Seinni part fimmtudags héldum við í smá leiðangur, þar sem okkur langaði að komast í búð sem sérhæfði sig í hreinum snyrtivörum o.þ.h. BioOrganika hét búðin, og þar eyddum við nokkrum þúsundköllunum!

Þar við hliðina var krúttlegur lítill ítalskur staður, Pizzeria na Nowolipkach, svo við tylltum okkur í pizzu. Við fengum okkur hvítlauksbrauð í forrétt, sem var gersamlega hulið osti og borið fram með heimagerðri pizzusósu. Pizzurnar voru þunnbotna og dásamlega góðar!

Á föstudagsmorguninn áttum við pantaða borgarferð, bara við fjögur með leiðsögumanni í 5 klst. Hins vegar klúðraðist eitthvað hjá þeim, við vorum sótt klukkutíma of seint, og ferðin var bara 3 klst., þrátt fyrir að ég hefði sent þeim tölvupóst viku fyrr til að staðfesta og þeir hefðu staðfest tíma og dag! Ferðin sjálf var fín, og leiðsögumaðurinn var indæl og þekkti borgina og söguna mjög vel.

Hún fór m.a. með okkur í gamla bæinn, sýndi okkur gömlu borgarveggina, sýndi okkur stærsta almenningsgarðinni í Varsjá; Lazienki, keyrði með okkur um svæðið þar sem gyðingagettóið var í seinni heimsstyrjöldinni, sýndi okkur safnið um sögu gyðinga í Póllandi og ýmis minnismerki. Svo sýndi hún okkur Umchlagplatz; það var lestarstöðin þar sem gyðingum var safnað í gripavagna og þeir fluttir í útrýmingarbúðir.


Eftir að borgarferðinni var lokið báðum við um að vera skilin efti á indverskum veitingastað töluvert langt frá miðborginni. Sá staður heitir Mandala, og var örskot frá verslunarmiðstöð sem stefnan var sett á. Við vorum utan álagstíma á staðnum, og vorum því nánast ein. Staðurinn var frekar lítill og notalegur, og andrúmsloftið vinalegt. Við pöntuðum okkur 5 rétti, auk meðlætis og drykkja og maturinn var dásamlegur – frekar mildur miðað við indverskan mat, en góður engu að síður.

Við skötuhjúin áttum pantaðan tíma hjá tannlækni seinni partinn, þannig við skyldum við ferðafélagana, sem brugðu sér í bíó og drifum okkur. Ég ætla að skrifa betur um það síðar.

Um kvöldið drifum við okkur í sólseturssiglingu, 45 mínútna siglingu um Vistulu um borð í krúttlegri flatbytnu. Það vorum bara við og svo einn annar vinahópur um borð í siglingunni, þau voru uppi, en við vorum niðri og því var eins og við værum ein um borð. Þar sem það er ekki leyfilegt að neyta áfengis á almannafæri nema á bökkum Vistulu, myndast skemmtileg partýstemmning þar á kvöldin um helgar. Því var enn skemmtilegra en ella að sigla að kvöldi til.

Á heimleið á hótelið komum við við á mexíkóskum veitingastað, Blue Cactus. Okkur var vísað til borðs á veröndinni, og það var yndislegt þar sem hitinn var örugglega rúmlega 20°. Hamborgararnir voru ótrúlegir, 200 gramma kvikindi með frönskum – á aðeins um 750 kr.! Aftur á móti var þjónustan engin; þjónarnir komu aldrei og athuguðu með okkur og það endaði með því að við fórum sjálf að barnum til að biðja um ábót á drykkina. Eftir matinn fengum við okkur Grande Margarita; 1.200 ml jarðarberjarmargarítu og drukkum hana í sameiningu. Staðurinn var krúttlegur, maturinn góður, Margarítan góð, en þjónustan ömurleg.



Á laugardagsmorguninn vorum við búin að skipuleggja Spa-dag. Við fórum á snyrtistofu sem heitir Relax in Spa, og var alveg dásamleg. Við fengum nudd, fótsnyrtingu, andlitsnudd og maska, og svo fór ég í klippingu og litun. Allt þetta fyrir rétt í kringum 30.000 kr.! Það má segja að það sé rúmlega 50% afsláttur m.v. íslenskar verðskrár – og við vorum svo í skýjunum með þennan dag!


Alls vorum við á stofunni í 5 klst., okkur var fært hvítvín í fótsnyrtingu og klippingu, og meðan eiginmaðurinn beið eftir mér var honum boðinn bjór. Allar stelpurnar sem þjónustuðu okkur voru alveg frábærar, og við getum svo mælt með þessari stofu! Það var mjög sérstök upplifun að fara í klippingu þar sem klippikonan skildi ekki stakt orð í ensku – þannig við töluðum saman í gegnum aðra stelpu sem túlkaði ef við þurftum eitthvað að tala saman! Annars sýndi ég henni bara mynd af því sem ég var að spá, og hún bara gerði það!

Eftir langan og strangan dag á snyrtistofunni fórum við á pizzustað sem var þar við hliðina, og nutum okkar afslöppuð út í gegn.
Zlote Tarasy er nýleg, flott og snyrtileg verslunarmiðstöð, þar sem finna má allt sem maður þarf. Svo er risastórt C&A, H&M og TKmaxx í göngufæri við verslunarmiðstöðina.
E. Wedel er sælgætisframleiðandi sem rekur líka einskonar súkkulaði-hús (kaffihús, nema áherslan er á allt sem er búið til úr súkkulaði!). Það var ekki hægt að fara til Varsjár nema prófa þetta, svo við settumst niður og fengum okkur hressingu. Þar var t.d. á boðstólnum „heit súkkulaði tríó“ – sem voru litlir bollar af heitu súkkulaði; einn drykkurinn úr hvítu súkkulaði, einn úr mjólkursúkkulaði og einn úr dökku súkkulaði. Einnig voru ýmiskonar mjólkurhristingar og ísréttir, kökur og konfekt, og kalt „heitt“ súkkulaði – þ.e.a.s. súkkulaðidrykkur sem var eins og heitt súkkulaði nema hann var kaldur, og með rjóma. Ákaflega sérstök en skemmtileg upplifun.



Mig og eiginmanninn hafði langað í dágóðan tíma að prófa að fara í Escape Room. Við fundum eitt, Enigma Room, í Varsjá með góðar umsagnir og pöntuðum bara tíma. Þegar við komum á staðinn fór aðeins um okkur, þar sem við þurftum að hringja dyrasíma á gráu útkrotuðu hliði að húsagarði. Þegar við vorum komin inn um hliðið gengum við upp stigagang í gamalli sovétbyggingu, ekki beint í frábæru ástandi – okkur leist varla á þetta og vorum við það að hætta við. En sem betur fer!

Við fórum í herbergi sem heitir Recording Studio. Sagan er sú að þú ert tónlistarmaður sem hefur ekki staðið þig í að skila á réttum tíma og stjórinn kallar þig til fundar við sig. Þegar þú mætir er búið að ræna pródúsernum og þú lokast inni í stúdíóinu. Við náðum ágætis tíma, áttum rúmar 9 mínútur eftir af tímanum og vorum alveg í skýjunum með þetta! Ferðafélagarnir höfðu ekki verið neitt gríðarlega spennt yfir þessu, en þau voru gersamlega dolfallin yfir þessu eftir á.

Kvöldmaturinn var tekinn á Adel Kebab, þar sem ég gersamlega elska gott Kebab. Þetta var lítill og sjoppulegur staður, en maturinn var mjög góður. Þarna borðuðum við fjögur kvöldmat fyrir alls um 1.700 kr., með drykkjum. Og þetta var bara virkilega gott Kebab!

Lestu síðasta kafla Varsjárferðasögunnar hér.
2 athugasemdir við “Varsjá ferðasaga, 2. kafli”