Geðheilsa, Lífið

Geðheilsa: Eru jólin erfið?

Einu sinni var ég algjört jólabarn. Ég vildi helst hafa fleiri skreytingar en komust fyrir með góðu móti, og ég bakaði allan desember. Ég elskaði að kaupa jólagjafir, reyndi að setja mig í spor hvers og eins og lagði gríðarlega hugsun í að velja rétta gjöf fyrir hvern viðtakanda. En það er ekki svoleiðis lengur, núna er desember oft virkilega erfiður fyrir mig, ég er stressuð og kem engu í verk.

Pixabay

Þessi aðventa hefur verið betri en oft áður, en ég ætla aðeins að nefna það sem hefur reynst mér best, í þeirri von að það geti mögulega nýst öðrum.

Ég hef áttað mig á því í gegnum árin að það eru jólagjafirnar sem helst valda mér kvíða í desember. Það hefur reynst mér vel að byrja snemma: síðustu tvö ár hef ég svo gott sem lokið jólagjafainnkaupum í október, og það léttir mikið á mér. Þá get ég notið þess betur að vera til í desember.

woman_sipping_chocolate_reading_book_fireplace.jpg.653x0_q80_crop-smart

Gerðu þér grein fyrir að þessi árstíð er erfið, viðurkenndu það fyrir þér og sættu þig við það. Það þarf ekki að gera allt sem mamma eða amma gerðu alltaf, og alls ekki allt sem þú sérð í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum. Jólin velta ekki á aðventuljósinu eða aðventukransinum. Í mörg ár gerði ég engan aðventukrans, en í fyrra gerðu stelpurnar athugasemd við það. Í ár gerði eldri dóttir mín kransinn, það voru verðlaunin hennar fyrir að vera dugleg að æfa sig á píanóið.

20181201_143410

Það er dásamlegt að eiga vin sem skilur hvað þú ert að ganga í gegnum. Opnaðu þig, ef þú þekkir engan þá má oft finna einhvern í svipuðum sporum í hópum á facebook, t.d. er oftast hægt að finna fólk sem er tilbúið í að spjalla á Geðsjúk.

Ekki ætla þér meira en þú getur, þú þekkir sjálfa þig best. Þú breytist ekki allt í einu í ofurkonu, og það er allt í lagi. Það þurfa ekki að vera 10 sortir af smákökum og búið að þrífa ofninn með eyrnapinna. Verða jólin í alvöru minna gleðileg þótt ofninn sé óhreinn? Í ár gerði ég lista yfir allar kökurnar sem mig langaði að baka, og ég myndi baka ef ég væri sú sama og ég var fyrir 10 árum. Ég merkti við þær 3 sortir sem mér fannst mikilvægast að gera, og svo kemur bara í ljós – ef mig langar að baka meira þegar þær eru klárar þá bara geri ég það. Ef ekki, þá er það bara allt í lagi!

cinnamon-stars-2991174_960_720

Haltu áfram að sinna sjálfri þér þótt það sé margt sem þurfi að gera. Gefðu þér tíma í að sinna einhverju sem nærir þig, og mundu að borða, drekka og hvíla þig.

Jólin eru ekki ónýt þótt þú komir ekki öllu í verk sem þú gerðir í fyrra eða fyrir 5 árum eða 10 árum. Við breytumst og þroskumst, og förum í gegnum mismunandi tímabil í lífinu. Taktu þessu af æðruleysi og mundu að setja sjálfa þig í fyrsta sæti.

Þú þarft ekki að vera með samverudagatal. Samverudagatöl byrjuðu að poppa upp fyrir nokkrum árum síðan, og samfélagsmiðlar láta þetta allt líta út fyrir að vera svo dásamlegt og skemmtilegt. En fyrir suma er þetta bara aukið stress og álag. Þú þarft ekki að vera með samverudagatal, njóttu bara stundanna þegar þær gefast.

20171225_170534
Kötturinn búinn að klifra aðeins of mikið í jólatrénu.

Þú þarft ekki að segja já við öllu. Það er alltaf svo mikið um að vera á aðventunni, það eru sýningar eða foreldratímar í öllum frístundum barnanna, jólaföndur í leikskólanum/skólanum, jólahlaðborð, jólaboð, saumó vill gera eitthvað, og ræktarhópurinn o.fl. o.fl. Fáðu aðstoð, kannski geta ömmur eða afar mætt á einhverja viðburðina, og þú þarft ekki að mæta á allt sem er í boði, þó það sé gott að mæta í eitthvað.

Það þarf ekki allt að vera fullkomið. Í haust skrifaði ég lista yfir allt sem ég myndi vilja gera fyrir jólin. Ef ég man rétt spannaði listinn rúmar tvær A5 blaðsíður. Svo forgangsraðaði ég. Það skiptir mig máli að það sé hreint á rúmum á aðfangadagskvöld, en það má alveg vera smá ryk í bókahillunni og það breytir voða litlu hvort gólfin séu skúruð sama dag.

20161224_112854
Sætu stelpurnar mínar eftir jólabaðið. En þarna var ég búin að gefast upp á að laga jólaseríuna í glugganum eftir köttinn.

Hefðir mega breytast. Við hjónin erum bæði alin upp við það að jólatréð sé sett upp á Þorláksmessukvöld. Þrátt fyrir að það sé farið að tíðkast að setja jólatréð upp miklu fyrr, höfum við viljað halda þessari hefð. En síðustu ár hefur það skapað svo mikið stress, þar sem það er skötuveisla á Þorláksmessukvöld, oft þarf að klára hitt og þetta, jafnvel pakka einhverjum gjöfum eða koma einhverju á sinn stað – í ár ætlum við að færa jólatréð til tuttugasta og annars desember, þá er hægt að njóta þess að dúlla við það, en ekki drífa það upp í stresskasti.

Mundu að samfélagsmiðlar sýna bara það sem fólk vill að þú sjáir. Enginn er fullkominn eða lifir hnökralausu lífi. Allir eru að eiga við sitt, alveg eins og þú. Finndu hópinn Family living – the true story – Iceland á Facebook, og sjáðu að þú ert ekki ein!

all_cosyhygge_shutterstock

Mundu að jólin eru til að njóta. Þú þarft ekki að vera á fullu spani alla daga. Reyndu að hægja á þér. Þú þarft ekki að kaupa hitt og þetta, þú þarft bara að reyna að hægja á þér og njóta. Horfðu á snjóinn, sjáðu hvað hann er fallegur. Lærðu að meta jólaljósin upp á nýtt. Myrkrið í desember gerir okkur kleift að sjá stjörnurnar betur og norðurljósin.

Þótt þú sért döpur, syrgir eða sért niðurdregin þá máttu ekki nota jólin til að berja þig niður. Mundu að þau eru tími til að njóta, þú nýtur á þínum forsendum eins og aðstæður þínar eru núna. Ekki eins og aðstæður annarra eru eða eins og þínar voru fyrir einhverjum árum síðan. Sú sem þú ert í dag, á rétt til að njóta og slaka á um jólin líka.

Taktu þér pásu frá þessu öllu ef þú þarft þess, það er allt í lagi. Þú þarft ekki að þykjast vera ofur hamingjusöm eða glöð, reyndu bara að finna frið og ró í hjartanu, það er það sem jólin snúast um.

da5e4d2763a911fb3324970d2160a5e2-3887

Ef það er eitthvað sérstakt sem eykur álag, þá þarftu ekki að gera það. Ef jólaboðið á jóladag er of mikið fyrir þig þessi jólin, láttu þá bara vita að þú komir ekki. Vissulega eiga örugglega einhverjir erfitt með að skilja það, og jafnvel sárnar einhverjum, en heilsan þín gengur fyrir – er það ekki ?

Í lok hvers dags skaltu gera eitthvað sem þú nýtur að gera, hvort sem það er þáttur á Netflix, bolli af heitu súkkulaði eða kafli í bók. Jólin eru til að njóta!

Við skulum segja jólastressinu stríð á hendur, breytum því í jólahuggulegheit.

received_10154907549397407
Jólakortið síðan í fyrra – var sett á Facebook. Er að hugsa um að líma bara yfir nýtt heimilisfang í ár!

1 athugasemd við “Geðheilsa: Eru jólin erfið?”

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s