Skriftir

Skelin – saga af þunglyndi

Hún var alein.

Myrkrið þrýsti sér upp að henni. Það var ágengt, leitaði á hana eins og ástleitinn unglingsstrákur. Fór fingrunum um hvern sentimetra líkama hennar, og sálar, og tróð sér hvert sem það komst. Það hafði nú þegar hafið hernám líkamans, útlimirnir voru orðnir þyngri og vöðvarnir slappari, líkt og Elli kerling hefði komið fyrr í heimsókn en áætlað var.

Hún var ekki ein.

Það var fólk allt í kring um hana. Maður sem sá ekki sólina fyrir henni. Foreldrar sem voru við það að springa af stolti. Börn sem elskuðu hana. Samstarfsfélagar sem báru virðingu fyrir henni, vegna þess sem hún hafði áorkað.

En þótt hún væri umvafin öllu þessu fólki, sem elskaði hana og virti, vildi myrkrið bara ekki sleppa af henni hendinni.

Og því var hún ein.

Það gat enginn verið við hlið hennar í myrkrinu. Myrkrið er eins og skel, þunn en þó óbrjótanleg. Hún heyrði skarkalann í kring um sig, heyrði gleðina og sorgina, en gat ekki sýnt þau viðbrögð sem samfélagið ætlaðist til að sýnd væru. Viðbrögðin bara bárust ekki út fyrir skelina.

Skelin var þunn, en dimm, og virkaði bara í aðra áttina. Hún sá út úr myrkrinu, en ljósið komst ekki inn til hennar.

Það var eins og lamandi eitur væri að hefja verkun sína í líkamanum. Hún fann hvernig útlimirnir þyngdust eftir því sem tíminn leið, og vöðvarnir urðu að seigfljótandi leðju.

En dökka skelin brosti og hló. Hafði gaman með þeim sem stóðu henni næst, og leit svo sigri hrósandi í áttina að hræinu. Hræinu sem eitrið var hægt og rólega að éta upp.

Hún horfði á aðfarirnar með viðbjóð í augunum. Það var svo sárt – en sárt var gott. Það er betra að finna til, en að finna alls ekki neitt. Að finna til merkir að enn megi finna innra með henni lífsglóð, jafnvel þótt eitur myrkursins hafi nánast náð yfirhöndinni.

En hvað er það að lifa, ef ekkert annað kemst að en hvenær deginum muni ljúka?

Þannig hún ákvað að gefast bara upp. Það þýddi ekkert að berjast á móti, það væri sennilega bara affarasælast að lifa líflaus, einungis til að vera notuð sem gagnabanki fyrir hina dimmu skel, svo hún gæti fúnkerað í hinu daglega lífi. Lífinu sem myrkrið hafði rænt hana, og úthlutað skelinni.

En skelinni farnaðist vel, svo það var út af fyrir sig ástæða til að gleðjast, jafnvel þótt hún hefði ekki getu til þess að gleðjast lengur. Gleði var tilfinning sem krafðist of mikils af hennar eitraða og lamaða líkama. Skelin lifði lífi hennar, og tókst það bara býsna vel. Og fyrst allir í kring um hana töldu þetta vera hana, þá hlaut það bara að vera fyrir bestu. Meina; ef allir héldu að þetta væri hún, og hún væri að standa sig, gat það varla komið illa við nokkurn mann að vita að í raun væri þetta ekki hún. Hún væri þó til staðar, hvað þá varðaði, og það hlyti að vera betra að hafa hana í þessari mynd en bara alls ekki neitt. Þannig kannski var það bara af hinu góða að skelin hafði tekið yfir hennar hlutverk, því það hefði sennilega komið verr við aðra ef hún hefði bara hætt að fúnkera og ekkert komið í staðinn.

Skelin hélt þó uppi virðingu hennar, að svo miklu leyti sem það var hægt.

Það voru bara maðurinn og börnin sem komu í veg fyrir að skelin gæti hvílt sig. Að myrkrið fengi að ganga til hvílu og leyfa henni að stíga út um sinn. Það þurfti líka að halda blekkingunni hvað þau varðaði.

Útsýnið innan úr skelinni var skert. Hún sá og fékk að finna allt það vonda og sára, líkt og skelinni og myrkrinu þætti gaman að því að leyfa henni að þjást stöku sinnum. En þetta góða endurkastaðist af skelinni, og komst aldrei í gegn. Eins og þegar barn fær gjöf sem er móðurinni ekki þóknanleg, svo hún hverfur áður en hún nær að komast í hendur barnsins. Það var einfaldlega eins og þetta góða væri ekki til.

Hvernig er þá annað hægt en að bíða eftir að deginum ljúki?

Nóttin færir þó vissa fró þjökuðum sálum, hvort sem fróin er sú að kvelja sig eða sofa.

Þannig þrátt fyrir allt var hún alltaf alein. Enginn komst að henni, nema ef vera skyldi fyrir háð eða spott. Og þegar það er það eina sem hún fær, þá er hún alein. Það getur enginn lifað á háði og spotti einu saman, án þess að bíða eftir að deginum ljúki. Svo kemur nýr, þá hefst biðin eftir að deginum ljúki upp á nýtt. Og svona gengur lífið.

Svona vinnur myrkrið. Það einangrar, svo enginn kemst að þér. En með tímanum ferðu að kunna að meta það sem myrkrið býður uppá. Þú hættir að skynja kuldann sem það færir og hversu uppáþrengjandi það virtist í fyrstu. Og þótt sálin öskri og öskri eftir hjálp, milli þess sem hún dormar í sinnuleysi tilfinningaleysisins, þá heyrir enginn. Þú ert bara lokuð inni, djúpt inni, í þinni dimmu skel og enginn nær til þín nema með orðum sem særa svo svíður undan.

Og þá er bara betra að dagurinn sé búinn. Og þú sért alein. Í nóttunni, þegar enginn kærir sig um að ná til þín.

En, til að halda kvölinni áfram, ertu sífellt minnt á að það kemur annar dagur… og annar… og annar…

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s