Lífið

Kvikmyndaáskorun 2020

Það verður bara að segjast eins og er að ég horfi mjög lítið á sjónvarp. Ég veit ekki hvort þær bíómyndir sem ég hef séð síðan eldri dóttir mín fæddist nái að vera jafn margar og árin síðan hún fæddist. Og engar þáttaraðir eða myndaseríur hef ég séð síðan.

En Amtsbókasafnið deildi á dögunum Kvikmyndaáskorun, sem við hjónin ákváðum að taka þátt í – en þar sem myndirnar eru 24, þá er allt árið 2020 undir. Persónulega þykir mér gríðarlegt afrek ef ég næ að horfa á tvær myndir á mánuði í tólf mánuði!

En þar sem ég hef svo gott sem ekki horft á sjónvarp í 10 ár, þá setti ég það skilyrði að ég fengi að vera við stjórnvölinn í að ákveða hvaða myndir við horfum á. Eiginmaðurinn játti því, og þótt hann hafi reynt að telja mig ofan af einni eða tveimur myndum, þá var bara ekkert hlustað á það!

FB_IMG_1574351252987

Í dag lítur listinn svona út, en ég ábyrgist ekki að farið verði eftir númeraröð:
1. Kvikmynd sem byggð er á bók: The Help.
2. Kvikmynd sem kom út á sjötta áratugnum: Bridge on the River Kwai.
3. Kvikmynd með mannsnafni í titlinum: The Talented Mr. Ripley.
4. Kvikmynd sem gerist í stríði: Schindler’s List.
5. Heimildakvikmynd (ekki um einstakling): UseLess.
6. Kvikmynd sem gerist á stað sem þú hefur heimsótt: The DaVinci Code.
7. Kvikmynd með uppáhalds lagi: A Star is Born.
8. Kvikmynd sem er leikstýrt af Íslendingi: Hvítur, hvítur dagur.
9. Kvikmynd á öðru tungumáli en íslensku eða ensku: Das Leben der Anderen.
10. Kvikmynd sem er lengri en 120 mínútur: Gone With the Wind.
11. Umdeild kvikmynd: We Need to Talk About Kevin / Silence of the Lambs.
12. Kvimynd sem hefur hlotið Óskarsverðlaun: 12 Years a Slave.
13. Teiknimynd: Nightmare Before Christmas.
14. Árstíðarkvikmynd: Last Christmas.
15. Kvikmynd með uppáhalds leikaranum: The Great Gatsby.
16. Kvikmynd með farartæki framan á kápunni: Fast and Furious: Hobbes and Shaw.
17. Kvikmynd með löngum titli: The Englishman Who Went Up a Hill and Came Down a Mountain.
18. Kvikmynd með eins-orðs-titli: Spartacus.
19. Mynd sem kom út árið 2019: Cosmic Birth. (Ekki um fæðingar, heldur geimferðir)
20. Kvikmynd með konum í aðalhlutverkum: Sisters.
21. Söguleg kvikmynd: The Other Boleyin Girl.
22. Fantasíu- eða vísindakvikmynd: The Pirates of the Caribbean: On Stranger Tides.
23. Metaðsóknarmynd: The Shawshank Redemption.
24. Svokölluð „feel-good“ kvikmynd: Little Miss Sunshine.

Þess má geta að enga þeirra hef ég séð, fyrir utan þessa síðustu.

Það má vel sjá gegnumgangandi þema í þessum lista, en fjöldi þessara mynda byggist á bókum. Þetta verður fróðlegt, en ég á alveg skilið að fá einhver verðlaun ef ég hef mig í gegnum þetta!

Lífið

Eins árs afmæli!

Bloggsíðan varð eins árs núna 30. maí, en þá setti ég inn fyrsta póstinn! Ég hef sett inn einn póst á síðuna í hverri viku síðan, og hyggst halda ótrauð áfram.

Tilgangurinn var margþættur; að halda utan um ferðasögur og annað það sem ég er að brasa, að koma mér til að skrifa texta reglulega og að sýna sjálfri mér að ég hefði ýmislegt fram að færa og ýmislegt að lifa fyrir.

Það sem ég hef birt á þessum tíma hefur verið margvíslegt, þótt ferðasögur og bækur séu kannski plássfrekastar. Ég hef farið út og suður, tæpt á geðheilsu, flóttaleikjum, skrifað litla prósa og smáar smásögur.

Ég hef ekki verið að gera neitt til að deila blogginu, nema ég deili því sem ég skrifa á mína eigin Facebooksíðu. Eins og gefur að skilja fá póstarnir mismikla athygli, en á þessu fyrsta ári hafa vinsælustu póstarnir verið;

 

 1. Að fara til tannlæknis í Póllandi er greinilega vinsælt efni. Það kemur væntanlega til vegna þess hve dýrt getur verið að fara í stórar framkvæmdir á tönnum hérlendis.
   

  received_1658628504251385
  Hjá tannsa í Póllandi.
 2. Heimafæðingar hafa lengi vakið áhuga fólks, en margir hafa heitar skoðanir á efninu þrátt fyrir að hafa kannski ekki kynnt sér það til fulls. Ég skrifaði um hvers vegna ég ákvað að eiga Eyrúnu mína heima á sínum tíma, og meira að segja ljósmóðirin deildi póstinum.
   

  IMG_0496
  Eyrún á leiðinni í heiminn.
 3. Í kjölfarið fylgir svo ferðasagan frá Varsjá í Póllandi (í þrem hlutum; hér, hér og hér), en sú ferð var líka ein af kveikjunum að þessari síðu. Það var hreinlega svo margt sem við skoðuðum og gerðum sem mig langaði að segja frá, og mér fannst samfélagsmiðlaformið ekki henta.
   

  Snapchat-959083664
  Útsýnið úr Palace of Culture and Science
 4. Jólin geta tekið á geðheilsuna, og ég skrifaði örlítið um það hér. Það hefur greinilega lagst vel í mannskapinn, þar sem það er einn af mest lesnu póstunum.
 5. 11 leiðir til að eignast nýja vini á fullorðinsárum er póstur með sérlega svörtum leiðum til að kynnast fólki, og ég ræð þér alfarið frá því að fara eftir þeim ráðum.
 6. Næst kom myndatakan sem ég fór í Regent’s Park síðasta sumar, en mig hafði lengi langað að fara í myndatöku bara fyrir mig sjálfa. Ég er rosalega ánægð með myndirnar sem komu úr tökunni!
   

  © Budget Photographer London
  Úr myndatökunni í Regent’s Park.
 7. Að ferðast er eitthvað sem ég hef gert töluvert af síðustu ár, þannig mér var bent á að skrifa aðeins um það sem ég pakka og tek með.
   

  20181024_212459
  Pakkað fyrir utanlandsferð.
 8. Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hvað ég vil fá út úr lífinu, hvað mig langar að gera og upplifa. Það varð til þess að ég setti upp svokallaðan Bucket-list, til að reyna að koma í veg fyrir að maður fresti hlutunum út í hið óendanlega. Það hefur bara gengið býsna vel, en ég hef síðan strikað út 12 atriði eða tæp 11%.
   

  IMG_1789
  Heimsótti Taj Mahal 2012 – gullfallegt.
 9. Við hjónin vorum ekkert voðalega spennt fyrir París, hafði aldrei langað neitt sérstaklega að fara þangað. En þegar við komum féllum við algerlega fyrir borginni (hefurðu heyrt það áður?). Ég rifjaði upp ferðina og skrifaði um hana.
   

  Snapchat-448642981
  Dásamlega Notre Dame.
 10. Við vinkonurnar ákváðum að skella okkur í road trip suður á land til að fara að snorkla í Silfru. Það var alveg frábær ferð, og eitthvað sem ég hefði sennilega aldrei komið í verk ef ekki hefði verið fyrir Bucketlistann og tilboð Tröllaferða um að það væri frítt fyrir Íslendinga í nokkrar valdar ferðir þeirra – þeir eiga því þakkir skyldar! Tröllin birtu svo umfjöllun mína á heimasíðunni sinni.
   

  DCIM100GOPROGOPR8241.JPG
  Silfra er gullfalleg náttúruperla.

Það skiptir mig máli að skrifa, en minna máli hver eða hversu margir lesa, svo framarlega sem ég held áfram að æfa mig í notkun skrifaðs máls. Hins vegar er alltaf mjög gaman að sjá að fólk les póstana!

Mig langar að þakka kærlega fyrir lestur síðunnar og þau hrós sem ég hef fengið. Endilega skiljið eftir einn þumal eða athugasemd og látið mig vita hvað ykkur finnst!

Doing my happy dance!
Afþreying, Bucket list, Ferðalög, Lífið

Flóttaleikir (Escape Rooms)

Snapchat-725168957
Inngangurinn að Engima Room í Varsjá veikti örlítið vissu okkar um að við kæmum yfir höfuð út aftur!

Recording Studio hjá Enigma Room í Varsjá er fyrsta flóttaherbergið sem ég fór í, við vorum 4 saman en við hjónin drógum eiginlega vinahjón okkar með okkur. Þau voru ekkert gríðarlega spennt, en létu sig hafa það. Og sjá! Þetta var svo þrusu gaman, að við fórum aftur daginn eftir, og þá voru þau ekkert minna spennt en við!

Söguþráðurinn í Recording Studio var sá að við vorum tónlistarmenn sem höfðum gefið út mjög heita plötu, en svo hafði ekkert gerst í langan tíma. Framleiðandinn var orðinn frekar pirraður, búinn að ganga á eftir okkur svo mánuðum skiptir og kallar okkur loks á fund sem við gátum ekki skorast undan, þar sem spurningin var um líf eða dauða í bransanum. En þegar við mætum á staðinn er hann horfinn. Og við læsumst inni.

Herbergið var mjög vel upp sett, með földum rýmum og skemmtilegum þrautum. Þrautirnar snerust að miklu leyti um eitthvað tónlistartengt, en ekki þurfti neina tónlistarþekkingu til. Herbergið var ráðlagt fyrir 2-5 manns og erfiðleikastig 3/5. Við komumst út þegar um 9 mínútur voru eftir af tímanum, og vorum gersamlega komin með bakteríuna!

IMG_20180512_200150_049

Hacker Room hjá Enigma Room var svo herbergið sem við tókum kvöldið eftir. Sagan er sú að við erum hakkarar, sem vorum beðnir um að aðstoða yfirvöld, þar sem grunur leikur á að hópur hakkara muni ráðast inn í gagnagrunna sem innihalda upplýsingar um borgarana. Það er okkar að stöðva þá.

Herbergið var, eins og gefur að skilja, fullt af tölvudóti og þrautirnar snerust meira um kóða en í fyrra herberginu. Mælt var með að þátttakendur væru 2-5 og erfiðleikastigið var 3/5. Við komumst út þegar 11 mínútur voru eftir af tímanum. Þetta herbergi féll ekki alveg að mínu áhugasviði, en það skiptir svosem ekki öllu máli.

IMG_68221024
Mynd fengin að láni hjá enigmaroom.pl

Kleppur/Asylum hjá Akureyri Escape. Asylum er þriðja herbergið sem Akureyri Escape setur upp, en við misstum af fyrstu tveim herbergjunum (Bankaráninu og mannráninu). Sagan var þannig að við læstumst inni á geðveikrahæli, þar sem voru blóðug handaför á veggjunum og blóðugar dúkkur, o.þ.h. Eitt af því fyrsta sem við fundum var bréf frá fyrrum vistmanni, og kemur þar fram að hinn klikkaði læknir komi til baka eftir 60 mínútur. Ta-Tamm!

Stelpan sem á Escape Akureyri sér um það frá A-Ö. Hún hannar herbergin, smíðar og græjar það sem þarf, semur sögurnar o.s.frv. Hún á alveg heiður skilinn fyrir þetta, þetta er ótrúlega flott hjá henni!

Við vorum fjögur saman, við hjónin og vinahjón okkar. Við áttum eitthvað erfitt með að komast af stað, en svo small eitthvað og allt fór að ganga. Það endaði svo að með við slógum metið í herberginu, en herbergið hafði verið opið í sjö og hálfan mánuð! Við vorum ekki lítið lukkuleg með það – enda svosem bara þriðja herbergið hjá þrem okkar, og annað hjá fjórða leikmanninum. Tíminn var 31:42 og er langbesti tíminn okkar í flóttaherbergi enn þann dag í dag.

IMG_20181019_214347

Þá var komið að því að prófa flóttaherbergi upp á eigið einsdæmi, en þegar við fórum til Glasgow tókum við þrjú herbergi, og þá vorum við aðeins tvö að spila saman hjónin. Það þótti okkur svolítið stressandi tilhugsun, en svo reyndumst við rúlla því upp.

Fyrsta herbergið sem við tókum var Witch House in the Scottish Highlands hjá Locked in. Herbergið var mjög flott, ekkert smá lagt í að vera með rétta stemmningu. Herbergið var svartmálað og mjög takmörkuð lýsing. Það var stemmningstónlist, svona draugaleg skógarhljóð í bakgrunni. Maður byrjar í fremra herbergi, sem er eins og fyrir utan hús nornarinnar, en um miðbik leiksins kemst maður inn í kofann.

Herbergið var mjög vel heppnað, og ég mæli heilshugar með því ef þið eruð á ferðinni í Glasgow. Herbergið er fyrir 2-6 spilara, og sagt af erfiðleikastigi 3,5/5. Á heimasíðu fyrirtækisins segir að hlutfall þeirra sem sleppi sé 78%. Við kláruðum á 52:27, en ég verð að segja að ég hefði ekki boðið í að vera 6 saman í herberginu, það hefði hreinlega verið svolítið þröngt, ég held að 2-4 sé alveg fullkomið.

FB_IMG_1540745673569

Annað herbergið sem við fórum í var Enigmista hjá Escape Reality. Þetta herbergi var nú eiginlega bara aðeins of mikið fyrir mig! Sagan er semsagt þannig að fjöldamorðingi gengur laus, og nú hefur hann náð ykkur. Hann hefur sérlega gaman að því að fylgjast með hvað fórnarlömbin eru tilbúin að gera til að reyna að sleppa.

Maður hefur leik handjárnaður við lagnir, og það er „lík“ fest með keðjum á stólpa í herberginu, og það lítur út fyrir að viðkomandi hafi látið lífið á afar kvalafullan hátt. Það er rökkvað í herberginu, en blóðslettur upp um veggi. Ég átti mjög erfitt með að gera nokkurn skapaðan hlut til að byrja með, eiginlega stóð bara og sagði eiginmanninum að gera þetta, kíkja þarna, athuga þetta! Það var örugglega frekar kómískt að fylgjast með þessu! En með keppnisskapinu óx mér kjarkur og þor, svo á endanum var ég farin að henda til útlimum eins og ekkert væri.

Í eitt skiptið brá mér samt svo mikið að ég öskraði alveg neðan úr maga, af þvílíkri innlifun. Í þessu fyrirtæki var ekki gert mikið úr tímanum, en hann var einhversstaðar um 43:30. Erfiðleikastigið 4/5. Þetta var þrusugaman, en ég hugsa að ég haldi mig frá svona subbulegum herbergjum á næstunni!

FB_IMG_1541011445469

Svona voru fyrstu fimm herbergin sem við fórum í – og við erum alveg háð þessum leikjum! Þetta er svo þrusugaman!

Fyrir áhugafólk um flóttaherbergi bendi ég á facebook hópana Escape Room Enthusiasts og Europe Escape Enthusiasts.

Lífið, Skriftir

Lína og stöðumælaverðirnir – gamansaga frá 2015

Einn daginn, sem oft áður, var ég á leið heim úr vinnu. Ég kom að bílnum mínum þar sem hann stóð á fastleigustæði í miðbæ Akureyrar. Hlamma mér inn, legg töskuna frá mér í farþegasætið. Þegar ég lít upp er það fyrsta sem ég sé stöðumælasekt! Ég lít í hornið á rúðunni, og jú, þar liggur fastleigukortið sem heimilar mér að leggja í stæðið þar sem bíllinn stendur. Upphófust nú í huga mér allar hinar óforskömmuðustu formælingar sem ég gat upphugsað – ég tek það fram að ég er almennt mjög skapgóð og umburðarlynd, en ég hafði fyrr um daginn hlustað á ræðu um það hve mikil fornaldartröll og erkibjálfar stöðumælaverðir geta verið. Þarna – beint fyrir framan mig – var svo bara sönnun þess efnis! Fastleigukortið var í glugganum, ég vissi að það var ekki útrunnið og samt – SAMT – höfðu þeir sektað mig!

Ég stökk útur bílnum, alveg tilbúin í fæt. Ég ætlaði sko með þetta beint inn á bæjarskrifstofur að rífa kjaft – það gengi sko ekki að sekta fólk sem legði lögum samkvæmt í stæði sem það hafði heimild til! Reif upp símann, tók af þessu mynd, til að reka framan í grey óheppna bæjarstarfsmanninn sem yrði fyrir barðinu á mér. Myndin tókst bara með ágætum, bæði sást í stöðumælasektina og fastleigukortið.

Ég þreif í plastið sem sektirnar koma í, og stikaði ákveðnum, þungum skrefum að bílstjórasætinu. Það var samt eitthvað sem gekk ekki upp, ég fann það strax. Settist inn í bílinn alveg eins og sannkallað skass á svipinn (trúi ég, í það minnsta) og leit á það sem ég hélt á.

Í plastinu í höndum mér var engin stöðumælasekt, en á plastinu sjálfu stóð: „Mundu að fastleigukortið þitt rennur út í lok vikunnar.“

Ég hreinlega bráðnaði, skammaðist mín, fann hlýjan yl í maganum vegna vinsamlegheita náungans. Ó, hvað hann var indæll, að hafa gefið sér tíma til að skrifa mér svona orðsendingu – og þannig koma í veg fyrir að hann gæti sektað mig í komandi viku.

Náunginn er oft indælli en hann virðist og ekki er allt sem sýnist í fyrstu!

Bucket list, Lífið

Öfugur Bucket list – Hvað hef ég nú þegar gert?

Öfugur bucket listi snýst um það að í staðinn fyrir að skrifa niður allt sem þig langar að gera, þá skrifarðu niður allt sem þú hefur afrekað og nú þegar gert. Að eiga svona lista ýtir undir þakklæti og getur aukið sjálfsálit.

Mér finnst hugmyndin um öfugan bucket lista mjög spennandi, og ekki misskilja mig. Listinn er settur upp fyrir sjálfa mig til að minna mig á allt sem ég hef afrekað og góðar stundir sem gera lífið þess virði að lifa því, en ekki til að monta mig eða hreykja mér.

Eins og Bucket listinn minn, er þessi settur upp í nokkrum flokkum – þeim sömu og koma fyrir í Bucket listanum.

Ferðalög:

 1. Hef komið til Indlands
 2. Hef komið til Póllands
 3. Hef komið til New York
 4. Hef komið til San Francisco
 5. Hef komið til Tyrklands
 6. Hef komið til Parísar
 7. Hef komið til Rómar
 8. Hef komið til 15 landa í heildina
 9. Hef heimsótt Yosemite þjóðgarðinn í BNA.
 10. Hef skoðað Pamukkale og séð Kleópötrulindina
 11. Hef farið upp í topp á Eiffel turninum
 12. Hef skoðað Notre Dame
 13. Sá Stonehenge
 14. Hef skoðað Versalahöllina
 15. Fór 4 x erlendis 2018 og a.m.k. 4 x 2019.
 16. Hef skoðað the Golden Gate
 17. Hef skoðað Sistínsku kapelluna, Péturskirkjuna, Gröf Péturs postula, Hringleikahúsið og Domus Aurea.

Sport:

 1. Hef farið í rafting
 2. Hef stokkið af kletti í vatn
 3. Hef farið í Go Kart
 4. Hef prófað bogfimi
 5. Hef snorklað í Silfru
 6. Hef prófað Buggybíla
 7. Hef prófað Lazertag utandyra (og innandyra reyndar líka)
 8. Hef komið upp á Langjökul
 9. Hef kafað

Upplifun:

 1. Hef farið í Bláa lónið
 2. Fór í Road trip með vinkonu
 3. Sá bæði Justin og Britney á tónleikum
 4. Hef farið í Íslensku óperuna
 5. Sá sýningu á Broadway, NY
 6. Fór í tímaflakksmyndatöku
 7. Hef farið í 2 af Disney World görðunum (Magic Kingdom og Epcot)
 8. Hitti Inu May Gaskin

Persónulegt:

 1. Ég gaf egg
 2. Ég hef fætt 2 börn
 3. Fæddi Eyrúnu heima
 4. Hef létt mig um meira en 20 kg (suss!)
 5. Hef tekið þátt í RKÍ verkefni vegna flóttamanna
 6. Hef stofnað fyrirtæki
 7. Hef farið í flóttaherbergi og komist út – 9 sinnum!
 8. Hef prófað „sensory deprivation“ flot.
 9. Hef farið í nudd með eiginmanninum
 10. Ég á mitt eigið húsnæði (sko, okkar)
 11. Ég hef lokið bæði stúdent, BA- og ML-námi
 12. Ég hef löggildingu sem fasteignasali
 13. Ég er gift
 14. Ég hef verið viðstödd fæðingu og nánast tekið á móti barni
 15. Ég er guðmóðir
 16. Ég er skráður líffæragjafi (og var áður en ætlað samþykki kom til)
 17. Ég er SOS foreldri
 18. Ég er búin að lesa vel yfir 500 bækur
 19. Hef fylgst með stelpunum mínum stækka og þroskast
 20. Hætti að drekka gos í heilt ár
 21. Fór í portrettmyndatöku
 22. Á bikini sem ég nota

 

Þessi listi kom mér heldur betur á óvart, ég vissi ekki að það væri svona margt sem ég hefði í raun gert og afrekað – það er margt sem ég get verið þakklát fyrir og stolt af.

Hvað hefur þú gert? Taktu það saman, og vertu ánægð/ur með þig!

Nú er bara að halda áfram að stroka út af Bucket listanum, og bæta á þennan!

Lífið

Ástin á bókum

7aa54287ee703577e2697802244fa257.jpg

Það hefur varla farið framhjá nokkrum sem skoðar þessa síðu eða sem þekkir mig, að ég er algjör bókaormur. Nú bý ég í húsi sem er á tveimur hæðum, en á stigapallinum eru bókahillur sem hafa að geyma þær bækur sem ég hef sankað að mér en á eftir að lesa. Þær bækur sem ég á eftir að lesa fylla þær bókahillur og gott betur en það.

20190209_124714
Gæti ekki hugsað mér hlýlegri leið til að nýta stigapallinn!

Um daginn útbjó ég svo plaköt sem ég setti í ramma og lét manninn minn hengja upp fyrir ofan hillurnar mínar. Það er til svo mikið af flottum tilvitnunum um bækur á netinu, sem búið er að setja svo flott upp – en þar kemur íslenskuperrinn upp í mér. Ég vil reyna í lengstu lög að forðast enskan texta á veggjunum hjá mér – þótt á því séu tvær undantekningar.

FB_IMG_1542459432502

Plakötin útbjó ég á síðunni canva.com, en ég fann þá síðu hjá stelpu sem ég kannast við sem bloggar á einfaltlif.wordpress.com. Þar er hægt að útbúa allskonar plaköt, dreifildi og annað, og þar er aðgangur að allskonar myndum, leturgerðum og öllu því sem þarf til að setja upp plakat. Grunnurinn er ókeypis, en hægt er að kaupa aðgang að fleiri myndum og leturgerðum.

46507702_10155615713182407_5377410569122873344_o

Hér má nálgast veggspjöldin sem ég útbjó, í einni pdf skrá. Ég bað svo bara um að þetta yrði prentað á veggspjaldapappír hjá Pedro myndum.

Bækur eru ekki bara góðir vinir og afþreying, heldur eru margar þeirra líka fallegt stofustáss. Ég hef því sigtað út þær fallegustu úr safninu og stillt þeim upp í glerskápnum í stofunni.

20190209_124530

Eins og margir þá klæðist ég mest megnis heimafötum þegar ég er heimavið. Upp á síðkastið (síðustu 2 ár) hef ég haft gaman að því að eignast stöku heimaboli sem endurspegla mig, og þá sér í lagi ást mína á tungumálinu og bókunum.

20190223_125653

Svo að sjálfsögðu á maður margnota poka til að taka með sér á bókasafnið (og Hertex..), en tveir þeirra voru tækifærisgjafir – sem mér er annt um og mikið notaðar.

20190209_124840
Mikið hjartanlega er ég sammála Jorge Luis Borges.

Það er stundum bara einfaldlega svo gott að setjast niður, umkringdur bókum. Ég er nú ekki mjög andlega þenkjandi, ef svo má segja, en mér þykir alltaf sérstakt andrúmsloft í kringum bækur. Þær eru þungar, stöðugar, þær eru eins og klettur. Þær eru þöglar, en tilbúnar að taka í höndina á þér.

20190209_124503
Bara bækur sem mér þykja sérlega fallegar, eða eiga af einhverjum ástæðum skilið að vera til sýnis fá að vera í leshorninu mínu.

Ég elska bókasöfn, og Amtsbókasafnið er alveg dásamlegur staður. Mér finnst það þó hafa verið afturför þegar það var ekki lengur skylda að hafa hljóð á bókasafninu – en ég fæ mig aldrei til að tala hátt, og sussa alltaf á stelpurnar ef þær eru með læti. Hinsvegar, þá hefur Amtsbókasafnið verið að gera dásamlega hluti til að auka heimsóknir á safnið, t.d. með spilaklúbbum, fræðsluerindum, skiptimörkuðum o.fl.

20190209_124454
Bækurnar í leshorninu eru ýmist lesnar eða ólesnar, þrátt fyrir að flestar aðrar séu flokkaðar eftir hvort ég hafi lokið lestri þeirra eða ekki.

Ég nota Gegni.is mikið, og er sjálfsagt stærsti notandi vefsíðunnar sem er ekki bókasafn eða bókasafnsfræðingur. Þegar ég opna Google Chrome, þá eru vinsælustu heimasíðurnar sem ég heimsæki, í þessari röð; netbankinn, Gegnir.is, fasteignir.is og stuttu seinna Goodreads.com.

20190209_124523
Laxness er í sérstöku stúkusæti, en eins og sjá má eru þær misgamlar. Þær hafa komið frá ýmsum stöðum, flestar keyptar notaðar. Hjá þeim er mynd af Eyrúnu minni, skírnarskórnir stelpnanna og þurrkað blóm úr brúðarvendinum.

Ég elska ekki bara að lesa bækur. Ég elska líka að lesa um bækur, fylgjast með því sem er að koma út, fletta upp hinum og þessum höfundum til að sjá hvað hefur verið gefið út eftir þá á hinu ástkæra ylhýra, skoða blogg um bækur o.s.frv.

FB_IMG_1542459964964.jpg

Með því að lesa bækur lærum við gjarnan ýmislegt um okkur sjálf. Við lærum að þekkja hver við erum, hver við erum ekki og hver við viljum vera. Við lærum ný orð, eflum kunnáttu okkar í tungumálinu – sem veitir ekki af! – við kynnumst hugsuðum fyrri tíma, og komumst að því að við erum ekki ein.

FB_IMG_1547626235327.jpg

Dætur mínar hafa alist upp við að það eru bækur allstaðar. Þær hafa líka alist upp við það að mamma þeirra er sífellt að koma með bækur heim, eða með nefið ofan í bók. Þær koma reglulega með mér í Hertex, þar sem ég næli mér í ýmsa eldri gullmola. Síðast þegar ég tók eldri dóttur mína með mér, þá áttaði ég mig á því að hún er búin að læra af mér. Hún keypti fleiri bækur en ég!

52407080_472068943326460_8289919444063354880_n

Um daginn lásu dætur mínar sitthvora skáldsöguna, sem hvor um sig var yfir 400 bls. Ég hafði lofað þeim verðlaunum þegar þær lykju við þær, hvort sem það yrði á þessu ári eða næsta eða þarnæsta. En svo kom að því, ég var rukkuð um verðlaunin. Ég sneri mér á Facebook til að fá ráð um hvað teldust hæfileg verðlaun fyrir þessa frammistöðu. Það voru misjafnar skoðanir, allt frá annarri ferð á bókasafnið til leikhúss. Þá áttaði ég mig á því að það er kannski ekki sjálfgefið að börn á áttunda og tíunda ári ljúki við 400 blaðsíðna bækur eins og að drekka vatn. En ég áttaði mig líka á því að ég vil alls ekki að þær líti á það sem eitthvert sérstakt afrek, með því að verðlauna þær eitthvað gríðarlega. Við ákváðum því að fara með þær í ísbúð, en það höfðum við ekki gert í háa herrans tíð. Þær voru bara mjög sáttar, og nú verður gaman að sjá hvað þær lesa á næstunni!

20190209_144025
Afsprengin með bækurnar sínar! Eldri las reyndar Miðnæturgengið eftir sama höfund, en hún var ekki inni til myndatöku 🙂
Bucket list, Ferðalög, Lífið

Róm, borgin eilífa – fyrsti hluti

Capture

Maðurinn minn átti stórafmæli á dögunum, þegar kallinn komst á fimmtugsaldurinn. Honum stóð til boða að halda stórt partý eða stinga af og fela sig. Hann valdi að sjálfsögðu síðari kostinn! Og Lína hans bókaði handa honum helgarferð til Rómar, en þangað hefur hann langað að koma alveg síðan ég kynntist honum.

20190124_154459
Stórkostlegt útsýni yfir Alpana.

Norwegian var með alveg djóktilboð á pakkaferðum til Rómar, en janúar er að sjálfsögðu algjör lágannatími á þessum slóðum. Við fengum flug, töskur og 3* hótel með morgunmat á í kringum 80.000 kr. fyrir okkur bæði – samtals. Eini gallinn á gjöf njarðar var sá að flugtímarnir voru þannig að í rauninni höfðum við bara rúma tvo daga – en það eru kostir við allt, við þurftum nefnilega ekki að vakna fyrir allar aldir á ferðadegi, og því vorum við bara flott stemmd þann seinnipart.

20190126_091044

En að fara til Borgarinnar eilífu þýðir að það er nóg að skoða, þótt maður væri þar í margar vikur. Þannig þessir tveir dagar voru vel rúmlega troðfullir af dagskrá! Ég hafði mestar áhyggjur af því að fólk héldi að maðurinn minn hefði farið í felur yfir fimmtugsafmælið en ekki fertugsafmælið því hann yrði svo þreyttur þegar hann kæmi heim! Við fórum út með bókað í tvö flóttaherbergi og fimm skoðunarferðir…

Hótelið sem við bókuðum heitir Hotel XX Settembre (Venti Settembre), og er mjög nálægt Termini lestarstöðinni (aðallestarstöðinni). Hótelið er mjög lítið, aðeins einhver 20 herbergi. Það sést nú töluvert á innanstokksmunum, en allt var mjög hreint og fínt. Þeir bjuggu svo fínt að hafa lyftu, en hún tók í mesta lagi 2 manneskjur, og ferðataskan komst eiginlega ekki með! Morgunmaturinn var evrópskur; þ.e.a.s. brauð og jógúrt og þess lags, og þjónustan í lobbýinu var alveg fyrsta flokks! Ég hafði samband við þau fyrirfram til að láta vita af pökkum á leiðinni frá Amazon, og hvort þau gætu ekki sett kaldan bjór á herbergið fyrir afmæliskallinn minn – það var nú minna en ekkert mál, og þau bókuðu fyrir okkur á veitingastað og voru einstaklega hjálpsöm og liðleg.

20190125_074911
í páfagarði.

Við munum það bara næst að þriggja stjörnu hótel í Róm er ekkert líkt t.d. þriggja stjörnu hóteli í USA. En við getum samt ekki kvartað yfir hótelinu á nokkurn hátt, þau m.a. opnuðu morgunmatinn fyrr en venjulega fyrir okkur á föstudagsmorguninn, þar sem við þurftum að vera mætt í Vatíkanið kl. 7 – en morgunmaturinn var venjulega frá 7 til 10.

20190126_130544

Veitingastaðurinn, Il Cuore di Napoli, sem var nánast við hótelið var dásamlegur ekta ítalskur staður, með pitsur, pasta, sjávarrétti og nefndu það. Þau tóku á móti okkur með freyðivínsstaupi, og pitsurnar þeirra voru alveg dásamlegar! Staðurinn var alveg einstaklega lítill, en í salnum voru 8 borð, og við hvert þeirra geta í mesta lagi fjórir setið.

20190124_204304
Kvöldverður á Il Cuore di Napoli.

Eftir matinn áttum við bókað í flóttaherbergi hjá Locked Roma, en þetta var í fyrsta skipti sem við fórum í flóttaherbergi sem var 90 mínútur. Við leystum það með glæsibrag og áttum 15 mínútur eftir. Það hinsvegar hægði aðeins á okkur að það var gert ráð fyrir að maður vissi hvað verk Da Vincis heita, en þrátt fyrir að við hefðum átt að vita það mundum við það ekki – það er hins vegar almenn þekking á Ítalíu.

20190124_224825

Við ákváðum að ganga heim frá flóttaherberginu, því þetta var nánast eina stundin sem ekki var skipulögð – og á leiðinni heim gætum við séð Castel Sant’Angelo. Hins vegar áttum við ekki von á að nánast detta um Piazza Navona og Largo di Torre Argentina.

20190124_231223
Séð aftan á Péturskirkjuna frá Castel Sant’Angelo.
20190124_231336
Tíber-áin að kvöldi til.

Áður en við fórum út horfðum við að sjálfsögðu á Angels and Demons myndina sem byggir á sögu Dan Brown, en lokaatriðið í þeirri mynd gerist að mestu í Castel Sant’Angelo. Hins vegar höfðum við engan tíma til að skoða bygginguna, langaði bara aðeins að sjá hana. Í beinni línu frá kastalanum má svo sjá bakhliðina á Péturskirkjunni. Keisarinn Hadrían lét byggja Castel Sant’Angelo á annarri öld eftir krist, og ætlaði kastalann sem grafhýsi sitt og fjölskyldu sinnar. Hadrían og fjölskyldu hans var komið fyrir þar, auk líkamsleifa einhverra fleiri keisara. Á fimmtu öld var byggingin notuð sem virki, og á fimmtándu öld var kastalinn tengdur Péturskirkjunni með göngum, en sagan segir að þar sé um að ræða flóttaleið fyrir páfann.

20190124_233821
Gosbrunnur stórfljótanna fjögurra.

Á Piazza Navona skoðuðum við gosbrunn Berninis, Fontana de Quattro Fiumi (gosbrunnur stórfljótanna fjögurra), sem táknar heimsálfurnar fjórar sem heyrðu undir páfadóm.

20190124_235220
Largo di Torre Argentina.

Largo di Torre Argentina er torgið þar sem talið er að Júlíus Sesar hafi verið myrtur. Þetta eru afgirtar fornleifar í miðri borg, sem samanstanda af rústum fjögurra hofa. Torgið er núna griðastaður fyrir heimilislausa ketti, en það er talið að um 100 kettir haldi til þar. Í myrkrinu tókst okkur ekki að sjá einn einasta en þeir eru víst snillingar í að fela sig og koma sér fyrir á furðulegum stöðum þessar elskur.

20190125_072525

Við drifum okkur á fætur kl. 6.00 á föstudagsmorguninn, því við áttum pantað í skoðunarferð um Sistínsku kapelluna fyrir opnun. Við fórum með Vasco, portúgölskum leiðsögumanni, í gegnum Vatíkönsku söfnin þar sem hann benti okkur á það merkilegasta að sjá. Næst þegar ég fer til Rómar, og ég ætla aftur, þá langar mig að fara í mun lengri og stærri skoðunarferð um söfnin, því þau geyma engar smá gersemar. Því miður sáum við ekki Aþenuskólann hans Rafaels, en það er bara eitt af því fjölmarga sem okkur tókst ekki að sjá.

Það má ekki tala í Sistínsku kapellunni (né taka myndir), svo Vasco fór fyrirfram yfir það með okkur hverju við ættum að taka eftir, og hvað við værum að fara að sjá. Kapellan sjálf er býsna stórkostleg, maður á bara erfitt með að trúa sínum eigin augum.

(Hér verð ég að gera eina athugasemd, að gefnu tilefni: það er ekkert x í Sistínsku kapellunni)

20190126_090757

Loftið í Sistínsku kapellunni er yfir 500 fm, og er í 20,7 m. hæð frá gólfi. Michelangelo hafði ekki áhuga á að taka verkið að sér, þar sem hann taldi sig ekki vera málara, hann hafði bara áhuga á marmara og höggmyndum, og taldi sig eingöngu vera myndhöggvara og arkitekt. Hann var nánast neyddur til að taka verkið að sér, en hann málaði allt loftið einn – engir aðstoðarmenn að mála eftir hans forskrift.

20190125_082552
Hluti af einu af fjölmörgum veggteppum á Vatíkönsku söfnunum eftir forskrift Rafaels. Þetta er ekki málverk, heldur vefnaður. Hann hannaði teppin, en svo voru þau gerð í Belgíu, þar sem bestu vefarar Evrópu voru. Rafael lést þó áður en framleiðslunni lauk, og sá þau því aldrei. Þetta teppi er t.d. svo listilega gert að það er eins og augu Jesú fylgi þér þegar þú gengur fram hjá.

Sumir halda því fram að Michelangelo hafi legið á bakinu og málað, en það er ekki rétt. Hefði hann legið hefði hann ekki getað fært sig til, nema með ærinni fyrirhöfn, til að sjá verkið frá ýmsum sjónarhornum. Vegna lofthæðarinnar í kapellunni má segja að hann hafi á hverjum degi lagt sig í lífshættu, þar sem hann stóð og hallaði sér aftur á bak til að mála. Þegar hann hafði lokið við loftið fór hann aftur heim til Flórens. Hann var innan við fertugt en var ónýtur maður eftir fjögur ár af löngum vinnudögum í slæmum stellingum.

20190125_082835
Kortasalurinn í Vatíkaninu. Sjáið loftið!

En hann var ekki sloppinn enn, því þegar hann varð sextugur var hann fenginn aftur í kapelluna, nú til að mála altaristöfluna. Verk hans, the Last Judgment, þekur megnið af annarri skammhlið kapellunnar, og er um 160 fermetrar (það er jafn stórt og 5 herbergja íbúðin mín með bílskúr og allt). Það var maður sem vann í Vatíkaninu sem kom á hverjum morgni að sjá hvernig verkinu vegnaði, og á hverjum degi gagnrýndi hann verkið á allan mögulegan máta. Michelangelo hefndi sín snilldarlega, en hann notaði andlitið á honum á eina af hræðilegustu skepnunum í þeim hluta verksins sem táknar helvíti.

Myndaniðurstaða fyrir the last judgment
The Last Judgment. Mynd fengin að láni hjá Michelangelo.org.

Öll málverk Michelangelos í Sistínsku kapellunni eru freskur – freskur eru gerðar þannig að veggurinn er gifsaður, og svo er verkið málað í blautt gifsið og þá festist liturinn þegar gifsið þornar. Hins vegar, þá hefur listamaðurinn ekki langan tíma til að athafna sig, og ef hann þarf að leiðrétta eitthvað eftir á þarf að skafa klæðninguna af veggnum og byrja upp á nýtt. Obb-obb-obb.

Myndaniðurstaða fyrir the sistine chapel ceiling
Loftið í Sistínsku kapellunni. Mynd fengin að láni hjá twistedsifter.com
Myndaniðurstaða fyrir the creation of adam
Þekktasti hluti kapelluloftsins; Sköpun Adams (The Creation of Adam). Mynd fengin að láni hjá Wikipedia.org.

Jæja, meira síðar.