Skriftir

Unnið fram á kvöld – smásaga

Hún leit á hann útundan sér, skoðaði hann án hans vitundar. Hann var örlítið hærri en hún, en það munaði ekki meiru en svo að háu hælarnir hennar unnu upp muninn. Hann horfði á símann sinn einbeittur, það var lítil einbeitingarhrukka milli augnanna og varirnar leituðu aðeins fram, eins og þær væru á leiðinni að mynda stút. Hún elti augnaráð hans og leit á hendurnar sem héldu á símanum. Hendurnar voru nettar og snyrtilegar, og þumlarnir liðu hratt og óhikað yfir skjáinn.

Þau gengu hlið við hlið, hárið á henni bærðist í golunni. Þau þekktust lítið sem ekki neitt, en vinnan hafði leitt þau saman. Hann var sjálfstætt starfandi vefhönnuður, hún vann hjá bókaútgáfu sem vildi breyta ímynd sinni og koma á fót nýrri heimasíðu. Fyrirtækið hafði verið í viðskiptum við sömu vefhönnuðina svo árum skipti, og nú hafði verið tekin ákvörðun um að prófa eitthvað nýtt. Sigrún starfsmannastjóri hafði heyrt svo ægilega gott af honum, en hann hafði útbúið heimasíðu fyrir sprotafyrirtæki Frikka, mannsins hennar. Vefsíðan reyndist vera mjög flott og neytendavæn, þegar þau tóku sig til og skoðuðu ýmsar íslenskar vefsíður til að reyna að komast að því hvað þau vildu og eftir hverju þau leituðu.

Og nú voru þau þarna. Hún hafði fengið það verk að fara með honum yfir hugmyndir bókaútgáfunnar um nýju síðuna, og eftir að sitja yfir þessu í rúma klukkustund, ákváðu þau að skjótast yfir á næsta kaffihús og sækja sér almennilega drykki, því þau myndu verða eitthvað frameftir.

Henni var alveg sama, það var ekkert sem dró hana heim. Hákon, hennar fyrrverandi, var með börnin, svo það var alveg jafn gott að verja kvöldinu við vinnu eins og að eyða því yfir sjónvarpinu ein heima. Adam reyndist heldur alls ekki vera slæmur félagsskapur, hann hafði þægilega nærveru og kímnigáfa hans var alls ekki ólík hennar.

Þau höfðu nú þegar setið við verkið í tæpa tvo tíma, og þau yrðu sjálfsagt áfram fram á kvöld. Svolítið var síðan vinnufélagarnir yfirgáfu skrifstofuna, svo þau höfðu verið ein síðastliðinn klukkutíma. Þau höfðu lagt undir sig stóra fundaborðið, og sjá mátti gömlu heimasíðu útgáfunnar á vegg fundarherbergisins, þangað sem skjávarpinn í loftinu varpaði henni. Þau höfðu setið hvort við sína fartölvuna, hún með fundargerðir og hugmyndalista við höndina, hann með skrifblokk þar sem hann krotaði hjá sér hugmyndir á einfaldan hátt.

Hún horfði á fingur hans líða yfir skjá símans, og velti fyrir sér hvort hann væri að senda skilaboð og þá hverjum? Ætli hann eigi konu heima, sem situr með grenjandi krakka og bíður eftir að hann komi heim til sín? Ætli hann eigi unga kærustu sem getur ekki beðið eftir að fá hann heim, af því hún vill helst að þau séu saman hverja lausa stund?

Hún var rifin upp úr hugsunum sínum þegar hún tók eftir því að Adam stoppaði.
„Vorum við ekki á leið hingað?“ sagði hann og það lifnaði yfir augum hans þegar hann áttaði sig á því að hún var svo niðursokkin í hugsanir sínar að hún var næstum gengin framhjá kaffihúsinu.
„Ha? jú einmitt,“ tafsaði hún vandræðalega, en greip svo hurðina og hélt opnu fyrir hann meðan hann gekk inn. Ætli hann hafi nokkuð tekið eftir að ég var að horfa á hann? Ætli hann hafi séð á mér hvað ég var að hugsa?

Adam pantaði sér Americano og langloku með skinku og grænmeti. Sandra leit yfir borðið, fékk sér samloku með eggjum og skinku og karamellu Latte.

Það voru bara einir tvö eða þrjú hundruð metrar upp á skrifstofuna aftur, en henni fannst þögnin verða vandræðaleg. Hún gerði sér samt fyllilega grein fyrir að það voru aðeins hugsanir hennar á leiðinni á kaffihúsið sem létu henni finnast félagsskapurinn vandræðalegur núna, því fram að þessu hafði henni bara liðið vel í návist hans.

Þegar þau komu aftur upp á skrifstofuna kveikti hún á útvarpinu eins og hún var vön að gera á morgnana þegar hún mætti manna fyrst. Svo áttaði hún sig á því að hún var ekki ein, svo hún lækkaði í tækinu svo aðeins ómur af tónlist heyrðist í bakgrunninum, en myndi ekki trufla vinnu þeirra.

Eftir stutta gönguna í hauströkkrinu fannst henni ljósin á skrifstofunni vera svo skær og afhjúpandi að hún ákvað að dimma þau örlítið. Bara svo þau myndu ekki stinga svona í augun.

Adam jánkaði þegar hann varð var við að hún dempaði ljósin, sagði þetta vera miklu afslappaðra og þægilegra vinnuumhverfi. Þau fengu sér að borða, og af og til stalst hún til að líta örlítið í áttina að honum. Hann kveikti eitthvað í henni sem hún hafði ekki fundið fyrir síðan áður en börnin komu í heiminn. Hann gerði hana spennta og forvitna, og vakti hjá henni áhuga. Það rifjaðist upp fyrir henni að svona hafði spennan verið hjá þeim Hákoni, áður en börn og heimilisstörf og reikningar tóku allan sjarmann.

Hann hafði ekki kveikt hjá henni neinar sérstakar tilfinningar eða áhuga þegar hún hitti hann fyrst. Hann hafði tekið í hönd hennar og kynnt sig, vinalega og yfirlætislaust, röddin var mjúk og blíð, og brosið einlægt, karlmennskustælar hvergi sjáanlegir. En eftir því sem þau vörðu saman meiri tíma vann hann á.

Yfir matnum voru að ræða tónleika sem höfðu verið nokkrum vikum fyrr í Laugardalshöllinni, en hann hafði verið þar og hún hafði heyrt sögurnar þar sem nokkrar vinkonur hennar höfðu verið þar líka. Hann var eitthvað að bauka í tölvunni, meðan hann sagði henni frá. Hún fylgdist með honum, svipbrigðum andlitsins og vörunum. Þá leit hann upp og augu þeirra mættust. Augu hans voru svo einkennilega dökk, þau pössuðu engan veginn við hann, sem annars var ekkert dökkur yfirlitum. Hún vissi að hún ætti að líta frá, þannig voru kurteisisreglurnar, að stara á fólk var svipað brot og að ráðast inn í persónulegt rými þess. En hún gat ekki slitið augun af honum, svo hún horfði bara á móti. Hann þagnaði. Það var eins og tíminn stöðvaðist.

„Þetta hefur verið upplifun, það hefði verið gaman að vera þarna“ sagði hún og sleit augnsambandið, áður en það sem eftir var af vinnunni yrði of vandræðalegt. Hún potaði í samlokuna sína annars hugar, eins og hún hefði engan áhuga á henni, þrátt fyrir að hún hefði ekkert borðað síðan í morgunkaffinu, og nú var að líða að kvöldmatartíma.

„Jæja, eigum við að halda áfram?“ Adam reisti sig við í sætinu og gerði sig líklegan til að taka til starfa aftur.

Hún var skekin. Það voru komin þrjú ár síðan hún og Hákon skildu og síðan hafði hún ekki haft áhuga á að kynnast öðrum manni. Hún hélt að þessu tímabili væri bara lokið hjá sér, og hún var alveg sátt við að vera ein. Hún hafði búið með Hákoni í 12 ár, og hún elskaði frelsið, að vera sjálfs síns herra.

Hún náði ekki að fylgjast með því sem hann var að segja. Hún var enn skekin af nándinni sem hafði myndast með augnsambandinu. Henni fannst hún berskjölduð og vanmáttug. Hún sem hafði alltaf verið þessi sterka kona sem þurfti aldrei björgun, hún hafði verið konan sem sá um sig sjálf.

Kvöldið leið, hún var fjarhuga og var ekki lengur svo viss um að hún myndi valda verkefninu sem hún hafði tekið að sér. Hún gat sagt honum frá því sem þau höfðu rætt innanhúss á útgáfunni um það sem þau sáu fyrir sér með nýju síðuna, en hún meðtók ekkert af því sem hann lagði til eða reyndi að fræða hana um.

Rétt um níuleytið var hún búin að fara yfir allt sem þau á útgáfunni höfðu rætt, og hún var orðin úrvinda. Allar taugar hennar höfðu verið þandar frá því að augu þeirra mættust á svona afgerandi hátt, eitt augnablik í eilífðinni. Þetta var eitt af augnablikunum sem lífið snérist um; nánd – jafnvel þótt hún byggðist ekki á ást eða vinskap. Ókunnugt fólk gat deilt slíkri nánd, bara ef það leyfði sér það. Leyfði sér að vera berskjaldað, og mæta öðrum á jafningjagrundvelli.

„Erum við ekki bara orðin nokkuð góð?“ Spurði hún þegar henni fannst hann hafa lokið krotinu á skrifblokkina sína.

„Jú, það held ég,“ sagði hann og leit upp. Það lék létt bros um varir hans, hún fann hlýjuna í hjartanu. Þau gengu frá, slökktu á eftir sér og héldu að útidyrunum.

„Ég þakka fyrir,“ sagði hún og rétti honum höndina. Hann tók í útrétta hönd hennar, en dró hana svo að sér og kyssti hana létt á kinnina um leið og hann tók utan um hana. Hún fann mildan ilm af rakspíra og hreinum fötum, mjúkar varir hans við vanga sinn.

„Takk fyrir kvöldið,“ sagði hann um leið og hann bakkaði frá, rétti upp höndina í kveðjuskyni, brosti og bauð henni góða nótt. Síðan gekk hann í átt að bílnum sínum sem hann hafði lagt neðar í götunni. Hún horfði á eftir honum, sneri sér svo við og gekk í gagnstæða átt.