Skriftir

Kæra Auður – smásaga

Hún saup á kaffinu. Það var heldur rammara þennan morguninn en venjulega. Kristján hafði tekið Tönju með sér, ætlaði að keyra hana á leikskólann á leið í vinnu.

Hún naut þessara morgunstunda, ein og út af fyrir sig, áður en erill dagsins hæfist. Hún þyrfti ekki að leggja af stað fyrr en 30 dýrmætum mínútum síðar, fyrst Kristján hafði getað tekið Tönju þennan morguninn.

Hún fann hreyfingar í kviðnum, lítil hönd – eða var það fótur? – straukst létt við hana. Hreyfingarnar voru ekki enn orðnar óþægilegar, frekar eins og lítil fiðrildi, sem fóru þó hratt stækkandi. Hugsanirnar leituðu aftur til þess tíma er hún hafði borið Tönju undir belti, stuttu áður en hún kom í heiminn höfðu hreyfingar barnsins verið, oft á tíðum, orðnar helst til óþægilegar, og jafnvel ægilega sárar.

Hún strauk létt yfir kviðinn meðan hún renndi yfir helstu fréttir þennan morguninn á vefmiðlunum. Þar var svosem ekkert annað en venjulega, stjórnmálamenn að baknaga hver annan í stað þess að koma einhverju í verk, í stað þess að vera samfélaginu til hagsbóta. Jarðskjálfti úti í heimi, fólk flýr heimili sín vegna stríða, fræga fólkið heldur áfram að vera frægt. Alltaf þetta sama.

Hún beit í ristaða brauðið, fékk klessu af marmelaði út á kinn. Hún strauk það vandlega af með einum fingri og sleikti hann.

Fyrst ekkert bitastætt var að finna á vefmiðlum, var næsta vers að skoða tölvupóstinn. Þar mátti finna auglýsingapóst frá Rúmfatalagernum, tvo eða þrjá auglýsingapósta frá mismunandi tískuvöruverslunum erlendis þar sem hún var fastur gestur hvenær sem hún slapp út fyrir landsteinana, tilboð frá ferðaskrifstofu og tölvupóstur frá einhverjum.

Þetta var ekki fjölpóstur sendur út sem auglýsing á óteljandi manneskjur sem af mismunandi hvötum höfðu skráð sig á póstlista. Heldur var þetta tölvupóstur frá manneskju til annarrar manneskju. Slíkan póst hafði hún ekki fengið á sitt persónulega netfang svo mánuðum eða árum skipti – það eina sem nokkurn tímann barst á þetta löngu gleymda netfang voru auglýsingapóstarnir sem hún hafði lúmska ánægju af því að skoða.

Pósturinn var frá manneskju sem kallaði sig RMS, með yfirskriftina „Kæra Auður“.

Það var eitthvað við þessa yfirskrift sem fékk hana til að hafa varann á sér, hver sendir henni bréf með nafni á þetta gamla netfang, og er ekki með sitt eigið nafn í reit sendanda?

 

To: auja1206@hotmail.com
Sent 18.4.2016 02:29
From: RMS <RMS@gmail.com>
Subject: Kæra Auður

Kæra Auður,

Síðustu ár hefur aldurinn færst hraðar yfir en venjulegt er, sökum veikinda. Ég hef lengi ætlað mér að nálgast þig til að segja þér að ég elska þig, og nú, þegar ég finn tímann sleppa frá mér eins og vatn rennur milli fingra manns þegar maður ætlar sér að drekka úr læk, sé ég að það gefst ekki langur tími til viðbótar til að hugsa og hugsa um það – því hugsanir einar og sér koma manni ekki neitt.

Án þess að þú gerir þér grein fyrir því hefur þú verið áhrifavaldur mikill í mínu lífi. Mín elsku Auður – ég sá alltaf fyrir mér að við myndum hittast, en ekki að þetta yrði svona. Nú er ég hins vegar nauðbeygð til að senda þér eitt lítið tölvuskeyti til að reyna að tjá þér þann raunveruleika, að úti í þessum stóra heimi er manneskja sem virkilega elskar þig og myndi gefa allt fyrir að geta spólað til baka og breytt því sem liðið er.

Elsku Auður, þar sem ég bíð míns hinsta dægurs, verð ég að óska þér alls hins besta. Njóttu alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða, og ekki bíða þar til það er orðið of seint.

Auður, Auður.

 

Við lestur bréfsins rann henni kalt vatn milli skinns og hörunds.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s