Ferðalög

Disney Magic Kingdom

Image result for magic kingdom
Mynd fengin að láni hjá howtodisney.com

Við fórum með dæturnar í fyrsta skipti til Flórída í fyrra, og að sjálfsögðu fórum við í Magic Kingdom garðinn. Ég stúderaði hann vel fyrirfram til að gera daginn sem auðveldastann, en sömuleiðis að sjá hvað í garðinum myndi höfða helst til okkar, svo við myndum síður missa af því.

Image result for magic kingdom map
Kort af garðinum. Mynd fengin að láni hjá chipandco.com

10 vikum áður en við fórum settum við líka upp lista yfir 10 Disney myndir sem við ætluðum að horfa á áður en við færum, og um hverja helgi höfðum við fjölskyldubíó og horfðum á eina mynd saman. (Við horfðum t.d. á Pétur Pan, Toy Story, Litlu hafmeyjuna, Mjallhvíti, Aladdín..)

Image result for magic kingdom under the sea ride
Under the sea skeljarnar hennar Aríelar. Mynd fengin að láni hjá familyadventureproject.com

Ég las alveg ógrynni af bloggum um garðinn, ábendingum foreldra og skipulagði mig vel.

Garðurinn er almennt opinn frá 9 á morgnana til 11 á kvöldin, og þar sem stakur dagur í garðinn kostar rúmlega $100, þá vill maður nýta tímann. Daginn sem við fórum var hins vegar opið frá 9-19, og það var alveg prýðilegt fyrir stutta fætur.

20171019_083848
Mæðgur í skutlu á leið í garðinn.

Hver dagur hefst á opnunaratriði og lýkur á flugeldasýningu. Það er því mjög gaman að vera kominn í garðinn fyrir 9, til að sjá opnunaratriðið, og vera fram yfir lokun til að sjá flugeldasýninguna. Við ætluðum að vera mætt fyrir 9, en því miður þá tefur lífið stundum fyrir, og breytir plönum! Við vorum komin rétt rúmlega 9 á bílaplanið, þaðan tekur maður skutlu yfir að lestarstöðinni, tekur lest í réttan garð, og þar fer maður í gegnum öryggisleit og sýnir miðann, og þá er maður kominn í garðinn sjálfan! Þannig það má alveg gera ráð fyrir 30 mínútum og jafnvel aðeins meira frá því að maður kemur á bílastæðið þar til maður er kominn inn í garðinn.

Í garðinum er hægt að leigja kerrur fyrir krakka, en einföld kerra kostar $15 fyrir daginn og tvöföld $31. Dagarnir verða langir, og því gott að hafa þetta í huga ef stuttir fætur eru með, eða mikill farangur!

20171019_092501

Það má koma með nesti í garðinn, en þeir setja takmörk á stærð kælitaska og nokkrar reglur eru um hvað má koma með í garðinn, t.d. má ekki vera á hjólaskóm, vera með selfie-stöng eða dróna. Þær reglur má lesa hér.

Þú getur pantað miða í Disney garðana allt upp í 9 mánuði fram í tímann. Það eru mismunandi álagstímar, en á vinsælustu dögunum kosta miðarnir meira. Gott að skipuleggja sig vel fram í tímann, velja dag sem hentar vel plönum fjölskyldunnar – og svo er líka gott að velja frekar dag þar sem gert er ráð fyrir lítilli örtröð, þeir eru bæði ódýrari og styttri bið í tækin.

20171019_122117
Allir að fljúga með Dúmbó!

Miðanum fylgja þrír „Fast Pass“- eða flýtipassar, sem þýðir að þú þarft ekki að bíða í almennri röð í tækin. Flýtipassana þarftu að bóka, en það opnar fyrir bókun flýtipassa 30 dögum fyrr, en 60 dögum ef þú ert á Disney hóteli. Þú bókar passann með því að skrá þig inn á disney síðuna eða hlaða niður smáforritinu og skrá þig inn þar, og þar sérðu þá flýtipassa sem eru í boði fyrir valinn dag. Flýtipassinn gildir fyrir ákveðinn klukkutíma, en þú mátt mæta nokkrum mínútum fyrr en 10 mínútum eftir að tími passans er liðinn er hann ógildur.

20171019_071105
Disney-dressaðar dömur!

Ég var búin að leggjast yfir tækin sem eru í boði, og sjá hvað hentaði okkur best. Þegar opnaði fyrir bókun flýtipassa bókaði ég passa í Lísu í Undralandi bollana, að hitta Ariel í eigin persónu, og Big Thunder rússíbanann (þennan síðasta reyndar notuðum við svo ekki). Ef þú kemur svo að tækinu þegar þú átt flýtipassa og það er lítil eða engin röð, þá geturðu farið í appið og breytt flýtipassanum í eitthvað annað! Og í smáforritinu geturðu alltaf breytt flýtipassabókunum, ef það eru einhverjir aðrir flýtipassar í boði.

Við innganginn er þjónustuborð, þar sem maður stoppar við og fær sér nælu ef þær eiga við; stelpurnar voru að koma í fyrsta skipti og fengu nælur sem á stóð að þetta væri þeirra fyrsta heimsókn. Svo eru líka nælur ef maður á afmæli, brúðkaupsafmæli eða útskrift og örugglega eitthvað fleira  🙂 Þá koma gjarnan persónurnar og óska manni til hamingju, stundum fær maður auka fastpass eða eitthvað skemmtilegt 🙂

20171019_094942
Beðið eftir að hitta fyrstu prinsessurnar!

Gott er að undirbúa sig undir ferð í Disneyworld með því að fara t.d. í Disney WareHouse outlet í Orlando Vineland Premium Outlets eða bara WalMart eða Target og kaupa einhvern Disney varning til að friða börnin þegar þau fara að væla um hitt og þetta í búðunum í garðinum, því þær eru mjög dýrar. Við fórum í WalMart og keyptum boli á stelpurnar, ég var búin að panta bæði band fyrir miðana og Mikkaeyru handa þeim. Þær fengu samt að velja sér sitthvorn hlutinn í lok dags í garðinum sjálfum.

Image result for magic kingdom barnstormer
The Barnstormer. Mynd fengin að láni hjá disneyworld.disney.go.com

Fljótlega eftir að maður kemur í gegnum kastalann og inn á Main Street, þá kemur maður að verslun sem heitir Castle Couture (svo er önnur sem heitir Sir Mickey’s líka) og þar geta krakkar fengið ókeypis glimmer í hárið (ekki biðja um glimmer, biddu um Fairy dust!).

20171019_145848
Þetta var mjög heitur dagur, svo ís var kærkominn!

Varðandi matmálstíma, þá er gott að kynna sér matseðla á stöðunum og finna einhvern sem hentar hópnum. Við fundum bara skyndibitastað þar sem eitthvað var á boðstólnum sem myndi henta stelpunum, Pinocchio Village House, en vorum með nokkra sem hentuðu, og völdum bara þann sem var næst þegar við urðum svöng. Það er líka gott að skoða matseðlana, því sumir veitingastaðirnir eru ekkert mikið dýrari en skyndibitastaðirnir! Svo má líka koma því að að fullorðnir geta keypt sér mat af barnamatseðli.

20171019_173113
Beðið í röð eftir að komast í námulest dverganna sjö!

Það er líka gott að stefna að því að borða annað hvort fyrir eða eftir hádegið, því flestir borða um hádegi og því mest að gera þá. Borða meðan hinir leika sér og leika sér meðan hinir borða, þannig spararðu þér mikla bið!

Eitt sparnaðarráð í Disney; vertu með brúsa, og fylltu á flöskuna í fountains (drykkjarvatnsbrunnum) – en hafðu það hugfast að við Íslendingar erum vanir töluvert betra vatni. Svo áttu líka að fá frítt vatnsglas á skyndibitastöðunum ef þú biður um ísvatn (ice water).

20171019_135410
Allir hjálpast að með sólarvörnina, meðan beðið er eftir skrúðgöngunni. Hér má sjá „first visit“ næluna.

Í verslunum í Disney má fá verkjatöflur, plástra o.þ.h. við afgreiðsluborðið, þrátt fyrir að það sé ekki sýnilegt. Ef þú kaupir þér minjagripi geturðu fengið að sækja þá þegar þú ferð úr garðinum um kvöldið – þetta hef ég ekki prófað samt.

Það eru nýlegar snyrtingar gerðar í Garðabrúðu-stíl, og þær eru mjög vel heppnaðar. Það er svo gaman hvað allt er í „karakter“, snyrtingar, veitingastaðir og allt.

20171019_184534
Farið að líða að lokum dags.

Á degi í skemmtigarði er algjör nauðsyn að hafa meðferðis snarl, brúsa, verkjalyf, sólgleraugu, sólarvörn og derhúfur. Við höfðum líka með okkur handspritt, glow sticks (þeir eru dýrir í garðinum, en margir sem kaupa svoleiðis þegar fer að dimma), blautpoka/poka fyrir blaut föt, varasalva, Mikkaeyru, band fyrir miðana og merkiarmbönd á stelpurnar (með símanúmeri).

Image result for magic kingdom rides
Tebollar Lísu í Undralandi (Mad Tea Party). Mynd fengin að láni hjá travelingmom.com

Kl. 14.00 á hverjum degi er skrúðganga, þar sem allar helstu persónur Disney koma fram, það er mikið dansað og mikið fjör.

Við fórum í nokkur tæki og hittum nokkrar prinsessur. Stelpurnar voru 8 og 6 ára, svo við miðuðum tækjavalið algerlega við þær. Við hittum Öskubusku, Garðabrúðu, Tiönu, Aríel og Elenu of Avalon. Þær voru allar mjög hressar og gaman að hitta þær, en stelpurnar voru svolítið feimnar og skildu náttúrulega ekki neitt þegar prinsessurnar voru að tala við þær.

Tækin sem við fórum í voru eftirfarandi:
Mad Tea Party eru tebollar Lísu í Undralandi. Bara klassískt bollatæki, en stelpurnar elska svoleiðis!
Dúmbótækið, en þar flýgur maður með Dúmbó og fær að stýra hvor maður sé hátt uppi eða lágt niðri eða sífellt flakkandi. Biðsvæðið í Dúmbótækið er sérlega skemmtilegt, en þar er innandyra leikvöllur þar sem hægt er að klifra o.þ.h. Þú færð lítið tæki sem svo pípir þegar það er komin röðin að þér, en á meðan geta börnin leikið sér.
The Barnstormer er lítill rússíbani fyrir krakka sem eru að stíga sín fyrstu skref í rússíbönum, var alveg akkúrat fyrir stelpurnar mínar með litlu hjörtun sín, en við fórum einu sinni um miðjan daginn og aftur seinni partinn.
Under the sea skeljarnar hennar Aríelar, þar sem maður situr í skel og keyrir um sjávardjúpin og fer inn í ævintýrið.
Námulest dverganna sjö fór svolítið hratt og fyrir litlar varkárar stelpur var hún alveg við það mesta, en þær hlógu á sig gat og þótti afskaplega gaman. Biðsvæðið fyrir námulestina var svolítið skemmtilegt, en það voru gagnvirkir leikir á leiðinni.
Hringekja prinsins hennar Öskubusku er hefðbundin hringekja, en stelpurnar hafa gaman að þeim.
It’s a small world tækið náði ég engum tengslum við. Þetta er í rauninni bara sigling í gegnum heiminn, þar sem heimurinn er settur upp með litlum viðarfígúrum. Mér leiddist þetta bara, en við fórum bara óvart í það – ég ruglaði því við annað tæki!
Flugum með Pétri Pan um London, en þar er eins og þú sért staddur í ævintýrinu og fljúgir með Pétri Pan yfir borgina. Hér var líka afþreying meðan maður beið í röð, en röðin lá í gegnum svefnherbergi Vöndu og strákanna. Maður gat leikið við Skellibjöllu, en hún settist á skuggann manns og alls konar. Það er svo dásamlegt hvað það er hugað að öllum smáatriðum!
Draugahúsið þótti skemmtilegt, stelpurnar voru pínu skelkaðar en samt ótrúlega hugrakkar. Við lentum í því að eitthvað bilaði, svo tækið stoppaði í miðjum hring og við sátum föst í nokkrar mínútur. Það fannst stelpunum erfitt, því á meðan heyrðust draugahljóð!
Jungle Cruise var góður staður til að vera í skjóli fyrir sólinni yfir miðjan daginn þar sem öll röðin var undir þaki, og siglingin var í forsælu líka. Siglingin fer eins og í gegnum einskonar safarí, en að sjálfsögðu eru öll dýr bara eftirlíkingar. Skipstjórarnir eru líka leiðsögumenn og segja skemmtilegar sögur og eru með einskonar uppistand, en mér skilst að það sé mismunandi milli skipstjóra. Við fullorðnu höfðum allavega gaman að, og stelpurnar voru fegnar hvíldinni frá sólinni.

Image result for magic kingdom seven dwarfs mine train
Námulest dverganna sjö. Mynd fengin að láni hjá disneyworld.disney.go.com

Maður verður líka að gera sér grein fyrir að dagurinn fer að töluverðum hluta í bið, og maður nær ekki að gera nærri allt sem mann langar að gera. Þessvegna skiptir máli að skipuleggja sig og svo maður nái að gera það sem manni finnst mest spennandi.

Mér finnst algjört grundvallaratriði að vera með Disney snjallforritið í símanum, því þar sérðu biðtímann í tækin.

20171019_191503
Dagur að kvöldi kominn og mæðgur gengnar upp að herðum!

Ég mæli með að skipuleggja sig svolítið fyrirfram, og njóta svo bara dagsins í botn! Já, það verða allir svangir, þreyttir, þyrstir… en þetta verður æðislegt, og þegar frá líður man enginn eftir svengdinni, þreytunni eða þorstanum! En munið; góðir skór eru númer eitt, tvö og þrjú. Engir gelluskór, bara gönguskór!

2 athugasemdir við “Disney Magic Kingdom”

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s