Ferðalög

Varsjá ferðasaga, 3. kafli

Á sunnudeginum voru allar verslanir lokaðar, þar sem í Póllandi eru að ganga í gildi lög sem banna verslun á sunnudögum (að frátöldum matvöruverslunum). Í ár eru verslanir aðeins opnar fyrsta og síðasta sunnudag í mánuði, en árið 2020 eiga verslanir að vera lokaðar alla sunnudaga. Þetta er gert á þeim grundvelli að fólk sem vinnur við verslun fái meiri frítíma. Við höfðum því skipulagt fríið þannig að sunnudagurinn fær í að skoða sig um.

Snapchat-1188300252

Dagurinn hófst á Palace of Culture and Science. Byggingin hét upphaflega Josef Stalin Palace of Culture and Science, þar sem Stalín „gaf“ Pólverjum þessa byggingu. Eftir að kommúnisminn féll var nafn Stalíns afmáð af byggingunni og nafninu líka. Ráðist var í byggingu þessa mannvirkis meðan Varsjá var enn í molum eftir seinni heimsstyrjöldina. Það bjuggu 8-9 manns í hverju herbergi, og deildu baðherbergi og eldhúsi. Fólk átti hvorki í sig né á, og bjó jafnvel í hálfhrundum húsum. Þess vegna hafa Pólverjar aldrei alveg tekið bygginguna í sátt, en í dag hýsir hún m.a. leikhús, bíó, safn, skrifstofur o.fl. og á þrítugustu hæð er útsýnispallur.

Snapchat-1712753965
Ótrúlega sátt með ferðina!
Snapchat-382963882
Útsýnið er gríðarlegt, þar sem borgin er heilt yfir mjög lágreist.

Eftir menningarhöllina skildu leiðir, en við hjónin héldum á myrkari slóðir. Við höfðum mikinn áhuga á sögu borgarinnar og héldum næst í Pawiak fangelsið. Pawiak var reist um 1830, þegar Pólland var hluti af Rússlandi, en þar voru pólitískir fangar geymdir þar til þeir voru sendir til Síberíu í þrælkunarvinnu.

Snapchat-1559552789

Þegar Þjóðverjar hernámu landið, tóku þeir Pawiak undir sig, og notuðu það sem stoppistöð áður en fólk var sent í útrýmingarbúðir. Fangelsið var byggt með það fyrir augum að hægt væri að hýsa 1.000 manns þar, en undir hernámi Þjóðverja voru allt að 3.000 manns hýstir þar. Aðstæður voru vægast sagt ömurlegar.

Snapchat-356671994

Þegar Þjóðverjar yfirgáfu borgina skemmdu þeir eins mikið og þeir gátu af verksummerkjum, og m.a. Pawiak fangelsið. Kjallari annarar álmu aðalbyggingarinnar var endurreistur og gerður að safni, en Pawiak var gríðarlega stór húsaþyrping.

Tilfinningin þarna inni var svolítið yfirþyrmandi, það var þröngt og dimmt. Það var búið að taka einn klefann og breyta honum í snyrtingu, en manni leið nú ekki vel að loka klefahurðinni á eftir sér!

Snapchat-2140876919
Pawiak-tréð.

Þegar Pawiak var sprengt stóð ekkert eftir nema „The Tree of Pawiak“ og hluti hliðsins að svæðinu. Litið er á tréð sem vitni að þjáningum, glæpum, hryllingi og hetjudáðum mannkyns í seinni heimsstyrjöldinni. Tréð dó á tíunda áratugnum, og það var reynt að halda í það eins lengi og mögulegt var, en undir restina var gerð afsteypa af því og reist á sama stað.

Næst lá leiðin í Mausoleum of Struggle and Martyrdom. Á tíma seinni heimsstyrjaldar voru þetta höfuðstöðvar Gestapó, þar sem mikilvægustu fangarnir voru geymdir og hræðilegar pyntingar framkvæmdar. Eftir stríðið fundust 5,6 tonn af ösku mannslíka undir húsinu, en eftir brennslu er mannslíkami nokkur hundruð grömm.

Snapchat-1009786093
Einangrunarklefi í höfuðstöðvum Gestapo.

Ef manni leið ekki vel eftir heimsókn í Pawiak, þá leið manni ömurlega eftir þessa heimsókn. Þarna er allt einhvernveginn ljóslifandi, búið að stilla upp skrifstofu Gestapomanns og pyntingatólunum hans og öskur í bakgrunni.

Snapchat-682794949

Hurðirnar að einangrunarklefunum voru með gægjugati. Þar var ekki aðeins fylgst með föngunum, heldur voru þau nógu stór svo hægt væri að skjóta þá í gegnum gægjugatið.

Snapchat-880158897

Og enn má sjá skotför í veggjum klefanna.

Ég mæli alveg heilshugar með þessu safni fyrir þá sem hafa áhuga á sögu og hafa taugar í að skoða svona lagað. Öll umgjörð safnsins var mjög vönduð, þótt það væri ekki stórt.

Kvöldmaturinn síðasta kvöldið var að sjálfsögðu tekinn á steikhúsi, Steakownia. Matseðillinn var þannig uppsettur að þú valdir þér bara steik (tegund) og þyngd og bættir sjálfur við meðlæti að eigin vali. Hinsvegar vantaði aðeins uppá þetta hjá þeim drengjunum; það voru tvær tegundir af sveppum á matseðlinum, en allir sveppir búnir í húsinu. Þegar gaurarnir fjórir á næsta borði ætluðu að panta sér hamborgara kom í ljós að það voru bara til þrír…

Snapchat-87194586

En maturinn var mjög góður, og heimagerða BBQ sósan þeirra var æðisleg. Þjónustan fín, en við vorum snemma á sunnudagskvöldi og því lítið að gera.

Snapchat-1496270854
150 gr. sirloin steik með frönskum og fersku salati.

Og eins og allt annað var þetta bara hlægilega ódýrt!

Snapchat-717566293

Við öll fjögur kolféllum svo fyrir Escape Room-inu daginn áður að við fórum í annað herbergi þetta kvöld; Hacker Room. Það var líka mjög skemmilegt, en byggðist meira á tölvum og tækni heldur en Recording Studio-ið. Alveg thumbs-up fyrir Enigma Room!

Á mánudagsmorgni eftir að við höfðum skilað inn lyklunum að hótelherbergjunum geymdi hótelið töskurnar okkar og við skruppum í smá verslunarferð. Því þótt við værum búin að fara tvisvar í verslunarmiðstöð, þá vorum við alls ekki búin að versla neitt gríðarlega mikið og bara eiginlega ekkert fyrir stelpurnar!

Í þetta skipti héldum við í Galeria Mokotow, sem er mjög stór verslunarmiðstöð, þar sem m.a. má finna Deichman, Benetton, Smyk, KappAhl, Carrefour og Okaidi. Þarna var tekið smá ofur-versl, áður en við brunuðum aftur upp á hótel og hentum dótinu í töskurnar.

Image result for lewitarium
Flotklefinn, mynd fengin að láni hjá lewitarium.pl.

Við hjónin erum alltaf til í að prófa eitthvað nýtt og í þessari ferð prófuðum við flot! Við vorum saman í klefa, sem var svona sirka 2 x 3 metrar. Vatnið náði svona u.þ.b. upp að hnjám, en vegna saltmagnsins í vatninu var einstaklega auðvelt að fljóta. Vatnið var stillt á líkamshita svo maður fann varla fyrir því og leið eins og maður væri í þyngdarleysi. Auk þess var kolniðamyrkur og þögn. Þetta var frábær upplifun og við komum út alveg endurnærð! Þetta er pottþétt eitthvað sem við eigum eftir að gera aftur! En næst ætla ég að muna að taka með mér eyrnatappa, mér fannst svo óþægilegt að vita af saltvatninu í eyrunum!

Image result for lewitarium
Svona lítur flotklefinn út að innan, því miður er myndin ekki af mér, þá væru örlítið fleiri keppir! Mynd fengin að láni hjá lewitarium.pl.

Snapchat-273992723

En allt tekur enda, líka góð ferðalög. Áður en við brunuðum á flugvöllinn fékk ég mér annan Adel Kebab, sat á tröppunum á hótelinu og naut þess að vera til.

Snapchat-209233451

Við vorum í Varsjá í 5 daga og veðrið var vægast sagt dásamlegt. Það voru svona 25-28 gráður alla dagana, og rigndi aðeins stutta stund síðasta daginn. Borgin er falleg og full af sögu og allskonar afþreyingu, og ég hefði alveg þegið töluvert lengri tíma þarna! En mér skilst að miðað við restina af Póllandi sé Varsjá frekar dýr og ekkert neitt rosalega falleg. Við erum alveg ákveðin í að fara aftur til Póllands, og það sem allra fyrst!

2 athugasemdir við “Varsjá ferðasaga, 3. kafli”

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s