Litla kisan okkar, hún Týra, hefur breyst í veiðiljón með vorinu. Hún er rétt að verða eins árs, en kemur inn með reiðinnar býsn af bæði fuglum og músum, dauðum og lifandi.
Hún er með bjöllu, en bjallan gerir lítið gagn. Fyrri kisan okkar, Nala, fékkst aldrei til að vera með ól og bjöllu, og dýralæknirinn sagði að það skipti engu máli, bjöllur væru nú eiginlega bara til að friða mannfólkið, gerðu lítið gagn í að koma í veg fyrir veiði katta. Og nú sjáum við greinilega að hún hafði rétt fyrir sér!
Hins vegar heyrðum við að þegar kettir veiddu mikið væri hægt að setja á þá litríka trúðakraga, því þannig yrðu þeir sýnilegri og fuglarnir sæju þá frekar. Það var þá ekkert annað í stöðunni en að útvega svona kraga.
Við fundum þá ekki við fyrstu leit, svo við fórum í Rúmfatalagerinn og keyptum skræpóttasta bómullarefnið sem var til þar. Það er mjög einfalt að útbúa kragann, og tekur mjög litla stund.
Það sem maður þarf er lítill diskur (ca. 20 cm í þvermál) og lítil skál (ca 7 cm í þvermál). Maður leggur efnið tvöfalt saman, og teiknar eftir diskinum á efnið. Svo í miðjan hringinn teiknar maður eftir skálinni.
Þá þarf bara að klippa hringinn út, og klippa gat á hann á einum stað. Saumum þetta saman á röngunni, snúum þessu við og þræðum kattarólina í gegn. Þá erum við komin með svona skrautlegan trúðakraga á köttinn!
Kötturinn kippti sér lítið upp við þetta, og kom inn með fugl þegar hún var búin að vera með kragann í 4 tíma… en ég held samt að það hafi dregið aðeins úr veiðinni hjá henni, hvort sem það er kraginn eða eitthvað annað.

Þetta er samt líka ótrúlega krúttlegt!