Ferðalög

Flórída 2019 – 2. kafli

Fyrsta hluta ferðasögunnar má finna hér.

20190412_094610
Það þarf líka að lesa.

Daginn eftir að við hjónin ögruðum okkur í Ziplineferð, skruppum við með dætur okkar í höfrungaskoðun frá Vilano Beach við St. Augustine. Þetta var rólegheita sigling í dásamlegu veðri, við sáum höfrunga leika sér – en því miður voru þeir hvorki sérlega nálægt okkur né sáum við stökk. En þetta var ljúf sigling engu að síður.

20190411_124644
Vitinn í St. Augustine.

Eftir siglinguna héldum við á St. Augustine Pirate Museum. Það er safn um sögu sjóræningja, en svæðið hefur töluverð tengsl við sjóræningasöguna. Eigandi og stofnandi safnsins er sagnfræðingur sem hefur sérhæft sig í sjóræningjum og safnað að sér alls konar munum sem þeim tengjast. Safnið er lítið, en mjög fróðlegt, og ég hugsa að stelpurnar hefðu haft sérlega gaman af ef þær hefðu skilið enskuna.

20190411_155327
Að sögn ein af fáum (ef ekki eina) heila alvöru sjóræningjakistan í heiminum í dag.
20190411_121039
Í siglingu.

Að sjálfsögðu litum við svo við í Premium Outlets í St. Augustine, en það er, eins og ég hef sagt áður, okkar uppáhalds Outlet.

Það er líka mikil frumbyggjasaga á Flórída, og margar friðlendur draga nöfn sín af örnefnum sem komin eru frá Indjánum. Ein þeirra er Timucuan Preserve, þar sem fundist hafa munir sem taldir eru vera yfir 4.000 ára gamlir. Í Timucuan Preserve má m.a. finna Kingsley Plantation (elsta Plantation innan ríkisins), Spanish Pond, og Fort Caroline. Fort Caroline er virki sem Frakkar reistu þegar þeir numu land á 16. öld, og þrátt fyrir að það sé ekki vitað nákvæmlega hvar það stóð, þá hefur því verið reistur minnisvarði, og búið er að setja upp sýnishorn af því hvernig talið er að það hafi litið út.

20190412_153440
Fort Caroline.

Jon, eiginmaður Diddu frænku minnar, er algjör snillingur í amerískum morgunverði. Eldri dóttir mín hefur þvílíka matarást á honum, finnst hann gera lang bestu egg sem um getur. Ef hún heyrir nafnið hans nefnt, þá talar hún um eggin hans!

20190413_122900
Datt í lukkupottinn – fékk ferskar gulrætur beint frá bónda með grasinu og öllu!

Þau hjónin hafa alltaf tekið sig til og gert ósvikinn amerískan morgunverð fyrir okkur þegar við komum. Egg, beikon, skinka, vöfflur, hlynsíróp, ferskur appelsínusafi og allt sem hugurinn girnist – eða nánast. Í þetta skiptið vorum við samt ekki á uppskerutíma appelsína, en þau áttu enn nokkrar blóðappelsínur frá vetrinum, svo við gerðum okkur alveg dásemdar blóðappelsínusafa.

20190413_102909
Dásemdar morgunverður.

Eftir morgunverðinn héldum við niður í miðbæinn og fórum á Riverside Arts Market. Það er lítill handverksmarkaður sem haldinn er undir einum brúarsporðinum við St. John’s River.

20190413_120001
Riverside Arts Market.

Eftir góða göngu um markaðinn héldum við í Sweet Pete’s, sem er sælgætisverslun á þremur hæðum. Þar er kaffihús, minjagripaverslun, veislusalur, framleiðslusalir og að sjálfsögðu risavaxin sælgætisverslun. Þeir framleiða karamellur, súkkulaði, allskonar sælgætispoppkorn o.fl. Auk þess bjóða þeir upp á ýmislegt innflutt sælgæti og eru með sérlega skemmtilega deild sem þeir kalla Retró.

 

20190413_130020
Sweet Pete’s.

Við skruppum líka með frænku minni og manninum hennar í eitt flóttaherbergi, hjá Breakout í Jacksonville. Breakout er keðja, og þá má finna víðsvegar um Bandaríkin. Við fórum í herbergi sem heitir Kidnapping, og höfðum mjög gaman af. Þau voru að prófa í fyrsta skipti og skemmtu sér konunglega.

crop-1280x720-000
Shipwreck Island Waterpark. Mynd fengin að láni hjá News4jax.com

Shipwreck Island er lítill en mjög skemmtilegur sundlaugargarður nálægt ströndinni. Þar er leiksvæði fyrir litla krakka, með fjölmörgum minni rennibrautum, öldulaug, svokallaðri Lazy River og alveg þónokkrum stærri rennibrautum. Þótt Íslendingunum þætti veðrið dásamlegt, þá þykir Flórídabúum ekkert sérlega hlýtt í apríl, og því voru alls ekki margir í garðinum – oftast var biðtíminn í stóru rennibrautirnar því aðeins nokkrar mínútur, og enginn í þær minni.

waterpark
Hluti af Shipwreck Island. Mynd fengin að láni hjá Tripadvisor.com.

Við drógum stelpurnar með okkur í tvær stærri rennibrautir, og þrátt fyrir að hjörtun væru lítil höfðu þær sérlega gaman af. Það endaði svo þannig að yngri dóttir okkar fór ein í aðra stóru rennibrautina og var ekkert smá sátt við það!

20190414_144752
Þvílíkar gellur á heimleið eftir dásamlegan dag í rennibrautunum.

Báðar voru rennibrautirnar með uppblásnum bátum, og í annarri þeirra endaði ferðin í Lazy River, þar sem maður flaut í makindum. Ég flaut nú kannski í fullmiklum makindum, en seinni part dagsins kom í ljós að ég hafði brunnið svo svakalega á handleggjum og bringu að mig verkjaði. Um kvöldið lá ég með kælihandklæði yfir handleggjunum og tók verkjalyf, en svona er nú bara lífið. Maður þarf að muna að setja á sig sólarvörn aftur og aftur í svona görðum, þótt það sé skýjað! Og heyrirðu það, Lína Rut!

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Í Shipwreck Island með krakkasvæðið í bakgrunni. (Eldri ekki ánægð með snertingu systur sinnar!)

Nágrannar frænku okkar eiga skjaldböku sem býr í garðinum. Meðan ég var inni að vorkenna mér og sleikja sólbrunann rölti frænka mín með stelpurnar að hitta nágrannana og skjaldbökuna. Þær meira að segja gáfu henni að borða, og fannst hún alveg frábær!

20190414_172202
Skjaldbakan stóra. Til viðmiðunar má sjá fæturna á 10 ára dóttur minni.

Það vill nú þannig til að eldri dóttir mín og Didda frænka eiga afmæli sama dag, en það var einmitt meðan við vorum úti. Hins vegar var frænka okkar á leiðinni til Íslands þann dag, svo við héldum upp á afmælið deginum fyrr.

Það hafði verið rætt að fara á ströndina, eða í mini golf – en hætt var við hvort tveggja þar sem mamman var eins og brunarústir, og bæði pabbinn og yngri systirin höfðu látið pínu lítið á sjá í sólinni í sundlaugargarðinum. Við ákváðum því að prófa að fara í leikjasalinn Dave and Buster’s, en það er salur sem er ætlaður eldri krökkum og fullorðnum. Við höfðum samt sem áður mjög gaman af, enda voru fáir í salnum og stelpurnar gengu bara í það sem þær vildu.

20190415_145016
Dave and Buster’s.

Um kvöldið fékk svo dóttirin að velja kvöldmat, og að sjálfsögðu var að pizza. Hún valdi Domino’s, og málsverðurinn heppnaðist bara vel.

Svo rann afmælisdagurinn sjálfur upp og þá var komið að kveðjustund. Stelpurnar áttu virkilega erfitt með að kveðja, enda vissu þær ekki hvað beið þeirra í Orlando!

20190416_113755

Ég skrapp í klippingu og litun, og eftir það héldum við á Chuck E. Cheese’s í hádegismat, en það var stóra ósk afmælisbarnsins. Hins vegar skildu þær ekkert í af hverju við fullorðna fólkið vildum komast snemma af stað til Orlando…

20190423_191916
Húsið okkar og bílaflotinn.

Við höfðum í samráði við mág minn og svilkonu leigt hús með sundlaug í Orlando, en þau eiga stelpur á svipuðum aldri og dætur okkar, og eru þær frænkur mjög góðar vinkonur. Um þetta höfðu þær ekki hugmynd, svo þegar við komum til Orlando og lögðum bílnum fyrir utan eitthvert hús leist þeim ekki meira en svo á blikuna að þær vildu helst bara hætta við. Við þurftum nánast að draga þær út úr bílnum, og þær fengust ekki til að standa nær dyrunum en í svona tveggja metra fjarlægð eftir að við bönkuðum.

Þær voru gersamlega orðlausar þegar þær sáu hverjir komu til dyra, en stuttu seinna voru allir hæstánægðir og yfir sig spenntir yfir vikunni sem í vændum var.

20190416_180401
Hamingjusamar frænkur!

 

Lífið, Skriftir

Lína og stöðumælaverðirnir – gamansaga frá 2015

Einn daginn, sem oft áður, var ég á leið heim úr vinnu. Ég kom að bílnum mínum þar sem hann stóð á fastleigustæði í miðbæ Akureyrar. Hlamma mér inn, legg töskuna frá mér í farþegasætið. Þegar ég lít upp er það fyrsta sem ég sé stöðumælasekt! Ég lít í hornið á rúðunni, og jú, þar liggur fastleigukortið sem heimilar mér að leggja í stæðið þar sem bíllinn stendur. Upphófust nú í huga mér allar hinar óforskömmuðustu formælingar sem ég gat upphugsað – ég tek það fram að ég er almennt mjög skapgóð og umburðarlynd, en ég hafði fyrr um daginn hlustað á ræðu um það hve mikil fornaldartröll og erkibjálfar stöðumælaverðir geta verið. Þarna – beint fyrir framan mig – var svo bara sönnun þess efnis! Fastleigukortið var í glugganum, ég vissi að það var ekki útrunnið og samt – SAMT – höfðu þeir sektað mig!

Ég stökk útur bílnum, alveg tilbúin í fæt. Ég ætlaði sko með þetta beint inn á bæjarskrifstofur að rífa kjaft – það gengi sko ekki að sekta fólk sem legði lögum samkvæmt í stæði sem það hafði heimild til! Reif upp símann, tók af þessu mynd, til að reka framan í grey óheppna bæjarstarfsmanninn sem yrði fyrir barðinu á mér. Myndin tókst bara með ágætum, bæði sást í stöðumælasektina og fastleigukortið.

Ég þreif í plastið sem sektirnar koma í, og stikaði ákveðnum, þungum skrefum að bílstjórasætinu. Það var samt eitthvað sem gekk ekki upp, ég fann það strax. Settist inn í bílinn alveg eins og sannkallað skass á svipinn (trúi ég, í það minnsta) og leit á það sem ég hélt á.

Í plastinu í höndum mér var engin stöðumælasekt, en á plastinu sjálfu stóð: „Mundu að fastleigukortið þitt rennur út í lok vikunnar.“

Ég hreinlega bráðnaði, skammaðist mín, fann hlýjan yl í maganum vegna vinsamlegheita náungans. Ó, hvað hann var indæll, að hafa gefið sér tíma til að skrifa mér svona orðsendingu – og þannig koma í veg fyrir að hann gæti sektað mig í komandi viku.

Náunginn er oft indælli en hann virðist og ekki er allt sem sýnist í fyrstu!

Bucket list, Ferðalög

Flórída 2019 – 1. kafli

20190404_164548

Þriggja vikna ferðalag – þrír póstar! Vonandi tekst mér að halda mig innan þess ramma!

Við eiginmaðurinn héldum í okkar fimmtu Flórídaferð á dögunum, þar sem við dvöldum í þrjár vikur. Við erum svo heppin að eiga ættingja þarna úti, þar sem við fáum að dvelja, og þar er sko dekrað við okkur og við njótum lífsins í botn!

20190411_092357

Við flugum út 4. apríl, en allar okkar ameríkuferðir hefjast með því að það er vaknað mjög snemma og keyrt suður til Keflavíkur samdægurs. Það er því langur dagur áður en höfuðið leggst á koddann hinum megin við tjörnina.

Þetta er í annað skiptið sem við tökum dætur okkar með okkur til Ameríku eftir að þær urðu stálpaðar, en eldri dóttir okkar flaut með þegar hún var um eins og hálfs árs.

20190405_021543
Bugun eftir langan dag. Beðið eftir bílaleigubílnum á Orlandoflugvelli.

Við höfum alltaf leigt okkur bíl á Flórída, en eins og flestir flandrarar vita getur það kostað skildinginn að leigja sér bíl. Ég er með þrjú sparnaðarráð (sem einskorðast að sjálfsögðu ekki aðeins við Flórída):

 • Keyptu þér GPS tæki. Það eru til fínustu Garmin GPS tæki í Walmart á ca $100 og upp. Leiga á GPS tæki fyrir hvern dag er oft í kringum $15 – þannig að borgar sig upp á viku, og þú átt það fyrir næstu ferð og næstu ferð og næstu ferð… Við keyptum okkur árið 2016 Garmin tæki fyrir ca. $150 með fríum kortauppfærslum, og höfum notað það ca 35 daga – að leigja tæki í þann tíma væri um $525.
 • Ef þú ert með krakka sem eru orðnir stálpaðir, skaltu frekar kaupa pullu undir þau í bílinn en að leigja hana. Leigan er $8-15 dollarar á dag, en pullur fást fyrir ca $25 dollara í Walmart. Það þarf því ekki langa leigu til að þetta borgi sig. Keyrslan frá flugvellinum í Orlando og í næstu Walmart verslun er nokkrar mínútur. Við höfum svo bara skilið pullurnar eftir í bílnum, ætli þeir nýti sér það ekki bara og leigi næsta manni?
 • Mér hefur oftast gefist best að nota samanburðarsíður eins og t.d. rentalcars.com, og fara svo beint á heimasíðu þeirra fyrirtækja sem bjóða best og bóka beint þar.
 • Og að sjálfsögðu aldrei að leigja bíl (eða kaupa neitt á netinu á amerískri vefsíðu) nema leita fyrst að afsláttarkóða. Google virkar vel til þess, síður eins og Retailmenot.com eru oft með góða afslætti, og svo er viðbót í Google Chrome vafrann sem heitir Honey og leitar sjálfkrafa að afsláttarkóðum fyrir þig. Þar safnarðu líka upp fyrir gjafakortum t.d. á Amazon í leiðinni.

…en aftur að ferðasögunni!

Þegar við vorum komin út af flugvallarsvæðinu var því ferðinni heitið beint í Walmart, þar sem við keyptum okkur pullur fyrir stelpurnar, hressingu og vatn.

Hampton Inn & Suites Orlando Airport at Gateway Village, Orlando, Herbergi - 2 meðalstór tvíbreið rúm - Reyklaust, Herbergi
Mynd fengin að láni hjá Hotels.com

Við áttum bókaða gistingu á Hampton inn&suites Orlando Airport at Gateway Village í eina nótt áður en við héldum til Jacksonville. Ég nota nánast undantekningarlaust Hotels.com til að bóka gistingu, en eftir 10 gistinætur færðu eina nótt fría á hóteli að eigin vali og ef herbergið kostar meira en meðalverð náttanna 10 sem þú greiddir fyrir, þá greiðirðu mismuninn. Við gistum því þarna gegn því að greiða bara skattana af herberginu, um $20. Það er alltaf gleðilegt!

Við höfum oft gist á Hampton Inn, þar er maður býsna öruggur um að fá snyrtilegt herbergi með góðum rúmum. Morgunmaturinn aftur á móti er ekkert voðalega merkilegur, en matur eigi að síður – og ég funkera ekki vel ef ég fæ ekki að borða mjög fljótlega eftir að ég fer á fætur.

20190411_092402
Gengið með hundinn.

Eins og nánast alltaf þegar við förum til Bandaríkjanna vöknuðum við mjög snemma fyrsta morguninn. Það var mjög skýjað og dimmt yfir þegar við fórum á fætur, og mjög fljótlega eftir það byrjuðu þrumur, eldingar og steypiregn. Það var því útséð um tubingferðina okkar sem höfðum áformað á leiðinni til Jacksonville.

IMG_20190404_091022_199
Pissustopp í Varmahlíð

Við eyddum því deginum í rólegheitum, skruppum aðeins í Outlet og dúlluðum okkur. Svo keyrðum við seinni partinn uppeftir til Jacksonville.

Fyrsta vikan okkar fór að mestu bara í að vera í rólegheitum og njóta. Hitinn var hátt í 30° – svo það var varla hægt að hafa það betra.

20190405_133030
Já, ég held að Eyrún sé upprennandi lífsstílsbloggari eða fyrirsæta!

Að sjálfsögðu hófst fríið hjá mér á því að fara í nudd, andlitsbað, fótsnyrtingu og vax hjá Mona Lisa Day Spa. Það er dásamlegt að meðferðin hefst með klukkutíma þar sem þú hefur aðgang að heitum potti og gufubaði og þess háttar – en ég var bara hamingjusöm að fá klukkutíma í friði til að lesa. Allar meðferðirnar voru dásamlegar, og ég var alveg endurnærð í lok dags.

20190406_100504
Slakað á Mona Lisa Day Spa.

Stelpurnar höfðu ekki beðið eftir neinu meira en Chuck E. Cheese’s, bæði þá að borða þar og að leika sér. Við vorum því ekki búin að vera tiltakanlega lengi í henni Ameríkunni þegar það var haldið þangað – og enn og aftur, afsláttarmiðar. Það eru margir afsláttarmiðar á heimasíðunni hjá fyrirtækinu, sem veita betri kjör en annars stendur til boða á staðnum. 

Við fórum í stuttan göngutúr að Spanish Pond í Timucuan Preserve, mikið var það fallegt og kyrrlátt. Stelpurnar voru þó ekki par-hrifnar af því þegar þær voru beðnar að hafa hjá sér augun þar sem það væru Alligatorar allstaðar á Flórída…

Við skruppum einn dagpart á ströndina, Neptune Beach. Það var nú ekki sérlega fjölmennt þar, enda finnst Flórídabúum ekki mjög hlýtt í apríl, og Atlantshafsmegin hefur sjórinn ekki náð að hlýna nóg. Við hinsvegar vorum hin lukkulegustu, þetta var bara alveg akkúrat fyrir hvítu Íslendingana, og heppilegt fyrir skjannahvíta húðina að það var skýjað. Sjórinn var vissulega ekki hlýr, en eftir að hafa farið út í hann í fyrsta skipti fannst þér hann heldur ekkert kaldur. Við dvöldumst að sjálfsögðu á ströndinni þar til hungrið rak okkur heim!

Við litum í minigolf og fórum í trampólíngarð. Velocity Airsports var risavaxinn trampólíngarður með fjórum svampgryfjum, þrautabraut og fleiru. Við hoppuðum smá, en svo vorum við nánast allan tímann í svampgryfjunum, því það var langt um skemmtilegast. Það var svampgryfja með þverslá til að æfa jafnvægið, en ekkert okkar átti séns í að ganga eftir henni! En mikill sviti og mikið hlegið, frábær fjölskylduklukkutími – og það var alveg frábært að við vorum þau einu á staðnum!

Við eiginmaðurinn skildum börnin eftir í pössun hjá frænku þeirra og keyrðum til St. Augustine þar sem við áttum bókað í Ziplineævintýri. Ferðin með Castaway Canopy Zipline Adventure var alveg frábær – og við vorum bara tvö bókuð, þannig við vorum með 2 leiðsögumenn (og þriðji var með okkur í þjálfun) fyrir okkur tvö! Brautin skiptist í 7 Ziplines sem fara milli trjáa yfir sædýragarð. Ég get nú ekki sagt með vissu hvað brautin er í mikilli hæð, en ég giska á að við séum að tala um milli 20 og 30 metra.

Maðurinn minn var nú ekkert sérlega æstur þegar ég lagði þetta til við hann, en hann lét tilleiðast. Þegar við hinsvegar vorum komin á staðinn var hann ekkert smá glaður og sáttur, en ég hef aldrei í lífinu svitnað jafn mikið og það af stressi og hræðslu! En þetta var alveg sjúklega gaman, og hópstjórnarnir voru frábærir.

Á heimasíðu fyrirtækisins má sjá smá yfirlit yfir brautirnar, en fyrst klifrar maður upp risavaxið tré, þaðan sem maður Zipline-ar yfir götuna og bílastæðið yfir í næsta tré. Þaðan gengur maður eftir göngubrú – ef brú skyldi kalla – upp á næstu stöð. Svona gengur þetta koll af kolli, alltaf á milli trjáa. Í eitt skiptið yfir það sem þeir sögðu okkur að væri hákarlabúrið í sædýragarðinum, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það – það var tjaldhiminn yfir, svo við sáum ekki í búrið. Í annað skipti yfir tjörn.

FB_IMG_1555211879771
Sérlega fín í Zipline-útbúnaðnum.

Því miður mátti ekki vera með neitt lauslegt með sér þarna uppi, þar sem það gæti annars vegar skapað hættu fyrir fólk á jörðu niðri og hins vegar geturðu bara kvatt þann hlut sem þú missir úr þessari hæð. Eins og ég hefði viljað eiga myndir af þessu, þá var það því miður ekki hægt.

Því miður urðu þeir fyrir því leiðinlega óhappi að ein af þremur stóru eikunum sem báru brautina uppi drapst, og það varð að fjarlægja hana ekki löngu eftir heimsókn okkar. Fyrirtækið hafði því ekki aðra kosti en að loka í bili.

En það er nauðsynlegt að ögra sér, og þetta var frábær upplifun með eiginmanninum! Og nú er það bara á áætlun að skella sér í Zipline í Vík í Mýrdal!

Geðheilsa

Hvað er hugræn atferlismeðferð (HAM)?

Hugræn atferlismeðferð (HAM) er meðferð við geðrænum röskunum, svo sem þunglyndi, kvíða og fælni, sem tekur á bæði hugræna þættinum og hegðun. Hugræn atferlismeðferð byggir á því að tilfinningar, líkamleg einkenni, aðstæður, hugsun og hegðun tengist allt og hafi áhrif hvert á annað. Með því að breyta einum þættinum höfum við áhrif á hina þættina.

ham.reykjalundur.is
Mynd fengin að láni hjá ham.reykjalundur.is

 

Eins og nafnið gefur til kynna tekur þetta meðferðarform einkum á tveimur þáttum; hugsun og hegðun. Meðferðin snýst því að miklu leyti um að breyta hugsunarhætti og auka virkni. Við getum breytt ýmsu til að hafa áhrif á líðan okkar, því oft gerum við hluti af gömlum vana eða af hræðslu við breytingar. Stundum höldum við að ytri aðstæður, annað fólk og atvik stjórni líðan okkar, en okkar eigin viðhorf og viðbrögð hafa meira að segja en nokkuð annað. Ef við getum ekki breytt neinu í umhverfinu þá skiptir máli að breyta því hvernig við hugsum. 

 

Hugsanir eru okkar túlkun á aðstæðum og sú merking sem við leggjum í þær. Hugsanir hafa mikil áhrif á líðan og hegðun, og því skiptir máli að læra að þekkja þær neikvæðu hugsanir sem sífellt skjóta upp kollinum hjá okkur og endurmeta þær. Við þurfum að læra að taka eftir þeim og sjá hvaða áhrif þær hafa á líðan okkar.  

 

Fyrsta skrefið í að breyta hugsunarhætti okkar er því að verða meðvitaður um hugsanir okkar og að átta okkur á því hvernig líðan okkar tengist því sem við hugsum og gerum. Í öðru lagi, þegar við verðum vör við neikvæðar hugsanir verðum við að líta á þær með gagnrýnum augum; gott er að hafa í huga hvað þú myndir segja við vin þinn í sömu sporum, eða hvort jafnvel séu aðrar skýringar mögulegar en það fyrsta sem þér kom í hug. Í þriðja lagi myndum við svo þurfa að láta á þær reyna, til að vita hvort við höfum rétt fyrir okkur. 

b475032b29fe4254eb8a73fa341cce6e

Þegar þú finnur að depurðin er að koma yfir þig, þá skaltu staldra við og skoða hvað þú ert að hugsa. Ertu að rífa þig niður? Ertu að gagnrýna eitthvað sem þú gerðir? Eru þetta réttmætar hugsanir? Oft kemst maður að því að þessar hugsanir eiga ekki rétt á sér, og þá er auðvelt að setja nýjar og betri inn í staðinn.  

 

Uppbyggilegar eða jákvæðar hugsanir auka vellíðan, og því skiptir miklu máli hvernig þú talar við sjálfan þig. Í hvert skipti sem þú verður vör við að þú sért að rífa sjálfa þig niður eða gagnrýna þig ómaklega skaltu staldra við og leiðrétta hugsunina, eða hreinlega skipta henni út fyrir eitthvað annað. Í þessum tilgangi er gott að búa sér til lista yfir hluti sem maður er ánægður með í eigin fari, jafnvel þótt það sé bara eitt eða tvö atriði til að byrja með. Þú veist þá að þangað geturðu leitað þegar þú þarft aðstoð við að leiðrétta hugsanaferilinn. 

 

Þunglyndishugsanir eru að mestu leyti bjagaðar og neikvæðar hugsanir um a) okkur sjálf, b) annað fólk, umhverfið og lífið, c) framtíðarhorfur. Það er líka hluti af þunglyndinu að muna bara – eða a.m.k. frekar – eftir slæmu hlutunum en þeim góðu, og á því þarf maður að gæta sín. Það er því ekki auðvelt að breyta hugsanamynstrinu, því þegar um þunglyndi er að ræða eru þessar neikvæðu hugsanir orðnar ósjálfráðar. Þær koma óboðnar upp í hugann fyrirhafnarlaust. Svona ósjálfráðar hugsanir koma oft af stað keðjuverkun sjálfvirkra hugsana sem oftast eru neikvæðar, sem valda því svo að við lendum á enn myrkari stað. Við nefnilega trúum hugsunum okkar eins og þær séu sannar, og lendum því í vítahring; neikvæðar hugsanir skapa depurð sem veldur minnkaðri virkni, sem svo viðheldur neikvæðum hugsunum…

FB_IMG_1535651513586

 

Við verðum því að læra að svara neikvæðum hugsunum. Sem dæmi um gagnrýnin svör við neikvæðum hugsunum má taka sem dæmi spurningar sem þessar; 

 • Er ég að draga fljótfærnislega ályktun án ástæðu?  
 • Eru aðrar skýringar mögulegar?  
 • Hvaða afleiðingar hefur það að hugsa á þennan hátt?  
 • Hverjir eru kostir og gallar þess að hugsa á þennan hátt?  
 • Er ég að spyrja spurninga sem ekki er hægt að svara?  
 • Hvaða hugsanavillur geri ég?  
 • Nota ég vafasamar alhæfingar?  
 • Dæmi ég sjálfa mig á grundvelli eins atviks?  
 • Einblíni ég á galla og veikleika og gleymi styrkleikum og kostum?  
 • Er ég að taka hluti persónulega sem snerta mig lítið eða ekkert?  
 • Er ég að kenna sjálfri mér um eitthvað sem ekki er mín sök?  
 • Er ég að búast við því að ég sé fullkomnin 
 • Nota ég tvo mælikvarða – einn á aðra og annan á mig?  
 • Tek ég bara eftir dökku hliðunum?  
 • Ofmet ég líkurnar á hörmungum?  
 • Geri ég of mikið úr þýðingu hlutanna?  
 • Er ég að velta mér uppúr því hvernig hlutirnir ættu að vera?  
 • Geng ég út frá því að það sé ekkert sem ég geti gert til að breyta stöðu minni?  
 • Er ég að spá fyrir um framtíðina í stað þess að láta reyna á hlutina? 
 • Hjálpar þessi hugsunarháttur mér í lífinu? 
 • Samræmist hugsunin veruleikanum? 

 

Eins og með allar venjur tekur tíma að breyta rótgrónu hugsanamynstri. Við megum ekki falla í þá gryfju að eyða orkunni í að gagnrýna okkur eða rífa okkur niður fyrir neikvæðar hugsanir, það er mikið betra að nota orkuna í að vinna með þær og læra af þeim hvernig best er að bregðast við næst þegar þær láta á sér kræla. 

quotemaster.org

Hugsanir líða um hugann án þess að við endilega veitum þeim athygli. Það eru þær hugsanir sem við veitum athygli sem mest áhrif hafa á líðan okkar. Það getur því verið hjálplegt að leyfa neikvæðu hugsununum bara að fljóta hjá, eða einbeita okkur að uppbyggilegri hugsunum. Við það myndast líka ákveðin fjarlægð, svo við getum komið til baka og skoðað neikvæðu hugsanirnar betur þegar við erum í meira jafnvægi.  

 

Núvitund getur verið góð þjálfun í að festast ekki í ákveðnum hugsunum, en markmiðið er að róa hugann. Við erum ekki að bæla niður hugsanir okkar eða ýta þeim frá, heldur bara fylgjast með því sem er að gerast, því sem leitar á hugann. Tilgangurinn er ekki að dæma eða meta þær hugsanir sem koma upp, heldur að geta verið hlutlaus áhorfandi.

42a3abb73714680d934fb4eaae86ba76

 

Það er ekki bara innihald hugsana okkar sem hefur áhrif á líðan okkar, heldur líka viðhorf okkar til þeirra. Þetta er eins og munurinn á hrösun og falli; fall gefur til kynna að allt sé ónýtt, og það þurfi að byrja aftur upp á nýtt. Hrösun hinsvegar þýðir að þú ferð aftur um einn reit, en heldur svo áfram.  

 

Okkur líður eins og við hugsum, en það er ekki þar með sagt að við eigum alltaf að vera jákvæð, bjartsýn og hamingjusöm. Það er ekki raunhæft að vera alltaf glaður og hamingjusamur, það munu alltaf koma dagar sem eru verri en aðrir og það er alveg eðlilegt. Það er bara gangur lífsins, en ef allt væri alltaf frábært – vissum við þá nokkuð að það væri frábært? 

 

eeyore-595x430

 

 Fólk með þunglyndi ætti að varast að velta fyrir sér spurningum um tilvistarlegum toga, tilgangi lífsins og heimsmálin. Slíkar hugsanir geta auðveldlega komið af stað tilvistarkreppu og valdið þunglyndistímabilum hjá viðkvæmum einstaklingum. 

Maður verður líka að gæta sín á að rugla ekki saman skoðun sinni á einhverju eða hugsun um það og staðreyndum. Við teljum oft það sem við hugsum vera staðreyndir, þegar það er í raun og veru hugsanir huga á villigötum.  

 

FB_IMG_1539895896027

 

HAM leggur áherslu á að breyta hugsun og hegðun. Þeir sem eru með þunglyndi og kvíða verða gjarnan óvirkir, missa framkvæmdagleðina og framtakssemina. Það getur því verið sérlega hjálplegt til að líða betur að koma hlutum í verk. Með því að koma hlutum í verk líður okkur betur, við verðum áhugasamari um frekari aðgerðir, það verður gjarnan auðveldara að hugsa og þreytan víkur. Með því að koma sér af stað getur maður því aukið bæði áhuga sinn og ánægju af hlutunum og það kallar aftur á frekari virkni.

 

Hegðun má skipta í tvennt; annars vegar getur hegðun verið hjálpleg eða óhjálpleg. Það er ekki hjálplegt þegar maður er langt niðri að liggja í sófanum og raðhorfa á Netflix eða hanga á Facebook. En það gæti aftur á móti verið hjálplegt að standa upp og setja í þvottavél, eða fara út að ganga. Hegðun getur líka flokkast sem nærandi eða tærandi; nærandi hegðun lætur okkur líða betur eftir á, hleður batterýin ef svo má segja, en tærandi hegðun dregur úr andlegri orku og skilur okkur eftir þreyttari.

 

FB_IMG_1538211892484

 

Við vanmetum gjarnan frammistöðu okkar, og við mat á því sem við erum að gera verðum við að miða við stöðuna eins og hún er núna en ekki eins og hún var áður en við veiktumst. Við erum alltaf að gera meira en við gerum okkur grein fyrir, og því getur verið ágætt til að gera sér grein fyrir stöðunni að taka nokkra daga og skrifa niður allt sem maður gerir; líka þetta sem á að þykja sjálfsagt, því það er ekkert sjálfsagt þegar maður er í þessum aðstæðum. Fórstu í sturtu? Frábært. Bjóstu um rúmið? Enn betra. Fórstu að versla? Það getur bara verið afrek.

 

Þegar við erum búin að skrá hjá okkur svart á hvítu er mjög líklegt að við sjáum að við erum að gera mun meira en við gerðum okkur grein fyrir. Við höldum nefnilega oft að við séum ekki að gera neitt, en það er alltaf eitthvað sem við erum að gera!

Það getur líka verið gott að skrá hjá sér klukkustund fyrir klukkustund (eða hálftíma jafnvel) hvað við gerðum yfir daginn. Þá sjáum við líka hvað við eyðum miklum tíma í hluti sem mega kannski alveg missa sín. Við getum kannski verið aðeins minna í símanum eða horft aðeins minna á sjónvarpið og sett inn hjálplegri hegðun í staðinn.

FB_IMG_1538031356937

 

Til þess getur verið hjálplegt að gera sér áætlun, það var mikið talað um vikuáætlanir, en stundum dugar bara að gera áætlun fyrir daginn. Það er mismunandi hvað hentar hverjum og einum og á hverjum tíma. En við gerð áætlunar verðum við að hafa í huga skráninguna okkar á því sem við erum að gera, það kann ekki góðri lukku að stýra að ætla sér of mikið. Við verðum líka að hafa í huga að gera ráð fyrir tíma fyrir okkur sjálf, og að hafa nærandi og hjálplega hegðun á áætluninni. Áætlun verður að henta okkur eins og staðan er núna, ekki eins og hún var áður en við veiktumst eða eins og við vildum að hún væri. Með því að gera áætlun tökum við frá tíma fyrir það sem við viljum eða þurfum að gera, og aukum líkur á afkastameira og fjölbreyttara lífi.

 

FB_IMG_1535992905171

 

Þegar við vinnum að vikuáætlun er gott að taka saman það sem þarf að gera og það sem okkur langar að gera. Af þessum lista veljum við eitt verk til að byrja á, og skiptum því niður í skref ef þarf. Það er gott að velta fyrir sér hvers vegna við höfum ekki komið þessu í verk þegar, hvað er það sem kemur í veg fyrir framkvæmdir? Skoðum þessar hugsanir út frá gagnrýnu sjónarmiði, m.a. með þær spurningar sem nefndar eru hér að ofan að vopni. Miklar líkur eru á því að það komi í ljós að við séum að mikla fyrir okkur hlutina.

 

Kostir vikuáætlunar eru ýmiskonar, en t.d. aðstoðar áætlun okkur við að auka virkni, með því að brjóta niður það sem þarf að gera í minni skref setjum við okkur raunhæfari markmið og eigum auðveldara með að takast á við hlutina og finna lausnir frekar en að gefast upp. Þegar við erum svo búin að stíga fyrsta skrefið, þá verður næsta skref auðveldara þar sem árangur vekur með okkur betri líðan. Það vill svo gjarnan sýna sig að þegar byrjað er að glíma við vandamálin / verkefnin að þau eru einfaldari og viðráðanlegri en þau virtust í fyrstu.

FB_IMG_1535964275512

Það getur líka verið gott að búa sér til lista yfir ánægjulegar og hjálplegar athafnir, lista sem við getum þá kíkt á þegar við finnum að myrknættið er að skella á. Það getur verið erfitt þegar myrkrið er skollið á að finna athafnir sem maður hefur gaman af, en með því að eiga lista yfir það sem veitir þér gleði er einfaldara að standa upp og gera hlutina. Þá getur þú líka sagt fólki sem er nákomið þér hvað það getur reynt að fá þig til að gera með sér þegar það finnur að þú ert ekki sjálfri þér lík.

 

Þegar við erum að vinna í bættri heilsu verðum við að gefa sjálfum okkur smá slaka. Teljum við okkur hafa gert mistök megum við ekki taka of hart á þeim, heldur sýna sjálfum okkur mildi. Það er ekki hjálplegt að berja sig niður fyrir mistök sem við teljum okkur hafa gert, heldur kostar það bara mikla orku og minnkar líkur á áframhaldandi virkni. Það er mikilvægt að leyfa hverjum degi að hafa sína þjáningu, og rífa sig ekki niður fyrir slæman dag. Ný dagsetning þýðir nýr dagur – taktu ekki daginn á undan með þér inn í nýjan dag.

FB_IMG_1542194936771

Ég get ekki annað en mælt með námskeiði í HAM. Hópurinn sem ég var með var dásamlegur, og það var mjög gott andrúmsloft í tímunum. Námskeiðið sem ég fór á var á göngudeild geðdeildar SAk, og um það sáu þrír sálfræðingar. Efnið sem farið var yfir var að hluta til úr Handbók um hugræna atferlismeðferð (sem má finna Meðferðarhandbók) og að hluta til útbúið af þeim sjálfum. Það sem fram kemur í þessari grein er unnið upp úr Handbók um HAM, efni úr tímum og glósum mínum úr tímum.

8a5240e547b8f476e633cf8505a0844b

Bækur

Uppáhalds bækurnar mínar – 6. hluti

Hús andanna var fyrsta bókin sem ég las eftir Isabel Allende. Sagan þótti mér heillandi þótt ég ætti svolítið erfitt með þann hluta sem fellur undir töfra í hugtakinu töfraraunsæi. Hins vegar var eitthvað við hana, því ég er langt komin með að lesa það sem þýtt hefur verið eftir Allende.

Hus_andanna

Maður sem heitir Ove e. Fredrik Backman fór sigurför um landið (eða heiminn?) þegar hún kom út, enda stórskemmtileg bók sem tekur samt líka á átakanlegum málum. Það er búið að gera bíómynd (þótt ég hafi ekki séð hana) og svo var settur upp einleikur með Sigga Sigurjóns sem var gríðarvel heppnaður. Ef þú hefur ekki lesið hana, þá mæli ég eindregið með að þú gerir það nú þegar!

Maður-sem-heitir-Ove

Margar gamlar sígildar bækur falla í kramið hjá mér og Anna Karenína eftir Leo Tolstoj þótti mér alveg frábær! Mér finnst gaman að lesa um þennan tíma þegar konur klæddust síðkjólum og ástin var ekki sjálfsögð.

41J-CiEo4dL._SX327_BO1,204,203,200_

Ómunatíð e. Styrmir Gunnarsson rakst ég á fyrir nokkrum árum síðan í nytjagámnum sem var og hét. Ég vissi ekkert um þessa bók, en þegar ég las aftan á hana og sá að þetta var saga þeirra hjóna af baráttu við geðsjúkdóm greip ég hana með mér. Sagan hafði mikil áhrif á mig, og setti í samhengi hvernig lífið hlýtur að vera fyrir fjölskyldu þess sem þjáist af geðsjúkdómi. Alls ekki löng bók, en stór á annan hátt.

omunatid

Afþreying

Hvað eru flóttaleikir og punktar fyrir óreynda flóttaleikjaspilara

Hvað eru flóttaleikir?

Flóttaleikir (einnig kallaðir flóttaherbergi) eru leikir sem byggjast á þeirri grunnhugmynd að spilararnir eru lokaðir inni og verða að leysa ýmsar þrautir til að komast út áður en tíminn rennur út. Oftast er miðað við 60 mínútur, en ég hef spilað eitt 90 mínútna herbergi og svo hef ég heyrt að það séu til einhver tveggja tíma, og einnig 30 og 45 mínútna. Eftir að hópurinn hefur verið lokaður inni, þá er leiknum lokið ef dyrnar eru opnaðar – það þýðir ekkert að þurfa að fara á klósettið, eða fá sér að drekka.

Sumir leikjanna eru bara eitt herbergi, en oftar eru þó fleiri herbergi – þannig að þegar hópurinn kemst áfram í leiknum opnast nýtt herbergi. Það er alltaf einhver forsaga að því að hópurinn læsist inni í herberginu, og herbergið er innréttað í ákveðnu þema. Vinsæl þemu eru t.d. geðveikrahæli, vísindastofur, galdramenn, fjöldamorðingar, nornir og draugar svo eitthvað sé nefnt.

the_room2-1040x600
Mynd fengin að láni hjá http://www.twobearslife.com

Vistarverurnar eru vel vaktaðar með öryggismyndavélum og hljóðnemum, en svonefndur leikstjóri (Game master) fylgist með þeim sem eru að spila á tölvuskjá og hlustar í heyrnartólum. Þar getur hann séð hvernig leiknum miðar, gefið vísbendingar og látið vita ef fólk er á algjörum villigötum. Það er þó misjafnt hvernig leikstjórinn hefur samband við spilarana, en við höfum reynt þrjár mismunandi aðferðir:

 1. Talstöð; þá talar leikstjórinn við spilarana gegnum talstöðina, og spilararnir geta óskað eftir vísbendingum með sama hætti.
 2. Spjaldtölva; við fengum þá spjaldtölvu meðferðis, en vorum ekki með beint samband við leikstjórann, heldur gátum við sótt okkur vísbendingar í appið. Þetta þykir mér langsísta útfærslan.
 3. Skjár; þá er skjár á veggnum þar sem tíminn telur niður, og sérstakt hljóð spilast ef vísbending birtist á skjánum. Í þessari útfærslu er oftast nóg að biðja bara um vísbendingu eða vinka í eina af myndavélunum. Þetta er uppáhalds útfærslan mín.

Þrautirnar sem leysa þarf eru mismunandi, en oft má finna a.m.k. einn lás, hvort sem hann er talnalás eða hengilás. Þegar lásinn hefur svo verið opnaður má finna einhverjar frekari vísbendingar til að leysa næstu þrautir.

ENIAA_1
Mynd fengin að láni hjá http://www.redletterdays.co.uk

Þrautirnar geta verið frá því að raða saman púsli, setja hluti á réttan stað, hringja í rétt símanúmer, þrýsta á takka í réttri röð o.s.frv., en það er mjög misjafnt hve mikil tækni er notuð. Stundum byggjast herbergin nær alveg upp á einföldum lásum, þar sem þarf að raða saman talnarunu til að geta opnað, en stundum spila flóknari lásar og jafnvel tækni stærra hlutverk. Það þarf stundum að vigta rétta hluti til að opna lása, þylja þulur, snerta ákveðna takka á sama tíma, nota UV-ljós, staðsetja hluti á rétta staði o.s.frv,

Margir fylltust óhug í janúar þegar fréttir bárust frá Póllandi um stelpnahóp sem var að halda upp á afmæli einnar þeirra með því að fara í flóttaherbergi, en það kviknaði í og þær létust allar. Þetta var hræðilegt í alla staði og gersamlega ófyrirgefanlegt að ekki skyldi hafa verið hugsað fyrir því að fólk gæti komið sér út sjálft. Það kom fram við rannsókn að leikstjórinn hafði nú kannski ekki sinnt sínu hlutverki nógu vel – talið er að hann hafi skroppið frá og ekki verið að fylgjast með. Eldurinn var rakinn til lélegs frágangs á rafmagni, og vöntun á öryggisráðstöfunum hafði þetta í för með sér. Af þessu hlaust líka að reglur voru mjög hertar í Póllandi, og eigendur skikkaðir til að gæta að öryggisatriðum.

Hins vegar; þá eru flestir með sín mál í lagi. Stundum er dyrunum ekki læst, í öðrum tilvikum hangir lykillinn á snaga við hurðina. Á sumum stöðum opnast læsingin ef viðvörunarkerfi fer í gang. Ég mæli samt með að vera alltaf viss um að þú hafir undankomuleið, ef eitthvað kemur fyrir.

nt-4
Mynd fengin að láni hjá http://www.nmescaperoom.com

Oftast er tímatöku vel gætt, en sum fyrirtæki leggja minna upp úr því. Þegar herbergin eru með skjá þar sem vísbendingar birtast, þá er tíminn alltaf sjáanlegur. Ef samskiptin fara fram í gegnum talstöð, þá er ekki hægt að fylgjast með tímanum nema klukka sé í herberginu. Ég verð fljótt tímavillt, og finnst þetta því mjög óþægilegt.

Um allan heim má finna fólk sem eru forfallnir spilarar, fólk sem hefur spilað tugi og hundruð leikja. Ég hef séð dæmi um fólk sem ferðast borga á milli til að spila flóttaleiki, og er að taka kannski 25-35 herbergi á 3-4 dögum. Það eru margir hópar á Facebook fyrir forfallna flóttaherbergjaspilara, þar sem allt milli himins og jarðar (sem tengist leiknum) er rætt!

Það eru til ýmis afbrigði af upprunalega leiknum. Það má t.d. finna herbergi þar sem eru leikarar – þ.e.a.s. hópurinn er ekki einn í herberginu. Það má líka finna viðburði, eins og t.d. í Hollandi, þar sem heilar byggingar eru lagðar undir svona leiki og kannski 300 manns að spila í einu. Sá einn viðburð um daginn þar sem 300 manns voru að keppast að því að losna úr fangelsi, og höfðu eina 3 tíma til þess.

c_450x299__escape-room-puzzles
Mynd fengin að láni hjá http://www.escapehour.ca/

Hvað þarf að hafa í huga til að verða góður flóttaherbergisspilari?

Þegar hópurinn mætir á staðinn tekur leikstjóri á móti honum Þeir fara yfir reglurnar með ykkur og svo forsöguna að herberginu. Á sumum stöðum skrifar maður undir eyðublað, að maður þekki áhættuna o.s.frv., en ég held ég hafi hingað til bara gert það í Þýskalandi og öðrum staðnum á Ítalíu.

Það þarf að hafa margt í huga þegar að leiknum sjálfum kemur. Ég ætla að reyna að snerta á því mikilvægasta;

Tjáðu þig!
Það skiptir höfuðmáli að tjá sig. Segið frá því sem þið sjáið og finnið. Það taka ekki allir eftir sömu hlutunum og sumir tengja saman það sem aðrir sjá ekki.
Talið hátt og skýrt, og gætið þess að liðsfélagar ykkar séu meðvitaðir um það sem þið eruð að gera, en fylgist sömuleiðis með því sem hinir eru að gera. Það er því best að venja sig á að einn tali í einu, ekki grípa fram í.
Með því að tala saman getur leikstjórinn líka fylgst betur með og gefið betri vísbendingar.

SAW_escape_room_by_krystal_ramirez_51_WEB
Mynd fengin að láni hjá http://www.vegasseven.com

Þið eruð lið!
Þið eruð lið með sameiginlegt markmið; að leysa þrautirnar og komast út. Þetta er ekki einstaklingskeppni, þannig þið græðið ekkert á að halda upplýsingum frá liðsfélögunum.
Við höfum öll mismunandi styrkleika og veikleika, það sem einn fattar ekki getur legið ljóst fyrir næsta manni. Því er mjög gott að ef þú finnur ekki lausn á ákveðinni gátu eða þraut að láta liðsfélaga prófa. Betur sjá augu en auga – og fólk hefur mismunandi sýn á hlutina.
Segið frá öllu sem þið sjáið og því sem ykkur dettur í hug, ekki afskrifa það þótt það sé asnalegt eða ólíklegt. Ekki allt er eitthvað, en allt gæti verið eitthvað.
Liðið virkar oft betur þegar það er óhrætt við að tjá sig og kasta hugmyndum á milli. Þannig kvikna líka nýjar hugmyndir og finnast jafnvel lausnir.
Setningin „ég er búin að þessu!“ á ekki við í þessum leik – kannski sástu ekki vísbendingu sem er nauðsynleg til lausnar á þraut.

Ekki nota afl!
Í kynningu á leiknum kemur alltaf fram að það þarf ekki að nota afl eða krafta. Það sem tilheyrir leiknum er undantekningarlaust haft þannig að allir spilarar geti náð til þess, fært það eða hvað sem þarf að gera. Fyrsta reglan er því að brjóta ekki neitt eða skemma, ef það er naglfast þarftu ekki að hreyfa það leiksins vegna.
Ykkur er oftast sagt fyrirfram hvað má ekki snerta, og það sem ekki skal snerta, eins og rafmagnsleiðslur og annað er merkt með límbandi eða límmiðum eða álíka. Hinsvegar skuluð þið ekki vera hrædd við að snerta allt sem ekki er merkt að ekki skuli snerta!

hero-home
Mynd fengin að láni hjá http://www.thesecretchambers.com

Fyrstu mínúturnar
Fyrstu mínúturnar í leiknum eru mjög mikilvægar. Skoðið allt, leitið og safnið saman á einn stað öllu sem þið finnið og gæti nýst seinna meir. Leitið eins nákvæmlega og hægt er, prófið að opna alla skápa og rými. Kannið, skoðið og rannsakið. Stafir, tákn, myndir, tölur – segið frá, og sýnið gjarnan öðrum liðsfélögum.
Horfið í kringum ykkur, allt í herberginu er þarna af ástæðu – stundum bara til að afvegaleiða eða skapa stemmningu, en allt hefur tilgang.

Skoðaðu lásana!
Á fyrstu mínútunum verður maður líka að gera sér grein fyrir hvernig lásar eru á svæðinu til að vita hvað vantar. Lásar geta verið með 3, 4 eða 5 talna runum, bókstöfum, örvum, lyklum (hvernig lykill?), en þú finnur ekki rununa eða orðið ef þú veist ekki að þú ert að leita að því.
Þegar kemur að talna- og stafalásum þá á að prófa allt! Ekki horfa framhjá samsetningu afþví „það er örugglega ekki svona“ eða „nei, það er svo ólíklegt“ – það tekur nokkrar sekúndur að slá tölu inn í lás, svo þið tapið engu á því.
Sumir lásar læsast í einhvern tíma, og þá er best að forgangsraða og nota fyrst það sem er líklegast – það má þá snúa sér að einhverju öðru þar til hægt er að prófa lásinn aftur. Það er líka mikilvægt að fylgjast vel með því sem leikstjórinn segir til að vita af því ef slíkir lásar eru í herberginu.

Blog-detail-2
Mynd fengin að láni hjá http://www.clockwiseescape.com

Eftir því sem leiknum vindur fram
Eins og ég sagði þá er gott að safna saman öllum hlutum sem þið finnið á einn stað svo þeir séu allir til taks og auðvelt að skoða þá alla í einu. Þegar þið hafið notað hlut setjið hann þá á annan stað svo notaðir hlutir trufli ekki einbeitinguna.
„Afhverju“ er sterkasta vopnið þitt; spurðu þig afhverju og svo aftur. Afhverju er þetta svona? Afhverju er ljós hér? Afhverju erum við með band hér? Afhverju heyrðist þetta hljóð?
Það er góð regla að þegar maður nær að opna eitthvað skoði fleiri en einn það sem finnst og rýmið sem opnaðist, svo þið missið ekki af einhverju. Sömuleiðis ef þið festist, þá skalt þú skoða eitthvað sem liðsfélagi þinn skoðaði áðan og öfugt.
Ekki eyða of miklum tíma í eitthvað eitt. Snúið ykkur að öðru og skoðið verkefnið aftur síðar – eða skiptið við liðsfélaga.

DSC_0789
Mynd fengin að láni hjá http://www.ikatbag.com

Vísbendingar
Það er misjafnt hvernig tekið er á vísbendingum. Stundum dregst smá tími frá fyrir hverja vísbendingu. Stundum eru fyrstu þrjár „gjaldfrjálsar“. En það hafa ekki verið neinar refsingar á þeim stöðum sem við höfum spilað, og því eru bara gefnar vísbendingar þegar þarf og beðið um vísbendingar þegar þarf.
Þegar leikstjórinn gefur vísbendingu þá skuluð til veita henni athygli. Stundum eru þær óskýrar, og jafnvel fattar maður ekki hvað leikstjórinn er að meina. En þá þarf bara að lesa í hana – og ekki undir neinum kringumstæðum hunsa hana.
Ef þið festist, þá skuluð þið byrja á því að skoða hlutina sem þið eruð með og hvað þið eigið eftir að opna eða leysa. Eins og ég sagði áðan er það góð regla að leggja hluti sem búið er að nota til hliðar, þar sem oftast eru hlutir bara notaðir einu sinni. (Við höfum það fyrir venju að spyrja ef það kemur ekki fram í kynningunni.)
En ef þið eruð enn föst, biðjið þá um vísbendingu. Það er ekkert að því að biðja um vísbendingu – þetta er ekki gáfnapróf, þetta er afþreying og á að vera gaman!
Hafið það líka í huga að þið gætuð þurft að nota vísbendingar snemma í leiknum, bara til að koma honum af stað.

screenshot2
Mynd fengin að láni hjá http://www.escaperoommaster.com

Þrautir og gátur
Oft liggur ekki í augum uppi hvað á að gera eða hvernig á að gera það. Þessvegna er um að gera að hafa hugfast að engar hugmyndir eru vitlausar, og prófa allt.
Ef ykkur finnst þrautin ekki auðskiljanleg, þá getur verið gott að horfa á hana frá öðru sjónarhorni. Orð eru margræð, sem dæmi getur orðið loft þýtt andrúmsloft, háaloft eða loft í herbergi. Geta orðin þýtt annað en það sem þú hugsar fyrst?

Mundu svo bara að;
Það er rosalega gaman að ná að leysa herbergið á góðum tíma, en tíminn er ekki allt. Þetta er afþreying, þetta er skemmtun. Njótið þess sem þið eruð að gera og hafið gaman af því!
Ef þið finnið leiðbeiningar, þá skuluð þið lesa þær vel. Allur texti í herberginu er þarna af ásetningi, og á að segja ykkur eitthvað.
Það er gott að vera í vasalausum fatnaði, eða a.m.k. láta eins og þið séuð ekki með vasa meðan þið eruð í leiknum – það er mjög bagalegt ef maður stingur hlut í vasann og gleymir honum þar! Þetta gildir líka um að halda á hlutum. Hlutir sem þið finnið verða að vera sýnilegir og á sama stað svo hægt sé að lesa eitthvað úr þeim!
Þegar tíminn er farinn að styttast og fjör að færast í leikinn verður erfiðara að halda ró sinni; en ekki missa tökin, þá er erfiðara að komast að rökréttri niðurstöðu og erfiðara að setja réttar tölur í talnalásinn!

c_450x299__top11-puzzles
Mynd fengin að láni hjá http://www.escapehour.ca

Mundu svo bara, þetta er ekki gáfnapróf, þetta er skemmtun.

Skriftir

11 Leiðir til að vera fyrirmyndar viðskiptavinur

Reglulega kemur upp umræðan um hve dónalegt fólk getur verið við fólk í þjónustustörfum, og sú umræða á fullan rétt á sér, því það eru ótrúlegustu hlutir sem fólk lætur út úr sér. Ég tók hér saman nokkra punkta sem tryggja það að þú verðir ekki saga í fjölskylduboðum næstu 20 árin, vegna þess hvað þú varst dónaleg/ur eða leiðinleg/ur við starfsfólk í þjónustustörfum.

 1. Starfsfólk verslana þolir ekki þegar vörur í hillunum eru ekki með strikamerki. Viltu gera svo vel, ef þú sérð vöru í hillunni með ekkert strikamerki, að velja það eintak. Starfsmaðurinn á kassanum verður líka svo glaður að fá að hlaupa inn í verslunina til að finna vörunúmer vörunnar, og losna frá kassanum í smá stund.
 2. Þegar afgreiðslustarfsfólk stimplar sig inn í vinnuna skilur það líka persónuleikann, tilfinningarnar og öll einstaklingseinkenni eftir í starfsmannaaðstöðunni. Það er því allt í lagi að hella sér yfir afgreiðslufólkið, það tekur það ekkert nærri sér eða sem persónulegri móðgun.
 3. Verðið á bensínlítranum / mjólkurfernunni / skóparinu er pottþétt bara samsæri gegn þér – afgreiðslufólkið ræður verðinu og er bara með þetta háa verð til að græða persónulega og til að skaprauna þér.
 4. Afgreiðslufólk er sáttast þegar þú talar ekki við það. Þegar það býður góðan daginn á það ekki von á svari, og þegar það segir „gjörðu svo vel“ eða „eigðu góðan dag“ þá er það bara að halda raddböndunum við, svo það þurfi síður að ræskja sig þegar það svo hittir loksins einhvern sem það nennir að tala við.
 5. …og að þakka því fyrir! Til hvers? Það fær borgað fyrir þetta, þetta er bara sjálfsagt mál!
 6. Starfsfólk í þjónustustörfum sem talar ekki fullkomlega rétta íslensku vill endilega heyra hvað þér finnst um það. Það eitt og sér að fá að heyra að þú skiljir það ekki eða að þér finnist asnalegt að það tali ekki íslensku, það mun hjálpa því í framtíðinni – því í hvert sinn sem einhver segir þetta við það þá bætast nefnilega nokkur ný orð í orðaforðann og málfræðin verður auðveldari.
 7. Ef að þú tekur þér vöru úr hillu verslunar, endilega skildu hana eftir annarsstaðar ef þú hættir við hana. Sérstaklega ef þú ert með kælivöru, mjólk eða álegg, skildu það eftir bara hjá hreinlætisvörunum. Það er aldrei nóg að gera í vinnunni hjá þessu fólki, og svona lagað kemur þessu unga fólki til að hreyfa sig.
 8. Og alls ekki nota hyrnurnar til að skilja vörurnar þínar frá annarra á færibandinu.
 9. Jafnvel þótt starfsfólk í þjónustustörfum fari út fyrir það sem það þarf nauðsynlega að gera og er uppálagt, gangi lengra í þjónustu sinni eða sé einstaklega kurteist og vingjarnlegt, þá er best fyrir þig að vera hryssingsleg/ur – við viljum ekki að þetta fólk haldi að það sé eitthvað.
 10. Ferðu stundum í sjoppu að fá þér pylsu? Þá skaltu nú vera með á hreinu í hvaða röð þú vilt sósurnar á pylsuna! Fyrst hráan, tómat og remú, í þessari röð – og tvöfalt sinnep ofan á!
 11. Ef þú álpast inn í fataverslun, þá skaltu nú vera alveg viss um að það heyrist í þér þegar þú lætur vita af því hve dýrt þér þykir þetta allt vera, og hve ljótt og tilgangslaust. Svo ekki sé nú minnst á stærðirnar sem boðið er upp á. Það er nefnilega afgreiðslufólkið á gólfinu sem ræður hvað er keypt inn, verðinu og þeim stærðum sem flíkin er framleidd í.

Ef þú ferð eftir ofangreindum ráðleggingum geturðu verið viss um að hvert sem þú ferð til að versla, að þér verður tekið eins og grískum guði!

Bucket list, Lífið

Öfugur Bucket list – Hvað hef ég nú þegar gert?

Öfugur bucket listi snýst um það að í staðinn fyrir að skrifa niður allt sem þig langar að gera, þá skrifarðu niður allt sem þú hefur afrekað og nú þegar gert. Að eiga svona lista ýtir undir þakklæti og getur aukið sjálfsálit.

Mér finnst hugmyndin um öfugan bucket lista mjög spennandi, og ekki misskilja mig. Listinn er settur upp fyrir sjálfa mig til að minna mig á allt sem ég hef afrekað og góðar stundir sem gera lífið þess virði að lifa því, en ekki til að monta mig eða hreykja mér.

Eins og Bucket listinn minn, er þessi settur upp í nokkrum flokkum – þeim sömu og koma fyrir í Bucket listanum.

Ferðalög:

 1. Hef komið til Indlands
 2. Hef komið til Póllands
 3. Hef komið til New York
 4. Hef komið til San Francisco
 5. Hef komið til Tyrklands
 6. Hef komið til Parísar
 7. Hef komið til Rómar
 8. Hef komið til 15 landa í heildina
 9. Hef heimsótt Yosemite þjóðgarðinn í BNA.
 10. Hef skoðað Pamukkale og séð Kleópötrulindina
 11. Hef farið upp í topp á Eiffel turninum
 12. Hef skoðað Notre Dame
 13. Sá Stonehenge
 14. Hef skoðað Versalahöllina
 15. Fór 4 x erlendis 2018 og a.m.k. 4 x 2019.
 16. Hef skoðað the Golden Gate
 17. Hef skoðað Sistínsku kapelluna, Péturskirkjuna, Gröf Péturs postula, Hringleikahúsið og Domus Aurea.

Sport:

 1. Hef farið í rafting
 2. Hef stokkið af kletti í vatn
 3. Hef farið í Go Kart
 4. Hef prófað bogfimi
 5. Hef snorklað í Silfru
 6. Hef prófað Buggybíla
 7. Hef prófað Lazertag utandyra (og innandyra reyndar líka)
 8. Hef komið upp á Langjökul
 9. Hef kafað

Upplifun:

 1. Hef farið í Bláa lónið
 2. Fór í Road trip með vinkonu
 3. Sá bæði Justin og Britney á tónleikum
 4. Hef farið í Íslensku óperuna
 5. Sá sýningu á Broadway, NY
 6. Fór í tímaflakksmyndatöku
 7. Hef farið í 2 af Disney World görðunum (Magic Kingdom og Epcot)
 8. Hitti Inu May Gaskin

Persónulegt:

 1. Ég gaf egg
 2. Ég hef fætt 2 börn
 3. Fæddi Eyrúnu heima
 4. Hef létt mig um meira en 20 kg (suss!)
 5. Hef tekið þátt í RKÍ verkefni vegna flóttamanna
 6. Hef stofnað fyrirtæki
 7. Hef farið í flóttaherbergi og komist út – 9 sinnum!
 8. Hef prófað „sensory deprivation“ flot.
 9. Hef farið í nudd með eiginmanninum
 10. Ég á mitt eigið húsnæði (sko, okkar)
 11. Ég hef lokið bæði stúdent, BA- og ML-námi
 12. Ég hef löggildingu sem fasteignasali
 13. Ég er gift
 14. Ég hef verið viðstödd fæðingu og nánast tekið á móti barni
 15. Ég er guðmóðir
 16. Ég er skráður líffæragjafi (og var áður en ætlað samþykki kom til)
 17. Ég er SOS foreldri
 18. Ég er búin að lesa vel yfir 500 bækur
 19. Hef fylgst með stelpunum mínum stækka og þroskast
 20. Hætti að drekka gos í heilt ár
 21. Fór í portrettmyndatöku
 22. Á bikini sem ég nota

 

Þessi listi kom mér heldur betur á óvart, ég vissi ekki að það væri svona margt sem ég hefði í raun gert og afrekað – það er margt sem ég get verið þakklát fyrir og stolt af.

Hvað hefur þú gert? Taktu það saman, og vertu ánægð/ur með þig!

Nú er bara að halda áfram að stroka út af Bucket listanum, og bæta á þennan!

Ferðalög

Róm, borgin eilífa – þriðji hluti

20190126_082445
Framhlið Basilíkunnar Santa Maria degli Angeli e Martiri.

En að sofna snemma þýðir líka að maður vaknar snemma! Við vorum komin á rand upp úr kl. 8.00 um morguninn, en við fengum okkur göngutúr að Baðhúsum Diocletians og Santa Maria degli Angeli e Martiri (Saint Mary of Angels and Martyrs). Baðhús Diocletians voru stærstu almenningsböðin í Róm til forna, byggð í kringum árið 300 e.kr. Mikill hluti þeirra stendur enn, og þar er í dag safn. Því miður var ekki búið að opna þar, en við fórum í staðinn í kirkjuna. Þegar Baðhús Diocletians var grafið upp fannst stytta af Konstantín, sem nú stendur fyrir utan St. John’s in Laterano kirkjuna.

20190126_084126
Aðalaltari Santa María Basilíkunnar.

Michelangelo hannaði kirkjuna, en hún lítur út að utan eins og rústir, þar sem hann lét byggja hana inn í rústir baðhússins. Ef maður veit ekki af kirkjunni, er minna en ekkert mál að ganga framhjá henni, þar sem hún lítur ekki beint spennandi út að utan.

Eftir heimsókn í Santa Maria degli Angeli e Martiri fengum við okkur indælis göngu að Trevi gosbrunninum. Veðrið var stillt og fallegt, en því miður vörpuðu húsin í kring um Trevitorgið skuggum á gosbrunninn, svo ekki gekk mjög vel að mynda hann. Gosbrunnurinn er vægast sagt risastór, og gullfallegur.

20190126_091848
Trevi gosbrunnurinn. Því miður vörpuðu húsin skugga á hann, svo það var ekki auðvelt að ná af honum góðri mynd.

Gosbrunnurinn var byggður á átjándu öld, hannaður af Nicola Salvi. Hann er 26 metra hár og 49 metra breiður, og sýnir stundina þegar Rómverskir verkfræðingar fundu vatnsuppsprettu rétt utan við Róm á fimmta áratug fyrstu aldar. Þetta er einn af frægustu gosbrunnum heims.

20190126_091946
Mikilfenglegur!

Þaðan gripum við leigubíl upp að Hringleikahúsinu, en þar áttum við bókaða skoðunarferð um Hringleikahúsið, Roman Forum og Palatine-hæð með City Wonders. Colosseum er með frægustu byggingum í heimi, og alveg gríðarlegur fjöldi ferðamanna heimsækir það á hverjum degi.

20190126_095057

Byrjað var að byggja Hringleikahúsið árið 70 e.kr., en bygging þess tók aðeins 10 ár. Það var allt marmaraklætt, en eins og sjá má á myndum eru holur í veggjunum eftir festingarnar þar sem marmarinn var festur. Marmarinn var allur rifinn niður og líka festingarnar, og notað í annað, og það var ekki fyrr en páfinn setti upp kross og vígði Hringleikahúsið sem kirkju sem hætt var að rífa hluti úr byggingunni og nota í annað. Páfinn hefur bjargað mörgum minjunum frá endalokum sínum með því að vígja þær.

20190126_103815
Hjónakorn í Hringleikahúsi.

Heimildum ber ekki saman um hve margir komust inn á leikvanginn, en tölurnar rokka frá 50-100.000 manns. Það var alltaf frítt á sýningar og leika í Hringleikahúsinu, en hinn almenni borgari komst bara að kannski einu sinni á lífsleiðinni – það hins vegar var allt í góðu, því það voru alls konar leikar og afþreying í borginni, sem allt var ókeypis fyrir frjálsa borgara. Þetta var hluti af stjórnarkænsku keisaranna, Brauð og leikar – tryggið það að fólkið hafi nóg að borða og eitthvað við að vera og þá helst friður í ríkinu.

20190126_104120
Gangur í Hringleikahúsinu.

Í Hringleikahúsinu mátti sjá dýr frá öllum hornum ríkisins, en þau voru geymd í búrum undir gólfinu. Á myndum má sjá hvernig kjallarinn leit út, en ofan á honum var timburgólf, og ofan á því var ca. 30 cm djúpur sandur. Það voru lyftur upp úr kjallaranum, en það þurfti 16 þræla til að hífa hverja lyftu upp. Dýrin birtust þá upp úr gólfinu. Í Hringleikahúsinu voru einkum sýndar aftökur, veiði og skylmingar.

20190126_111151

Það er þó ekki sagnfræðilega rétt að skylmingaþrælarnir hafi verið látnir skylmast þar til annar þeirra dó, þar sem mikill kostnaður fylgdi því fyrir keisarann að þjálfa skylmingaþrælana. Þetta voru oftast drengir úr illa stæðum fjölskyldum sem voru teknir í skóla þar sem þeir lögðu stund á skylmingar í einhver ár áður en þeir fengu að skylmast. Þeir frægustu gátu bæði orðið ríkir og vinsælir, og því var fyrir nógu að berjast. Hins vegar kom það fyrir á merkum dögum að keisarinn fórnaði skylmingarþræl, t.d. á afmælum eða öðrum mikilvægum dagsetningum.

20190126_114123

Hinn almenni borgari fékk kannski að koma á sýningu í Hringleikahúsinu einu sinni á ævinni, en Keisarinn og Vestumeyjarnar áttu sínar eigin stúkur, og aðallinn gat komið þegar honum sýndist. Eins og ég sagði áðan tók húsið tugi þúsunda áhorfenda, en það tók samt svo gott sem engan tíma að fylla og tæma húsið – kannski einar 20 mínútur. Húsið hafði 76 almenna innganga, og á miðanum mátti sjá númer inngangs og sætisnúmer. Stigarnir voru hannaðir á sérstakan hátt, en þeir kallast Vomitarium. Í þeim halla þrepin töluvert fram á við, þannig að þú getur ekki annað en gengið rösklega niður stigann, og það ýtti undir öra tæmingu hússins.

20190126_113821
Sigurbogi Konstantíns.

Fyrir utan Hringleikahúsið stendur Arch of Constantine, en boginn var vígður árið 315 til minningar um vaska framgöngu Konstantíns I í stríði. Þegar hann var byggður var hann stærsti sigurboginn í borginni.

Forum Romanum, eða Rómverska torgið, stendur rétt við Hringleikahúsið. Þarna var miðborg Rómar til forna, og á Palatine-Hill, sem er rétt við torgið, bjuggu keisararnir fyrir og um krists burð. Í Forum Romanum má t.d. finna hof Vestumeyjanna. Vesta var gyðja eldsins, og það voru 9 konur sem gættu eldsins. Þær voru valdar úr röðum aðalsfólks þegar þær voru á aldrinum 6-10 ára og fluttu þá í höll Vestumeyjanna. Þar var þeim séð fyrir öllu sem þær þurftu, þær hlutu ýmiskonar hlunnindi, eins og t.d. einkastúku í Hringleikahúsinu. Það eina sem þær þurftu að gera var að helga sig því að sjá um eldinn og að hann dæi aldrei út, og vera hreinlífar. Við 35 ára aldur losnuðu þær svo undan starfanum og gátu þá gifst eða gert það sem þeim þóknaðist. En ef þær urðu uppvísar að því að vera ekki hreinlífar – nújá, þá voru þær grafnar lifandi.

20190126_121111
Rústir Vestuhofsins.

Á Forum Romanum má t.d. sjá leifar húss Júlíusar Sesars. Það er svosem ekki mikið eftir af Forum Romanum, þar sem allt sem hægt var var tekið og notað í annað. En svo kom páfinn, og helgaði eitt hof á svæðinu og eftir það var það látið að mestu kyrrt.

20190126_124158
Rústir einnar hallarinnar á Palatine-hæð.

Sagan um stofnun Rómar segir frá bræðrunum Rómúlusi og Remusi, en þeir voru ósammála hvar þeir ætluðu að sofna borgina sína. Rómúlus vildi stofna hana á Palatine-hæð, en Remus vildi stofna hana á Aventine-hæð. Í stuttu máli, þá drepur Rómúlus bróður sinn, og stofnar Róm á Palatine-hæð.

20190126_124353
Circus Maximus – þar sem kappreiðarnar fóru fram. Útsýnið frá einni höllinni á Palatine-hæð.

Eftir langan morgun, þá vorum við orðin frekar svöng. Ég var búin að lesa að maður ætti alls ekki að borða nálægt þessum helstu ferðamannastöðum, maturinn þar væri ekkert spes en mjög dýr. Við hugsuðum að þetta gæti ekki verið svo slæmt – EN, hlustaðu á mig – ekki borða við Hringleikahúsið. EKKI gera það.

Þeir buðu upp á hádegisverðartilboð, en þegar við ætluðum að panta það þá reyndust bara réttirnir sem við vildum ekki falla undir tilboðið. Maturinn sem ég fékk var bara eiginlega alls ekki góður. Þjónarnir voru hundleiðinlegir. Og svo var þetta langt um dýrasti matur sem við fengum okkur alla ferðina. Í guðanna bænum, farðu eitthvert annað.

20190126_150031
Hjálmur er skilyrði fyrir að fá að fara inn í Domus Aurea.

Eftir matinn var svo komið að síðustu skoðunarferðinni okkar, um Domus Aurea. Domus Aurea er það sem kallast Gyllta höllin hans Nerós. Neró var mikill keisari á sjöunda áratug fyrstu aldar, og þótt hann ríkti bara í 4 ár, þá gerði hann mikinn óskunda.

20190126_150540
Inngangan í höllina.

Mikill hluti borgarinnar brann á þeim tíma sem Neró var nýr í embætti. Eftir það hófst bygging Gylltu hallarinnar. Talið er að Neró hafi átt sök á brunanum, til þess að ná í land undir höllina sína. Sérfræðingar eru ekki sammála um hve stór höllin hefur verið, en tölurnar eru frá 0,4 – 1,2 ferkílómetrar að stærð. Hallargarðurinn var 2,6 ferkílómetrar. Fermetrar hvað?

20190126_152721
Hluti freska sem þöktu veggi hallarinnar.

Það er búið að grafa upp aðra álmu aðalbyggingarinnar, en í henni eru 154 herbergi. Hún hefur því verið að lágmarki tvöfalt stærri en það. Þar sem Hringleikahúsið stendur núna átti svo að útbúa stöðuvatn, en það er spurning hvort Neró hafi enst aldur til þess að fullgera það.

20190126_152921
Gatið sem ungi maðurinn datt niður um sem varð til þess að höllin fannst.

Það er mikið þrekvirki að byggja svona risastóra byggingu á innan við 4 árum, en óþrjótandi uppspretta þræla stóð að mestu undir byggingunni. Fornleifafræðingar vilja þó meina að ýmsar fíniseringar hafi verið eftir, en þeir hafa fundið ófullgerð málverk og fleira sem bendir til þess.

20190126_154130
Ótrúlegt mannvirki!

Þegar höllin var reist, klædd marmara, freskur og gyllingar upp um alla veggi, átthyrnt herbergi með þaki sem snerist og fossi o.fl. o.fl. flutti Neró inn – og þá er hann sagður hafa sagt: „Loksins get ég lifað eins og maður!“

Eftir dauða Nerós lét Vespasían byggja Hringleikahúsið í dalnum þar sem Neró hafði áformað stöðuvatnið sitt – í miðjum hallargarðinum. Þetta var liður í því að færa fólkinu landið aftur – landið sem Neró hafði tekið sér undir höllina.

20190126_155754
Marmaralagt gólf sem ekki var eyðilagt áður en höllin var grafin. Þetta er allt mósaík úr ca. fersentimetersstórum flísum!

Allt sem hægt var að nýta úr höllinni, marmari, gyllingar og fílabein var tekið og nýtt annarsstaðar í borginni. Því næst var höllin fyllt með jarðvegi og rústum eftir eldinn mikla, og grafin. Þar ofan á var svo byggt baðhús Títusar. Höllin féll í gleymskunnar dá.

20190126_155929

Á sextándu öld vildi svo til að ungur maður féll niður um gat í jörðinni rétt hjá baðhúsinu. Hann lenti í litum helli, eða svo var haldið, en hellirinn reyndist vera með ca. meters lofthæð, og loftið skreytt með málverkum. Frægustu listamenn síns tíma, m.a. Rafael og Michaelangelo létu sig síga þarna niður, og hrifust svo af þessum málverkum að sjá má áhrif frá þeim í stóru verkum þeirra í Vatíkaninu. Það hafa fundist áletranir frá þeim og fleirum á veggjunum, svo það er vitað að þarna hafa þeir komið.

20190126_160100
Hluti af átthyrnda herberginu.

En ekki var þetta hellir og ekki var þetta grafhvelfing, því þarna var fundin Gyllta höllin. Keisararnir, eftirmenn Nerós, sem höfðu haft svo mikið fyrir því að láta hana hverfa af yfirborði jarðar, höfðu óafvitandi gert það sem best var til að varðveita freskurnar þegar þeir fylltu upp í hana. Því fundust þarna ótrúlega heilleg verk, sennilega þau heilustu sem höfðu varðveist.

20190126_160503
Í átthyrnda herberginu var m.a. þessi foss. Það var stytta á miðsteininum, sem vatnið féll sitt hvoru megin við. Vatnið fór svo undir gólfið í herberginu og út, þar sem það var nýtt áfram.

Það er ekki hægt að skoða Domus Aurea nema í skipulögðum túrum, enda er þetta í rauninni bara vinnusvæði ennþá. Það fylgdi okkur indæl kona, fornleifafræðingur, sem gekk með okkur um megnið af því sem búið er að grafa upp af höllinni. Í upphafi var okkur sýnt smá vídjóklippa með upplýsingum og myndum af því hvernig talið er að höllin hafi litið út. Um miðja vegu fengum við svo VR gleraugu, og fengum að sjá hvernig talið er að hafi verið umhorfs í „hellinum“ þegar hann fannst, og svo líka hvernig höllin hefur litið út að innan, og hvernig útsýnið hefur verið úr henni. Þetta hefur verið hreinlega stórkostlegt mannvirki!

Á svæðinu í kringum höllina, búa þrír kettir! Þeir eru með bauk fyrir frjáls framlög til matarkaupa og heilbrigðisþjónustu, og rölta svo bara þarna um. Mér þykir þetta alveg frábært, þetta er svo heimilislegt og krúttlegt!

Eftir Domus Aurea héldum við í flóttaherbergi hjá Resolute Roma, en á leiðinni komum við við í verslun OVS til að klára að kaupa einhvern glaðning handa dætrunum. Í flóttaherberginu vorum við stödd í höll Drakúla. Það er tíunda herbergið sem við spilum, og það fyrsta sem við náum ekki að leysa áður en tíminn rennur út! Við vorum mjög nálægt því samt – og það er svo hræðilega gremjulegt. Ennþá gremjulegra þykir mér þó að ég var búin að biðja oftar en einu sinni um vísbendingu fyrr í leiknum, en það var eins og leikstjórinn væri ekki að fylgjast með því við fengum engin svör. Ef við hefðum fengið svör þar, þá hefðum við sennilega náð þessu. En nú er ég bara að vera bitur! Herbergið var samt mjög flott, og lítið sem ekkert af hlutum til að afvegaleiða.

20190126_144820
Beðið eftir að komið sé að túrnum okkar í Domus Aurea.

En að því loknu var lítið sem ekkert eftir af ferðinni, svo við héldum upp á hótel að pakka niður, panta bíl og borða.

Flugið heim átti að fara í loftið kl. 7.00. svo við tókum bíl frá hótelinu kl. 4.00. Það er hátt í hálftíma keyrsla á flugvöllinn, en á þessum tíma var mjög lítið að gera, svo við hefðum auðveldlega getað tekið bílinn hálftíma seinna.

Hitastigið var um 5-10 gráður, en á föstudagsseinnipart var voðalega köld gola sem skemmdi töluvert fyrir okkur. Við bjuggumst satt að segja ekki við slíkum kulda, og vorum eiginlega ekki klædd til útivistar við þær aðstæður.

20190126_162825
Fallegt útsýni yfir Hringleikahúsið frá innganginum í Domus Aurea.

Bæði í Vatíkaninu og kirkjum borgarinnar eru reglur um klæðnað, en axlir og hné skulu ekki vera ber, og brjóstaskora er ekki vel séð heldur.

Áður en við fórum sótti ég smáforrit sem heitir Rick Steves Audio Europe, en í því má finna leiðsögn um hina ýmsu staði í Evrópu. Þrátt fyrir að þættirnir taki mið af því að þú sért á staðnum, þá hlustuðum við á nokkra af þessum þáttum bæði í bílnum á leiðinni suður og í vélinni á leiðinni út og höfðum gaman að. Ég ætla klárlega að skoða hvað hann hefur um London og Bretland að segja áður en ég fer til Coventry í júní og London í ágúst.

Nú eru Norwegian hættir með beint flug milli Keflavíkur og Rómar, og ég er svo þakklát að hafa náð að fara þessa ferð. Það er svo innilega þægilegt að geta gripið beint flug. Þótt ferðin hafi verið stutt náðum við að gera alveg helling – skipulagning er svo mikilvæg!

*Ég bið ykkur að afsaka allar myndirnar frá Domus Aurea, en ég held bara að þetta hafi mér þótt koma hvað mest á óvart í ferðinni.

Ferðalög

Staðurinn minn: Flórída

DSC00237

Flórída er svona eiginlega staðurinn minn; sumir fara endurtekið til Kanarí eða Tenerife, ég hef farið fimm sinnum til Flórída. Það kemur nú aðallega til af því að móðursystir mín býr þar, en svo er þetta náttúrulega dásamlegur staður! Ég setti inn síðasta haust býsna ítarlega ferðasögu af síðustu ferðinni okkar, haustið 2017, en nú ætla ég að segja frá ýmsu sem við höfum stússað þar í öðrum ferðum – og er það mjög við hæfi, þar sem við erum alveg að fara að fara aftur!

Ég fór fyrst árið 2001 með mömmu, en það var fermingargjöfin mín. Við vorum úti í 12 daga í apríl. Í heildina var ferðin frekar róleg, a.m.k. miðað við margar ferðir sem ég hef farið í síðan. Við fórum í Universal Studios, til St. Augustine þar sem við gistum í eina eða tvær nætur, versluðum svolítið, en svo aðallega bara að njóta frísins!

Flórída 8.-20. des 2008 414
Bumban kom bersýnilega í ljós í ferðinni!

Næst fór ég árið 2008 með manninum mínum, við vorum í 12 daga í desember. Þá var ég ófrísk að eldri dóttur okkar, svo ferðalagið tók mið af því. Til að byrja með dvöldum við í Orlando í 2 nætur og fórum í Disneygarðinn Epcot. Daginn sem við fórum frá Orlando tókum við okkur bílaleigubíl og keyrðum upp til Kennedy Space Center, þar sem við stoppuðum í dágóða stund. Við vorum svo gott sem einu gestirnir á safninu – eða þannig, við vorum a.m.k. ein á matsölustaðnum þegar við fengum okkur í gogginn! Því miður var veðrið þá ekki það besta, en það voru leyfar af fellibyl að ganga yfir Flórídaskagann, svo það var grenjandi rigning og rok – ekta íslenskt haustveður! Í þeirri ferð fórum við með frænku minni til St. Augustine, að skoða spænska virkið, og fylgdumst með Night of Lights.

Flórída 8.-20. des 2008 210
Castillo de san Marco í St. Augustine.

Árið 2010 fórum við út milli jóla og nýárs, og vorum í 2 vikur með vinahjónum okkar. Þá var eldri dóttir okkar með, rétt rúmlega eins og hálfs árs, og ég var ólétt að þeirri yngri. Þetta var því kannski ekki alveg skemmtilegasta utanlandsferð sem ég hef farið í – a.m.k. var heilsan og orkan ekki upp á sitt besta. Í þessari ferð fórum við m.a. í Magic Kingdom og Jacksonville Zoo og versluðum alveg helling.

Flórída 8.-20. des 2008 024
Epcot 2008.

2014 fórum við hjónin aftur út með vinahjónum okkar í desember og vorum í viku. Það er allt of stutt! En börnin biðu víst heima, svo samviskan leyfði ekki lengri ferð. Vikan var nánast eingöngu tekin í verslun og át, en alltaf er jafn dásamlegt að vera þarna, og ég elska Flórída í desember. Ég hreinlega elska jólaskreytt pálmatré og jólaskreytingar í rúmlega 20 stiga hita, og að hátalararnir í runnunum í verslunargötunum spili jólatónlist!

Flórída 8.-20. des 2008 365

2017 fórum við fjölskyldan svo út og vorum í 15 daga í október, en ég fjallaði um þá ferð hér, hér og hér, og svo setti ég inn sérstaka færslu um Magic Kingdom.

Ég tel mig því vera farna að þekkja Flórída nokkuð, en við erum oftast einhverja daga í Orlando áður en við höldum uppeftir til Jacksonville þar sem móðursystir mín býr. Nú erum við að leggja upp í næstu ferð, og því er ég löngu farin að skoða hvað við ætlum að brasa og horfa til baka á það sem við höfum gert hingað til!

Flórída 8.-20. des 2008 347
Jólin, jólin, jólin koma brátt…

Epcot garðurinn er einn af Disney görðunum. Það eru 6 Disney garðar í Orlando, þ.e.a.s. 4 skemmtigarðar og 2 sundlaugagarðar. Epcot garðurinn er tvískiptur, annars vegar „world emporium“ sem eru sýnishorn frá einum 13 löndum, og hins vegar er leikjagarðshlutinn, sem samanstendur af geimhluta og Frozen Ever After.

Flórída 8.-20. des 2008 050
Jólasveinninn og frúin hans í Epcot 2008.

Kennedy Space Center er safn um geimferðir NASA, þar má finna eftirlíkingar af helstu geimflaugum Bandaríkjamanna. Þar er gríðarlega mikill fróðleikur og gaman að skoða. Við heimsóttum Kennedy Space Center (sem er staðsett á Canaveral höfða) árið 2008, og þá þótti okkur sýningin vera orðin svolítið þreytt og vanta örlítið upp á endurnýjun en þar sem við höfum ekki komið þangað aftur síðan getum við lítið sagt um hvernig staðan er núna. Samkvæmt heimasíðu safnsins hafa þó verið gerðar töluverðar endurbætur, svo kannski er kominn tími á að fara aftur?

Flórída 8.-20. des 2008 123
Kennedy Space Center 2008.

St. Augustine er lítill strandbær ekki svo ýkja langt frá Jacksonville. Bæjarbúar halda því fram að St. Augustine sé elsti bær í Bandaríkjunum, en þeir telja sig geta rakið byggðina til þess tíma er Spánverjar stunduðu landvinninga í hinum nýja heimi. Þar er t.d. virki, Castillo de san Marco, sem er frá 17. öld, og gaman að skoða.

Flórída 8.-20. des 2008 309
Jacksonville Landing.

Að sjálfsögðu þarf maður að verja eins og einum degi í Outlettum, en outlettin okkar á Flórída eru St. Augustine Outlets. Við erum fastagestir í búðum þar eins og t.d. Children’s Place, Adidas, Skechers, Gap, og fleirum. Það eru líka fín Outlet í Orlando, sem við skruppum aðeins í 2017.

Flórída 8.-20. des 2008 002

Af veitingastöðum eru þrír sem við reynum að heimsækja í hverri ferð. Fyrst ber að nefna Flipper’s Pizzeria í Lake Mary í Orlando. Það er mjög fínn, rólegur og heimilislegur pizzustaður.

DSC00468
Magic Kingdom 2011.

Cheesecake Factory þekkja flestir Íslendingar, en það er frekar billegur staður með mjög stóran og fjölbreyttan matseðli. Þar er oftast mjög mikið að gera, og ekki óalgengt að það þurfti að bíða nokkra stund eftir borði. En skammtarnir eru gríðarlega stórir, og ég held ég hafi aldrei séð manneskju klára allt af diskinum sínum þar! …og ég held ég hafi aldrei fengið vondan mat þar, allt sem ég hef borðað þar er mjög gott.

Góður matur á Cheesecake
Cheesecake Factory.

Og svo er náttúrulega nauðsynlegt að skella sér á Longhorn Steakhouse, og fá sér dásamlega steik. Þar höfum við líka alltaf fengið mjög góðan mat, og meira að segja litla matgranna og matvanda stelpan okkar át 180 gr. krakkasteik nánast upp til agna!

Ég er orðin svo spennt fyrir næstu ferð, að ég hreinlega á stundum erfitt með að ráða við mig. Það er ýmislegt planað, en í þetta skiptið verður áherslan töluvert meira á upplifun en verslun!

Dunkin!
Það er stoppað á Dunkin’ Donuts í hverri ferð!

Svo er bara einn fróðleiksmoli ef þú ert á leiðinni til Bandaríkjanna í fyrsta skipti; verðmerkingar eru án söluskatts, honum er bætt við á kassa!

Flórída 8.-20. des 2008 071
Epcot 2008 – útitekin og fín eftir daginn!