Ferðalög

Hin árlega Londonferð tvíburanna

20190824_090653

Það vildi svo skemmtilega til að við vinkonurnar fórum aftur til London síðustu helgina í ágúst 2019, alveg eins og við gerðum árið 2018.

Við flugum út á miðvikudagsmorgni, þann 21. ágúst. Eini munurinn er að nú fengu eiginmennirnir að koma með!

20190825_085734
Setustofan við barinn á Ashburn Hotel.

Við lentum á Gatwick kl. 11.45, og fórum og fundum hótelið okkar. Ashburn hotel í South Kensington. Hótelið var lítið, krúttlegt og ótrúlega sjarmerandi, og við völdum það aðallega vegna þessa.

Annars var fyrsti dagurinn tekinn rólega, við átum og versluðum örlítið, opnuðum Amazon pakkana og svo áttum við bókað í tvö þrautaherbergi. Það var ágætis ferðalag að koma okkur í þrautaherbergin, en þau voru í The Biscuit Factory í Bermondsey. The Biscuit factory var, eins og nafnið gefur til kynna, kexverksmiðja en er nú notað fyrir líkamsrækt, þrautaherbergi, vinnustofur listamanna o.s.frv.

20190821_192744
@ The Biscuit Factory

Við fórum annars vegar í Grandpa’s last will, þar sem við þurfum að finna erfðaskrá látins afa okkar, og hins vegar Alastair Moon’s House hjá Lock’d. Grandpa var skemmtilegt herbergi, en gert fyrir byrjendur og því vorum við svolítið fljót í gegn. Því miður kom það upp að leikstjórinn í Alastair Moon var að óviðráðanlegum ástæðum ekki við og því var okkur boðið að fara í Perpetuum Mobile í staðinn. Það hins vegar var ekki mjög spennandi herbergi og lítið í það lagt.

20190821_211146

Daginn eftir áttum við bókað í skoðunarferð um State Rooms í Buckingham höll, The Royal Mews og The Queen’s Gallery. The Royal Mews geymir hestvagna og bifreiðar drottningarinnar og í galleríinu var sýning um líf og starf Leonardos Da Vinci.

20190822_110907
Hestvagninn sem er aðeins notaður við krýningarathafnir.

Galleríið er í gamalli kapellu sem hefur fengið nýtt hlutverk, en upprunalega var lokið við að reisa hana árið 1831. Hún eyðilagðist í loftárásum árið 1940, og árið 1962 var farið að nota hana sem sýningarsal.

20190822_101215
Hin fræga spegilskrift Da Vincis.

Höllin sjálf höfðaði langmest til mín. Hver og einn var með Audio guide, og við ráfuðum hvert í sínu lagi um höllina. Auðvitað var urmull af fólki á staðnum, en þrátt fyrir það var þetta upplifun.

20190822_125315
Bakhlið hallarinnar, frá hallargarðinum. 

Churchill’s War Rooms eru neðanjarðarskrifstofur og vistarverur fyrirmenna á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Ferðin um safnið með Audio guide var mjög áhugaverð. Þarna var sérstök hvelfing tileinkuð Churchill, en auk þess mátti sjá svefnherbergi þeirra sem þarna dvöldu, skrifstofur og vinnurými.

Frá þessum niðurgröfnu vistarverum var hernaðarþátttöku Breta í seinni heimsstyrjöldinni stjórnað, auk þess sem ráðherrar og hernaðarsérfræðingar bjuggu.

20190822_154906
Churchill merkti þau skjöl sem vinna þurfti samdægurs með svona merki, og ef þau voru ekki unnin var ekkert víst að sá starfsmaður þyrfti að mæta aftur!

Roll Out the Barrel var annað þrautaherbergi hjá Escape Plan Shoreditch, en herbergin þeirra hafa skemmtilega sögulega tengingu. Við vorum dátar á tímum seinni heimsstyrjaldar, sem vorum að koma búsinu undan yfirmönnunum. Herbergið var mjög frumlegt og einstaklega skemmtilegt. Okkur langar mikið að fara í hin herbergin þeirra, en þau fá öll mjög góða dóma.

FB_IMG_1566596823311
Já, það þurfti að koma tunnunni út!

Dagurinn eftir hófst á því að ég átti tíma í klippingu, en ferðafélagarnir fóru í Tower of London á meðan. Ég hafði nefnilega fundið á netinu hárgreiðsludömu sem hafði lært krulluklippingar hjá Lorraine Massey, upphafskonu Curly Girl Method. Það er nefnilega svo skemmtilegt að komast að því, þegar maður er rúmlega þrítugur, að það er ástæða fyrir því að maður kemur í 90% tilvika óánægður úr klippingu. Það virðast nefnilega vera fáir hársnyrtar sem „kunna“ á krullað hár.

20190822_101829
Teikning Da Vincis.

Stephanie, hjá Curly Hair London, var alveg dásamleg. Það var svo gaman að fylgjast með henni klippa hárið þurrt krullu fyrir krullu! Ég var hjá henni í hátt í tvo tíma, fyrst var „consultation“ eða ráðgjöf, og svo klipping og styling. Hún fór yfir með mér hvaða vörur ég væri að nota og hvernig, og kom með áhugaverða punkta um hvað mætti gera betur. Aftur á móti var hún alls ekki að reyna að selja neitt, þótt hún væri í samstarfi við Innersense og væri með vörurnar þeirra til sölu. Mér þótti það frábært.

20190824_163057

Eftir klippingu hitti ég ferðafélagana aftur og við gripum okkur bita áður en við áttum bókað í síðasta þrautaherbergið. Það herbergi var í bílakjallara, sem var búið að innrétta á mjög frumlegan hátt. Herbergið var í þema Da Vincis, og ágætt sem slíkt, en eftir á var ekkert mikið sem stóð upp úr.

20190823_171745
Liðin skrifa tímana sína á post-it og líma á herbergið.

Eftir herbergið lögðum við leið okkar á söngleikinn Book of Mormon í The Prince of Wales leikhúsinu, og var hún mjög skemmtileg.

Við vissum að síðasti dagurinn yrði langur, en við gerðum okkur ekki grein fyrir hve langur hann yrði! Við byrjuðum daginn á skoðunarferð í Westminster Abbey, þar sem við dvöldum dágóða stund.

20190824_092131

Klukkan 12.00 áttum við svo rútuferð frá Victoria Coach Station, þaðan sem við héldum til Ipswich til fundar við Ed okkar Sheeran. Mennirnir okkar hefðu sennilegast valið einhvern annan tónlistarmann, en þeir voru alls ekki óánægðir að tónleikunum loknum!

20190824_183157

Það voru þrjú upphitunaratriði fyrir kappann, en þar stóð hæst Passenger, sem sagði ófáa brandarana. Ef þú telur þig ekki vita hver Passenger er, ýttu á hlekkinn.

20190824_204225

Ed Sheeran sjálfur, eins og flestir landsmenn vita, stóð sig með afbrigðum vel og kvöldið var dásamlegt. Á tónleikunum í Ipswich kvöldið eftir tilkynnti hann að hann ætlaði að draga sig í hlé, það hlýtur að hafa verið tilfinningaþrungin stund.

20190824_152814
Við vorum með þeim fyrstu á staðinn.

Tónleikunum var lokið milli 22 og 23, en vegna hvíldarreglna mátti rútubílstjórinn ekki leggja af stað fyrr en eftir miðnætti (stórkostleg yfirsjón hjá rútufyrirtækinu, það voru ekki beint kátir farþegar sem biðu í um tvo tíma eftir að leggja í hann heim aftur!).

Það verður hins vegar að viðurkennast að það lítur því miður ekki vel út með Londonferð tvíburanna í ár!

20190824_111136
Í Westminster Abbey.

1 athugasemd við “Hin árlega Londonferð tvíburanna”

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s