Eva Luna e. Isabel Allende. Það er bara eitthvað við Isabel Allende! Eva Luna er munaðarleysingi, og hér fáum við að heyra sögu hennar og fólksins sem hún hittir.
Austan Eden e. John Steinbeck minnir að mörgu leyti á söguna um Adam og Evu og bræðurna Cain og Abel. Aðalpersónan, Adam, flytur til Kaliforníu til að hefja búskap. Eiginkona hans missir tökin á tilverunni eftir fæðingu tvíburasona þeirra hjóna, svo Adam stendur uppi einn með drengina.
Forsöguna að Allt hold er hey e. Þorgrím Þráinsson fíla ég ekki, og lét sem ég hefði ekki heyrt hana, þar sem hún er ótrúverðug og dregur úr sögunni að mér finnst. Sagan gerist á tímum Skaftárelda og fjallar um örlög fólks sem hraktist frá heimkynnum sínum.
Bókina Vesalingana e. Victor Hugo hafði ég átt lengi og miklað mikið fyrir mér. En svo þegar ég byrjaði á henni þá hreinlega gleypti ég hana. Sagan gerist í París á fyrri hluta 19. aldar, og við fylgjumst með dæmdum glæpamanni hefja nýtt líf. Hann tekur að sér unga stúlku sem hefur misst móður sína og gengur henni í föðurstað.