Skriftir

11 skotheldar leiðir til að eignast nýja vini á fullorðinsárum

Maður sér reglulega umræðu um það hve erfitt geti verið að eignast nýja vini á fullorðinsárum, þannig ég ákvað að taka saman nokkrar skotheldar og margprófaðar leiðir, sem hafa reynst mér vel í gegnum árin:

 1. Farðu á kaffihús þar sem er nóg að gera, og ekkert borð laust. Kauptu þér drykk í bolla, alls ekki til að fara með. Spurðu hvort þú megir setjast við eitt borðið þar sem fólk situr, þar sem það séu engin sæti laus. Byrjaðu að tala. Tada – kominn fyrsti vinurinn.
 2. Farðu í fataverslun og bjóddu fólki ókeypis ráð. Fólk vill ekki skrum og innantómt hrós, það vill hreinskilni; segðu því ef þér finnst klúturinn ekki fara því, eða skórnir ljótir. Tala nú ekki um ef gallabuxurnar eru of þröngar, eða vömbin slapir í kjólnum. Þannig eignastu sanna vini.
 3. Farðu í Bónus og stattu við kælinn þar sem kjúklingurinn er, passaðu þig að standa ekki grunsamlega heldur eins og þú sért að skoða kjúklinginn til að finna rétta bakkann. Gott er að líta af og til upp og ganga áfram, en koma svo bara aftur. Áður en líður á löngu kemur einhver til að grípa sér kjúlla, þá skaltu andvarpa og spyrja hvað viðkomandi ætli að elda úr þessu, þú vitir ekkert hvað þú eigir að elda. Ef það kemur á viðkomandi, skaltu bara kasta fram einhverju eins og: bringur með pestó? Reynslan hefur sýnt mér að viðkomandi mun segja annað hvort já eða nei, og ef það kemur nei, þá fylgir oftast á eftir hvað viðkomandi ætlar að gera. Þá geturðu gripið tækifærið og annað hvort spurt hvort þú megir ekki bara kíkja í mat, eða að þú gerir nú svo gríðargóðan svona-og-svona rétt, hvort það megi ekki bara bjóða honum/henni til þín í kvöld?
 4. Áttu börn? farðu með þau á leikvöllinn og segðu þeim að hrinda öðrum krakka. Þá stekkurðu til og hjálpar barninu, en á sama tíma kemur væntanlega foreldri þess. Þá byrjarðu á því að biðjast margfaldlega afsökunar á barninu þínu sem verður svo óviðráðanlegt þegar það sefur lítið, þá ertu búin að opna fyrir að segja þeim alla ævisöguna og þið eruð orðnir mestu mátar áður en þú veist af.
 5. Er mamma þín á elliheimilinu? Keyptu tvo miða í leikhús. Gríptu eina af starfsstúlkunum sem sér um hana blessaða móður þína og þakkaðu henni fyrir bljúgt hjarta hennar og hve göfug hún sé að fórna lífi sínu til að sjá um aldraða. Í þakkarskyni langi þig að gefa henni hérna miða í leikhús. Þegar hún þakkar þér fyrir, gerirðu henni grein fyrir að þú átt annan þeirra, og að þú verðir deitið hennar fyrir kvöldið. Þetta getur bara ekki klikkað!
 6. Fáðu þér hund. Það er aðgöngumiði að hundasvæðum. Á hundasvæðum er tilvalið að gefa sig á tal við aðra hundaeigendur, en mundu bara að segja nógu oft hvað þú elskar hundinn þinn, að það hafi ekki verið neitt líf fyrir hundinn og þú gætir ekki án hans verið. Gott að skella inn einni sögu um hvað þér leið illa þegar hundurinn veiktist eða eitthvað álíka. Bara eitthvað nógu dramatískt til að koma tárunum út á fólki.
 7. Gerðu þér upp verki í brjóstkassa eða kviðarholi, og linntu ekki látum fyrr en þú verður lagður inn. (Eða hvern þann krankleika sem þér dettur í hug, en passaðu þig að hafa hann bara nógu alvarlegan!) Þegar það er búið að leggja þig inn eru miklar líkur á því að það verði fleiri en bara þú á stofunni; þar er fólk sem kemst lítið sem ekki neitt og þið getið orðið perluvinir!
 8. Gefðu þig á tal við Vottana og Mormónana. Bjóddu þeim í mat þegar þeir banka uppá, þú getur eflaust haldið þeim eins lengi og þú hefur löngun til, og þeir koma alltaf aftur og aftur og aftur…
 9. Farðu í sund, gefðu konum góð ráð hvernig losna megi við ör og appelsínuhúð, hvernig stinna megi brjóst og maga – og hvað annað sem fyrir augu ber. Þær munu vera þér þakklátar!
 10. Rúntaðu um bæinn. Í hvert skipti sem þú sérð kött fara yfir götuna skaltu gefa í og reyna að ná honum. Gættu þess bara að hann sé merktur, svo þú getir fundið hvar hann á heima. Þegar þú hefur slasað hann eða drepið, skaltu halda heim til eigandans, bera þig mjög aumlega og hugga svo viðkomandi. Ef þú kemur þér inn úr dyrunum ertu á grænni grein!
 11. Oft þegar líða fer á kvöldin gerist æði rólegt í verslunum og á bensínstöðvum. Þú skalt gerast fastagestur, og með tíð og tíma geturðu stoppað lengur og lengur, þar til þú ert orðinn vel málkunnugur starfsfólkinu, og búinn að eignast vini á hverri vakt!

Öll þessi ráð hafa gefist mér vel, en ég er alltaf til í fleiri. Það gengur misvel að eignast vini, og því miður þarf maður stundum að losa sig við þá á einn eða annan hátt – kannski vegna þess að þeir fundu beinin í kjallaranum, eða kjötið í frystinum. En það sparar bara útgjöld vegna fæðis!

 

1 athugasemd við “11 skotheldar leiðir til að eignast nýja vini á fullorðinsárum”

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s