Ég segi „uppáhalds bækurnar“ mínar, en sannleikurinn er sá að ég á ekki uppáhalds bækur. Ég hef lesið of margar bækur sem mér þykja góðar til að geta átt uppáhalds bók eða bækur.
Ég hef haldið lista yfir allt það sem ég hef lesið frá því árið 2006, með titli, höfundi, blaðsíðutali og degi sem ég lauk við bókina. Alls telur listinn í dag rúmlega 550 bækur, en þær væru fleiri ef ég hefði ekki farið í 6 ára háskólanám í millitíðinni og eignast tvö börn – en þeim fjölgar býsna hratt þessar vikurnar.
Mig langar að taka hérna nokkrar eftirminnilegar bækur fyrir, þrátt fyrir að það sé langt síðan ég las sumar þeirra, þá er eitthvað við þær sem fær þær til að festast í minninu.

Ég hef lesið allar þrjár bækur Alice Sebold sem hafa komið út. Svo fögur bein þótti mér alveg frábær glæpasaga, sem ég held ég muni aldrei gleyma. Síðar sá ég myndina, en eins og gjarnt er með myndir sem eru gerðar eftir bókum og bókaorma; það var ekki að gera sig. Mér fannst myndin ekki bara skemma söguna, heldur fannst mér myndin bara allt of „arty farty“ fyrir sögu sem er í grunninn glæpasaga.

Bókin Heppin er líka eftir Alice Sebold, en sagan segir frá upplifun Alice af nauðgun, eftirmála hennar og áhrifum nauðgunarinnar á líf hennar. Bókin dregur nafn sitt af því að þegar hún tilkynnti árásina til lögreglu, sögðu lögreglumennirnir henni frá því að þeir hefðu fyrir einhverju síðan fundið stúlku á sama stað og hún varð fyrir árásinni, nema henni hafði verið nauðgað og svo hefði hún verið myrt. Þannig Alice væri heppin!

Glæpur og refsing e. Fjodor Dostojevski er eitt af stóru nöfnunum. Ég man að ég var lengi með hana, þetta var ekki texti sem maður las hratt. En þrátt fyrir að hún væri kannski þyngri en það sem ég las á þessum tíma, þá hugsa ég enn reglulega til Raskolnikovs. Dostojevski skrifar þannig að manni líður eins og Raskolnikov, og finnur örvæntingu hans.

Svo náttúrulega er það Jane Eyre e. Charlotte Bronte. Það er í raun lítið um hana að segja en sagan er yndisleg. Sagan er klassísk og ekki ein af þeim þyngri, svo hún er góð byrjun á klassískum bókmenntum!

Jan Guillou datt ég um á útsölu í Eymundsson fyrir mörgum árum, en ég keypti báðar bækurnar hans sem voru þar; annars vegar Leiðin til Jerúsalem og hins vegar Musterisriddarann. Þessar sögur þóttu mér yndislegar, og ég hef sjaldan orðið jafn spæld og þegar ég komst að því að þriðja bókin hefði aldrei verið þýdd, og þríleikurinn því ófullkomnaður. En samt sem áður voru bækurnar báðar alveg frábærar, og henta vel fólki sem finnst gaman að lesa sögulegar skáldsögur.

1 athugasemd við “Uppáhalds bækurnar mínar – 1. hluti”