Við fórum í aðventuferð með vinnunni minni til Berlínar 6.-9. desember síðastliðinn, pakkaferð með Gaman ferðum. Innifalið í ferðinni var flug, taska, fararstjórn, hótel, rúta til og frá hóteli, skoðunarferð (40 evrur auka á manninn) og jólamarkaðsferð.
Við lögðum af stað suður eftir vinnu á miðvikudegi, en aldrei þessu vant gistum við ekki á BB Keflavík, heldur Hotel Aurora Star Airport, en aðeins skammtímabílastæðin á flugvellinum skilja að hótelið og flugstöðina. Það var reyndar dásamlega hentugt, þar sem flugið var klukkan 6.00! Hinsvega byrjar morgunmatur hjá þeim ekki fyrr en kl. 4.00, svo við náðum ekki að nýta okkur það. Hótelið var mjög fínt og snyrtilegt, en mikið var kalt og blautt að klöngrast yfir bílastæðin í roki og slyddu á fastandi maga!
Við lentum í Berlín um 10.45 og fórum með rútu upp á hótel. Þar settum við töskurnar í geymslu og eftir það hófst allt flandrið okkar hjóna! Ég var búin að verja miklum tíma við að kynna mér borgina og átti svo erfitt með að velja hvað ég vildi gera, ég hefði sennilega auðveldlega getað fyllt viku eða tíu daga og samt ekki náð að gera allt! Borgin, eins og gefur að skilja, er barmafull af sögu og áhugaverðum stöðum.

Áður en við lögðum í hann keyptum við okkur Berlin Welcome Card, en það veitir ótakmarkaðan aðgang að almenningssamgöngum borgarinnar. Við keyptum til þriggja sólarhringa, og borguðum fyrir 28,9 evrur á manninn. Auk þess veitir kortið afslátt af ýmsum söfnum og áhugaverðum stöðum. Stök ferð í almenningssamgöngur kostar 1.5 evrur, svo á þann hátt kannski spöruðum við okkur ekki mikið með kortinu, en við tókum aldrei leigubíl né Uber alla helgina, svo við viljum meina að þetta hafi verið góð kaup – það safnast svo hratt saman í leigubílaferðum!

Fyrsti viðkomustaður var Mall of Berlin, þar sem við fengum okkur að borða. Food Courtið (ég þekki ekkert íslenskt orð yfir þetta fyrirbæri, annað en Stjörnutorg, og því mun ég nota það – láttu mig vita ef það er annað orð!) þar er ótrúlegt, það er langtum flottasta stjörnutorg sem við höfum komið í. Það er sett saman eins og street food venue, og fyrir utan staði sem eru á flestum svona stjörnutorgum (McD’s, Pizza Hut, KFC..) þá var kínverskur, ítalskur, indverskur, víetnamskur, tælenskur… Við fórum í ítalskan, og komumst að því að þetta var líka flottasta stjörnutorg sem við höfðum komið á að því leiti að þeir voru ekki með einnota diska og hnífapör, heldur alvöru borðbúnað. Eina sem var einnota voru glös og flöskur fyrir drykki. Dásamlegt!
Þegar við vorum orðin södd og sæl röltum við smá spotta, en við áttum bókað í flóttaherbergi hjá House of Tales, herbergi sem heitir Illuminati. Herbergið var mjög flott og vel gert, en þar voru a.m.k. tvær þrautir sem við höfðum ekki séð áður, og sumar þrautirnar (eða lausnirnar öllu heldur) þóttu okkur frekar langsóttar. En við komumst út, bara með nokkrar sekúndur eftir, en leikjastjórnandinn (Game Master, sá sem fylgist með) kom inn þar sem við vorum með lausnina, en það munaði sentimeter að við hefðum lagt hlutinn á réttan stað.

Eftir að hafa sloppið úr flóttaherberginu héldum við í Berlin Story Bunker, en þó með viðkomu í Topography of Terror. Topography of Terror er í rauninni safn sem byggt er á staðnum þar sem höfuðstöðvar Gestapó og SS voru, og þar var lagt á ráðin um mörg af hræðilegustu grimmdarverkum seinni heimsstyrjaldar. Húsið var svo gott sem jafnað við jörðu í lok stríðsins, en það stendur enn einn veggur af kjallaranum í húsinu, og þar er fróðleikur um ýmislegt er við kemur sögu hússins og því sem gerðist þar. Safnið snýr að mestu leyti um ofsóknir á gyðingum, en það er sett upp á mjög myndrænan hátt. Það er frítt inn, og hægt að fá leiðsögn með mp3 spilara án endurgjalds. Við gengum um útisvæðið og lásum skiltin þar, kíktum svo aðeins inn áður en við ákváðum að drífa okkur í Bunkerinn – við settum hann ofar á listann en safnið, og ætluðum svo bara að nýta þann tíma sem eftir væri til að skoða Topographyið.

Við erum sammála um að Berlin Story Bunker sé það áhugaverðasta sem við gerðum í Berlín. Sýningin sem er þar hefur yfirskriftina „Hitler – hvernig gat þetta gerst?“ En hún virðist vera að mestu leyti samansett af einum manni, Wieland Giebel. Sýningin skiptist í 38 rými eða kafla, þar sem farið er yfir lífshlaup Hitlers, hvernig hann varð maðurinn sem hann varð og hvernig hann fór að því að komast til valda og koma sínum ógeðslegu áformum í framkvæmd. Það kostar 12 evrur inn á sýninguna, og 1,5 í viðbót að fá leiðsögn á mp3 spilara, en það er fullkomlega þess virði. Berlin Welcome Card veitir 3 evru afslátt af aðgangseyri á hvern keyptan miða.

Að skoða alla sýninguna með leiðsögninni tekur um 2 klst, og þú mátt gera ráð fyrir að koma hálf-lamaður út. Ég var gersamlega búin á því, hálf óglatt og miður mín. Sýningin endar á endurgerð af skrifstofunni sem Hitler hafði í neðanjarðarbyrginu þar sem hann eyddi sínum síðustu dögum, en það var einmitt þar sem hann og Eva Braun sviptu sig lífi. Ég get ekki mælt nóg með þessari sýningu!

Þegar við vorum búin í Berlin Story Bunker gengum við til baka og fórum í fljótheitum yfir Topography of Terror sýninguna sem var innandyra, en það var farið að styttast í seinna flóttaherbergið okkar. Við hefðum viljað hafa tíma til að fá okkur leiðsögn um þetta safn líka, en það má kannski gera það næst.

Við héldum aftur í House of Tales þar sem við áttum bókað herbergi sem heitir Dead Monks. Sagan var sú að fjórir munkar höfðu fundist látnir í klaustrinu á stuttum tíma, en ef frá var talið að þeir voru allir svartir á fingrunum var ekki hægt að sjá neitt á þeim sem útskýrði dauða þeirra. Verkefni okkar var að komast að því hvað gerðist. Við vorum mun ánægðari með þetta herbergi en hitt fyrra, en þó þótti okkur ekki allar lausnir rökréttar, og stundum vantaði bara hreinlega eitthvað sem gæfi til kynna hvað ætti að gera.

Hinsvegar kláruðum við herbergið á 54:38, með 8 vísbendingum. Leikstjórinn sagði að meðaltal vísbendinga í herberginu væri 15, og því hefðum við staðið okkur mjög vel. Herbergið var gríðarlega flott og vel gert!
Þegar við komum út aftur var klukkan langt gengin í níu, svo við gripum strætó aftur upp á hótel og innrituðum okkur. Hótelið okkar heitir Leonardo Royal Hotel Alexanderplatz, og var mjög kósý, hreint og fínt. Ég hefði alveg viljað vera örlítið nær Alexanderplatz, en gangan þangað tók um 10 mínútur. Hins vegar tók svo gott sem enga stund að grípa sporvagn þangað, og fyrst við vorum með Berlin Welcome Card var þetta bara alveg frábært.



Eftir vel útilátinn morgunmat á föstudagsmorgun var haldið í 4 klukkustunda skoðunarferð um borgina með Eirik Sördal, sem býr þar í borg. Skoðunarferðin fór að mestu fram í tveggja hæða rútu, en við stoppuðum þrisvar sinnum þar sem farið var út úr rútunni. Við sáum m.a. minnismerkið um helförina, kanslarahöllina, East Side Gallery, Brandenborgarhliðið, ráðhúsið, Reichstag (þingið), Kurfursterdamm, KaDeWe o.fl. Við stoppuðum í Treptow garðinum þar sem er að finna stórt Sovéskt minnismerki um seinni heimsstyrjöldina, en undir minnismerkinu er að finna fjöldagröf sovéskra hermanna. Þar er talið að það hvíli einir 7.000 sovéskir hermenn. Við stoppuðum líka á Bernauer Strasse, þar sem má sjá hluta af múrnum. Þar er einnig búið að setja upp eftirlíkingu af hinu svonefnda dauðasvæði, en það er ca. 20 metra breitt belti milli múranna tveggja þar sem finna mátti blóðþyrsta hunda, gadda, varðturna og allt sem þeim datt í hug til að koma í veg fyrir flótta frá austri til vesturs. Svo komum við við á Ólympíuleikvanginum frá 1936.

Eirik var flottur leiðsögumaður, en hann þekkir borgina og sögu hennar greinilega vel. Hann tekur að sér leiðsögn fyrir hópa, og það má hafa samband við hann í gegnum tölvupóst; eirik.sordal(hjá)gmail.com.



Hér má svo lesa það sem eftir er af ferðasögunni.
1 athugasemd við “Aðventuferð til Berlínar”