Lífið

Það sem 2018 skilur eftir

2018 var heilt yfir bara ágætt ár, það skilur eftir margar góðar minningar, og fleiri góðar en hitt held ég að megi segja. Auðvitað var eitt og annað í gangi, eins og alltaf, en við ætlum ekki að tíunda það hér. Við drögum af því lærdóm, og höldum áfram.

Ég komst enn og aftur að því að það er ótrúlega mikið af góðu fólki í kringum mig. Það er fólk úti um allt sem hægt er að leita til, þegar eitthvað bjátar á. Það sprettur upp fólk sem manni datt ekki í hug, og þá fyllist hjartað gleði og þakklæti.

Árið gaf okkur fjórar ferðir út fyrir landsteinana, sem voru dásamlegar. Mér tókst að heimsækja tvö ný lönd; Skotland og Pólland, og þá er ég búin að heimsækja allt í allt 13 lönd. 50 lönd fyrir fimmtugt er tæpt, en það eru sautján og hálft ár, sem þýðir að ég þarf að heimsækja tvö ný lönd (rúmlega) á hverju ári ef ég ætla að ná því. Og það er bara eitt nýtt land á planinu fyrir 2019 eins og er, en þrjár ferðir til landa sem ég hef þegar heimsótt!

IMG_20180802_203437_488

Í febrúar fluttum við, og væntanlega erum við þá komin í framtíðarhúsnæði. Það var erfitt að kveðja Huldugilið, tíminn þar var alveg frábær og okkur leið svo vel þar. En Vættagilið tekur vel á móti okkur og stelpurnar eiga báðar vinkonur hinum megin við götuna, sem er bara dásamlegt. Nú hins vegar er þetta þriðja húsnæðið þar sem við hjónin búum saman, og í hinum tveim hafa fæðst börn. Hver ætlar að fæða barn í Vættagilinu? Ég er hætt, þannig ég óska eftir sjálfboðaliða!

Í júlí bættum við kettlingi við fjölskylduna, en hann fór á nýtt heimili í sama mánuði, þar sem Týra fór í hungurverkfall og var orðin hættulega horuð. Hún var þó fljót að taka gleði sína eftir að Gormur litli flutti til systur minnar, og er orðin bústin og sæt aftur.

IMG_0678

Í ágúst tók Fjölnota þátt í Handverkshátíð í annað skipti og átti frábæra helgi með fullt af frábæru fólki. Við kynntumst þar fullt af fólki með fjölbreyttar og skemmtilegar hugmyndir. Það er svo dásamlegt hvað gestir hátíðarinnar eru áhugasamir og velviljaðir, og margir koma aftur og aftur til okkar. Þótt dagarnir séu langir, þá eru þeir skemmtilegir og gefa mikla gleði í sálina.

Ég fór á tvenna tónleika, Justin Timberlake sem er eilífðarskotið mitt, og Britney Spears, nostalgía frá unglingsárunum. Ég hef aldrei áður farið á tónleika erlendis, en við vissum það báðar að þetta yrði gert aftur. Og við ætlum á tvenna aðra tónleika 2019!

Í september snorklaði ég í Silfru með góðri vinkonu, og það var frábær upplifun, sem ég mæli alveg 100% með! Landið okkar er svo fallegt og mig langar svo að skoða meira af því. Mig langar að fara með fjölskylduna í sumarbústað næsta sumar og nota vikuna til að skoða mig um – sjáum til hvort af því verði.

Í september og október fór ég á námskeið í hugrænni atferlismeðferð á göngudeild geðdeildar SAk. Sálfræðingarnir sem sáu um það voru alveg frábærar, og hópurinn yndislegur. Maður lærði margt um hvernig hugsanamynstur fylgir þunglyndi og kvíða, og hvernig á að brjóta það upp. Námskeiðið var mjög fræðandi og mikil aðstoð í því, og hópurinn alveg framúrskarandi.

Árið nýtti ég vel í að vinna í sjálfinu, sjálfsmyndinni og þunglyndinu. Ég er á betri stað núna í upphafi 2019 en ég hef verið lengi, og get næstum því sagt að ég hlakki til komandi tíma.

Nú stefni ég á að nota ákveðinn tíma í hverri viku í að vinna í geðheilsunni og sjálfri mér, og gera mitt besta til að ná enn betri heilsu. Ég hef líka gert mitt besta til að koma því þannig fyrir að ég muni gera ýmislegt sem mun gleðja mig og gerir mér gott næstu mánuði.

En plön eiga það til að fara úr skorðum, og þá verður það bara þannig. Ef það gerist tökum við því bara með stóískri ró.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s