hann ætlaði að draga sig í hlé, það hlýtur að hafa verið tilfinningaþrungin stund.

20190824_152814
Við vorum með þeim fyrstu á staðinn.

Tónleikunum var lokið milli 22 og 23, en vegna hvíldarreglna mátti rútubílstjórinn ekki leggja af stað fyrr en eftir miðnætti (stórkostleg yfirsjón hjá rútufyrirtækinu, það voru ekki beint kátir farþegar sem biðu í um tvo tíma eftir að leggja í hann heim aftur!).

Það verður hins vegar að viðurkennast að það lítur því miður ekki vel út með Londonferð tvíburanna í ár!

20190824_111136
Í Westminster Abbey.

Bækur

Uppáhalds bækurnar mínar – 8. hluti

Eva Luna - Wikipedia

Eva Luna e. Isabel Allende. Það er bara eitthvað við Isabel Allende! Eva Luna er munaðarleysingi, og hér fáum við að heyra sögu hennar og fólksins sem hún hittir.

East of Eden by John Steinbeck

Austan Eden e. John Steinbeck minnir að mörgu leyti á söguna um Adam og Evu og bræðurna Cain og Abel. Aðalpersónan, Adam, flytur til Kaliforníu til að hefja búskap. Eiginkona hans missir tökin á tilverunni eftir fæðingu tvíburasona þeirra hjóna, svo Adam stendur uppi einn með drengina.

Allt hold er hey | Penninn Eymundsson

Forsöguna að Allt hold er hey e. Þorgrím Þráinsson fíla ég ekki, og lét sem ég hefði ekki heyrt hana, þar sem hún er ótrúverðug og dregur úr sögunni að mér finnst. Sagan gerist á tímum Skaftárelda og fjallar um örlög fólks sem hraktist frá heimkynnum sínum.

Vesalingarnir by Victor Hugo

Bókina Vesalingana e. Victor Hugo hafði ég átt lengi og miklað mikið fyrir mér. En svo þegar ég byrjaði á henni þá hreinlega gleypti ég hana. Sagan gerist í París á fyrri hluta 19. aldar, og við fylgjumst með dæmdum glæpamanni hefja nýtt líf. Hann tekur að sér unga stúlku sem hefur misst móður sína og gengur henni í föðurstað.

Ferðalög, Lífið

Aðventuferð til Manchester

Við fórum ásamt vinnufélögum mínum í aðventuferð til Manchester, korter í jól eins og maður segir, en við komum heim 16. desember.

Dagana fyrir hafði verið hræðilegt veður, á þriðjudegi var rauð viðvörun um nánast allt land, og við vorum á leið suður eftir vinnu á fimmtudegi. Fjallvegirnir voru opnaðir rétt fyrir hádegi á fimmtudeginum, svo við hættum snemma og lögðum í hann. Þetta var spurning alveg fram á síðustu stundu hvort við værum yfir höfuð að fara! Það var því frekar trekkt andrúmsloftið á skrifstofunni þessa daga fyrir ferðina – en auðvitað blessaðist þetta allt.

Við áttum gistingu á Airport Hotel Aurora Star, en þeir geymdu líka bílana okkar. Það er býsna ljúft að þurfa svo bara að skottast yfir bílaplanið og vera mættur í Leifsstöð.

Við flugum með Icelandair um morguninn til Manchester, þar sem beið okkar rúta á vegum Visitor ferðaskrifstofunnar. Það var alveg frekar óþægilegt að það voru þrjár rútur á svæðinu fyrir Íslendinga frá tveim ferðaskrifstofum í þrjár ferðir. Þær voru illa merktar, svo maður valdi rútu af handahófi (eða öllu heldur eftir orðinu á götunni)!

20191214_163703

Á leiðinni inn í bæ sagði fararstjórinn okkur upp og ofan af borginni, en hann var mikill reynslubolti er varðar Manchester, bæði borgina og leiki liðsins.

Hótelið sem við vorum á var Holiday Inn Manchester City Centre, og það var, eins og nafnið gefur til kynna, bara rétt við miðborgina. Hótelið var mjög nýlegt og fínt, morgunmaturinn mjög góður, rúmin fín, og allt mjög snyrtilegt. Við gætum vel hugsað okkur að vera aftur á þessu hóteli, ef við ættum seinna leið um Manchester aftur. Mér skilst að þetta sé eina hótelið sem Visitor skiptir við í Manchester, því þeir voru svo ánægðir með það, og ég skil það bara mjög vel.

Bestu tilboðin: Holiday Inn Manchester - City Centre - Manchester ...
Mynd fengin að láni hjá hotels.com

Eftir ferðalagið var kominn tími á að fá að borða, og það hratt og vel! Við gengum fram á Ask Italian stað í nágrenninu sem við stukkum inn á. Þar voru allir mjög glaðir, enda fjölbreyttur matseðill, hress þjónn, góður félagsskapur og góður matur (og kokteilar!).

Það sem eftir lifði dags nýttum við í að rífa upp pakkana frá Amazon (haha) og rölta um miðbæinn. Það var hundleiðinlegt veður (rigning og vindur) allan tímann sem við vorum í borginni, svo við sáum mjög lítið annað en gangstéttarnar! Við hjónin, sem venjulega vöndum okkur við að skoða eins mikið og við getum, við hreinlega gáfumst bara upp – en það skrifast að hluta til á lélegan undirbúning.

20191214_125731
Dómkirkjan í Manchester

Arndale Center er stór verslunarmiðstöð í miðbænum, og þar vörðum við ófáum klukkustundunum.

Auðvitað áttum við tvö bókuð Escape Room, annað þeirra var Vacancy hjá Breakout Manchester Church Street, sem var bara steinsnar frá hótelinu. Forsaga herbergisins er sú að þegar þú kemur á gististaðinn þinn þá læsist þú inni í herberginu og niðurteljari fer í gang.

79508090_2853789931312112_1613678578145165312_o

Herbergið hófst í „lyftu“, en var auk þess tvö önnur rými. Við sluppum naumlega, með einhverjar 90 sekúndur eftir, og vorum helpeppuð eftir æsinginn!

Eftir stóru máltíðina fyrr um daginn höfðum við enga sérlega löngun í stóra kvöldmáltíð, svo við komum bara við á Pizza Hut eftir flóttaherbergið og deildum pizzu og salatbar. Það var ljúft að sitja tvö saman á hálftómum staðnum eftir æsinginn, áður en við héldum heim á hótel.

Laugardagurinn hófst á fullu spani, en planið var jóla-ofur-sjopp. Við gerðum þetta í Glasgow 2018, og nú tókum við vinnufélaga minn og konuna hans með, og þetta gekk eins og í sögu! Kl. 8.00, við opnun, vorum við mætt í Primark með jólagjafalistann og leystum nánast allar jólagjafirnar á 2 klukkustundum. Við vorum rúmlega hálfnuð þegar eiginmaðurinn neyddist til að fara og borga og fara með fyrsta holl á hótelherbergið, meðan ég hélt áfram. Stuttu eftir að eiginmaðurinn skilaði sér til baka var herlegheitunum lokið, kviss, bamm, búmm. Elska þetta!

20191214_130121

Þá var komið að næsta flóttaherbergisævintýri, en í þetta skiptið var herbergið í víkingaþema og við vorum sammála um að það væri sérlega vel heppnað. Fyrirtækið var Escape Hunt Manchester, ekki langt frá Arndale Center.

104996166_314705499532397_824098525201292951_n

Printworks er gömul verksmiðja sem núna er nýtt sem eins konar veitingastaðamiðstöð – þetta er yfirbyggð göngugata full af hvers kyns veitingastöðum og pöbbum. Þar hittum við vinnufélaga minn og konuna hans aftur og völdum af handahófi veitingastað sem heitir Frankie and Benny’s. Kasjúal ítalskur staður, en eftirréttirnir voru magnaðir.

Loks stytti upp einhverja stund, svo við fengum okkur smá göngutúr. Án þess að fara eftir nokkru skipulagi rákumst við á Shambles torgið og Manchester Cathedral – því miður var messa í gangi, svo við ákváðum að fara ekki inn.

Á sunnudegi sváfum við út, en um hádegi tókum við lestina í átt að Old Trafford. Það var ekki flókið, að taka bara sömu lest og allir karlarnir í United bolunum, með treflana og húfurnar og hvað ekki. Svo bara fylgdum við þeim, þar til komið var á áfangastað.

20191215_132301

Ég er ekki áhugamanneskja um fótbolta, og var nánast búin að kvíða þessum klukkutímum. En þetta var alveg þolanlegt og leið mun hraðar en ég átti von á!

20191215_135917

Eftir leikinn strunsuðum við í Lowry menningarhúsið, en þar áttum við bókað í kvöldmat og á Grinch sýningu. Það heppnaðist svona líka vel, þrátt fyrir að fleiri en einn og fleiri en tveir í hópnum hafi kannski aðeins fengið sér stuttan blund. Ég nefni engin nöfn!

20191215_192916

Á mánudagsmorgni tókum við Visitorrútuna upp á flugvöll.

Nú höfum við hjónin þvælst örlítið í gegnum árin, en aldrei höfum við lent í ævintýri eins og á þessum krúttlega flugvelli í Manchester.

Fyrir misskilning endaði stingsög bóndans í handfarangri. Það er ekki vinsælt. Þannig eftir að bíða alla röðina í öryggisleitinni þurfti bóndinn að snúa til baka og innrita handfarangurstöskuna. Ég fór á meðan inn á fríhafnarsvæðið, þar sem ég fór að skoða snyrtivörur.

20191215_185022

Þegar eiginmaðurinn kom til baka eftir hlaupin tyllti hann sér á bekk, meðan ég kláraði að skoða. Flugið var alltaf merkt þannig að númerið á hliðinu kæmi fljótlega, en þar sem ég stóð á kassa í versluninni fór eiginmaðurinn að baða út öllum öngum.

Komandi frá Íslandi, þá eru nú oftast bara eitt flugfélag með eitt flug af erlendum flugvöllum og heim. Nei, við vorum alltaf að horfa á flug með EasyJet – en Icelandair var löngu klárt, svo það endaði með því að við nánast hlupum út í vél og vorum með þeim síðustu til að skila okkur!

Note to self – Ekki gera ráð fyrir að „Reykjavik“ sé alltaf flugið þitt. Það gætu verið fleiri en eitt flug til Íslands!

Lífið

Kvikmyndaáskorun 2020

Það verður bara að segjast eins og er að ég horfi mjög lítið á sjónvarp. Ég veit ekki hvort þær bíómyndir sem ég hef séð síðan eldri dóttir mín fæddist nái að vera jafn margar og árin síðan hún fæddist. Og engar þáttaraðir eða myndaseríur hef ég séð síðan.

En Amtsbókasafnið deildi á dögunum Kvikmyndaáskorun, sem við hjónin ákváðum að taka þátt í – en þar sem myndirnar eru 24, þá er allt árið 2020 undir. Persónulega þykir mér gríðarlegt afrek ef ég næ að horfa á tvær myndir á mánuði í tólf mánuði!

En þar sem ég hef svo gott sem ekki horft á sjónvarp í 10 ár, þá setti ég það skilyrði að ég fengi að vera við stjórnvölinn í að ákveða hvaða myndir við horfum á. Eiginmaðurinn játti því, og þótt hann hafi reynt að telja mig ofan af einni eða tveimur myndum, þá var bara ekkert hlustað á það!

FB_IMG_1574351252987

Í dag lítur listinn svona út, en ég ábyrgist ekki að farið verði eftir númeraröð:
1. Kvikmynd sem byggð er á bók: The Help.
2. Kvikmynd sem kom út á sjötta áratugnum: Bridge on the River Kwai.
3. Kvikmynd með mannsnafni í titlinum: The Talented Mr. Ripley.
4. Kvikmynd sem gerist í stríði: Schindler’s List.
5. Heimildakvikmynd (ekki um einstakling): UseLess.
6. Kvikmynd sem gerist á stað sem þú hefur heimsótt: The DaVinci Code.
7. Kvikmynd með uppáhalds lagi: A Star is Born.
8. Kvikmynd sem er leikstýrt af Íslendingi: Hvítur, hvítur dagur.
9. Kvikmynd á öðru tungumáli en íslensku eða ensku: Das Leben der Anderen.
10. Kvikmynd sem er lengri en 120 mínútur: Gone With the Wind.
11. Umdeild kvikmynd: We Need to Talk About Kevin / Silence of the Lambs.
12. Kvimynd sem hefur hlotið Óskarsverðlaun: 12 Years a Slave.
13. Teiknimynd: Nightmare Before Christmas.
14. Árstíðarkvikmynd: Last Christmas.
15. Kvikmynd með uppáhalds leikaranum: The Great Gatsby.
16. Kvikmynd með farartæki framan á kápunni: Fast and Furious: Hobbes and Shaw.
17. Kvikmynd með löngum titli: The Englishman Who Went Up a Hill and Came Down a Mountain.
18. Kvikmynd með eins-orðs-titli: Spartacus.
19. Mynd sem kom út árið 2019: Cosmic Birth. (Ekki um fæðingar, heldur geimferðir)
20. Kvikmynd með konum í aðalhlutverkum: Sisters.
21. Söguleg kvikmynd: The Other Boleyin Girl.
22. Fantasíu- eða vísindakvikmynd: The Pirates of the Caribbean: On Stranger Tides.
23. Metaðsóknarmynd: The Shawshank Redemption.
24. Svokölluð „feel-good“ kvikmynd: Little Miss Sunshine.

Þess má geta að enga þeirra hef ég séð, fyrir utan þessa síðustu.

Það má vel sjá gegnumgangandi þema í þessum lista, en fjöldi þessara mynda byggist á bókum. Þetta verður fróðlegt, en ég á alveg skilið að fá einhver verðlaun ef ég hef mig í gegnum þetta!

Ferðalög

Coventry í júní

Spice Girls auglýstu röð tónleika í Bretlandi. Allt ætlaði um koll að keyra. En við Kristín fengum miða í Coventry!

20190603_185304

Og eftir Bretlandsþvæling síðasta árs fannst okkur það nú ekki neitt voðalega flókið.

20190601_195448

Ég hafði ekki eytt löngum tíma á Hotels.com þegar ég rakst á Hótelið. Með stórum staf, greini og öllu. Coombe Abbey Hotel á rætur sínar að rekja allt aftur til tólftu aldar, en þá var þar starfrækt munkaklaustur. Hinrik 8. sölsaði undir sig eignir kirkjunnar á sextándu öld, og þar með talið Coombe Abbey. Sagan segir að Elísabet fyrsta, dóttir Hinriks, hafi alist upp hér að einhverju leyti.

20190604_063202
Elsku fallega Coombe Abbey.

Hótelið var gersamlega dásamlegt – en ekki á sama hátt og nýleg hótel. Ég verð líka að viðurkenna að það kom fyrir að maður saknaði loftkælingarinnar. En þeir voru víst ekki farnir að gera ráð fyrir henni á þessum tíma. Og heldur ekki þráðlausa netinu.

Ferðalagið sjálft gekk mjög vel, flugum með Icelandair til Gatwick, tókum þaðan Gatwick Express inn á Victoria station, neðanjarðarlestina yfir á Euston og þaðan lestina til Coventry.

20190603_125039
Það er fallegt í Coventry.

Þegar við stigum út af lestarstöðinni í Coventry stigum við beint inn í hringiðu einhverrar bílahátíðar – Coventry MotoFest. Við höfum nú alltaf verið þekktar fyrir að hafa sérlegan áhuga á öllum vélknúnum ökutækjum og urðum nú sérlega upprifnar. Eða ekki. Við þvældumst örlítið um miðbæinn, gripum okkur bita og kölluðum á Uber – einstaklega ánægðar að halda nú út í sveitasæluna í miðaldaklaustrinu okkar.

En.

Þegar við beygðum upp að hótelinu sáum við að rétt við hótelið var stórt tjaldsvæði. Það var gersamlega pakkað af tjöldum, tjaldvögnum, fellihýsum, hjólhýsum og öllu því sem nöfnum tjáir að nefna. Og hvar sem var laus blettur, þar voru bílar – sem greinilega tengdust MotoFest-inu. Úr aftursætum Uberbílsins heyrðust tvö mæðuleg andvörp, en sem betur fór var enn ágætur spotti upp að hótelinu – en um miðja leið var einhverskonar útihús; sem var notað sem partýstaðurinn.

En.

Við erum sérlega umburðarlyndar miðaldra konur.

Þannig við létum þetta ekkert á okkur fá – frekar en við er að búast.

En, við skulum bara dást aðeins meira að þessu hóteli!

20190601_190139
Út um herbergisgluggann.

Hótelið býður upp á ýmiskonar viðburði, t.d. miðaldadansleiki, morðgátukvöldverði, bannáraskemmtanir o.s.frv. o.s.frv. Margir þessarra viðburða byggja á því að fólk klæði sig upp; og við erum alveg ákveðnar í því að fara aftur á þessar slóðir og taka þátt í eins og einum miðaldadansleik.

Herbergið okkar var hreinlega dásamlegt á allan mögulegan hátt. Fyrir utan, eins og ég nefndi áðan, skort á loftkælingu og netsambandi – og hvítvínið hefði alveg þegið ísskáp.

20190601_190056

Umhverfi hótelsins var gullfallegt og gersamlega skilgreiningin á enskri sveitasælu eins og Íslendingurinn sér hana fyrir sér.

20190601_195931

Eitt kvöldið tókum við okkur til og rannsökuðum alla þá króka og kima sem við fundum. Byggingin er reist á hinum ýmsu tímum, stækkuð, breytt og bætt, og því má finna margar álmur, ganga, króka, og sali að skoða.

Á vissan hátt var þetta algjör slökunarferð fyrir okkur; við vorum ekki með þéttskipaða dagskrá aldrei þessu vant. Við nutum þess því að taka því rólega á hótelinu og njóta lífsins. Og hvítvínsins.

20190603_114046
Nýja Dómkirkjan í Coventry.

Primark er þó skyldustopp, sérstaklega þegar þú átt tvær dætur sem eru á for-gelgju-aldri (pre-teen). Þaðan kom miðaldra konan út með fullan poka af hinum yfirgengilegustu gervinöglum sem sést hafa á norðurhjara, fyrir utan magaboli og annan nauðsynjavarning.

Og satínnáttkjól í yfirstærð; því annars hefði ég sennilega grillast í loftkælingarlausa miðaldakastalanum mínum.

20190603_105910

Verandi Akureyringur í húð og hár (ég lýg því náttúrulega, rek bara ættir mínar úr Eyjafirði í aðra áttina, og fædd og uppalin annarsstaðar – en Akureyringur í húð og hár eigi síður) varð ég að heimsækja rústir dómkirkjunnar. Dómkirkjan var upphaflega byggð á fjórtándu og fimmtándu öld.

20190603_110825

Ein af hinum fimm steindu rúðum yfir altarinu í Akureyrarkirkju kemur nefnilega úr gömlu dómkirkjunni í Coventry. Þegar seinni heimsstyrjöldin brast á voru ýmsir dýrgripir teknir úr kirkjunni, líkt og rúðurnar, og komið í felur þar sem líkur væru til að þeir myndu hafa stríðið af. Hins vegar tók að grisjast úr þessu safni dýrgripa, og óprúttnir aðilar seldu hluta gripanna og hirtu ágóðann. Meðal annars var þá þessi rúða, sem endaði í Akureyrarkirkju.

20190603_110228

En sem betur fer var dýrgripunum komið undan, því nú standa aðeins útveggir kirkjunnar og turn eftir, hún var gereyðilögð. Einhversstaðar las ég að Churchill hefði vitað af yfirvofandi árásum á Coventry, en þar sem eina leiðin til að koma í veg fyrir þær hefði gefið Þjóðverjum vitneskju um að Bretar hefðu náð að leysa dulmálið sem þeir notuðu, hefði það ekki verið gert – for the greater good. En ég veit ekki hvað er til í því, og sel það því ekki dýrara en ég keypti það.

Núverandi dómkirkjan í Coventry stendur við hlið hinnar föllnu, en Elísabet önnur Bretadrottning lagði hornsteininn að henni árið 1956.

20190603_114201
Það stakk svolítið í augun þegar við sáum að bíladagar teygðu anga sína inn í dómkirkjuna.

Við hina langhlið rústanna má finna St. Mary’s Guildhall, sem var byggt sem samkomustaður kaupmannagildis borgarinnar á fjórtándu öld. Saga hússins er um margt merkileg, en þar hafa t.d. verið fjárhirslur borgarinnar og vopnageymsla, og auk þess er talið að María Stúart (Mary Queen of Scots) hafi dvalið þar skamma stund í felum.

20190603_112932
Herbergið þar sem talið er að María Stúart hafi dvalið.

En – fyrir bókanirðina þá er ferð til Coventry ekki lokið fyrr en maður hefur komið í The Big Comfy Bookshop. The Big Comfy Bookshop er verslun með notaðar bækur, sú allra stærsta sem ég hef séð hingað til. Hér og þar um verslunina má finna sér sæti þar sem hægt er að koma sér þægilega fyrir og lesa um stund. Bókabúðin er enn fremur með örlítið kaffihús, sem býður m.a. upp á kökur, kaffidrykki og vín.

20190603_131746

Andrúmsloftið er afslappað og heimilislegt, og þarna leið okkur einstaklega vel. Við eyddum nú nokkrum seðlum, en höfðum ótrúlegan hemil á okkur.

20190603_141745

En þá var komið að aðalatriðinu; því sem dró okkur til Coventry.

Spice Girls tónleikarnir.

Tónleikarnir voru á Ricoh Arena leikvanginum, sem að sjálfsögðu er heimavöllur Coventry City FC. Völlurinn tekur 40.000 tónleikagesti.

20190603_213056

Það er ekki mikið sem hægt er að segja um svona viðburði. Leikvangurinn var því sem næst fullur af drukknum útúrglimmeruðum miðaldra konum sem í nostalgíukasti upplifðu sig eins og þegar þær voru á aldrinum 10-16 ára.

Við vorum hvorki drukknar né útúrglimmeraðar, og pössuðum því ekki alveg nógu vel inn í – en við vorum í engu minna nostalgíukasti en allar hinar, og við vorum svo sannarlega bara rétt um 12 ára.

20190603_201213

Jess Glynne var upphitunaratriði fyrir Kryddpíurnar, en hún ein og sér heldur tónleika um allan heim sem seljast upp eins og heitar lummur. Fyrir tónleikana gat ég nefnt eitt lag sem hún hafði gefið út, en ég komst að því að ég þekkti töluvert fleiri! Svona er maður nú orðinn gamall.

Kryddpíurnar sjálfar komu skemmtilega á óvart. Við höfðum nú ekki gert okkur miklar vonir um sönghæfileika þeirra eða sviðsframkomu, en það má með sanni segja að þær gersamlega gáfu allt í „sjóið“ og maður tók varla eftir að Victoriu vantaði.

Á að giska voru þarna einir 20 til 30 dansarar, og hver þeirra hefur átt svona ca. 5 búninga. Þær sjálfar höfðu búningaskipti held ég 6 sinnum. Það voru þrjár konfettisprengjur og nokkrir flugeldar í lokin.

Eftir Britney og Justin í fyrra var ég frekar „hyped“ í marga daga. Eftir Spice Girls var ég bara frekar „emotional“! Og þessi setning, eyðileggur ekki bara álit mitt á sjálfri mér sem manneskju með mannsæmandi vald á móðurmálinu, heldur skulum við bara að svo stöddu ljúka þessu.

20190604_072614
Lítið sofin og emotional á leið heim.

20190601_195431

Skriftir

Kolbrún – skriftir

Hún andvarpaði. Síminn hringdi, og nafnið hans blikkaði. Hann vissi vel að hún vildi ekki heyra meira frá honum, þau voru skilin að skiptum. Hún slökkti á skjánum á símanum, og hélt áfram upp stigann. Ingibergur var alveg að fara með hana, hann gerði bara meiri og meiri kröfur á hana, en hann vissi vel að hún var við það að gefa eftir. Hún var búin að losa sig við sambýlismanninn og mátti ekki við því að missa vinnuna líka, hún treysti sér ekki til þess að snúa lífi sínu algerlega á hvolf og koma upp úr kafinu í heilu lagi.

Hún sneri lyklinum í skránni, og heyrði læsinguna opnast. Hún gekk inn og kveikti ljósin, dagurinn var hafinn. Hún snerti músina, svo skjávarinn hvarf af skjánum. Hún hafði bara búist við stimpilklukkunni, en henni rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Á skjánum var mynd af samstarfskonu hennar keflaðri, og sturlaðri af hræðslu – augun voru glennt upp eins og í hræðsluöskri. Hárið, sem venjulega var vandlega greitt, var í óreiðu eins og hún hefði jafnvel lent í slagsmálum eða ofbeldi. Myndin var greinilega tekin á vinnustaðnum, en þar var allt eins og venjulega. Andrea vissi ekki hvað hún átti að gera. Hvað gerir maður í svona aðstæðum? Hringi ég í lögregluna? Hringi ég í yfirmanninn? Eða í foreldra hennar eða vini? Þar sem hún stóð freðin fyrir framan tölvuskjáinn komu tvær samstarfskonur hennar inn um dyrnar, flissandi. Þegar þær sáu hana frusu þær í sporunum og hættu samstundis að flissa og slúðra.

„Hvað hefur gerst?“ spurði Jóhanna, sú lágvaxnari en frakkari af þeim tveim.

„Er ekki allt í lagi?“ spurði Katrín nánast samtímis.

„Nei… stelpur…“ Andrea vissi ekki hvað hún átti að segja. Hún benti á skjáinn.

Stelpurnar gengu ákveðið til hennar. Jóhanna æpti upp yfir sig, en Katrín greip fyrir munninn þegar þær sáu myndina sem blasti við þeim af skjánum. Við viðbrögð stelpnanna raknaði Andrea við sér.

„Við verðum að láta vita. Við verðum að hringja í lögregluna.“

Hún greip símann sem lá við hliðina á tölvuskjánum og sló inn 112.

„Neyðarlínan góðan dag – hvernig get ég aðstoðað?“

„Eitthvað hefur komið fyrir Kollu… ég veit ekki hvað! Ég mætti bara í vinnuna í morgun og það beið mín mynd af henni!“

„Róaðu þig, væna. Er einhver slasaður? Er þörf á sjúkrabíl?“

„Nei, eða nei. Ég held ekki. A.m.k. ekki hér.“

„Dragðu djúpt andann og segðu mér rólega frá því sem gerst hefur. Byrjaðu á því að segja mér hvað þú heitir og hvaðan þú hringir.“

Andrea dró djúpt andann, og hélt honum í sér þar til hún sleppti honum ákveðið frá sér.

„Ég heiti Andrea Magnúsdóttir og hringi frá KG endurskoðun. Eitthvað hefur komið fyrir Kollu sem vinnur með mér. Kolbrúnu Stefánsdóttur. Ég kom bara í vinnuna í morgun, og í staðinn fyrir að stimpilklukkan væri uppi á tölvunni eins og venjulega var bara ljósmynd af Kollu, hún er greinilega stjörf af skelfingu, og kefluð!“

„Ég sendi lögreglumenn til þín. Reynið að snerta ekkert.“

„Allt í lagi.“

„Þeir verða komnir eftir sirka 3 mínútur. Ég legg á núna, en þú hringir aftur ef eitthvað er.“

„Takk fyrir!“

„Takk sömuleiðis, og gangi ykkur vel.“

Skömmu síðar gengu fjórir lögreglumenn inn á skrifstofuna. Andrea rakti málavöxtu að nýju, og þeir litu á tölvuskjáinn.

Myndin var tekin nálægt andliti Kolbrúnar, en þó sást greinilega í umhverfið á vinnustaðnum. Kolbrún lá á gráum flísunum, í bakgrunni sá í borðið og stólana sem stóðu í anddyrinu, fyrir framan afgreiðsluborðið þar sem bókararnir voru vanir að stimpla sig inn. Lögreglumennirnir litu í kring um sig, en sáu ekki neitt athugavert í fljótu bragði.

„Hafið þið komið auga á eitthvað sem er öðruvísi en venjulega?“ Miðaldra þrekvaxinn lögreglumaðurinn lítur í kring um sig, og svo af einum viðmælandanum á annan. Maðurinn er þrekinn, svo svíramikill að skyrtan virðist vera við það að valda honum öndunarerfiðleikum

„Neeei.. nei..“ stama stelpurnar sem standa þétt saman við einn vegginn eins og hrædd dýr sem hafa verið króuð af. Allar eru þær með handleggina krosslagða, og af og til heyrist Katrín snökta.

„Er þolandinn líkleg..“ byrjar lögreglumaðurinn aftur, rólega.

„Kolbrún, hún heitir Kolbrún. Kölluð Kolla.“ nánast hvæsir Andrea á hann.

„Er… Er Kolbrún líkleg til að gera eitthvað svona að gamni sínu?“

 

Bækur

Uppáhalds bækurnar mínar – 7. hluti

Sögusafn bóksalans e. Gabrielle Zevin heillaði mig mjög á sínum tíma. Þetta er bók sem minnir okkur á hvers vegna bækur og sögur skipta máli. Bókin lætur lítið yfir sér, enginn hasar eða læti, en bara hugljúf saga af fólki sem manni fer fljótt að þykja vænt um.

Sogusafn_boksalans

Saga Forsytanna e. John Galsworthy er fjölskyldusaga í þrem bindum, en John Galsworthy hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1932. Sagan birtist fyrst í heild sinni undir þessu heiti rétt upp úr 1920. Í bókunum er rakin saga Forsyte-fjölskyldunnar, sem telst nýrík í Englandi um aldamótin 1800-1900. Þegar sagan hefst, er stóreignamaðurinn Soames Forsyte upptekinn við að safna auði, en eftir því sem tíminn líður minnkar auðurinn, þar til undir restina er fjölskyldan orðin eignalaus og fjölskylduböndin eru farin að trosna. Ég hafði sérlega gaman af þessum bókum, hver elskar ekki gamlar og dramatískar sögur?

87717

Geim, Buzz og Bubble e. Anders de la Motte eru með betri glæpa-þríleikjum sem ég hef lesið. Ég var lasin heima einn dag þegar ég tók mér Geim í hönd og ég hreinlega gleypti hana. Smákrimminn HP finnur gemsa, sem býður honum að taka þátt í leik. Með því að taka áskorunum sem berast í gegnum símann vinnur hann sér inn verðlaun, og verðlaunin stækka eftir því sem áskoranirnar verða erfiðari. Áskoranirnar eru að sjálfsögðu ekki allar löglegar, og sumar beinlínis hættulegar bæði honum og öðrum. En þótt hann reyni að hætta, þá heldur leikurinn honum föstum tökum.

Ég veit afhverju fuglinn í búrinu syngur e. Maya Angelou. Maya Angelou er algjör fyrirmynd. Ég veit afhverju fuglinn í búrinu syngur er fyrsti hluti sjálfsævisögu hennar, sem alls eru sjö bækur. Bókin lýsir uppvexti Mayu, en foreldrar hennar hafa skilið hana og bróður hennar eftir hjá ömmu hennar og frænda, þar sem þau geta ekki sinnt þeim eða hafa lítinn áhuga á því. Hún lýsir því hvernig var að alast upp sem hörundsdökk stúlka á fjórða og öndverðum fimmta áratugnum í Arkansasríki í Bandaríkjunum. Sem barn er hún misnotuð, og hún ákveður að tala ekki framar. Ég er búin að lesa allar 5 bækurnar sem hafa verið þýddar á íslensku, en síðustu tvær voru ekki þýddar.

42734

Ferðalög

Flórída 2019 – 3. kafli: í húsi í Orlando

Það var á tíunda afmælisdegi Rakelar Yrsu að við bönkuðum uppá í einhverju húsi í Orlando og þeim systrum leist nú ekki á blikuna. Þegar frænkur þeirra komu til dyra voru þær gersamlega orðlausar, en það tók nú stutta stund að átta sig á því að þetta yrði geggjuð vika! Og svo var sundlaug við húsið okkar!

Um kvöldið fórum við á Applebee’s í afmæliskvöldverð, og þar var afmælisbarninu færður ís og sungið fyrir hana. Hún varð alveg sérlega vandræðalegt þegar það var sungið fyrir hana, en eftir á þykir henni mjög vænt um minninguna.

Þær frænkur pöruðu sig að sjálfsögðu saman í herbergi eftir aldri og vinskap, og það gekk með eindæmum vel – þótt þessir næstum-unglingar sem við eigum hafi stundum átt erfitt með að sofna fyrir blaðrinu í sjálfum sér!

Það þurfti að sjálfsögðu að fara að versla inn, en meðan stelpurnar áttuðu sig á hlutunum og komu sér fyrir sátum við fullorðnu og skoðuðum verslanir í nágrenninu. Samkvæmt GoogleMaps var mjög stutt frá að finna Super-Walmart, en á Google mátti finna umsagnir um verslunina, sem voru nú alls ekki góðar. Maður finnur nú venjulega engar umsagnir um Walmart upp á 5 stjörnur, en þarna var ein umsögn sem sagði að þessi búð væri hræðilegasta Walmartbúðin, hún væri eins og svartur föstudagur á hverjum degi. Við hlógum.

20190422_152603
Örlítil miðdegisbugun í skemmtigarði.

Við hefðum betur sleppt því. Maðurinn sem skrifaði þessa umsögn um verslunina var sko ekki að ýkja. Það var svo gersamlega stappað í versluninni, að það var varla hægt að tala saman! Raðirnar náðu lengst fram í búð, og það var bara maður við mann allan tímann sem maður var þarna inni. Þangað sórum við að fara aldrei aftur! (Sem okkur reyndar tókst ekki alveg að standa við, en við kusum alltaf frekar næstu Walmartbúð, þótt keyrslan væri ca. 10 mínútum lengri)

Fyrsta daginn saman fórum við í Aquapark úti á litlu vatni hjá Orlando Watersports Complex. Orlando Watersports Complex er með mjög flotta aðstöðu fyrir Wakeboarding / sjóskíði, paddleboarding o.fl. Þeir bjóða líka upp á kennslu og námskeið. Við hinsvegar festum á okkur björgunarvesti og héldum út í vatnið…

Aquaparkið er uppblásin þrautabraut úti á vatninu, svipuð og risa hoppukastalaþrautabraut. Það þarf að synda út að brautinni, sem er allt í góðu – nema þegar þú eða brautin er blaut er hún fluuughál! Þeir fullvissuðu okkur um að það væru ekki krókódílar eða alligatorar í vatninu, en það voru vissulega fiskar!

Við flugum ótal ferðir út í vatnið, en það var bara hlýtt og ekkert að því að slaka þar á í björgunarvestunum. Eins og gengur var fólk mis áhættusækið, sumir vildu frekar slaka í sólinni, aðrir duttu svo oft út í að það verður ekki talið á fingrunum og sennilega ekki þótt þú bætir við tánum!

20190422_102640
„Taking it all in“ – eins og Bandaríkjamaðurinn myndi segja.

Um kvöldið skildum við hjónin stelpurnar eftir hjá ferðafélögunum og drifum okkur í Escape Room. Í þetta skiptið fórum við til Escapology, í herbergi sem kallað er Budapest Express, en þar er verkefnið að komast að því hver farþeganna myrti viðskiptajöfur sem var um borð í lestinni. Herbergið var mjög flott, og staðurinn allur, og okkur langaði mikið í fleiri herbergi hjá fyrirtækinu. Escapology er franchise fyrirtæki, svo það má finna víðsvegar um Bandaríkin.

bf67a39f-6f6e-4727-a905-99d340bc67d0
Budapest Express – 54:51.

Á Skírdag var förinni heitið í Magic Kingdom. Að sjálfsögðu var Lína búin að liggja yfir skipulagi fyrir daginn, og hann gekk alveg glimrandi vel! Um páskahelgina var opið í Disneygörðunum frá 8 um morguninn fram að miðnætti, svo við ákváðum að vera snemma á ferðinni og vorum mætt í garðinn við opnun.

20190418_081531

Ég skrifaði ágætis pistil um Magic Kingdom hér, en mig langar nú samt að bæta við einni ábendingu. Það er snilldin ein að nú er hægt að panta sér mat á skyndibitastöðum garðanna í gegnum snjallforritið Disney World. Þá velurðu veitingastað, pantar af matseðli og greiðir með korti. Þegar þú svo mætir á staðinn ýtirðu á „I’m here“ og stuttu seinna er kallað á þig. Þar með spararðu þér að bíða í röð eftir afgreiðslu, og getur mjög fljótlega eftir að þú kemur á staðinn sest niður og borðað. Og það er miklu þægilegra að ákveða með stelpunum hvað þær vilja borða í rólegheitum heldur en inni á svona stað.

Við fórum að sjálfsögðu aftur í nokkur tæki sem við fórum í síðast, en við bættum líka við öðrum:
Pirates of the Caribbean er mjög flott sigling um lendur sjóræningja. Meðal annars siglir maður í gegnum sjóbardaga, þar sem skotið er af fallbyssum o.fl. Svolítið dimmt og drungalegt að sjálfsögðu, en stelpurnar höfðu gaman af, og við fullorðnu vorum mjög hrifin af þessu; allar persónurnar hreyfðu sig svo eðlilega og þetta var allt svo vel gert.
Splash Mountain er ásamt hinum tveim fjöllunum (Space Mountain og Big Thunder Mountain) stærstu tækin í Magic Kingdom garðinum. Magic Kingdom er gerður fyrir litla krakka, og því er ekki að finna þar risarússíbana. Eins og nafnið gefur til kynna má maður gera ráð fyrir að blotna duglega, en ferðin var mjög skemmtileg.
Big Thunder Mountain Railroad svipar til tækisins hjá Dvergunum sjö, en ferðin er umtalsvert lengri og það má segja að þetta sé næsta stig fyrir ofan Dvergana.
Mickey’s PhilharMagic er 3D bíósýning, og sem slík mjög skemmtileg. Frábær aðeins til að hvíla þreytta fætur, og svo er oftast lítil sem engin bið!

Dagurinn var allt í allt dásamlegur, en hann var vel heitur! Guði sé lof fyrir kælihandklæðin og kalt vatn! Og mundu að taka vel eftir hvar þú lagðir bílnum, en fjöldi bílastæða hleypur sennilega á tugum þúsunda! Bílastæðunum er skipt í svæði sem eru merkt með disneypersónum, og síðan er hver röð númeruð.

Á föstudeginum langa ákváðum við bara að hafa það rólegt. Það var spáð einhverskonar ofsaveðri, þ.e.a.s. það varð mjög hvasst, mikið um þrumur og eldingar og gersamlega úrhelli!

Á laugardeginum áttum við svilkonur tíma í spa, og það var hreinlega dásamlegt! Við vorum einu viðskiptavinirnir sem áttum bókað þennan morgun, svo það voru bara tvær konur sem sinntu okkur að vinna. Stofunni var því bara skellt í lás þegar við vorum komnar og þar eyddum við dásamlegum þrem tímum!

Fyrst fengum við slökunarnudd, svo var andlitsbað og eftir það bæði hand- og fótsnyrting. Maður var gersamlega eins og ný manneskja eftir dekrið! Við mælum heilshugar með Vencci Day Spa. Stelpurnar sem þjónustuðu okkur voru líka alveg dásamlegar.

Eftir dekrið fórum við í stutta stund í Mall of Florida, en Bandaríkjamenn eiga svo margt eftir ólært um hljóðvist, að við hrökkluðumst mjög fljótlega út úr þeirri verslunarmiðstöð.

Þá var ferðinni heitið í Wonderworks. Við hefðum alveg kosið að vera þar í aðeins minni fólksmergð, en stelpurnar skemmtu sér samt prýðilega. Við fengum að prófa að sitja í jarðskjálfta sem mælist um 5 á Richter, við fórum í fyrsta stigs fellibyl, við skoðuðum hitamyndavélar, hvernig talíur virka, nagla„dýnu“ og allskonar skemmtilegt.

Páskadagurinn sjálfur hófst að sjálfsögðu á því að leita að páskaeggjum og gæða sér á þeim. Eftir dágóða stund við þá iðju héldum við í Go Kart hjá Kissimmee GoKarts. Þeir bjóða upp á það sem þeir kalla Rookie Track, sem er mjög lítil braut þar sem krakkar mega keyra sjálfir í körtum í krakkastærð. Stelpurnar gersamlega ljómuðu af gleði og fannst þetta alveg geggjað!

Eftir að þær fengu að spreyta sig fórum við í stærri brautina, öll í tveggja manna körtum, einn fullorðinn og eitt barn. Það var ágætt, en vissulega voru þetta engar keppniskörtur – búið að skrúfa vel niður í þeim, þannig bensíngjöfin var grjótstaðin allan tímann og samt þurfti ekki að slá af í beygjum!

Eyrún Anja var með mér í körtu, og hún bað mig oftar en einu sinni um að fara hraðar – hraðar mamma! Ef ég gæti elskan, ef ég gæti. Næst förum við í alvöru indoor kart racing!

Við fórum svo stutta stund í Disney Springs, sem er einskonar miðbær á Disneysvæðinu. Þar eru allskyns verslanir og veitingastaðir og mikið um að vera. Þar má t.d. finna stærstu Disney verslun í heiminum; World of Disney.

Stelpurnar voru búnar að leggja hart að okkur að prófa sundlaugina, þeirra annað heimili þegar við vorum heima í húsinu. Þennan dag drifum við í því, og allir stukku út í laugina (og flestir fullklæddir!). Það var mjög gaman að hafa þá vatnshelda myndavél, og það náðust margar góðar og dýrmætar myndir.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Öðrum í páskum var varið í Universal Studios garðinum, og við höfðum öll sérlega gaman af því! Universal Studios er garður gerður fyrir eldri markhóp en Magic Kingdom, svo þar voru alveg nokkur tæki sem við tókum stelpurnar ekki með okkur í, en sömuleiðis voru mörg tæki sem voru 4D og því ekkert mál að taka þær með.

20190422_084152
Þvílík dásemd!

Universal gera mikið úr því að vekja þá tilfinningu hjá gestum að þeir séu komnir inn í kvikmyndina. Þeir leggja mikið upp úr að umhverfið allt sé í stíl við tækið og kvikmyndina sem verið er að heimsækja. Sem dæmi má taka the Fast & the Furious, en þar lá röðin gegnum bifreiðaverkstæði og lageraðstöðu.

Universal Studios eru að sjálfsögðu líka með skrúðgöngu eins og Disney, en hún var nú töluvert minni og tilkomuminni – fannst mér a.m.k. þegar maður var svona nýbúinn að vera í Magic Kingdom. En stelpunum fannst samt sem áður mjög gaman að sjá gamla og nýlega vini, eins og t.d. Dóru landkönnuð og félaga, Svamp Sveinsson og félaga og persónurnar úr Secret Life of Pets.

20190422_085847
Ekkert lítið spenntar að vera loksins komnar í Skástræti!

Dagurinn byrjaði að sjálfsögðu í Skástræti vegna ólæknandi Harry Potter ástar frænkanna. Við fórum að sjálfsögðu í Harry Potter tækið, The Escape From Gringotts, og það var alveg í það mesta fyrir stelpurnar. En þeim þótti það sérlega gaman, og við fullorðnu erum sammála um það að þetta sé eitt flottasta tæki sem við höfum nokkurntímann og nokkurstaðar farið í. Hvort sem þú hefur áhuga á Harry Potter eða ekki, ef þú ferð í Universal skaltu prófa þetta tæki!

Skástræti sjálft er náttúrulega alveg sturluð smíði, þetta er nánast eins og þú sért mættur á staðinn. Flestar verslanirnar sem eru nefndar í bókunum eru á staðnum, og þar er hægt að fá sér hressingu t.d. á Leka seiðpottinum (The Leaky Cauldron).

20190422_103408

Uppi á Gringotts banka liggur dreki sem á svona ca. korters fresti spúir eldi. Það er hreinlega magnað, en stelpunum var ekkert alveg sama.

20190422_102042

Við hjónin fórum í Revenge of the Mummy, sem fær toppeinkunn. The Simpson’s Ride er 3D ride sem er alveg stórskemmtileg, og stelpurnar skríktu úr hlátri! Men in Black er, eins og gefur að skilja, gamalt tæki – ég fór í það árið 2001 og það hefur ekkert mikið breyst. Það er því töluvert eldra en mörg önnur í garðinum. Í því eru þátttakendur MiB fulltrúar í þjálfun, og maður skýtur geimverur og safnar stigum. Þótt þetta væri ekki nýjasta nýtt þótti þetta mjög gaman.

20190422_162755
Mörgæsirnar frá Madagaskar.

Race Through New York starring Jimmy Fallon er 3D bílferð með Jimmy Fallon um New York og út í geim. Despicable Me: Minion Mayhem er tæki þar sem Grú er að þjálfa gesti sem minion-a, og það er smá fílingur eins og að koma inn í fyrirlestrasal að koma þar inn, en þetta reynist vera 4D bíó – og mjög skemmtilegt sem slíkt. Kang & Kudos Twirl ‘n’ Hurl er bara gamaldags kolkrabbatæki, en skemmti stelpunum alveg. Shrek 4D er greinilega ekki nýjasta 4D tækið í garðinum, en góð skemmtun engu að síður.

Þegar maður er á Flórída í yfir 30 stiga hita, þá þykir manni vænt um að geta lagt bílnum í skugga, þannig hann sé kannski bara 50 gráðu heitur en ekki 95 gráður þegar maður kemur í hann aftur. Universal hefur það fram yfir Disney að þeir eru með bílastæðahús!

Já og að leggja bíl kostar um $20 á dag, hvort sem um er að ræða Universal eða Disney.

Síðasta deginum okkur á Flórída var vel varið; við fórum í Aquatica garðinn, sem er sundlaugagarður sem tilheyrir SeaWorld. Aquatica fær réttilega mjög góða dóma á netinu, og er töluvert ódýrari en sambærilegir garðar í eigu Universal eða Disney.

Við fórum um hádegi, en það lokaði kl. 17.00. Við hefðum alveg getað hugsað okkur að vera lengur, en það var ágætt að garðurinn hafði vit fyrir okkur. Okkar hvíta íslenska húð hefði sennilegast ekki haft gott af meiri sól! Við hins vegar náðum ekki að prófa helminginn af rennibrautunum einu sinni, við vorum svo upptekin af öldulauginni og flúðunum!

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Flúðirnar, eða Roa’s Rapids, gersamlega slógu í gegn. Það er það sem er kallað á ensku Lazy River, nema hún er ekkert voðalega lazy. Við ströppuðum á okkur björgunarvesti, og þá gat maður bara látið sig fljóta með straumnum. Mig minnir að ég hafi lesið einhversstaðar að hún væri um einnar mílu löng, eða 1,6 km. Straumurinn er það sterkur að þú ferð ekki á móti honum, en það er samt bara býsna kósý að láta sig fljóta með honum. Yfir daginn giska ég á að við höfum farið eina 15 hringi eða svo, en það var bara dásamleg slökun, og stelpunum fannst þetta bara það skemmtilegasta sem þær höfðu komist í held ég!

Sundkunnátta er ekki almenn í Bandaríkjunum, og það eru sundlaugarverðir á hverju strái. Enn fremur var í báðum sundlaugargörðunum sem við fórum í björgunarvesti í öllum stærðum í boði, svo það þurfti ekki að hafa áhyggjur af kútum eða álíka. Muna bara að velja sér frekar þröngt vesti – það er í allan stað mun þægilegra!

Um kvöldið fórum við á Friday’s og fengum okkur góða máltíð til að fagna góðu fríi. Það voru hins vegar allir svo bugaðir eftir daginn að það var heilt yfir mjög rólegt yfir mannskapnum! Við svilkonur höfðum ekki einu sinni af að fá okkur kokteil til að skála fyrir fríinu!

20190424_092956
Erfitt að kveðjast eftir dásamlegt frí!

Heimferðina tókum við í gegnum Boston, en við flugum frá Orlando International (MCO) yfir til Boston Logan International með Spirit Airlines. Það gekk allt mjög vel. Spirit lenti í öðru terminali en Icelandair flýgur frá, en Boston flugvöllur er svo þægilegur að það var innangengt milli terminala, og tók bara um 10 mínútur.

20190424_104758
Síðasta máltíðin að sjálfsögðu tekin á Burger King.

Heimferðin gekk eins og í lygasögu, en eins og venjulega fengum við okkur leggju á Keflavík Bed and Breakfast.

Nú getum við ekkert annað gert en hugsað til baka með stjörnur í augunum og byrjað að skipuleggja næstu ferð!

20190422_212615
Þreytt – en ótrúlega glöð – fjölskylda í lok annasams dags!
Lífið

Eins árs afmæli!

Bloggsíðan varð eins árs núna 30. maí, en þá setti ég inn fyrsta póstinn! Ég hef sett inn einn póst á síðuna í hverri viku síðan, og hyggst halda ótrauð áfram.

Tilgangurinn var margþættur; að halda utan um ferðasögur og annað það sem ég er að brasa, að koma mér til að skrifa texta reglulega og að sýna sjálfri mér að ég hefði ýmislegt fram að færa og ýmislegt að lifa fyrir.

Það sem ég hef birt á þessum tíma hefur verið margvíslegt, þótt ferðasögur og bækur séu kannski plássfrekastar. Ég hef farið út og suður, tæpt á geðheilsu, flóttaleikjum, skrifað litla prósa og smáar smásögur.

Ég hef ekki verið að gera neitt til að deila blogginu, nema ég deili því sem ég skrifa á mína eigin Facebooksíðu. Eins og gefur að skilja fá póstarnir mismikla athygli, en á þessu fyrsta ári hafa vinsælustu póstarnir verið;

 

 1. Að fara til tannlæknis í Póllandi er greinilega vinsælt efni. Það kemur væntanlega til vegna þess hve dýrt getur verið að fara í stórar framkvæmdir á tönnum hérlendis.
   

  received_1658628504251385
  Hjá tannsa í Póllandi.
 2. Heimafæðingar hafa lengi vakið áhuga fólks, en margir hafa heitar skoðanir á efninu þrátt fyrir að hafa kannski ekki kynnt sér það til fulls. Ég skrifaði um hvers vegna ég ákvað að eiga Eyrúnu mína heima á sínum tíma, og meira að segja ljósmóðirin deildi póstinum.
   

  IMG_0496
  Eyrún á leiðinni í heiminn.
 3. Í kjölfarið fylgir svo ferðasagan frá Varsjá í Póllandi (í þrem hlutum; hér, hér og hér), en sú ferð var líka ein af kveikjunum að þessari síðu. Það var hreinlega svo margt sem við skoðuðum og gerðum sem mig langaði að segja frá, og mér fannst samfélagsmiðlaformið ekki henta.
   

  Snapchat-959083664
  Útsýnið úr Palace of Culture and Science
 4. Jólin geta tekið á geðheilsuna, og ég skrifaði örlítið um það hér. Það hefur greinilega lagst vel í mannskapinn, þar sem það er einn af mest lesnu póstunum.
 5. 11 leiðir til að eignast nýja vini á fullorðinsárum er póstur með sérlega svörtum leiðum til að kynnast fólki, og ég ræð þér alfarið frá því að fara eftir þeim ráðum.
 6. Næst kom myndatakan sem ég fór í Regent’s Park síðasta sumar, en mig hafði lengi langað að fara í myndatöku bara fyrir mig sjálfa. Ég er rosalega ánægð með myndirnar sem komu úr tökunni!
   

  © Budget Photographer London
  Úr myndatökunni í Regent’s Park.
 7. Að ferðast er eitthvað sem ég hef gert töluvert af síðustu ár, þannig mér var bent á að skrifa aðeins um það sem ég pakka og tek með.
   

  20181024_212459
  Pakkað fyrir utanlandsferð.
 8. Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hvað ég vil fá út úr lífinu, hvað mig langar að gera og upplifa. Það varð til þess að ég setti upp svokallaðan Bucket-list, til að reyna að koma í veg fyrir að maður fresti hlutunum út í hið óendanlega. Það hefur bara gengið býsna vel, en ég hef síðan strikað út 12 atriði eða tæp 11%.
   

  IMG_1789
  Heimsótti Taj Mahal 2012 – gullfallegt.
 9. Við hjónin vorum ekkert voðalega spennt fyrir París, hafði aldrei langað neitt sérstaklega að fara þangað. En þegar við komum féllum við algerlega fyrir borginni (hefurðu heyrt það áður?). Ég rifjaði upp ferðina og skrifaði um hana.
   

  Snapchat-448642981
  Dásamlega Notre Dame.
 10. Við vinkonurnar ákváðum að skella okkur í road trip suður á land til að fara að snorkla í Silfru. Það var alveg frábær ferð, og eitthvað sem ég hefði sennilega aldrei komið í verk ef ekki hefði verið fyrir Bucketlistann og tilboð Tröllaferða um að það væri frítt fyrir Íslendinga í nokkrar valdar ferðir þeirra – þeir eiga því þakkir skyldar! Tröllin birtu svo umfjöllun mína á heimasíðunni sinni.
   

  DCIM100GOPROGOPR8241.JPG
  Silfra er gullfalleg náttúruperla.

Það skiptir mig máli að skrifa, en minna máli hver eða hversu margir lesa, svo framarlega sem ég held áfram að æfa mig í notkun skrifaðs máls. Hins vegar er alltaf mjög gaman að sjá að fólk les póstana!

Mig langar að þakka kærlega fyrir lestur síðunnar og þau hrós sem ég hef fengið. Endilega skiljið eftir einn þumal eða athugasemd og látið mig vita hvað ykkur finnst!

Doing my happy dance!
Afþreying, Bucket list, Ferðalög, Lífið

Flóttaleikir (Escape Rooms)

Snapchat-725168957
Inngangurinn að Engima Room í Varsjá veikti örlítið vissu okkar um að við kæmum yfir höfuð út aftur!

Recording Studio hjá Enigma Room í Varsjá er fyrsta flóttaherbergið sem ég fór í, við vorum 4 saman en við hjónin drógum eiginlega vinahjón okkar með okkur. Þau voru ekkert gríðarlega spennt, en létu sig hafa það. Og sjá! Þetta var svo þrusu gaman, að við fórum aftur daginn eftir, og þá voru þau ekkert minna spennt en við!

Söguþráðurinn í Recording Studio var sá að við vorum tónlistarmenn sem höfðum gefið út mjög heita plötu, en svo hafði ekkert gerst í langan tíma. Framleiðandinn var orðinn frekar pirraður, búinn að ganga á eftir okkur svo mánuðum skiptir og kallar okkur loks á fund sem við gátum ekki skorast undan, þar sem spurningin var um líf eða dauða í bransanum. En þegar við mætum á staðinn er hann horfinn. Og við læsumst inni.

Herbergið var mjög vel upp sett, með földum rýmum og skemmtilegum þrautum. Þrautirnar snerust að miklu leyti um eitthvað tónlistartengt, en ekki þurfti neina tónlistarþekkingu til. Herbergið var ráðlagt fyrir 2-5 manns og erfiðleikastig 3/5. Við komumst út þegar um 9 mínútur voru eftir af tímanum, og vorum gersamlega komin með bakteríuna!

IMG_20180512_200150_049

Hacker Room hjá Enigma Room var svo herbergið sem við tókum kvöldið eftir. Sagan er sú að við erum hakkarar, sem vorum beðnir um að aðstoða yfirvöld, þar sem grunur leikur á að hópur hakkara muni ráðast inn í gagnagrunna sem innihalda upplýsingar um borgarana. Það er okkar að stöðva þá.

Herbergið var, eins og gefur að skilja, fullt af tölvudóti og þrautirnar snerust meira um kóða en í fyrra herberginu. Mælt var með að þátttakendur væru 2-5 og erfiðleikastigið var 3/5. Við komumst út þegar 11 mínútur voru eftir af tímanum. Þetta herbergi féll ekki alveg að mínu áhugasviði, en það skiptir svosem ekki öllu máli.

IMG_68221024
Mynd fengin að láni hjá enigmaroom.pl

Kleppur/Asylum hjá Akureyri Escape. Asylum er þriðja herbergið sem Akureyri Escape setur upp, en við misstum af fyrstu tveim herbergjunum (Bankaráninu og mannráninu). Sagan var þannig að við læstumst inni á geðveikrahæli, þar sem voru blóðug handaför á veggjunum og blóðugar dúkkur, o.þ.h. Eitt af því fyrsta sem við fundum var bréf frá fyrrum vistmanni, og kemur þar fram að hinn klikkaði læknir komi til baka eftir 60 mínútur. Ta-Tamm!

Stelpan sem á Escape Akureyri sér um það frá A-Ö. Hún hannar herbergin, smíðar og græjar það sem þarf, semur sögurnar o.s.frv. Hún á alveg heiður skilinn fyrir þetta, þetta er ótrúlega flott hjá henni!

Við vorum fjögur saman, við hjónin og vinahjón okkar. Við áttum eitthvað erfitt með að komast af stað, en svo small eitthvað og allt fór að ganga. Það endaði svo að með við slógum metið í herberginu, en herbergið hafði verið opið í sjö og hálfan mánuð! Við vorum ekki lítið lukkuleg með það – enda svosem bara þriðja herbergið hjá þrem okkar, og annað hjá fjórða leikmanninum. Tíminn var 31:42 og er langbesti tíminn okkar í flóttaherbergi enn þann dag í dag.

IMG_20181019_214347

Þá var komið að því að prófa flóttaherbergi upp á eigið einsdæmi, en þegar við fórum til Glasgow tókum við þrjú herbergi, og þá vorum við aðeins tvö að spila saman hjónin. Það þótti okkur svolítið stressandi tilhugsun, en svo reyndumst við rúlla því upp.

Fyrsta herbergið sem við tókum var Witch House in the Scottish Highlands hjá Locked in. Herbergið var mjög flott, ekkert smá lagt í að vera með rétta stemmningu. Herbergið var svartmálað og mjög takmörkuð lýsing. Það var stemmningstónlist, svona draugaleg skógarhljóð í bakgrunni. Maður byrjar í fremra herbergi, sem er eins og fyrir utan hús nornarinnar, en um miðbik leiksins kemst maður inn í kofann.

Herbergið var mjög vel heppnað, og ég mæli heilshugar með því ef þið eruð á ferðinni í Glasgow. Herbergið er fyrir 2-6 spilara, og sagt af erfiðleikastigi 3,5/5. Á heimasíðu fyrirtækisins segir að hlutfall þeirra sem sleppi sé 78%. Við kláruðum á 52:27, en ég verð að segja að ég hefði ekki boðið í að vera 6 saman í herberginu, það hefði hreinlega verið svolítið þröngt, ég held að 2-4 sé alveg fullkomið.

FB_IMG_1540745673569

Annað herbergið sem við fórum í var Enigmista hjá Escape Reality. Þetta herbergi var nú eiginlega bara aðeins of mikið fyrir mig! Sagan er semsagt þannig að fjöldamorðingi gengur laus, og nú hefur hann náð ykkur. Hann hefur sérlega gaman að því að fylgjast með hvað fórnarlömbin eru tilbúin að gera til að reyna að sleppa.

Maður hefur leik handjárnaður við lagnir, og það er „lík“ fest með keðjum á stólpa í herberginu, og það lítur út fyrir að viðkomandi hafi látið lífið á afar kvalafullan hátt. Það er rökkvað í herberginu, en blóðslettur upp um veggi. Ég átti mjög erfitt með að gera nokkurn skapaðan hlut til að byrja með, eiginlega stóð bara og sagði eiginmanninum að gera þetta, kíkja þarna, athuga þetta! Það var örugglega frekar kómískt að fylgjast með þessu! En með keppnisskapinu óx mér kjarkur og þor, svo á endanum var ég farin að henda til útlimum eins og ekkert væri.

Í eitt skiptið brá mér samt svo mikið að ég öskraði alveg neðan úr maga, af þvílíkri innlifun. Í þessu fyrirtæki var ekki gert mikið úr tímanum, en hann var einhversstaðar um 43:30. Erfiðleikastigið 4/5. Þetta var þrusugaman, en ég hugsa að ég haldi mig frá svona subbulegum herbergjum á næstunni!

FB_IMG_1541011445469

Svona voru fyrstu fimm herbergin sem við fórum í – og við erum alveg háð þessum leikjum! Þetta er svo þrusugaman!

Fyrir áhugafólk um flóttaherbergi bendi ég á facebook hópana Escape Room Enthusiasts og Europe Escape Enthusiasts.