Eva Luna e. Isabel Allende. Það er bara eitthvað við Isabel Allende! Eva Luna er munaðarleysingi, og hér fáum við að heyra sögu hennar og fólksins sem hún hittir.
Austan Eden e. John Steinbeck minnir að mörgu leyti á söguna um Adam og Evu og bræðurna Cain og Abel. Aðalpersónan, Adam, flytur til Kaliforníu til að hefja búskap. Eiginkona hans missir tökin á tilverunni eftir fæðingu tvíburasona þeirra hjóna, svo Adam stendur uppi einn með drengina.
Forsöguna að Allt hold er hey e. Þorgrím Þráinsson fíla ég ekki, og lét sem ég hefði ekki heyrt hana, þar sem hún er ótrúverðug og dregur úr sögunni að mér finnst. Sagan gerist á tímum Skaftárelda og fjallar um örlög fólks sem hraktist frá heimkynnum sínum.
Bókina Vesalingana e. Victor Hugo hafði ég átt lengi og miklað mikið fyrir mér. En svo þegar ég byrjaði á henni þá hreinlega gleypti ég hana. Sagan gerist í París á fyrri hluta 19. aldar, og við fylgjumst með dæmdum glæpamanni hefja nýtt líf. Hann tekur að sér unga stúlku sem hefur misst móður sína og gengur henni í föðurstað.
Sögusafn bóksalans e. Gabrielle Zevin heillaði mig mjög á sínum tíma. Þetta er bók sem minnir okkur á hvers vegna bækur og sögur skipta máli. Bókin lætur lítið yfir sér, enginn hasar eða læti, en bara hugljúf saga af fólki sem manni fer fljótt að þykja vænt um.
Saga Forsytanna e. John Galsworthy er fjölskyldusaga í þrem bindum, en John Galsworthy hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1932. Sagan birtist fyrst í heild sinni undir þessu heiti rétt upp úr 1920. Í bókunum er rakin saga Forsyte-fjölskyldunnar, sem telst nýrík í Englandi um aldamótin 1800-1900. Þegar sagan hefst, er stóreignamaðurinn Soames Forsyte upptekinn við að safna auði, en eftir því sem tíminn líður minnkar auðurinn, þar til undir restina er fjölskyldan orðin eignalaus og fjölskylduböndin eru farin að trosna. Ég hafði sérlega gaman af þessum bókum, hver elskar ekki gamlar og dramatískar sögur?
Geim, Buzz og Bubble e. Anders de la Motte eru með betri glæpa-þríleikjum sem ég hef lesið. Ég var lasin heima einn dag þegar ég tók mér Geim í hönd og ég hreinlega gleypti hana. Smákrimminn HP finnur gemsa, sem býður honum að taka þátt í leik. Með því að taka áskorunum sem berast í gegnum símann vinnur hann sér inn verðlaun, og verðlaunin stækka eftir því sem áskoranirnar verða erfiðari. Áskoranirnar eru að sjálfsögðu ekki allar löglegar, og sumar beinlínis hættulegar bæði honum og öðrum. En þótt hann reyni að hætta, þá heldur leikurinn honum föstum tökum.
Ég veit afhverju fuglinn í búrinu syngur e. Maya Angelou. Maya Angelou er algjör fyrirmynd. Ég veit afhverju fuglinn í búrinu syngur er fyrsti hluti sjálfsævisögu hennar, sem alls eru sjö bækur. Bókin lýsir uppvexti Mayu, en foreldrar hennar hafa skilið hana og bróður hennar eftir hjá ömmu hennar og frænda, þar sem þau geta ekki sinnt þeim eða hafa lítinn áhuga á því. Hún lýsir því hvernig var að alast upp sem hörundsdökk stúlka á fjórða og öndverðum fimmta áratugnum í Arkansasríki í Bandaríkjunum. Sem barn er hún misnotuð, og hún ákveður að tala ekki framar. Ég er búin að lesa allar 5 bækurnar sem hafa verið þýddar á íslensku, en síðustu tvær voru ekki þýddar.
Hús andanna var fyrsta bókin sem ég las eftir Isabel Allende. Sagan þótti mér heillandi þótt ég ætti svolítið erfitt með þann hluta sem fellur undir töfra í hugtakinu töfraraunsæi. Hins vegar var eitthvað við hana, því ég er langt komin með að lesa það sem þýtt hefur verið eftir Allende.
Maður sem heitir Ove e. Fredrik Backman fór sigurför um landið (eða heiminn?) þegar hún kom út, enda stórskemmtileg bók sem tekur samt líka á átakanlegum málum. Það er búið að gera bíómynd (þótt ég hafi ekki séð hana) og svo var settur upp einleikur með Sigga Sigurjóns sem var gríðarvel heppnaður. Ef þú hefur ekki lesið hana, þá mæli ég eindregið með að þú gerir það nú þegar!
Margar gamlar sígildar bækur falla í kramið hjá mér og Anna Karenína eftir Leo Tolstoj þótti mér alveg frábær! Mér finnst gaman að lesa um þennan tíma þegar konur klæddust síðkjólum og ástin var ekki sjálfsögð.
Ómunatíð e. Styrmir Gunnarsson rakst ég á fyrir nokkrum árum síðan í nytjagámnum sem var og hét. Ég vissi ekkert um þessa bók, en þegar ég las aftan á hana og sá að þetta var saga þeirra hjóna af baráttu við geðsjúkdóm greip ég hana með mér. Sagan hafði mikil áhrif á mig, og setti í samhengi hvernig lífið hlýtur að vera fyrir fjölskyldu þess sem þjáist af geðsjúkdómi. Alls ekki löng bók, en stór á annan hátt.
Sumar bækur sem verða vinsælar verða ekki endilega vinsælar vegna þess að þær eru stórbrotnar eða stórkostlegar. Stundum er bara um sammannlega sögu að ræða, einfalda og þægilega frásögn eða einfaldlega frábæra markaðssetningu.
Húshjálpin e. Kathryn Stockett er ekki dæmi um þetta. Bókin varð feykivinsæl þegar hún kom út, og var mjög fljótt gerð bíómynd eftir henni. Mér þótti hún stórgóð, og hún er ein af þeim sögum sem ég gæti alveg hugsað mér að lesa aftur – og það er hrós, þar sem ég hef hingað til bara lesið eina bók tvisvar (og í seinna skiptið var það bara upprifjun til að geta lesið framhaldið).
Thomas Hardy finnst mér yndislegur sögumaður, og dæmi um það eru Tess af D’Urberville ættinni og Borgarstjórinn í Casterbridge. Ég man eftir að hafa séð þessa síðarnefndu í hillu sem unglingur og hugsað hvað þessi bók hlyti að vera leiðinleg. En nokkrum árum síðar sá ég gamlan kennara minn mæla með Tess á Facebook, svo ég náði mér í hana stuttu síðar. Án óþarfa málalenginga; þá heillaði hún mig upp úr skónum og við það kviknaði aftur lestraráhugi minn eftir tæp 3 ár af ungbarnastússi.
Málverkið e. Ólaf Jóhann Ólafsson er ein af mínum uppáhalds bókum eftir einn af mínum uppáhalds höfundum. Ég var svo lánsöm að vinna hana í einhverjum leik á Facebook, og ég gleypti hana í mig. Framan af fannst mér hún frekar róleg, en svo hreinlega leit ég ekki uppúr henni fyrr en ég var búin með hana.
Hildi Knútsdóttur hafði ég aldrei heyrt um þegar ég fékk bók hennar, Slátt, senda í bókaklúbbnum Uglunni. Bókin var stutt og auðlesin, en það var eitthvað við söguna sem mér þótti svo heillandi. Ég man ekki eftir henni til að rekja söguþráðinn, en í stuttu máli fjallar hún um konu sem fær nýtt hjarta grætt í sig, en það fylgja því minningar og tilfinningar.
Mýs og menn e. John Steinbeck. Almennt elska ég allt sem John Steinbeck skrifaði, og mýs og menn er engin undantekning. Bækur Steinbecks eru á kjarnyrtu og fallegu máli, og mér þykir persónusköpun hans yndisleg.
Stúlka með perlueyrnalokk e. Tracy Chevalier. Ég var frekar efins með þessa þegar ég byrjaði á henni, en hún hreif mig með sér. Ég elska sögulegar skáldsögur, og þessi er alveg prima.
Tilræðið e. Yasmina Khadra. Þessi bók er mjög sérstæð. Fjallar um það þegar maður fær upphringingu þess efnis að konan hans hafi látist í sprengingu á veitingastað, og jafnvel beri ábyrgð á sprengingunni. Þetta kemur eiginmanninum í opna skjöldu, og við fylgjumst með honum takast á við þetta og leita skýringa.
Vonarstræti e. Ármann Jakobsson. Söguleg skáldsaga – og alveg listilega vel gerð! Hún fjallar um Skúla og Theódóru Thoroddsen á umbrotatímum í sögunni, þegar Ísland stefndi í átt að sjálfstæði. Þetta er mjög vel unnin heimildaskáldsaga, og persónurnar svo lifandi og skemmtilegar. Theodóra varð hreinlega vinkona mín við lesturinn.
Jæja, nú er ég búin að setja saman lista yfir bækur sem ég ætla að lesa, eins og ég einsetti mér á Bucket listanum.
Á listanum er bæði klassík og nýlegar bækur, eftir íslenska höfunda og erlenda, á íslensku og ensku, fyrir börn og fullorðna…
Ég les nánast einungis á íslensku, og það kemur ekki til af slakri enskukunnáttu, heldur þeirri sannfæringu að við notum ensku svo mikið frá degi til dags, horfum á sjónvarpsefni á ensku, lesum greinar og hlustum á hlaðvörp á ensku o.s.frv., að það veitir ekki af að lesa góðan íslenskan texta til að halda við íslenskunni hjá sér.
Listinn er í stafrófsröð, en engri sérstakri lesröð eða áhugaröð.
1
12 years a slave
Solomon Northup
2
Ævintýri Pickwicks
Charles Dickens
3
All the light we cannot see
Anthony Doerr
4
Allt sundrast
Chinua Achebe
5
Anna í Grænuhlíð serían
L.M. Montgomery
6
Auðar-þríleikurinn
Vilborg Davíðsdóttir
7
X
Aulabandalagið
John Kennedy Toole
8
Bréf til Láru
Þórbergur Þórðarson
9
Búddenbrooks
Thomas Mann
10
Býr Íslendingur hér
Garðar Sverrisson
11
X
Dagbók Önnu Frank
Anna Frank
12
Dalalíf
Guðrún frá Lundi
13
Dauðar sálir
Nikolai Gogol
14
X
Davíð Copperfeld
Charles Dickens
15
Dimmur hlátur
Sherwood Anderson
16
Ditta Mannsbarn
Martin Andersen Nexö
17
Dreggjar dagsins
Kazuo Ishiguro
18
X
Duld
Stephen King
19
Duttlungar örlaganna
John Steinbeck
20
Ef að vetrarnóttu ferðalangur
Italo Calvino
21
X
Elskhugi lafði Chatterley
D.H. Lawrence
22
Ethan Frome
Edith Wharton
23
Faðir, móðir og dulmagn bernskunnar
Guðbergur Bergsson
24
Fjötrar
W. Somerset Maugham
25
Framúrskarandi dætur
Katherine Zoepf
26
X
Frankenstein
Mary Shelley
27
Gamli maðurinn og hafið
Ernest Hemingway
28
X
Gerpla
Halldór Laxness
29
Glerhjálmurinn
Sylvia Plath
30
Glitra daggir, grær fold
Margit Söderholm
31
X
Gösta Berlingssaga
Selma Lagerlöf
32
Græna mílan
Stephen King
33
Grænn varstu dalur
Richard Llewellyn
34
Grámosinn glóir
Thor Vilhjálmsson
35
Greifinn frá Monte Cristo
Alexandre Dumas
36
Gróður jarðar
Knut Hamsun
37
X
Halla og Heiðarbýlið
Jón Trausti
38
Harry Potter serían
J.K. Rowling
39
Helreiðin
Selma Lagerlöf
40
Hetja vorra tíma
Mikhail Lermontov
41
Hinir smánuðu og svívirtu
Fjodor Dostojevski
42
Hundrað ára einsemd
Gabriel Garcia Marquez
43
Hundrað dyr í golunni
Steinunn Sigurðardóttir
44
Húsið á sléttunni serían
Laura Ingalls Wilder
45
Hvítklædda konan
Wilkie Collins
46
Í ættlandi mínu
Hulda
47
X
Í góðu hjónabandi
Doris Lessing
48
Í Skálholti
Guðmundur Kamban
49
Íslenskur aðall
Þórbergur Þórðarson
50
Kaffihús tregans
Carson McCullers
51
Kantaraborgarsögur
Geoffrey Chaucer
52
Karamazov bræðurnir
Fjodor Dostojevski
53
Konan í dalnum og dæturnar sjö
Guðmundur Hagalín
54
Kóralína
Neil Gaiman
55
Krókódílastrætið
Bruno Schulz
56
Land og synir
Indriði G. Þorsteinsson
57
Langur vegur frá Kensington
Muriel Spark
58
Lesið í snjóinn
Peter Höeg
59
Leyndardómar Parísarborgar
Eugene Sue
60
Lolita
Vladimir Nabokov
61
María Stúart
Stefan Zweig
62
Móðirin
Maxim Gorky
63
Mrs. Dalloway
Virginia Woolf
64
Nafn rósarinnar
Umberto Eco
65
Njósnarinn sem kom inn úr kuldanum
John le Carré
66
Nonni og Manni
Jón Sveinsson
67
Norwegian Wood
Haruki Murakami
68
Nóttin blíð
F. Scott Fitzgerald
69
Öreigarnir í Lódz
Steve-Sem Sandberg
70
Pelli Sigursæli
Martin Andersen Nexö
71
Perlan
John Steinbeck
72
Pósturinn hringir alltaf tvisvar
James M. Cain
73
Punktur punktur komma strik
Pétur Gunnarsson
74
Ráðskona óskast í sveit
Snjólaug Bragadóttir
75
Ragtime
E.L. Doctorov
76
X
Rakel
Daphne DuMaurier
77
Réttarhöldin
Franz Kafka
78
Rómeó og Júlía
William Shakespeare
79
Saga þernunnar
Margaret Atwood
80
Saga tveggja borga
Charles Dickens
81
Salka Valka
Halldór Laxness
82
Spámennirnir í Botnleysufirði
Kim Leine
83
Stikilsberja-Finnur
Mark Twain
84
Sturlungaaldarbækurnar
Einar Kárason
85
Svart blóm
John Galsworthy
86
Svipur kynslóðanna
John Galsworthy
87
The Other Boleyn Girl
Philippa Gregory
88
The Tenant of Wildfell Hall
Anne Bronte
89
Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum
Erich Maria Remarque
90
X
Tíu litlir negrastrákar
Agatha Christie
91
Töframaðurinn frá Lúblín
Isaac Bashevis Singer
92
Tómas Jónsson metsölubók
Guðbergur Bergsson
93
Tvennir tímar
Knut Hamsun
94
Umrenningar
Knut Hamsun
95
X
Útlendingurinn
Albert Camus
96
X
Veröld ný og góð
Aldous Huxley
97
We Need to Talk About Kevin
Lionel Shriver
98
Þóra frá Hvammi
Ragnheiður Jónsdóttir
99
Þriðjudagar með Morrie
Mitch Albom
100
Þúsund og ein nótt
Mikið af titlunum á listanum eru bækur sem ég á nú þegar, bækur eftir höfunda sem ég hef lesið áður, bækur sem mér finnast hálf-ógnvekjandi, eða eftir höfunda sem ég hef aldrei lesið áður! Sumar verða áskorun, en aðrar verða auðveldar – en það er líka það sem þetta snýst um 🙂
Ég setti upp lista þar sem hægt er að merkja við það sem þú hefur lesið, endilega merktu við og deildu með mér hverjar þessara þú hefur lesið!
Það væri gaman að heyra frá þér ef þú hefur lesið eitthvað af þessum, eða ef það er einhver sem þér finnst sárlega vanta á listann!
Í dag tala ég um annan nóbelshöfund og einn enn af mínum uppáhalds íslensku.
Khaled Hosseini skrifar ekki bækur sem eru auðveldar aflestrar, þær eru tilfinningalega krefjandi. Flugdrekahlauparinn sló náttúrulega í gegn, og þótti frábær. En mér þótti Þúsund bjartar sólir engu síðri. Þúsund bjartar sólir fjallar um tvær eiginkonur sama mannsins, þar sem önnur getur ekki átt börn en hin seinni verður strax ófrísk.
Sumarljós, og svo kemur nóttin e. Jón Kalman Stefánsson. Jón Kalman er náttúrulega snillingur með pennann. Sumarljós, og svo kemur nóttin er um lífið og tilfinningarnar í litlu þorpi úti á landi, og maður kynnist persónunum svo vel. Mér þótti bókin dásamleg upplifun, því hún var meira en lestur.
Kamelíufrúin e. Alexandre Dumas yngri. Þetta er stærsta verk Alexanders Dumasar yngri, en sagan er sögð í óperunni La traviata eftir Verdi. Sagan fjallar um Marguerite Gautier sem er fylgdarkona við frönsku hirðina, og Armand Duval, burgeisa, sem verður ástfanginn af henni.
Kristín Lafranzdóttir e. Sigrid Undset. Sigrid Undset fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1928. Sagan um Kristínu Lafranzdóttur gerist á miðöldum, og fylgir Kristínu frá vöggu til grafar. Það eru pólitískir umbrotatímar í Noregi, og Kristín verður leiksoppur karlmanna og örlaganna – en hún er samt sterkur karakter. Bækurnar um Kristínu eru þrjár; Kransinn, Húsfrúin og Krossinn, og ég hreinlega varð yfir mig hrifin af þeim. Ég varð svo hrifin að ég vildi ekki klára þær strax og ætlaði að geyma mér síðustu bókina. Síðan eru liðin 10 ár, þannig ég hugsa að ég verði að byrja upp á nýtt til að klára síðustu bókina!
Nú höldum við áfram að tala um bækur, en í þessum pósti tökum við fyrir einn nóbelsverðlaunahafa, og tvo af mínum uppáhalds íslensku höfundum.
Mynd fengin að láni hjá visir.is
Það hefur bara ein bók eftir Tessu de Loo verið þýdd á íslensku, en það er bókin Tvíburarnir. Bókin fjallar um tvíburasystur sem eru aðskilar og aldar upp hvor á sínu heimilinu, þar sem önnur býr við harðræði en hin við ást og umhyggju. Sem gamlar konur hittast þær aftur, og við fylgjumst með þeim rifja upp gamlar minningar og kynnast upp á nýtt. Sagan var hugljúf en á köflum strembin, en heilt yfir mjög góð. Textinn var skemmtilegur, og oft hnyttinn. Það eru komin rúm tíu ár síðan ég las þessa bók en ég minnist þess enn þegar verið var að lýsa píanókennaranum sem var í svo þröngum buxum að það sást greinilega hvort hann geymdi liminn í hægri ellegar vinstri buxnaskálminni.
Mynd fengin að láni hjá bokmenntaborgin.is
Sem unglingur var ég viss um að íslenskir miðaldra karlkyns rithöfundar væru það leiðinlegasta í heimi; menn eins og Hallgrímur Helgason, Einar Kárason, Ólafur Jóhann Sigurðsson og nafni hans og sonur Ólafsson, o.s.frv. En svo fékk ég bókina Aldingarðinn senda í bókaklúbbi Uglunnar. Bókin hefur að geyma tólf smásögur sem eiga það sameiginlegt að fjalla um ástina. Ég hafði aldrei lesið smásagnasafn, og hafði ekki mikinn áhuga á svona miðaldra íslenskum karlkyns rithöfundum, en gaf þessu séns. Ég var rétt byrjuð í Háskólanum á þessum tíma og hefði átt að vera að lesa fyrir Rómarrétt, en ég gleypti bókina í mig á sólarhring, og eftir þetta er Ólafur Jóhann Ólafsson einn af mínum uppáhalds íslensku höfundum. Og ég losnaði við fordóma gagnvart þessum hópi rithöfunda!
Mynd fengin að láni hjá netbokabud.is
Doris Lessing fékk nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2007. Grasið syngur er fyrsta bók hennar og einnig fyrsta bókin sem ég nældi mér í eftir hana. Bókin gerist á fimmta áratugnum, þar sem núna er Zimbabwe, og grunnstef bókarinnar er kynþáttamismunun í landinu, sem þá var bresk nýlenda. Bókin byrjar með frásögn af morði; þar sem hvít kona er myrt af svörtum þræl sínum. En bókin sjálf er svo saga konunnar fram að þeim tíma að hún er myrt. Lítil og þunn bók, en vel þess virði að lesa.
Mynd fengin að láni hjá forlagid.is
Kristín Marja Baldursdóttir hefur skrifað margar góðar bækur, en ein þeirra er Hús úr húsi. Bókin fjallar um konu sem flyst heim til móður sinnar eftir skilnað, og tekur að sér að leysa ófríska vinkonu sína af, en sú tekur að sér heimilisþrif. Í gegnum þrifin kynnist hún allskonar fólki, og finnur að lokum lífsneistann aftur. Kristín Marja er einn af mínum uppáhalds íslensku rithöfundum, en bæði bækurnar um Karitas og Mávahlátur eru mjög góðar.
Það væri mjög gaman að heyra skoðanir annarra á þessum bókum, ef þið hafið lesið þær. Svo minni ég á að ég skrifa alltaf eitthvað smávægilegt um hverja bók fljótlega eftir að ég lýk henni hér, og öllum er velkomið að fylgjast með og leggja orð í belg! Annars má finna fyrri færslu um uppáhalds bækur hér.
Ég segi „uppáhalds bækurnar“ mínar, en sannleikurinn er sá að ég á ekki uppáhalds bækur. Ég hef lesið of margar bækur sem mér þykja góðar til að geta átt uppáhalds bók eða bækur.
Ég hef haldið lista yfir allt það sem ég hef lesið frá því árið 2006, með titli, höfundi, blaðsíðutali og degi sem ég lauk við bókina. Alls telur listinn í dag rúmlega 550 bækur, en þær væru fleiri ef ég hefði ekki farið í 6 ára háskólanám í millitíðinni og eignast tvö börn – en þeim fjölgar býsna hratt þessar vikurnar.
Mig langar að taka hérna nokkrar eftirminnilegar bækur fyrir, þrátt fyrir að það sé langt síðan ég las sumar þeirra, þá er eitthvað við þær sem fær þær til að festast í minninu.
Mynd fengin að láni hjá forlagid.is
Ég hef lesið allar þrjár bækur Alice Sebold sem hafa komið út. Svo fögur bein þótti mér alveg frábær glæpasaga, sem ég held ég muni aldrei gleyma. Síðar sá ég myndina, en eins og gjarnt er með myndir sem eru gerðar eftir bókum og bókaorma; það var ekki að gera sig. Mér fannst myndin ekki bara skemma söguna, heldur fannst mér myndin bara allt of „arty farty“ fyrir sögu sem er í grunninn glæpasaga.
Mynd fengin að láni hjá forlagid.is
Bókin Heppin er líka eftir Alice Sebold, en sagan segir frá upplifun Alice af nauðgun, eftirmála hennar og áhrifum nauðgunarinnar á líf hennar. Bókin dregur nafn sitt af því að þegar hún tilkynnti árásina til lögreglu, sögðu lögreglumennirnir henni frá því að þeir hefðu fyrir einhverju síðan fundið stúlku á sama stað og hún varð fyrir árásinni, nema henni hafði verið nauðgað og svo hefði hún verið myrt. Þannig Alice væri heppin!
Mynd fengin að láni hjá forlagid.is
Glæpur og refsing e. Fjodor Dostojevski er eitt af stóru nöfnunum. Ég man að ég var lengi með hana, þetta var ekki texti sem maður las hratt. En þrátt fyrir að hún væri kannski þyngri en það sem ég las á þessum tíma, þá hugsa ég enn reglulega til Raskolnikovs. Dostojevski skrifar þannig að manni líður eins og Raskolnikov, og finnur örvæntingu hans.
Mynd fengin að láni hjá Simonandschuster.com
Svo náttúrulega er það Jane Eyre e. Charlotte Bronte. Það er í raun lítið um hana að segja en sagan er yndisleg. Sagan er klassísk og ekki ein af þeim þyngri, svo hún er góð byrjun á klassískum bókmenntum!
Mynd fengin að láni hjá holabok.is
Jan Guillou datt ég um á útsölu í Eymundsson fyrir mörgum árum, en ég keypti báðar bækurnar hans sem voru þar; annars vegar Leiðin til Jerúsalem og hins vegar Musterisriddarann. Þessar sögur þóttu mér yndislegar, og ég hef sjaldan orðið jafn spæld og þegar ég komst að því að þriðja bókin hefði aldrei verið þýdd, og þríleikurinn því ófullkomnaður. En samt sem áður voru bækurnar báðar alveg frábærar, og henta vel fólki sem finnst gaman að lesa sögulegar skáldsögur.