Bucket list, Ferðalög

Róm, borgin eilífa – annar hluti

Hér er fyrsti hlutinn.

Eftir að skoða Sistínsku kapelluna fórum við með fornleifafræðingi undir Péturskirkjuna, en þar er að finna Necropolis (borg hinna dauðu) og menn vilja meina að þar sé Pétur postuli grafinn (og þaðan dregur kirkjan nafn sitt).

20190125_090552
Péturstorgið er nánast tómt um 9 leytið á föstudagsmorgni í janúar.

Scavi, sem er báknið sem heldur utan um fornleifauppgröft á svæðinu, býður upp á skoðunarferðir niður á uppgraftrarsvæðið, en það er mjög erfitt að komast að skilst mér. Það eru hið mesta teknir 12 manns í hvern hóp, og held ég ekki fleiri en 20 hópar á dag. Á háannatíma þá þarf að bóka túrinn með margra mánaða fyrirvara – en við vorum heppin og fengum miða þótt við pöntuðum bara með 2 vikna fyrirvara, en það er einn kostur þess að ferðast utan aðalferðamannatímans.

cq5dam.web.1280.1280
Teikning sem sýnir grafhvelfingarnar og borg hinna dauðu undir Péturskirkjunni. Grafhvelfingar páfanna eru fyrir neðan kirkjuna og fyrir neðan þær kemur Necropolis. Mynd fengin að láni hjá Scavi.va.

Til að komast að uppgraftrarsvæðinu er fyrst gengið inn í sal þar sem er módel af kirkjunni og einskonar lítið safn. Gangurinn þar inn eru u.þ.b. 10 metra þykkur, en vegna burðarþols kirkjunnar eru útveggir hennar gríðarlega þykkir neðst, og verða svo þynnri eftir því sem ofar dregur. Það var samt óraunverulegt að ganga í gegnum vegginn, og virkilega sjá hvað hann er þykkur!

Árið 64 er talið að Pétur postuli hafi verið krossfestur, en hann bað um að vera krossfestur með höfuðið niður, því hann ætti ekki skilið að deyja á sama hátt og frelsarinn. Á þeim tíma var Neró keisari í Róm, og haldnar voru kappreiðar og leikar á þessu svæði sem kallaðist Circus Nero. Þegar líftóran hafði yfirgefið Pétur var honum varpað í dys, stuttu frá torginu, en þar var að finna kirkjugarð.

peter-s-tomb-exclusive-visit-of-the-basilica-and-its-necropolis-in-rome-444816
Mynd úr Necropolis. Fengin að láni hjá mylittleadventure.com

Á þessum tíma skiptist Róm í nokkur hverfi, en aðeins eitt hverfi borgarinnar var á þessum árbakka, hinn hluti Rómar var á hinum bakkanum. Rómverjar vissu að í líkum gátu grafið um sig sýkingar og þau breitt út sjúkdóma, og því ákváðu þeir að grafa þá dauðu á þessum árbakka – utan borgarinnar.

En grafreitir í „den tid“ voru örlítið annað en þeir eru í dag. Þetta var í raun og veru borg hinna dauðu, því það voru byggð lítil hús – eiginleg grafhýsi. Oftast átti fjölskyldan eitt grafhýsi, og safnaði þangað sínum dauðu. Í Róm var skylda hvers borgara að halda uppi minningu forfeðra sinna, því það var ekki fyrr en þeir gleymdust sem þeir raunverulega yfirgáfu heiminn. Þeir grófu þá dauðu með pening, fyrir farinu yfir dauðaána (sbr. Styx), og komu reglulega í heimsóknir og þá með veisluföng.

Þegar Pétur postuli var krossfestur var það enn ólöglegt að vera kristinn í Rómaveldi. Þeir kristnu komu líkinu af honum fyrir í gröf, en svo eftir því sem kirkjugarðurinn þandist út greip um sig ótti að byggt yrði grafhýsi fyrir Rómverja á grafreitnum hans Péturs. Þeir tóku sig til, keyptu reitinn og byggðu á honum grafhýsi eins og um Rómverja væri að ræða, og tókst þannig að tryggja að gröfin hans væri óhreyfð.

20190125_074113
Hvolfþak Péturskirkjunnar.

Á fjórðu öld lögleiddi Konstantín kristni í Róm, og lét reisa það sem er kallað í dag „Old St. Peter’s“ eða Péturskirkjuna gömlu. Hún var byggð á þessum grafreit, og altarið var haft beint ofan á gröf Péturs. Á sextándu öld var Péturskirkjan sem stendur í dag byggð á rústum fyrri kirkjunnar. Péturskirkjan myndar kross, og í samskeytum krossins er risavaxið hvolfþak. Miðja krossins, og þar með hvolfþakið, er staðsett beint fyrir ofan gröf Péturs.

Að sjálfsögðu er aldrei hægt að vera fullviss um að þetta séu í raun réttri bein Péturs, en þessi saga hefur geymst í munnmælum í mörg hundruð ár, og það er talið að hún standist. Til að renna rökum undir þessa munnmælasögu, þá hafa fundist skriflegar heimildir sem stemma við hana og einnig hafa beinin verið rannsökuð. Rannsókn leiddi í ljós að aldur beinanna stemmir við tímann sem liðinn er frá láti Péturs, beinin eru af fullorðnum manni (á sjötugsaldri, sem var mjög hár aldur á þeim tíma) og mjög virkum manni (Pétur var fiskimaður áður en hann varð postuli).

20190125_105926

Vissulega eru fornleifafræðingar á báðum áttum með þetta, og fólkið sem starfar við þetta gera sér alveg grein fyrir að það er ómögulegt að færa sönnur á þetta endanlega. Þetta er líka spurning um trú – en þeir sem í raun og sann eru kristinnar trúar, þeir trúa að þetta séu bein postulans. Enda er þetta talinn einn af helgustu stöðum kristinnar trúar.

Í biblíunni er sagt að Jesú hafi sagt við Pétur að hann væri kletturinn sem kirkjan myndi grundvallast á. Það má segja að það hafi staðist, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu!

20190125_105011
Baldacchino Berninis, maður áttar sig engan veginn á stærðinni, en fólkið er ágætt til viðmiðunar.

En eins og ég sagði, þá er búið að grafa töluvert þarna undir kirkjunni, en þeir hafa að mestu grafið það sem er öruggt að grafa sökum burðarþols kirkjunnar. Beint fyrir ofan gröf Péturs er páfaaltari, en það er altari þar sem aðeins páfinn má halda guðsþjónustu. Yfir altarinu er svo „Baldacchino“ Berninis, en það er tæplega 30 metra hár tjaldhiminn, sem vegur marga tugi tonna. Hann er búinn til úr hreinu bronsi, sem fékkst úr þakinu á Pantheon.

20190125_105237
Stærð kirkjunnar er alls ekkert gríðarleg, fyrr en þú sérð fólkið sem gengur um gólfið.

Venjulega endar skoðunarferðin í „The Vatican Grottoes“ sem er grafhvelfing páfanna. Hins vegar voru einhverjar framkvæmdir í gangi þar þegar við vorum á staðnum og því vorum við leidd beint upp í kirkjuna.

ufficio-scavi-map-vatican
Hér má sjá hvar maður finnur skrifstofu Scavi. Mynd fengin að láni hjá yourtravelspark.com

 

Ef þið hafið áhuga á að fara í þessa skoðunarferð, þá þarf að sækja um miða með töluverðum fyrirvara (margra mánaða á háannatíma) og þeir úthluta þér degi og tíma. Umsóknir skulu berast með tölvupósti á scavi [hjá] fsp.va, og innihalda full nöfn allra sem óska eftir að fá að koma, hvaða tungumál viðkomandi talar (eða geta skilið) upp á að hægt sé að setja þig hóp með réttum leiðsögumanni, hvaða dagar koma til greina og netfang. Þú færð tölvupóst frá þeim þar sem kemur fram hvenær það er í boði fyrir þig að koma (ef það er laust), og þú þarft að staðfesta það. Þá færðu upplýsingar til að greiða, en það kostar 13 evrur fyrir manninn (að mínu áliti er það gjöf en ekki gjald!).

20190125_111300
Pieta. Michelangelo var 23 ára þegar hann gerði styttuna.

Péturskirkjan er risavaxin. Nei, sko – hún er risavaxin! Tjaldhimininn er 30 metra hár, en þú sérð það samt ekki, þér finnst hann ekkert svo hár – það eru líka tæpir 137m upp í topp á hvolfþakinu! Í Péturskirkjunni er líka að finna Pieta, frægustu höggmynd Michelangelos. Þar má sjá Maríu Mey sitja og syrgja með líkama Jesú eftir krossfestinguna.

20190125_112502
Péturskirkjan frá Péturstorginu.

Vatíkanið er 0,44 ferkílómetrar og það eru 836 einstaklingar sem eru með ríkisborgararétt þar. Það eru bara prestar, kardinálar og páfar sem eru með ríkisborgararétt, allir aðrir sem vinna þar eru ítalskir ríkisborgarar. Í Vatíkaninu er páfahöll, þar sem páfarnir hafa almennt búið. Núverandi páfi neitaði að flytja inn í páfahöllina, honum fannst íburðurinn þar of mikill.

domitillacat
Kirkja St. Domitillu. Mynd fengin að láni hjá phys.org.

Eftir skoðunarferðirnar tvær fengum við okkur að borða, og fórum upp á hótel. Þangað vorum við svo sótt í næstu skoðunarferð. Sú skoðunarferð var í Catacombur st. Domitillu og tvær basilíkur. Catacombur eru neðanjarðarkirkjugarðar sem má finna á ýmsum stöðum í evrópu. Domitilla nokkur gaf kristna söfnuðinum landspildu þar sem kristnir gátu grafið sína látnu neðanjarðar. Kirkjugarðurinn er á fjórum hæðum, en búið er að grafa upp 12 kílómetra af göngum (talið að göngin séu alls um 17 kílómetrar) en þrátt fyrir stærðina er hann ekki sá stærsti í Róm – en hann er, að mér skilst, með einn af þeim best varðveittu.

catacomb-sdomitilla-tunnel
Mynd úr göngum neðanjarðarkirkjugarðsins. Mynd fengin að láni hjá Reidsitaly.com

Grafin voru hólf inn í veggina, þar sem líkin voru lögð, en síðan var gröfinni lokað og hjá betra fólki gjarnan settir marmaraplattar til minningar, eða málverk. Það voru allt að 4-5 hólf á hverjum stað, byrjað í gólfi og upp í loft. Það er búið að opna flestar grafirnar, en margar eru þó enn lokaðar. Gengið er niður í Catacomburnar í gegnum kirkju, eða kapellu, sem er í dag að mestu leyti neðanjarðar.

20190125_155329
St. Johns in Laterano

Eftir heimsóknina neðanjarðar fórum við í Basilíku St. Giovanni in Laterano, sem er ein af fjórum erkibasilíkum í Róm (eða þrem, og einni í Vatíkaninu). Erkibasilíka þýðir að páfinn einn má messa frá aðalaltarinu, og að á þeim eru helgar dyr – það eru dyr sem eru múraðar lokaðar í 24 ár, en svo opnar í 1 ár. Kaþólikkar streyma þá að til að öðlast fyrirgefningu synda sinna.

Basilíkan er fyrsta kristna kirkjan sem var byggð í Róm, en hún var upphaflega byggð á fjórðu öld. Sú sem nú stendur var þó byggð á sautjándu öld, og hönnuð af Borromini. Það má sjá í kirkjunni töluverða endurvinnslu, en aðalhurðirnar eru úr dómhúsinu á Imperial Forum torginu og eru einar af fáum fornhurðum sem eru enn í notkun í borginni í dag. Þær eru tvöþúsund ára gamlar, úr bronsi, hátt í 8 metra háar, en það þarf bara tvo menn til að opna þær, því lamirnar eru svo vel gerðar.

20190125_160546
Meistaraleg endurnýting á marmara

Í marmaragólfi kirkjunnar er mikið mynstur úr hringjum, en þar er verið að endurnýta súlur úr gömlum byggingum sem búið er að sneiða niður eins og pylsur. Það er búið að nýta marmarann í gullfalleg mósaíklistaverk.

20190125_171856
Santa Maria Maggiore.

Seinni basilíkan sem við heimsóttum var líka erkibasilíka, Santa Maria Maggiore. Sagan segir að María mey hafi birst páfanum í draumi og sagt honum að reisa sér kirkju, hún myndi sýna honum hvar. Þá sömu nótt, í ágúst, á að hafa snjóað á þessari hæð, og páfinn fyrirskipaði byggingu kirkjunnar. Líklegri skýring er þó talin vera öskufall, en ekki er vitað um nein eldgos á þeim tíma sem geta rennt stoðum undir þá skýringu.

Þá var föstudeginum, fyrri deginum í Róm, loksins lokið. Við skruppum inn í eina verslun þarna við Santa Maria Maggiore til að kaupa smá glaðning handa dætrum okkar, og drifum okkur svo á veitingastað til að seðja sárasta hungrið. Að því loknu dröttuðumst við upp á hótel þar sem við steinsofnuðum – rétt upp úr 20.00! Góð byrjun á fimmtugsaldri bóndans!

20190125_171036

Lífið

Ástin á bókum

7aa54287ee703577e2697802244fa257.jpg

Það hefur varla farið framhjá nokkrum sem skoðar þessa síðu eða sem þekkir mig, að ég er algjör bókaormur. Nú bý ég í húsi sem er á tveimur hæðum, en á stigapallinum eru bókahillur sem hafa að geyma þær bækur sem ég hef sankað að mér en á eftir að lesa. Þær bækur sem ég á eftir að lesa fylla þær bókahillur og gott betur en það.

20190209_124714
Gæti ekki hugsað mér hlýlegri leið til að nýta stigapallinn!

Um daginn útbjó ég svo plaköt sem ég setti í ramma og lét manninn minn hengja upp fyrir ofan hillurnar mínar. Það er til svo mikið af flottum tilvitnunum um bækur á netinu, sem búið er að setja svo flott upp – en þar kemur íslenskuperrinn upp í mér. Ég vil reyna í lengstu lög að forðast enskan texta á veggjunum hjá mér – þótt á því séu tvær undantekningar.

FB_IMG_1542459432502

Plakötin útbjó ég á síðunni canva.com, en ég fann þá síðu hjá stelpu sem ég kannast við sem bloggar á einfaltlif.wordpress.com. Þar er hægt að útbúa allskonar plaköt, dreifildi og annað, og þar er aðgangur að allskonar myndum, leturgerðum og öllu því sem þarf til að setja upp plakat. Grunnurinn er ókeypis, en hægt er að kaupa aðgang að fleiri myndum og leturgerðum.

46507702_10155615713182407_5377410569122873344_o

Hér má nálgast veggspjöldin sem ég útbjó, í einni pdf skrá. Ég bað svo bara um að þetta yrði prentað á veggspjaldapappír hjá Pedro myndum.

Bækur eru ekki bara góðir vinir og afþreying, heldur eru margar þeirra líka fallegt stofustáss. Ég hef því sigtað út þær fallegustu úr safninu og stillt þeim upp í glerskápnum í stofunni.

20190209_124530

Eins og margir þá klæðist ég mest megnis heimafötum þegar ég er heimavið. Upp á síðkastið (síðustu 2 ár) hef ég haft gaman að því að eignast stöku heimaboli sem endurspegla mig, og þá sér í lagi ást mína á tungumálinu og bókunum.

20190223_125653

Svo að sjálfsögðu á maður margnota poka til að taka með sér á bókasafnið (og Hertex..), en tveir þeirra voru tækifærisgjafir – sem mér er annt um og mikið notaðar.

20190209_124840
Mikið hjartanlega er ég sammála Jorge Luis Borges.

Það er stundum bara einfaldlega svo gott að setjast niður, umkringdur bókum. Ég er nú ekki mjög andlega þenkjandi, ef svo má segja, en mér þykir alltaf sérstakt andrúmsloft í kringum bækur. Þær eru þungar, stöðugar, þær eru eins og klettur. Þær eru þöglar, en tilbúnar að taka í höndina á þér.

20190209_124503
Bara bækur sem mér þykja sérlega fallegar, eða eiga af einhverjum ástæðum skilið að vera til sýnis fá að vera í leshorninu mínu.

Ég elska bókasöfn, og Amtsbókasafnið er alveg dásamlegur staður. Mér finnst það þó hafa verið afturför þegar það var ekki lengur skylda að hafa hljóð á bókasafninu – en ég fæ mig aldrei til að tala hátt, og sussa alltaf á stelpurnar ef þær eru með læti. Hinsvegar, þá hefur Amtsbókasafnið verið að gera dásamlega hluti til að auka heimsóknir á safnið, t.d. með spilaklúbbum, fræðsluerindum, skiptimörkuðum o.fl.

20190209_124454
Bækurnar í leshorninu eru ýmist lesnar eða ólesnar, þrátt fyrir að flestar aðrar séu flokkaðar eftir hvort ég hafi lokið lestri þeirra eða ekki.

Ég nota Gegni.is mikið, og er sjálfsagt stærsti notandi vefsíðunnar sem er ekki bókasafn eða bókasafnsfræðingur. Þegar ég opna Google Chrome, þá eru vinsælustu heimasíðurnar sem ég heimsæki, í þessari röð; netbankinn, Gegnir.is, fasteignir.is og stuttu seinna Goodreads.com.

20190209_124523
Laxness er í sérstöku stúkusæti, en eins og sjá má eru þær misgamlar. Þær hafa komið frá ýmsum stöðum, flestar keyptar notaðar. Hjá þeim er mynd af Eyrúnu minni, skírnarskórnir stelpnanna og þurrkað blóm úr brúðarvendinum.

Ég elska ekki bara að lesa bækur. Ég elska líka að lesa um bækur, fylgjast með því sem er að koma út, fletta upp hinum og þessum höfundum til að sjá hvað hefur verið gefið út eftir þá á hinu ástkæra ylhýra, skoða blogg um bækur o.s.frv.

FB_IMG_1542459964964.jpg

Með því að lesa bækur lærum við gjarnan ýmislegt um okkur sjálf. Við lærum að þekkja hver við erum, hver við erum ekki og hver við viljum vera. Við lærum ný orð, eflum kunnáttu okkar í tungumálinu – sem veitir ekki af! – við kynnumst hugsuðum fyrri tíma, og komumst að því að við erum ekki ein.

FB_IMG_1547626235327.jpg

Dætur mínar hafa alist upp við að það eru bækur allstaðar. Þær hafa líka alist upp við það að mamma þeirra er sífellt að koma með bækur heim, eða með nefið ofan í bók. Þær koma reglulega með mér í Hertex, þar sem ég næli mér í ýmsa eldri gullmola. Síðast þegar ég tók eldri dóttur mína með mér, þá áttaði ég mig á því að hún er búin að læra af mér. Hún keypti fleiri bækur en ég!

52407080_472068943326460_8289919444063354880_n

Um daginn lásu dætur mínar sitthvora skáldsöguna, sem hvor um sig var yfir 400 bls. Ég hafði lofað þeim verðlaunum þegar þær lykju við þær, hvort sem það yrði á þessu ári eða næsta eða þarnæsta. En svo kom að því, ég var rukkuð um verðlaunin. Ég sneri mér á Facebook til að fá ráð um hvað teldust hæfileg verðlaun fyrir þessa frammistöðu. Það voru misjafnar skoðanir, allt frá annarri ferð á bókasafnið til leikhúss. Þá áttaði ég mig á því að það er kannski ekki sjálfgefið að börn á áttunda og tíunda ári ljúki við 400 blaðsíðna bækur eins og að drekka vatn. En ég áttaði mig líka á því að ég vil alls ekki að þær líti á það sem eitthvert sérstakt afrek, með því að verðlauna þær eitthvað gríðarlega. Við ákváðum því að fara með þær í ísbúð, en það höfðum við ekki gert í háa herrans tíð. Þær voru bara mjög sáttar, og nú verður gaman að sjá hvað þær lesa á næstunni!

20190209_144025
Afsprengin með bækurnar sínar! Eldri las reyndar Miðnæturgengið eftir sama höfund, en hún var ekki inni til myndatöku 🙂
Skriftir

Venjulegur dagur í vinnunni – smásaga

Þetta var bara venjulegur dagur í vinnunni.  Ingólfur tuðaði eins og venjulega, það sem einn lítill maður getur átt af uppsöfnuðu tuði.

En hvað um það, frásögnin átti ekki að snúast um Ingólf.

Þennan venjulega dag var ég bara á leiðinni á kaffistofuna, var komin á andlega endastöð hvað uppgjör mánaðarins snerti. Þurfti bara afsökun til að standa upp, svo ég ákvað að sækja mér kaffi í bollann minn. Á leiðinni til baka í básinn minn stoppaði ég hjá glugganum þar sem ég stoppa oft ef ég þarf að hvíla hugann. Útsýnið yfir götuna og húsin í kring er svo fallegt, sér í lagi að vetri til þegar birtan af snjónum og myrkrið takast á um völdin. Myrkrið, ljósin, snjórinn – róin sem þessi þrenning ber með sér. Ég finn hvernig róin að utan síast inn í órólegan huga minn.

En þar og þá, þar sem ég stóð og drakk í mig friðinn að utan þá sá ég hana. Hún stóð hinum megin við götuna, og starði beint á mig. Ég fann kaldan straum leggja frá hnakkagrófinni og niður eftir hryggnum. Ég stirðnaði upp þar sem ég starði út um gluggann. Ég kom til sjálfrar mín við brothljóð, þegar kaffið úr bollanum mínum skvettist yfir buxnaskálmarnar.  Hún hefur ekki vitjað mín í mörg ár.

„Birgitta, Birgitta“ Ég fann höndina á Maríu liggja á öxlinni á mér. „Hvað gerðist? Það var eins og þú værir að sofna, eða að þú værir bara hreint ekki í líkamanum lengur!“

„Ha? Já, æji, sorrý. Bara svaf illa í nótt og Sonja var eitthvað óróleg“

„Elskan mín, er bakflæðið enn að angra hana?“

Síðast þegar hún vitjaði mín var það einmitt á þessum árstíma líka. Hún virðist halda sig í myrkrinu, og skríða aðeins fram þegar minnst varir.

Bucket list, Ferðalög, Lífið

Róm, borgin eilífa – fyrsti hluti

Capture

Maðurinn minn átti stórafmæli á dögunum, þegar kallinn komst á fimmtugsaldurinn. Honum stóð til boða að halda stórt partý eða stinga af og fela sig. Hann valdi að sjálfsögðu síðari kostinn! Og Lína hans bókaði handa honum helgarferð til Rómar, en þangað hefur hann langað að koma alveg síðan ég kynntist honum.

20190124_154459
Stórkostlegt útsýni yfir Alpana.

Norwegian var með alveg djóktilboð á pakkaferðum til Rómar, en janúar er að sjálfsögðu algjör lágannatími á þessum slóðum. Við fengum flug, töskur og 3* hótel með morgunmat á í kringum 80.000 kr. fyrir okkur bæði – samtals. Eini gallinn á gjöf njarðar var sá að flugtímarnir voru þannig að í rauninni höfðum við bara rúma tvo daga – en það eru kostir við allt, við þurftum nefnilega ekki að vakna fyrir allar aldir á ferðadegi, og því vorum við bara flott stemmd þann seinnipart.

20190126_091044

En að fara til Borgarinnar eilífu þýðir að það er nóg að skoða, þótt maður væri þar í margar vikur. Þannig þessir tveir dagar voru vel rúmlega troðfullir af dagskrá! Ég hafði mestar áhyggjur af því að fólk héldi að maðurinn minn hefði farið í felur yfir fimmtugsafmælið en ekki fertugsafmælið því hann yrði svo þreyttur þegar hann kæmi heim! Við fórum út með bókað í tvö flóttaherbergi og fimm skoðunarferðir…

Hótelið sem við bókuðum heitir Hotel XX Settembre (Venti Settembre), og er mjög nálægt Termini lestarstöðinni (aðallestarstöðinni). Hótelið er mjög lítið, aðeins einhver 20 herbergi. Það sést nú töluvert á innanstokksmunum, en allt var mjög hreint og fínt. Þeir bjuggu svo fínt að hafa lyftu, en hún tók í mesta lagi 2 manneskjur, og ferðataskan komst eiginlega ekki með! Morgunmaturinn var evrópskur; þ.e.a.s. brauð og jógúrt og þess lags, og þjónustan í lobbýinu var alveg fyrsta flokks! Ég hafði samband við þau fyrirfram til að láta vita af pökkum á leiðinni frá Amazon, og hvort þau gætu ekki sett kaldan bjór á herbergið fyrir afmæliskallinn minn – það var nú minna en ekkert mál, og þau bókuðu fyrir okkur á veitingastað og voru einstaklega hjálpsöm og liðleg.

20190125_074911
í páfagarði.

Við munum það bara næst að þriggja stjörnu hótel í Róm er ekkert líkt t.d. þriggja stjörnu hóteli í USA. En við getum samt ekki kvartað yfir hótelinu á nokkurn hátt, þau m.a. opnuðu morgunmatinn fyrr en venjulega fyrir okkur á föstudagsmorguninn, þar sem við þurftum að vera mætt í Vatíkanið kl. 7 – en morgunmaturinn var venjulega frá 7 til 10.

20190126_130544

Veitingastaðurinn, Il Cuore di Napoli, sem var nánast við hótelið var dásamlegur ekta ítalskur staður, með pitsur, pasta, sjávarrétti og nefndu það. Þau tóku á móti okkur með freyðivínsstaupi, og pitsurnar þeirra voru alveg dásamlegar! Staðurinn var alveg einstaklega lítill, en í salnum voru 8 borð, og við hvert þeirra geta í mesta lagi fjórir setið.

20190124_204304
Kvöldverður á Il Cuore di Napoli.

Eftir matinn áttum við bókað í flóttaherbergi hjá Locked Roma, en þetta var í fyrsta skipti sem við fórum í flóttaherbergi sem var 90 mínútur. Við leystum það með glæsibrag og áttum 15 mínútur eftir. Það hinsvegar hægði aðeins á okkur að það var gert ráð fyrir að maður vissi hvað verk Da Vincis heita, en þrátt fyrir að við hefðum átt að vita það mundum við það ekki – það er hins vegar almenn þekking á Ítalíu.

20190124_224825

Við ákváðum að ganga heim frá flóttaherberginu, því þetta var nánast eina stundin sem ekki var skipulögð – og á leiðinni heim gætum við séð Castel Sant’Angelo. Hins vegar áttum við ekki von á að nánast detta um Piazza Navona og Largo di Torre Argentina.

20190124_231223
Séð aftan á Péturskirkjuna frá Castel Sant’Angelo.
20190124_231336
Tíber-áin að kvöldi til.

Áður en við fórum út horfðum við að sjálfsögðu á Angels and Demons myndina sem byggir á sögu Dan Brown, en lokaatriðið í þeirri mynd gerist að mestu í Castel Sant’Angelo. Hins vegar höfðum við engan tíma til að skoða bygginguna, langaði bara aðeins að sjá hana. Í beinni línu frá kastalanum má svo sjá bakhliðina á Péturskirkjunni. Keisarinn Hadrían lét byggja Castel Sant’Angelo á annarri öld eftir krist, og ætlaði kastalann sem grafhýsi sitt og fjölskyldu sinnar. Hadrían og fjölskyldu hans var komið fyrir þar, auk líkamsleifa einhverra fleiri keisara. Á fimmtu öld var byggingin notuð sem virki, og á fimmtándu öld var kastalinn tengdur Péturskirkjunni með göngum, en sagan segir að þar sé um að ræða flóttaleið fyrir páfann.

20190124_233821
Gosbrunnur stórfljótanna fjögurra.

Á Piazza Navona skoðuðum við gosbrunn Berninis, Fontana de Quattro Fiumi (gosbrunnur stórfljótanna fjögurra), sem táknar heimsálfurnar fjórar sem heyrðu undir páfadóm.

20190124_235220
Largo di Torre Argentina.

Largo di Torre Argentina er torgið þar sem talið er að Júlíus Sesar hafi verið myrtur. Þetta eru afgirtar fornleifar í miðri borg, sem samanstanda af rústum fjögurra hofa. Torgið er núna griðastaður fyrir heimilislausa ketti, en það er talið að um 100 kettir haldi til þar. Í myrkrinu tókst okkur ekki að sjá einn einasta en þeir eru víst snillingar í að fela sig og koma sér fyrir á furðulegum stöðum þessar elskur.

20190125_072525

Við drifum okkur á fætur kl. 6.00 á föstudagsmorguninn, því við áttum pantað í skoðunarferð um Sistínsku kapelluna fyrir opnun. Við fórum með Vasco, portúgölskum leiðsögumanni, í gegnum Vatíkönsku söfnin þar sem hann benti okkur á það merkilegasta að sjá. Næst þegar ég fer til Rómar, og ég ætla aftur, þá langar mig að fara í mun lengri og stærri skoðunarferð um söfnin, því þau geyma engar smá gersemar. Því miður sáum við ekki Aþenuskólann hans Rafaels, en það er bara eitt af því fjölmarga sem okkur tókst ekki að sjá.

Það má ekki tala í Sistínsku kapellunni (né taka myndir), svo Vasco fór fyrirfram yfir það með okkur hverju við ættum að taka eftir, og hvað við værum að fara að sjá. Kapellan sjálf er býsna stórkostleg, maður á bara erfitt með að trúa sínum eigin augum.

(Hér verð ég að gera eina athugasemd, að gefnu tilefni: það er ekkert x í Sistínsku kapellunni)

20190126_090757

Loftið í Sistínsku kapellunni er yfir 500 fm, og er í 20,7 m. hæð frá gólfi. Michelangelo hafði ekki áhuga á að taka verkið að sér, þar sem hann taldi sig ekki vera málara, hann hafði bara áhuga á marmara og höggmyndum, og taldi sig eingöngu vera myndhöggvara og arkitekt. Hann var nánast neyddur til að taka verkið að sér, en hann málaði allt loftið einn – engir aðstoðarmenn að mála eftir hans forskrift.

20190125_082552
Hluti af einu af fjölmörgum veggteppum á Vatíkönsku söfnunum eftir forskrift Rafaels. Þetta er ekki málverk, heldur vefnaður. Hann hannaði teppin, en svo voru þau gerð í Belgíu, þar sem bestu vefarar Evrópu voru. Rafael lést þó áður en framleiðslunni lauk, og sá þau því aldrei. Þetta teppi er t.d. svo listilega gert að það er eins og augu Jesú fylgi þér þegar þú gengur fram hjá.

Sumir halda því fram að Michelangelo hafi legið á bakinu og málað, en það er ekki rétt. Hefði hann legið hefði hann ekki getað fært sig til, nema með ærinni fyrirhöfn, til að sjá verkið frá ýmsum sjónarhornum. Vegna lofthæðarinnar í kapellunni má segja að hann hafi á hverjum degi lagt sig í lífshættu, þar sem hann stóð og hallaði sér aftur á bak til að mála. Þegar hann hafði lokið við loftið fór hann aftur heim til Flórens. Hann var innan við fertugt en var ónýtur maður eftir fjögur ár af löngum vinnudögum í slæmum stellingum.

20190125_082835
Kortasalurinn í Vatíkaninu. Sjáið loftið!

En hann var ekki sloppinn enn, því þegar hann varð sextugur var hann fenginn aftur í kapelluna, nú til að mála altaristöfluna. Verk hans, the Last Judgment, þekur megnið af annarri skammhlið kapellunnar, og er um 160 fermetrar (það er jafn stórt og 5 herbergja íbúðin mín með bílskúr og allt). Það var maður sem vann í Vatíkaninu sem kom á hverjum morgni að sjá hvernig verkinu vegnaði, og á hverjum degi gagnrýndi hann verkið á allan mögulegan máta. Michelangelo hefndi sín snilldarlega, en hann notaði andlitið á honum á eina af hræðilegustu skepnunum í þeim hluta verksins sem táknar helvíti.

Myndaniðurstaða fyrir the last judgment
The Last Judgment. Mynd fengin að láni hjá Michelangelo.org.

Öll málverk Michelangelos í Sistínsku kapellunni eru freskur – freskur eru gerðar þannig að veggurinn er gifsaður, og svo er verkið málað í blautt gifsið og þá festist liturinn þegar gifsið þornar. Hins vegar, þá hefur listamaðurinn ekki langan tíma til að athafna sig, og ef hann þarf að leiðrétta eitthvað eftir á þarf að skafa klæðninguna af veggnum og byrja upp á nýtt. Obb-obb-obb.

Myndaniðurstaða fyrir the sistine chapel ceiling
Loftið í Sistínsku kapellunni. Mynd fengin að láni hjá twistedsifter.com
Myndaniðurstaða fyrir the creation of adam
Þekktasti hluti kapelluloftsins; Sköpun Adams (The Creation of Adam). Mynd fengin að láni hjá Wikipedia.org.

Jæja, meira síðar.

Lífið

Það sem 2018 skilur eftir

2018 var heilt yfir bara ágætt ár, það skilur eftir margar góðar minningar, og fleiri góðar en hitt held ég að megi segja. Auðvitað var eitt og annað í gangi, eins og alltaf, en við ætlum ekki að tíunda það hér. Við drögum af því lærdóm, og höldum áfram.

Ég komst enn og aftur að því að það er ótrúlega mikið af góðu fólki í kringum mig. Það er fólk úti um allt sem hægt er að leita til, þegar eitthvað bjátar á. Það sprettur upp fólk sem manni datt ekki í hug, og þá fyllist hjartað gleði og þakklæti.

Árið gaf okkur fjórar ferðir út fyrir landsteinana, sem voru dásamlegar. Mér tókst að heimsækja tvö ný lönd; Skotland og Pólland, og þá er ég búin að heimsækja allt í allt 13 lönd. 50 lönd fyrir fimmtugt er tæpt, en það eru sautján og hálft ár, sem þýðir að ég þarf að heimsækja tvö ný lönd (rúmlega) á hverju ári ef ég ætla að ná því. Og það er bara eitt nýtt land á planinu fyrir 2019 eins og er, en þrjár ferðir til landa sem ég hef þegar heimsótt!

IMG_20180802_203437_488

Í febrúar fluttum við, og væntanlega erum við þá komin í framtíðarhúsnæði. Það var erfitt að kveðja Huldugilið, tíminn þar var alveg frábær og okkur leið svo vel þar. En Vættagilið tekur vel á móti okkur og stelpurnar eiga báðar vinkonur hinum megin við götuna, sem er bara dásamlegt. Nú hins vegar er þetta þriðja húsnæðið þar sem við hjónin búum saman, og í hinum tveim hafa fæðst börn. Hver ætlar að fæða barn í Vættagilinu? Ég er hætt, þannig ég óska eftir sjálfboðaliða!

Í júlí bættum við kettlingi við fjölskylduna, en hann fór á nýtt heimili í sama mánuði, þar sem Týra fór í hungurverkfall og var orðin hættulega horuð. Hún var þó fljót að taka gleði sína eftir að Gormur litli flutti til systur minnar, og er orðin bústin og sæt aftur.

IMG_0678

Í ágúst tók Fjölnota þátt í Handverkshátíð í annað skipti og átti frábæra helgi með fullt af frábæru fólki. Við kynntumst þar fullt af fólki með fjölbreyttar og skemmtilegar hugmyndir. Það er svo dásamlegt hvað gestir hátíðarinnar eru áhugasamir og velviljaðir, og margir koma aftur og aftur til okkar. Þótt dagarnir séu langir, þá eru þeir skemmtilegir og gefa mikla gleði í sálina.

Ég fór á tvenna tónleika, Justin Timberlake sem er eilífðarskotið mitt, og Britney Spears, nostalgía frá unglingsárunum. Ég hef aldrei áður farið á tónleika erlendis, en við vissum það báðar að þetta yrði gert aftur. Og við ætlum á tvenna aðra tónleika 2019!

Í september snorklaði ég í Silfru með góðri vinkonu, og það var frábær upplifun, sem ég mæli alveg 100% með! Landið okkar er svo fallegt og mig langar svo að skoða meira af því. Mig langar að fara með fjölskylduna í sumarbústað næsta sumar og nota vikuna til að skoða mig um – sjáum til hvort af því verði.

Í september og október fór ég á námskeið í hugrænni atferlismeðferð á göngudeild geðdeildar SAk. Sálfræðingarnir sem sáu um það voru alveg frábærar, og hópurinn yndislegur. Maður lærði margt um hvernig hugsanamynstur fylgir þunglyndi og kvíða, og hvernig á að brjóta það upp. Námskeiðið var mjög fræðandi og mikil aðstoð í því, og hópurinn alveg framúrskarandi.

Árið nýtti ég vel í að vinna í sjálfinu, sjálfsmyndinni og þunglyndinu. Ég er á betri stað núna í upphafi 2019 en ég hef verið lengi, og get næstum því sagt að ég hlakki til komandi tíma.

Nú stefni ég á að nota ákveðinn tíma í hverri viku í að vinna í geðheilsunni og sjálfri mér, og gera mitt besta til að ná enn betri heilsu. Ég hef líka gert mitt besta til að koma því þannig fyrir að ég muni gera ýmislegt sem mun gleðja mig og gerir mér gott næstu mánuði.

En plön eiga það til að fara úr skorðum, og þá verður það bara þannig. Ef það gerist tökum við því bara með stóískri ró.

Bækur

Uppáhalds bækurnar mínar – 5. hluti

Sumar bækur sem verða vinsælar verða ekki endilega vinsælar vegna þess að þær eru stórbrotnar eða stórkostlegar. Stundum er bara um sammannlega sögu að ræða, einfalda og þægilega frásögn eða einfaldlega frábæra markaðssetningu.

Myndaniðurstaða fyrir húshjálpin

Húshjálpin e. Kathryn Stockett er ekki dæmi um þetta. Bókin varð feykivinsæl þegar hún kom út, og var mjög fljótt gerð bíómynd eftir henni. Mér þótti hún stórgóð, og hún er ein af þeim sögum sem ég gæti alveg hugsað mér að lesa aftur – og það er hrós, þar sem ég hef hingað til bara lesið eina bók tvisvar (og í seinna skiptið var það bara upprifjun til að geta lesið framhaldið).

Myndaniðurstaða fyrir borgarstjórinn af casterbridge

Thomas Hardy finnst mér yndislegur sögumaður, og dæmi um það eru Tess af D’Urberville ættinni  og Borgarstjórinn í Casterbridge. Ég man eftir að hafa séð þessa síðarnefndu í hillu sem unglingur og hugsað hvað þessi bók hlyti að vera leiðinleg. En nokkrum árum síðar sá ég gamlan kennara minn mæla með Tess á Facebook, svo ég náði mér í hana stuttu síðar. Án óþarfa málalenginga; þá heillaði hún mig upp úr skónum og við það kviknaði aftur lestraráhugi minn eftir tæp 3 ár af ungbarnastússi.

Myndaniðurstaða fyrir málverkið ólafur jóhann ólafsson

Málverkið e. Ólaf Jóhann Ólafsson er ein af mínum uppáhalds bókum eftir einn af mínum uppáhalds höfundum. Ég var svo lánsöm að vinna hana í einhverjum leik á Facebook, og ég gleypti hana í mig. Framan af fannst mér hún frekar róleg, en svo hreinlega leit ég ekki uppúr henni fyrr en ég var búin með hana.

Myndaniðurstaða fyrir sláttur hildur knútsdóttir

Hildi Knútsdóttur hafði ég aldrei heyrt um þegar ég fékk bók hennar, Slátt, senda í bókaklúbbnum Uglunni. Bókin var stutt og auðlesin, en það var eitthvað við söguna sem mér þótti svo heillandi. Ég man ekki eftir henni til að rekja söguþráðinn, en í stuttu máli fjallar hún um konu sem fær nýtt hjarta grætt í sig, en það fylgja því minningar og tilfinningar.

Hér er fyrri póstur um uppáhalds bækur.

Ferðalög, Lífið

Aðventuferð til Berlínar – seinni hluti

Þessi færsla er framhald af færslu sem má finna hér.

20181208_162824
Tilvitnun í Otto Frank, föður Önnu Frank, í Anne Frank Zentrum.

Eftir skipulögðu skoðunarferðina á föstudagsmorgninum ætluðum við hjónin í Berliner Unterwelten, en það er fyrirtæki sem býður upp á skoðunarferðir um hulda neðanjarðarheima Berlínar, m.a. neðanjarðarbyrgi úr kalda stríðinu, ónotaðar neðanjarðarlestastöðvar og göng sem notuð voru til að komast frá austri til vesturs. En því miður hafa þeir þann háttinn á að aðeins er hægt að nálgast miða samdægurs, og því var orðið uppselt þegar við höfðum tök á að nálgast miða. Þeir bjóða ekki upp á margar ferðir á dag á ensku, en þeim mun fleiri á þýsku, og töluvert á spænsku líka. Þetta var eitt af því sem var hvað efst á listanum yfir það sem okkur langaði að gera, svo við vorum frekar svekkt með þetta.

20181207_150332

Því héldum við á Alexanderplatz með ferðafélögunum, en við hjónin vorum búin að ákveða að gefa dætrum okkar Playmo í jólagjöf, þar sem það er það heitasta á heimilinu í dag. Við vorum búin að komast að því að í Galeria Kaufhof á Alexanderplatz væri mikið úrval af Playmo og leikföngum almennt, og því héldum við þangað. Hungrið hins vegar rak okkur strax upp á efstu hæð, þar sem er að finna einskonar mötuneyti með allskonar mat. Maður bara valdi sér á bakka og ef maður var með heitan mat eða salat gat maður valið sér á disk og borgað eftir vigt.

20181208_112055
Björninn, tákn borgarinnar.

Galeria Kaufhof er á 6 hæðum; þannig það tók dágóða stund að skanna verslunina. Þarna má fá allt sem hugurinn girnist, eða svo að segja, húsbúnað, leikföng, fatnað, snyrtivörur, fínni matvöru o.fl. o.fl. Við hreinlega misstum andlitið þegar við komum í Playmodeildina, en hún var gríðarlega stór og fjölbreytt á íslenskan mælikvarða. Við fundum það sem við höfðum ákveðið að gefa stelpunum, en kassarnir voru svo stórir að við ákváðum að koma bara sér ferð að sækja þá, þar sem ferðinni var kannski ekki heitið beint upp á hótel eftir Galleríuna.

En þrátt fyrir að hafa ekki keypt jólagjafirnar þá gátum við keypt slatta; ég t.d. náði í nokkur borðspil, playmo, eina jólagjöf o.fl. Það var sérlega einfalt að fá tax free í Galleríunni; maður borgaði eins og venjulega, fór svo með miðann á upplýsingaborðið á fyrstu hæð, þar sem miðinn var skannaður, prentað út tax free formið, stimplað á það og klárt! Almennt þótti mér dásamlega einfalt að fá skattinn af í Þýskalandi.

20181207_130910

Við kíktum líka í Primark og C&A. Primark er á neðstu hæðunum á Park Inn hótelinu, en mér fannst búðin lítil og sóðaleg – enda síðasta Primark búð sem ég fór í mjög stór, falleg og snyrtileg búð í Glasgow. Okkur vantaði ekki neitt, en eldri dóttur okkar vantaði einhver snyrtilegri föt, og langaði í kjóla. Í Primark keypti ég tvær flíkur – já ég veit, ég er á leiðinni að skila íslenska ríkisborgararéttinum – hehe! Ekkert var markvert í C&A, en hingað til hefur mér þótt reglulega gaman að koma í þá verslun.

20181208_133708

Við röltum yfir í Alexa verslunarmiðstöðina, þar sem ég kom eiginmanninum fyrir á bekk á meðan ég þræddi Thalia bókabúðina. Ég get nú ekki sagt að ég hafi misst mig, en ég keypti mér eitt jólaskraut og eina bók! Búðin er á fjórum hæðum og er algjör draumur fyrir bókaorm eins og mig – fyrir utan að mest allt er á þýsku!

HM í Alexa verslunarmiðstöðinni var með allt sem við þurftum, svo við hefðum gott og vel alveg getað sleppt hinum verslununum! Þar fékk ég kjóla fyrir eldri dótturina (og kannski tvo fyrir yngri líka) og samfestinga á þær báðar – en það var líka svo gott sem allt sem ég keypti fyrir dæturnar í ferðinni.

20181207_105113

Þá var kominn tími til að skunda upp á hótel, en við áttum að hitta ferðafélagana 18.45 í anddyrinu, þar sem við vorum á leið út að borða. Við fórum á veitingastað sem heitir Las Melvinas og er bara steinsnar frá hótelinu. Maturinn var ægilega góður, en þjónustan var ekkert spes – þjónninn m.a. gleymdi að færa tveimur okkar drykki.

Það var mígandi rigning þegar við komum út, svo við héldum bara heim á hótel og sátum að sumbli fram eftir kvöldi á hótelbarnum. Strákarnir á barnum kunnu alveg að gera góða drykki, en hjálpi mér allir heilagir hvað þeir voru lengi að því!

20181208_113020
Nikolaiviertel, hverfi byggt á þúsund ára afmæli borgarinnar í gömlum stíl.

Ástandið var mismunandi á mannskapnum morguninn eftir, en þá var í boði gönguferð um austur Berlín, þar sem borin og barnfædd austur þýsk kona leiddi okkur m.a. um Alexanderplatz, Nikolaiviertel, hjá konungshöllinni o.fl. en áhersla gönguferðarinnar var á leynilögregluna Stasi, sem fylgdist með borgurunum á tímum kommúnismans. Leiðsögumaðurinn heitir Marie, og hún lýsti fyrir okkur lífinu eins og það var austan megin múrsins. Hún t.d. skýrði fyrir okkur að áður en Galeria Kaufhof varð að Galeria Kaufhof var þetta Galerían; í raun eina verslunarmiðstöð Austur-Berlínar.

20181208_171424
Séð úr sjónvarpsturninum; Park Inn hótelið, þar sem margir Íslendingar hafa dvalið, og Galeria Kaufhof. Það er hægt að fara í Basejump af þakinu á Park Inn!

Göngutúrinn með Marie endaði svo á Gendarmenmarkt, en þar var einn af eldri jólamörkuðum borgarinnar. Persónulega fannst mér hann ekki merkilegur, hann var eiginlega ekkert nema allt of dýrt fjöldaframleitt jólaskraut og matur. Við stoppuðum þar örstutt, áður en við kíktum örstutt í Deutscher Dom, en þar má finna ágætis sýningu um sögu borgarinnar.

20181208_131431
Svoldið mygluð daginn eftir aðeins of marga kokteila. Pós með Berlínarbirninum.

Við ákváðum því að grípa neðanjarðarlest á Alexanderplatz þar sem við ætluðum að sækja jólagjafir dætranna. En þá var hillan þar sem önnur gjöfin hafði verið tóm! En í Playmodeildinni var maður, sérstaklega merktur Playmo, sem kom til okkar og reddaði okkur. Við héldum með gríðarlega kassana í sporvagninn og skildum allt eftir á hótelinu áður en við héldum á Hackescher Markt til að kíkja aðeins í Anne Frank Zentrum, en þar var að finna ýmsar myndir af og upplýsingar um Önnu og fjölskyldu hennar. Það merkilegasta voru viðtöl við Ottó, föður hennar, og aðra sem þekktu til fjölskyldunnar, en því miður var það bara lítill hluti sýningarinnar. Núna, eftir að vera nýbúin að lesa bókina, og heimsækja þetta safn, þá verð ég að fara til Amsterdam og heimsækja húsið. Verst að hingað til hef ég ekki haft neina sérstaka löngun eða þörf fyrir að fara til Amsterdam.

Það var alls ekki hlaupið að því að finna safnið, en maður fer inn í húsasund, og þar upp á þriðju eða fjórðu hæð. Við vorum búin að þvælast port úr porti áður en við fundum þetta! Aðgangseyrir með leiðsögn eru 6 evrur, en með Berlin Welcome Card var hann 4.5 evrur.

20181208_161950
Stjarna líkt og Gyðingar þurftu að bera á upphandleggnum. Anne Frank Zentrum.
20181208_154037
Graff fyrir framan Anne Frank Zentrum.

Við höfðum pantað okkur „skip-the-line“ miða í Sjónvarpsturninn (Fernsehturm / Berlin TV Tower), en hann er 368 metra hár, og útsýnispallurinn er í um 203 metra hæð. Hann var byggður á sjöunda áratugnum, en auk þess að sjá um sjónvarpsútsendingar átti hann að vitna um styrk og skilvirkni sósíalismans. Í dag er hann álitinn tákn um sameinað Þýskaland.

20181208_171634
Í sjónvarpsturninum.

Við vorum í sjónvarpsturninum um 17.00 leytið á laugardeginum, svo það var orðið dimmt. En útsýnið var svakalegt, og gefur góða mynd af því hve gríðarlega stór borg Berlín er. Berlin Welcome Card veitir afslátt af miðum sem keyptir eru á staðnum, en ekki ef þeir eru pantaðir fyrirfram eins og við gerðum, og mig minnir að það sé heldur ekki afsláttur af „skip-the-line“ miðum.

Þá var komið að jólamatnum, en við höfðum pantað okkur borð á Weihenstephaner Berlin. Weihenstephan er brugghús, og því bjóða þeir aðeins upp á eigin bjór. Þeir voru með einar 8 tegundir á dælu, og einhverja til viðbótar í flöskum – svo úrvalið var gott! Þeir voru með jólaseðil, og ég veit ekki betur en að flestir hafi verið mjög saddir og sælir að máltíð lokinni.

20181208_183904
Kjallarinn á Weihenstephaner.

Þar með var skipulagðri dagskrá okkar hjóna lokið, en á heimleið komum við við á Alexanderplatz til að klára smá jólagjafastúss, áður en við fórum heim að pakka.

Heilt yfir var ferðin mjög góð. Furðulegt þótti mér samt að við hittum fararstjórann tvisvar, þ.e.a.s. þegar hún var með okkur í rútunni á leiðinni frá flugvelli á hótel fyrsta daginn, en þá sagði hún okkur ýmislegt frá borginni. Svo áður en við lögðum af stað með Eirik í skoðunarferðina á degi 2. Það voru engir viðtalstímar, ekkert símanúmer hjá henni og síðasta daginn taldi vinkona hennar hausana í rútunni, en hún kom ekki til að telja og kveðja. Þannig mér þótti mjög takmarkað fara fyrir fararstjórninni.

20181209_083306
Útsýnið útum hótelgluggann.

Morgunmaturinn var fínn, hótelið var gott, hótelbarinn var fínn (að frátöldum tímanum sem það tók að fá drykkinn sinn), flugið var gott og ekki yfir neinu að kvarta!

Berlín er mjög áhugaverð borg, en ég hugsa að það sé skemmtilegra að heimsækja hana að vori til.

IMG_20181209_150820_910

Skriftir

11 skotheldar leiðir til að eignast nýja vini á fullorðinsárum

Maður sér reglulega umræðu um það hve erfitt geti verið að eignast nýja vini á fullorðinsárum, þannig ég ákvað að taka saman nokkrar skotheldar og margprófaðar leiðir, sem hafa reynst mér vel í gegnum árin:

 1. Farðu á kaffihús þar sem er nóg að gera, og ekkert borð laust. Kauptu þér drykk í bolla, alls ekki til að fara með. Spurðu hvort þú megir setjast við eitt borðið þar sem fólk situr, þar sem það séu engin sæti laus. Byrjaðu að tala. Tada – kominn fyrsti vinurinn.
 2. Farðu í fataverslun og bjóddu fólki ókeypis ráð. Fólk vill ekki skrum og innantómt hrós, það vill hreinskilni; segðu því ef þér finnst klúturinn ekki fara því, eða skórnir ljótir. Tala nú ekki um ef gallabuxurnar eru of þröngar, eða vömbin slapir í kjólnum. Þannig eignastu sanna vini.
 3. Farðu í Bónus og stattu við kælinn þar sem kjúklingurinn er, passaðu þig að standa ekki grunsamlega heldur eins og þú sért að skoða kjúklinginn til að finna rétta bakkann. Gott er að líta af og til upp og ganga áfram, en koma svo bara aftur. Áður en líður á löngu kemur einhver til að grípa sér kjúlla, þá skaltu andvarpa og spyrja hvað viðkomandi ætli að elda úr þessu, þú vitir ekkert hvað þú eigir að elda. Ef það kemur á viðkomandi, skaltu bara kasta fram einhverju eins og: bringur með pestó? Reynslan hefur sýnt mér að viðkomandi mun segja annað hvort já eða nei, og ef það kemur nei, þá fylgir oftast á eftir hvað viðkomandi ætlar að gera. Þá geturðu gripið tækifærið og annað hvort spurt hvort þú megir ekki bara kíkja í mat, eða að þú gerir nú svo gríðargóðan svona-og-svona rétt, hvort það megi ekki bara bjóða honum/henni til þín í kvöld?
 4. Áttu börn? farðu með þau á leikvöllinn og segðu þeim að hrinda öðrum krakka. Þá stekkurðu til og hjálpar barninu, en á sama tíma kemur væntanlega foreldri þess. Þá byrjarðu á því að biðjast margfaldlega afsökunar á barninu þínu sem verður svo óviðráðanlegt þegar það sefur lítið, þá ertu búin að opna fyrir að segja þeim alla ævisöguna og þið eruð orðnir mestu mátar áður en þú veist af.
 5. Er mamma þín á elliheimilinu? Keyptu tvo miða í leikhús. Gríptu eina af starfsstúlkunum sem sér um hana blessaða móður þína og þakkaðu henni fyrir bljúgt hjarta hennar og hve göfug hún sé að fórna lífi sínu til að sjá um aldraða. Í þakkarskyni langi þig að gefa henni hérna miða í leikhús. Þegar hún þakkar þér fyrir, gerirðu henni grein fyrir að þú átt annan þeirra, og að þú verðir deitið hennar fyrir kvöldið. Þetta getur bara ekki klikkað!
 6. Fáðu þér hund. Það er aðgöngumiði að hundasvæðum. Á hundasvæðum er tilvalið að gefa sig á tal við aðra hundaeigendur, en mundu bara að segja nógu oft hvað þú elskar hundinn þinn, að það hafi ekki verið neitt líf fyrir hundinn og þú gætir ekki án hans verið. Gott að skella inn einni sögu um hvað þér leið illa þegar hundurinn veiktist eða eitthvað álíka. Bara eitthvað nógu dramatískt til að koma tárunum út á fólki.
 7. Gerðu þér upp verki í brjóstkassa eða kviðarholi, og linntu ekki látum fyrr en þú verður lagður inn. (Eða hvern þann krankleika sem þér dettur í hug, en passaðu þig að hafa hann bara nógu alvarlegan!) Þegar það er búið að leggja þig inn eru miklar líkur á því að það verði fleiri en bara þú á stofunni; þar er fólk sem kemst lítið sem ekki neitt og þið getið orðið perluvinir!
 8. Gefðu þig á tal við Vottana og Mormónana. Bjóddu þeim í mat þegar þeir banka uppá, þú getur eflaust haldið þeim eins lengi og þú hefur löngun til, og þeir koma alltaf aftur og aftur og aftur…
 9. Farðu í sund, gefðu konum góð ráð hvernig losna megi við ör og appelsínuhúð, hvernig stinna megi brjóst og maga – og hvað annað sem fyrir augu ber. Þær munu vera þér þakklátar!
 10. Rúntaðu um bæinn. Í hvert skipti sem þú sérð kött fara yfir götuna skaltu gefa í og reyna að ná honum. Gættu þess bara að hann sé merktur, svo þú getir fundið hvar hann á heima. Þegar þú hefur slasað hann eða drepið, skaltu halda heim til eigandans, bera þig mjög aumlega og hugga svo viðkomandi. Ef þú kemur þér inn úr dyrunum ertu á grænni grein!
 11. Oft þegar líða fer á kvöldin gerist æði rólegt í verslunum og á bensínstöðvum. Þú skalt gerast fastagestur, og með tíð og tíma geturðu stoppað lengur og lengur, þar til þú ert orðinn vel málkunnugur starfsfólkinu, og búinn að eignast vini á hverri vakt!

Öll þessi ráð hafa gefist mér vel, en ég er alltaf til í fleiri. Það gengur misvel að eignast vini, og því miður þarf maður stundum að losa sig við þá á einn eða annan hátt – kannski vegna þess að þeir fundu beinin í kjallaranum, eða kjötið í frystinum. En það sparar bara útgjöld vegna fæðis!

 

Lífið, Skriftir

Lína og sóðakjafturinn – Gamansaga frá 2015

Einn dag var ég inni í eldhúsinu að sýsla, bara eins og gengur og gerist hjá húsmæðrum almennt (forðist að draga af því ályktanir um hæfni mína sem húsmóður). Ég var nýbúin að tína úr uppþvottavélinni og var að raða í hana aftur, þegar ég heyri innan úr herbergi dóttur minnar yngri hinn hroðalegasta munnsöfnuð og formælingar, en hún var þar að leik.

Ég er í eðli mínu siðprúð kona, vönd að virðingu minni. Ég stóð í þeirri trú að okkur hefði tekist alveg sæmilega upp með uppeldi dætranna hingað til, þær virðast a.m.k. kurteisar og ágætlega upp aldar út á við.

Þið sjáið örugglega fyrir ykkur líkamstjáningu mína – ég stóð bogin yfir uppþvottavélinni þegar þetta berst mér til eyrna. Ég stífna upp, það réttist svo úr bakinu að það verður óeðlilega beint, augun kiprast saman svo aðeins sér út um litlar illskulegar rifur á augnlokunum, varirnar verða þunnar og litlausar þegar ég bít saman kjálkunum og pressa þær saman. Ekki ósvipað og ímynda mér Violet Crowley í Downton Abbey ef hún yrði hressilega móðguð.

Og þá heyrast formælingarnar aftur, en af munni yngri dótturinnar hljóma greinilega orðin „Dick Fuck!“ – Yngri dóttir mín er fjögurra ára, og ég skil ekki hvaðan hún hefur þennan munnsöfnuð.

Violet

Ég stikaði ákveðnum skrefum að herbergi hennar, og geri henni ljóst að svona munnsöfnuð skuli ekki viðhafa undir nokkrum kringumstæðum, og maður eigi yfir höfuð ekki að láta falla af vörum sínum orð sem maður skilur ekki. Dóttirin játar því, og heldur leiknum áfram.

Nokkrum dögum síðar er dóttirin að leika sér í spjaldtölvunni sinni og þá heyrast frá henni sömu orðin aftur – ég stekk til, hvað í ósköpunum er viðkvæm sálin að skoða í spjaldtölvunni? Þarna var þó komin eðlileg útskýring á munnsöfnuðinum, hún hlyti nú að hafa rekist á eitthvað á YouTube sem væri ekki við hennar hæfi.

Ekki var það þó svo, að stúlkukindin væri að horfa á YouTube eða nokkuð annað myndskeið. Hún var einfaldlega að opna litabókarleik, en meðan hann hleður sig hljómaði í eyrum barnsins heiti framleiðandans; Pink Fong.

Pink fong

 

Ferðalög, Lífið

Aðventuferð til Berlínar

Við fórum í aðventuferð með vinnunni minni til Berlínar 6.-9. desember síðastliðinn, pakkaferð með Gaman ferðum. Innifalið í ferðinni var flug, taska, fararstjórn, hótel, rúta til og frá hóteli, skoðunarferð (40 evrur auka á manninn) og jólamarkaðsferð.

20181207_111127

Við lögðum af stað suður eftir vinnu á miðvikudegi, en aldrei þessu vant gistum við ekki á BB Keflavík, heldur Hotel Aurora Star Airport, en aðeins skammtímabílastæðin á flugvellinum skilja að hótelið og flugstöðina. Það var reyndar dásamlega hentugt, þar sem flugið var klukkan 6.00! Hinsvega byrjar morgunmatur hjá þeim ekki fyrr en kl. 4.00, svo við náðum ekki að nýta okkur það. Hótelið var mjög fínt og snyrtilegt, en mikið var kalt og blautt að klöngrast yfir bílastæðin í roki og slyddu á fastandi maga!

20181206_120316

Við lentum í Berlín um 10.45 og fórum með rútu upp á hótel. Þar settum við töskurnar í geymslu og eftir það hófst allt flandrið okkar hjóna! Ég var búin að verja miklum tíma við að kynna mér borgina og átti svo erfitt með að velja hvað ég vildi gera, ég hefði sennilega auðveldlega getað fyllt viku eða tíu daga og samt ekki náð að gera allt! Borgin, eins og gefur að skilja, er barmafull af sögu og áhugaverðum stöðum.

20181207_134303
Kaiser Wilhelm Gedächtniskirche.

Áður en við lögðum í hann keyptum við okkur Berlin Welcome Card, en það veitir ótakmarkaðan aðgang að almenningssamgöngum borgarinnar. Við keyptum til þriggja sólarhringa, og borguðum fyrir 28,9 evrur á manninn. Auk þess veitir kortið afslátt af ýmsum söfnum og áhugaverðum stöðum. Stök ferð í almenningssamgöngur kostar 1.5 evrur, svo á þann hátt kannski spöruðum við okkur ekki mikið með kortinu, en við tókum aldrei leigubíl né Uber alla helgina, svo við viljum meina að þetta hafi verið góð kaup – það safnast svo hratt saman í leigubílaferðum!

20181206_155223
Hluti af múrnum við Topography of Terror.

Fyrsti viðkomustaður var Mall of Berlin, þar sem við fengum okkur að borða. Food Courtið (ég þekki ekkert íslenskt orð yfir þetta fyrirbæri, annað en Stjörnutorg, og því mun ég nota það – láttu mig vita ef það er annað orð!) þar er ótrúlegt, það er langtum flottasta stjörnutorg sem við höfum komið í. Það er sett saman eins og street food venue, og fyrir utan staði sem eru á flestum svona stjörnutorgum (McD’s, Pizza Hut, KFC..) þá var kínverskur, ítalskur, indverskur, víetnamskur, tælenskur… Við fórum í ítalskan, og komumst að því að þetta var líka flottasta stjörnutorg sem við höfðum komið á að því leiti að þeir voru ekki með einnota diska og hnífapör, heldur alvöru borðbúnað. Eina sem var einnota voru glös og flöskur fyrir drykki. Dásamlegt!

20181206_135623

Þegar við vorum orðin södd og sæl röltum við smá spotta, en við áttum bókað í flóttaherbergi hjá House of Tales, herbergi sem heitir Illuminati. Herbergið var mjög flott og vel gert, en þar voru a.m.k. tvær þrautir sem við höfðum ekki séð áður, og sumar þrautirnar (eða lausnirnar öllu heldur) þóttu okkur frekar langsóttar. En við komumst út, bara með nokkrar sekúndur eftir, en leikjastjórnandinn (Game Master, sá sem fylgist með) kom inn þar sem við vorum með lausnina, en það munaði sentimeter að við hefðum lagt hlutinn á réttan stað.

20181206_142135
Hluti af flóttaherbergjunum í boði hjá House of Tales.

Eftir að hafa sloppið úr flóttaherberginu héldum við í Berlin Story Bunker, en þó með viðkomu í Topography of Terror. Topography of Terror er í rauninni safn sem byggt er á staðnum þar sem höfuðstöðvar Gestapó og SS voru, og þar var lagt á ráðin um mörg af hræðilegustu grimmdarverkum seinni heimsstyrjaldar. Húsið var svo gott sem jafnað við jörðu í lok stríðsins, en það stendur enn einn veggur af kjallaranum í húsinu, og þar er fróðleikur um ýmislegt er við kemur sögu hússins og því sem gerðist þar. Safnið snýr að mestu leyti um ofsóknir á gyðingum, en það er sett upp á mjög myndrænan hátt. Það er frítt inn, og hægt að fá leiðsögn með mp3 spilara án endurgjalds. Við gengum um útisvæðið og lásum skiltin þar, kíktum svo aðeins inn áður en við ákváðum að drífa okkur í Bunkerinn – við settum hann ofar á listann en safnið, og ætluðum svo bara að nýta þann tíma sem eftir væri til að skoða Topographyið.

20181206_141509
Múrinn og inngangurinn að Topography of Terror.

Við erum sammála um að Berlin Story Bunker sé það áhugaverðasta sem við gerðum í Berlín. Sýningin sem er þar hefur yfirskriftina „Hitler – hvernig gat þetta gerst?“ En hún virðist vera að mestu leyti samansett af einum manni, Wieland Giebel. Sýningin skiptist í 38 rými eða kafla, þar sem farið er yfir lífshlaup Hitlers, hvernig hann varð maðurinn sem hann varð og hvernig hann fór að því að komast til valda og koma sínum ógeðslegu áformum í framkvæmd. Það kostar 12 evrur inn á sýninguna, og 1,5 í viðbót að fá leiðsögn á mp3 spilara, en það er fullkomlega þess virði. Berlin Welcome Card veitir 3 evru afslátt af aðgangseyri á hvern keyptan miða.

20181206_162818
Inngangur að portinu þar sem Berlin Story Bunker er að finna.

Að skoða alla sýninguna með leiðsögninni tekur um 2 klst, og þú mátt gera ráð fyrir að koma hálf-lamaður út. Ég var gersamlega búin á því, hálf óglatt og miður mín. Sýningin endar á endurgerð af skrifstofunni sem Hitler hafði í neðanjarðarbyrginu þar sem hann eyddi sínum síðustu dögum, en það var einmitt þar sem hann og Eva Braun sviptu sig lífi. Ég get ekki mælt nóg með þessari sýningu!

20181206_162914
Ekki sérlega aðlaðandi inngangur að Berlin Story Bunker, en hæfir sýningunni.

Þegar við vorum búin í Berlin Story Bunker gengum við til baka og fórum í fljótheitum yfir Topography of Terror sýninguna sem var innandyra, en það var farið að styttast í seinna flóttaherbergið okkar. Við hefðum viljað hafa tíma til að fá okkur leiðsögn um þetta safn líka, en það má kannski gera það næst.

20181206_155606
Kjallaraveggur, eini hlutinn af aðalstöðvum Gestapó og SS sem stóð eftir sprengingarnar.

Við héldum aftur í House of Tales þar sem við áttum bókað herbergi sem heitir Dead Monks. Sagan var sú að fjórir munkar höfðu fundist látnir í klaustrinu á stuttum tíma, en ef frá var talið að þeir voru allir svartir á fingrunum var ekki hægt að sjá neitt á þeim sem útskýrði dauða þeirra. Verkefni okkar var að komast að því hvað gerðist. Við vorum  mun ánægðari með þetta herbergi en hitt fyrra, en þó þótti okkur ekki allar lausnir rökréttar, og stundum vantaði bara hreinlega eitthvað sem gæfi til kynna hvað ætti að gera.

20181206_154407
House of Tales.

Hinsvegar kláruðum við herbergið á 54:38, með 8 vísbendingum. Leikstjórinn sagði að meðaltal vísbendinga í herberginu væri 15, og því hefðum við staðið okkur mjög vel. Herbergið var gríðarlega flott og vel gert!

20181206_210419

Þegar við komum út aftur var klukkan langt gengin í níu, svo við gripum strætó aftur upp á hótel og innrituðum okkur. Hótelið okkar heitir Leonardo Royal Hotel Alexanderplatz, og var mjög kósý, hreint og fínt. Ég hefði alveg viljað vera örlítið nær Alexanderplatz, en gangan þangað tók um 10 mínútur. Hins vegar tók svo gott sem enga stund að grípa sporvagn þangað, og fyrst við vorum með Berlin Welcome Card var þetta bara alveg frábært.

20181207_102607
Treptower garðurinn
20181207_102916
Sovéskur hermaður krýpur af virðingu við fallna félaga. Stóra minnismerkið fyrir aftan hann er búið til úr graníti úr höll Hitlers.
20181207_102907
Sovéskur hermaður sem vakir yfir þeim 7.000 mönnum sem grafnir eru þarna. Hann heldur á barni, og sverði sem hefur brotið hakakrossinn.

Eftir vel útilátinn morgunmat á föstudagsmorgun var haldið í 4 klukkustunda skoðunarferð um borgina með Eirik Sördal, sem býr þar í borg. Skoðunarferðin fór að mestu fram í tveggja hæða rútu, en við stoppuðum þrisvar sinnum þar sem farið var út úr rútunni. Við sáum m.a. minnismerkið um helförina, kanslarahöllina, East Side Gallery, Brandenborgarhliðið, ráðhúsið, Reichstag (þingið), Kurfursterdamm, KaDeWe o.fl. Við stoppuðum í Treptow garðinum þar sem er að finna stórt Sovéskt minnismerki um seinni heimsstyrjöldina, en undir minnismerkinu er að finna fjöldagröf sovéskra hermanna. Þar er talið að það hvíli einir 7.000 sovéskir hermenn. Við stoppuðum líka á Bernauer Strasse, þar sem má sjá hluta af múrnum. Þar er einnig búið að setja upp eftirlíkingu af hinu svonefnda dauðasvæði, en það er ca. 20 metra breitt belti milli múranna tveggja þar sem finna mátti blóðþyrsta hunda, gadda, varðturna og allt sem þeim datt í hug til að koma í veg fyrir flótta frá austri til vesturs. Svo komum við við á Ólympíuleikvanginum frá 1936.

20181207_115115
Bernauer Strasse.

Eirik var flottur leiðsögumaður, en hann þekkir borgina og sögu hennar greinilega vel. Hann tekur að sér leiðsögn fyrir hópa, og það má hafa samband við hann í gegnum tölvupóst; eirik.sordal(hjá)gmail.com.

 

 

 

20181207_114215
Bernauer Strasse, minnismerki um múrinn. Járnstangirnar sýna hvar múrinn var.

 

20181207_114931
Einn tveggja eða þriggja varðturna sem standa eftir frá tímum múrsins. Þarna voru hermenn sem skutu á alla sem reyndu að komast yfir.

 

20181207_120457
Sýnishorn af „grasi Stalíns“ – svona 10-15 cm yddaðir gaddar úr steypustyrktarjárni sem var á dauðasvæðinu milli múranna. Ef þér tókst að klifra yfir múrinn lentirðu á þessu – og varst ekki til stórræðanna.

Hér má svo lesa það sem eftir er af ferðasögunni.