Nú höldum við áfram að tala um bækur, en í þessum pósti tökum við fyrir einn nóbelsverðlaunahafa, og tvo af mínum uppáhalds íslensku höfundum.

Það hefur bara ein bók eftir Tessu de Loo verið þýdd á íslensku, en það er bókin Tvíburarnir. Bókin fjallar um tvíburasystur sem eru aðskilar og aldar upp hvor á sínu heimilinu, þar sem önnur býr við harðræði en hin við ást og umhyggju. Sem gamlar konur hittast þær aftur, og við fylgjumst með þeim rifja upp gamlar minningar og kynnast upp á nýtt. Sagan var hugljúf en á köflum strembin, en heilt yfir mjög góð. Textinn var skemmtilegur, og oft hnyttinn. Það eru komin rúm tíu ár síðan ég las þessa bók en ég minnist þess enn þegar verið var að lýsa píanókennaranum sem var í svo þröngum buxum að það sást greinilega hvort hann geymdi liminn í hægri ellegar vinstri buxnaskálminni.

Sem unglingur var ég viss um að íslenskir miðaldra karlkyns rithöfundar væru það leiðinlegasta í heimi; menn eins og Hallgrímur Helgason, Einar Kárason, Ólafur Jóhann Sigurðsson og nafni hans og sonur Ólafsson, o.s.frv. En svo fékk ég bókina Aldingarðinn senda í bókaklúbbi Uglunnar. Bókin hefur að geyma tólf smásögur sem eiga það sameiginlegt að fjalla um ástina. Ég hafði aldrei lesið smásagnasafn, og hafði ekki mikinn áhuga á svona miðaldra íslenskum karlkyns rithöfundum, en gaf þessu séns. Ég var rétt byrjuð í Háskólanum á þessum tíma og hefði átt að vera að lesa fyrir Rómarrétt, en ég gleypti bókina í mig á sólarhring, og eftir þetta er Ólafur Jóhann Ólafsson einn af mínum uppáhalds íslensku höfundum. Og ég losnaði við fordóma gagnvart þessum hópi rithöfunda!

Doris Lessing fékk nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2007. Grasið syngur er fyrsta bók hennar og einnig fyrsta bókin sem ég nældi mér í eftir hana. Bókin gerist á fimmta áratugnum, þar sem núna er Zimbabwe, og grunnstef bókarinnar er kynþáttamismunun í landinu, sem þá var bresk nýlenda. Bókin byrjar með frásögn af morði; þar sem hvít kona er myrt af svörtum þræl sínum. En bókin sjálf er svo saga konunnar fram að þeim tíma að hún er myrt. Lítil og þunn bók, en vel þess virði að lesa.

Kristín Marja Baldursdóttir hefur skrifað margar góðar bækur, en ein þeirra er Hús úr húsi. Bókin fjallar um konu sem flyst heim til móður sinnar eftir skilnað, og tekur að sér að leysa ófríska vinkonu sína af, en sú tekur að sér heimilisþrif. Í gegnum þrifin kynnist hún allskonar fólki, og finnur að lokum lífsneistann aftur. Kristín Marja er einn af mínum uppáhalds íslensku rithöfundum, en bæði bækurnar um Karitas og Mávahlátur eru mjög góðar.
Það væri mjög gaman að heyra skoðanir annarra á þessum bókum, ef þið hafið lesið þær. Svo minni ég á að ég skrifa alltaf eitthvað smávægilegt um hverja bók fljótlega eftir að ég lýk henni hér, og öllum er velkomið að fylgjast með og leggja orð í belg! Annars má finna fyrri færslu um uppáhalds bækur hér.
1 athugasemd við “Uppáhalds bækurnar mínar – 2. hluti”