Lífið

Ástin á bókum

7aa54287ee703577e2697802244fa257.jpg

Það hefur varla farið framhjá nokkrum sem skoðar þessa síðu eða sem þekkir mig, að ég er algjör bókaormur. Nú bý ég í húsi sem er á tveimur hæðum, en á stigapallinum eru bókahillur sem hafa að geyma þær bækur sem ég hef sankað að mér en á eftir að lesa. Þær bækur sem ég á eftir að lesa fylla þær bókahillur og gott betur en það.

20190209_124714
Gæti ekki hugsað mér hlýlegri leið til að nýta stigapallinn!

Um daginn útbjó ég svo plaköt sem ég setti í ramma og lét manninn minn hengja upp fyrir ofan hillurnar mínar. Það er til svo mikið af flottum tilvitnunum um bækur á netinu, sem búið er að setja svo flott upp – en þar kemur íslenskuperrinn upp í mér. Ég vil reyna í lengstu lög að forðast enskan texta á veggjunum hjá mér – þótt á því séu tvær undantekningar.

FB_IMG_1542459432502

Plakötin útbjó ég á síðunni canva.com, en ég fann þá síðu hjá stelpu sem ég kannast við sem bloggar á einfaltlif.wordpress.com. Þar er hægt að útbúa allskonar plaköt, dreifildi og annað, og þar er aðgangur að allskonar myndum, leturgerðum og öllu því sem þarf til að setja upp plakat. Grunnurinn er ókeypis, en hægt er að kaupa aðgang að fleiri myndum og leturgerðum.

46507702_10155615713182407_5377410569122873344_o

Hér má nálgast veggspjöldin sem ég útbjó, í einni pdf skrá. Ég bað svo bara um að þetta yrði prentað á veggspjaldapappír hjá Pedro myndum.

Bækur eru ekki bara góðir vinir og afþreying, heldur eru margar þeirra líka fallegt stofustáss. Ég hef því sigtað út þær fallegustu úr safninu og stillt þeim upp í glerskápnum í stofunni.

20190209_124530

Eins og margir þá klæðist ég mest megnis heimafötum þegar ég er heimavið. Upp á síðkastið (síðustu 2 ár) hef ég haft gaman að því að eignast stöku heimaboli sem endurspegla mig, og þá sér í lagi ást mína á tungumálinu og bókunum.

20190223_125653

Svo að sjálfsögðu á maður margnota poka til að taka með sér á bókasafnið (og Hertex..), en tveir þeirra voru tækifærisgjafir – sem mér er annt um og mikið notaðar.

20190209_124840
Mikið hjartanlega er ég sammála Jorge Luis Borges.

Það er stundum bara einfaldlega svo gott að setjast niður, umkringdur bókum. Ég er nú ekki mjög andlega þenkjandi, ef svo má segja, en mér þykir alltaf sérstakt andrúmsloft í kringum bækur. Þær eru þungar, stöðugar, þær eru eins og klettur. Þær eru þöglar, en tilbúnar að taka í höndina á þér.

20190209_124503
Bara bækur sem mér þykja sérlega fallegar, eða eiga af einhverjum ástæðum skilið að vera til sýnis fá að vera í leshorninu mínu.

Ég elska bókasöfn, og Amtsbókasafnið er alveg dásamlegur staður. Mér finnst það þó hafa verið afturför þegar það var ekki lengur skylda að hafa hljóð á bókasafninu – en ég fæ mig aldrei til að tala hátt, og sussa alltaf á stelpurnar ef þær eru með læti. Hinsvegar, þá hefur Amtsbókasafnið verið að gera dásamlega hluti til að auka heimsóknir á safnið, t.d. með spilaklúbbum, fræðsluerindum, skiptimörkuðum o.fl.

20190209_124454
Bækurnar í leshorninu eru ýmist lesnar eða ólesnar, þrátt fyrir að flestar aðrar séu flokkaðar eftir hvort ég hafi lokið lestri þeirra eða ekki.

Ég nota Gegni.is mikið, og er sjálfsagt stærsti notandi vefsíðunnar sem er ekki bókasafn eða bókasafnsfræðingur. Þegar ég opna Google Chrome, þá eru vinsælustu heimasíðurnar sem ég heimsæki, í þessari röð; netbankinn, Gegnir.is, fasteignir.is og stuttu seinna Goodreads.com.

20190209_124523
Laxness er í sérstöku stúkusæti, en eins og sjá má eru þær misgamlar. Þær hafa komið frá ýmsum stöðum, flestar keyptar notaðar. Hjá þeim er mynd af Eyrúnu minni, skírnarskórnir stelpnanna og þurrkað blóm úr brúðarvendinum.

Ég elska ekki bara að lesa bækur. Ég elska líka að lesa um bækur, fylgjast með því sem er að koma út, fletta upp hinum og þessum höfundum til að sjá hvað hefur verið gefið út eftir þá á hinu ástkæra ylhýra, skoða blogg um bækur o.s.frv.

FB_IMG_1542459964964.jpg

Með því að lesa bækur lærum við gjarnan ýmislegt um okkur sjálf. Við lærum að þekkja hver við erum, hver við erum ekki og hver við viljum vera. Við lærum ný orð, eflum kunnáttu okkar í tungumálinu – sem veitir ekki af! – við kynnumst hugsuðum fyrri tíma, og komumst að því að við erum ekki ein.

FB_IMG_1547626235327.jpg

Dætur mínar hafa alist upp við að það eru bækur allstaðar. Þær hafa líka alist upp við það að mamma þeirra er sífellt að koma með bækur heim, eða með nefið ofan í bók. Þær koma reglulega með mér í Hertex, þar sem ég næli mér í ýmsa eldri gullmola. Síðast þegar ég tók eldri dóttur mína með mér, þá áttaði ég mig á því að hún er búin að læra af mér. Hún keypti fleiri bækur en ég!

52407080_472068943326460_8289919444063354880_n

Um daginn lásu dætur mínar sitthvora skáldsöguna, sem hvor um sig var yfir 400 bls. Ég hafði lofað þeim verðlaunum þegar þær lykju við þær, hvort sem það yrði á þessu ári eða næsta eða þarnæsta. En svo kom að því, ég var rukkuð um verðlaunin. Ég sneri mér á Facebook til að fá ráð um hvað teldust hæfileg verðlaun fyrir þessa frammistöðu. Það voru misjafnar skoðanir, allt frá annarri ferð á bókasafnið til leikhúss. Þá áttaði ég mig á því að það er kannski ekki sjálfgefið að börn á áttunda og tíunda ári ljúki við 400 blaðsíðna bækur eins og að drekka vatn. En ég áttaði mig líka á því að ég vil alls ekki að þær líti á það sem eitthvert sérstakt afrek, með því að verðlauna þær eitthvað gríðarlega. Við ákváðum því að fara með þær í ísbúð, en það höfðum við ekki gert í háa herrans tíð. Þær voru bara mjög sáttar, og nú verður gaman að sjá hvað þær lesa á næstunni!

20190209_144025
Afsprengin með bækurnar sínar! Eldri las reyndar Miðnæturgengið eftir sama höfund, en hún var ekki inni til myndatöku 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s