Fyrri kafla má finna hér.
Eitt af því sem þarf alltaf að gera þegar við förum til Jacksonville er að tína appelsínur í garðinum hjá frænku minni og gera appelsínusafa. Þetta er bara það besta sem ég fæ; appelsínur beint af trjánum og safi sem við gerum sjálf með morgunmatnum.
Eitt kvöldið skruppum við á Pizza Hut í kvöldmat, en það væri ekki í frásögur færandi nema hvað; okkur hefur aldrei orðið jafn kalt á Flórída eins og þarna! Borðin voru álklædd og loftkælingin á fullu. Borðin urðu ísköld svo maður gat ekki hvílt hendur eða olnboga á borðinu án þess að kuldann leiddi upp eftir handleggjunum. Pitsurnar og meðlætið voru geggjað góðar, svo það bætti aðeins upp – en við sátum ekki lengur þar en við þurftum!
Afþví við vorum úti í október kom ekkert annað til greina en að skera grasker fyrir hrekkjavökuna! Dæturnar voru ekki mjög hrifnar af hratinu innan úr, en mamma reddaði því bara. Sem byrjendur í iðninni finnst mér við bara hafa staðið okkur nokkuð vel! Graskerin stóðu svo úti á palli með batterískertum þar til eftir hrekkjavökuna.

Chuck E. Cheese’s sló heldur betur í gegn hjá dætrum okkar – og reyndar okkur líka. Chuck E. Cheese’s er svona arcade eða leikjasalur, sem er frekar fyrir yngri börn. Dætur okkar, þá 6 og 8 ára, fannst þetta algjört æði, svo við fórum tvisvar. Þar sem við vorum um hádegi á virkum degi vorum við nánast með salinn fyrir okkur!
Á Chuck E. Cheese’s keyptum við okkur pizzu í hádegismat og gos, og með fylgdu (að mig minnir) einhverjir 100 „tokens“. Þessi Tokens, eða einingar, færðu inn á kort, sem þú skannar svo bara við tækið sem þig langar í. Þegar þú hefur lokið leik færðu miða, en fjöldi þeirra veltur á hversu vel þér gekk. Þegar þú ert búinn geturðu svo keypt þér verðlaun fyrir miðana þína, með því að skanna þá alla inn í tæki og fara með kvittunina á þjónustuborðið. Það fannst ekki bara dætrum mínum, heldur manninum líka, mjög skemmtilegt!

Stelpurnar sjá Chuck E. Cheese’s enn í hyllingum, rúmu hálfu ári síðar!

Að sjálfsögðu er það algjör skylda að fara í CostCo þegar maður fer til USA, en við komum fyrst í CostCo í Jacksonville árið 2008. Það verður nú bara að segjast eins og er að langflestar ferðatöskurnar okkar koma úr CostCo í Jax! Við höfum keypt sittlítið af hverju í CostCo í Bandaríkjunum, en í þessari ferð keyptum við ekkert… nema 2 tösku Samsonite Spinner sett!
Við höfðum séð fyrir okkur að finna okkur einhvern leikvöll eða public park bara til að leyfa stelpunum að hlaupa um og leika sér. Það var býsna furðuleg upplifun. Við fundum einn sem kallast Victoria Park og var ekki langt frá þar sem við vorum. Við vorum ein þarna, svo stelpurnar klifruðu og léku sér en pabbi þeirra gekk í hringi og horfði í jörðina, leitandi að sprautunálum (það fundust engar).
Eldri dóttirin þurfti allt í einu svo mikið á klósettið, að pabbi hennar fór með hana á almenningssalerni þarna í garðinum. Þau sneru strax við og höfðu enga löngun til að létta á sér þar. Þar hafði einhver komið sér fyrir, með koddann sinn og allt. Viðkomandi var ekki á staðnum, en þetta var víst ekki spennandi!
Síðasti dagurinn okkar fyrir brottför var hrekkjavakan. Stelpurnar völdu sér nornabúninga, og fötur til að „Trick or treat“-a með og við klæddum okkur upp og gengum milli húsa. Stelpurnar voru nú nokkuð feimnar fyrst, en svo voru þær farnar að segja „trick or treat“ alveg sjálfar! Þær söfnuðu alveg helling af nammi – og nei, það voru engar sprautunálar eða eitur í því! Haha 🙂
Eins og í öðru hafði fólk mjög mismunandi metnað fyrir skreytingum fyrir hrekkjavökuna, en einn nágranni okkar var alveg „meðidda“ og hefði held ég ekki mögulega geta skreytt meira! Það var stórskemmtilegt að skoða skreytingar, og ef ég byggi í Bandaríkjunum hefði ég sennilega eytt öllum peningunum í hrekkjavökuskreytingadeildunum í WalMart og Target! Það var svo mikið sem mig langaði í – en ég sá, því miður, ekki not fyrir á Íslandi!




En svo var komið að brottför, og það er alltaf leiðinlegt að kveðja. En maður verður að kveðja til að geta komið aftur – og við erum sko búin að bóka aftur. Páskarnir 2019 – þeir verða geggjaðir!
2 athugasemdir við “Flórída – 3. kafli”