Bækur

Uppáhalds bækurnar mínar – 7. hluti

Sögusafn bóksalans e. Gabrielle Zevin heillaði mig mjög á sínum tíma. Þetta er bók sem minnir okkur á hvers vegna bækur og sögur skipta máli. Bókin lætur lítið yfir sér, enginn hasar eða læti, en bara hugljúf saga af fólki sem manni fer fljótt að þykja vænt um.

Sogusafn_boksalans

Saga Forsytanna e. John Galsworthy er fjölskyldusaga í þrem bindum, en John Galsworthy hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1932. Sagan birtist fyrst í heild sinni undir þessu heiti rétt upp úr 1920. Í bókunum er rakin saga Forsyte-fjölskyldunnar, sem telst nýrík í Englandi um aldamótin 1800-1900. Þegar sagan hefst, er stóreignamaðurinn Soames Forsyte upptekinn við að safna auði, en eftir því sem tíminn líður minnkar auðurinn, þar til undir restina er fjölskyldan orðin eignalaus og fjölskylduböndin eru farin að trosna. Ég hafði sérlega gaman af þessum bókum, hver elskar ekki gamlar og dramatískar sögur?

87717

Geim, Buzz og Bubble e. Anders de la Motte eru með betri glæpa-þríleikjum sem ég hef lesið. Ég var lasin heima einn dag þegar ég tók mér Geim í hönd og ég hreinlega gleypti hana. Smákrimminn HP finnur gemsa, sem býður honum að taka þátt í leik. Með því að taka áskorunum sem berast í gegnum símann vinnur hann sér inn verðlaun, og verðlaunin stækka eftir því sem áskoranirnar verða erfiðari. Áskoranirnar eru að sjálfsögðu ekki allar löglegar, og sumar beinlínis hættulegar bæði honum og öðrum. En þótt hann reyni að hætta, þá heldur leikurinn honum föstum tökum.

Ég veit afhverju fuglinn í búrinu syngur e. Maya Angelou. Maya Angelou er algjör fyrirmynd. Ég veit afhverju fuglinn í búrinu syngur er fyrsti hluti sjálfsævisögu hennar, sem alls eru sjö bækur. Bókin lýsir uppvexti Mayu, en foreldrar hennar hafa skilið hana og bróður hennar eftir hjá ömmu hennar og frænda, þar sem þau geta ekki sinnt þeim eða hafa lítinn áhuga á því. Hún lýsir því hvernig var að alast upp sem hörundsdökk stúlka á fjórða og öndverðum fimmta áratugnum í Arkansasríki í Bandaríkjunum. Sem barn er hún misnotuð, og hún ákveður að tala ekki framar. Ég er búin að lesa allar 5 bækurnar sem hafa verið þýddar á íslensku, en síðustu tvær voru ekki þýddar.

42734

Bækur

Uppáhalds bækurnar mínar – 6. hluti

Hús andanna var fyrsta bókin sem ég las eftir Isabel Allende. Sagan þótti mér heillandi þótt ég ætti svolítið erfitt með þann hluta sem fellur undir töfra í hugtakinu töfraraunsæi. Hins vegar var eitthvað við hana, því ég er langt komin með að lesa það sem þýtt hefur verið eftir Allende.

Hus_andanna

Maður sem heitir Ove e. Fredrik Backman fór sigurför um landið (eða heiminn?) þegar hún kom út, enda stórskemmtileg bók sem tekur samt líka á átakanlegum málum. Það er búið að gera bíómynd (þótt ég hafi ekki séð hana) og svo var settur upp einleikur með Sigga Sigurjóns sem var gríðarvel heppnaður. Ef þú hefur ekki lesið hana, þá mæli ég eindregið með að þú gerir það nú þegar!

Maður-sem-heitir-Ove

Margar gamlar sígildar bækur falla í kramið hjá mér og Anna Karenína eftir Leo Tolstoj þótti mér alveg frábær! Mér finnst gaman að lesa um þennan tíma þegar konur klæddust síðkjólum og ástin var ekki sjálfsögð.

41J-CiEo4dL._SX327_BO1,204,203,200_

Ómunatíð e. Styrmir Gunnarsson rakst ég á fyrir nokkrum árum síðan í nytjagámnum sem var og hét. Ég vissi ekkert um þessa bók, en þegar ég las aftan á hana og sá að þetta var saga þeirra hjóna af baráttu við geðsjúkdóm greip ég hana með mér. Sagan hafði mikil áhrif á mig, og setti í samhengi hvernig lífið hlýtur að vera fyrir fjölskyldu þess sem þjáist af geðsjúkdómi. Alls ekki löng bók, en stór á annan hátt.

omunatid

Bækur

Uppáhalds bækurnar mínar – 5. hluti

Sumar bækur sem verða vinsælar verða ekki endilega vinsælar vegna þess að þær eru stórbrotnar eða stórkostlegar. Stundum er bara um sammannlega sögu að ræða, einfalda og þægilega frásögn eða einfaldlega frábæra markaðssetningu.

Myndaniðurstaða fyrir húshjálpin

Húshjálpin e. Kathryn Stockett er ekki dæmi um þetta. Bókin varð feykivinsæl þegar hún kom út, og var mjög fljótt gerð bíómynd eftir henni. Mér þótti hún stórgóð, og hún er ein af þeim sögum sem ég gæti alveg hugsað mér að lesa aftur – og það er hrós, þar sem ég hef hingað til bara lesið eina bók tvisvar (og í seinna skiptið var það bara upprifjun til að geta lesið framhaldið).

Myndaniðurstaða fyrir borgarstjórinn af casterbridge

Thomas Hardy finnst mér yndislegur sögumaður, og dæmi um það eru Tess af D’Urberville ættinni  og Borgarstjórinn í Casterbridge. Ég man eftir að hafa séð þessa síðarnefndu í hillu sem unglingur og hugsað hvað þessi bók hlyti að vera leiðinleg. En nokkrum árum síðar sá ég gamlan kennara minn mæla með Tess á Facebook, svo ég náði mér í hana stuttu síðar. Án óþarfa málalenginga; þá heillaði hún mig upp úr skónum og við það kviknaði aftur lestraráhugi minn eftir tæp 3 ár af ungbarnastússi.

Myndaniðurstaða fyrir málverkið ólafur jóhann ólafsson

Málverkið e. Ólaf Jóhann Ólafsson er ein af mínum uppáhalds bókum eftir einn af mínum uppáhalds höfundum. Ég var svo lánsöm að vinna hana í einhverjum leik á Facebook, og ég gleypti hana í mig. Framan af fannst mér hún frekar róleg, en svo hreinlega leit ég ekki uppúr henni fyrr en ég var búin með hana.

Myndaniðurstaða fyrir sláttur hildur knútsdóttir

Hildi Knútsdóttur hafði ég aldrei heyrt um þegar ég fékk bók hennar, Slátt, senda í bókaklúbbnum Uglunni. Bókin var stutt og auðlesin, en það var eitthvað við söguna sem mér þótti svo heillandi. Ég man ekki eftir henni til að rekja söguþráðinn, en í stuttu máli fjallar hún um konu sem fær nýtt hjarta grætt í sig, en það fylgja því minningar og tilfinningar.

Hér er fyrri póstur um uppáhalds bækur.

Bækur

Uppáhalds bækurnar mínar – 4. hluti

Mýs-og-menn

Mýs og menn e. John Steinbeck. Almennt elska ég allt sem John Steinbeck skrifaði, og mýs og menn er engin undantekning. Bækur Steinbecks eru á kjarnyrtu og fallegu máli, og mér þykir persónusköpun hans yndisleg.

51LC5khe-DL

Stúlka með perlueyrnalokk e. Tracy Chevalier. Ég var frekar efins með þessa þegar ég byrjaði á henni, en hún hreif mig með sér. Ég elska sögulegar skáldsögur, og þessi er alveg prima.

5806-4001

Tilræðið e. Yasmina Khadra. Þessi bók er mjög sérstæð. Fjallar um það þegar maður fær upphringingu þess efnis að konan hans hafi látist í sprengingu á veitingastað, og jafnvel beri ábyrgð á sprengingunni. Þetta kemur eiginmanninum í opna skjöldu, og við fylgjumst með honum takast á við þetta og leita skýringa.

5609-4001

Vonarstræti e. Ármann Jakobsson. Söguleg skáldsaga – og alveg listilega vel gerð! Hún fjallar um Skúla og Theódóru Thoroddsen á umbrotatímum í sögunni, þegar Ísland stefndi í átt að sjálfstæði. Þetta er mjög vel unnin heimildaskáldsaga, og persónurnar svo lifandi og skemmtilegar. Theodóra varð hreinlega vinkona mín við lesturinn.

Hér er fyrri póstur um uppáhalds bækur.

Bækur

Uppáhalds bækurnar mínar – 2. hluti

Nú höldum við áfram að tala um bækur, en í þessum pósti tökum við fyrir einn nóbelsverðlaunahafa, og tvo af mínum uppáhalds íslensku höfundum.

D698D40A0DB9E1F2B387012100CBC2867DC563317E4CE0D9922632F149FDD5EC_713x0
Mynd fengin að láni hjá visir.is

Það hefur bara ein bók eftir Tessu de Loo verið þýdd á íslensku, en það er bókin Tvíburarnir. Bókin fjallar um tvíburasystur sem eru aðskilar og aldar upp hvor á sínu heimilinu, þar sem önnur býr við harðræði en hin við ást og umhyggju. Sem gamlar konur hittast þær aftur, og við fylgjumst með þeim rifja upp gamlar minningar og kynnast upp á nýtt. Sagan var hugljúf en á köflum strembin, en heilt yfir mjög góð. Textinn var skemmtilegur, og oft hnyttinn. Það eru komin rúm tíu ár síðan ég las þessa bók en ég minnist þess enn þegar verið var að lýsa píanókennaranum sem var í svo þröngum buxum að það sást greinilega hvort hann geymdi liminn í hægri ellegar vinstri buxnaskálminni.

aldingardurinn
Mynd fengin að láni hjá bokmenntaborgin.is

Sem unglingur var ég viss um að íslenskir miðaldra karlkyns rithöfundar væru það leiðinlegasta í heimi; menn eins og Hallgrímur Helgason, Einar Kárason, Ólafur Jóhann Sigurðsson og nafni hans og sonur Ólafsson, o.s.frv. En svo fékk ég bókina Aldingarðinn senda í bókaklúbbi Uglunnar. Bókin hefur að geyma tólf smásögur sem eiga það sameiginlegt að fjalla um ástina. Ég hafði aldrei lesið smásagnasafn, og hafði ekki mikinn áhuga á svona miðaldra íslenskum karlkyns rithöfundum, en gaf þessu séns. Ég var rétt byrjuð í Háskólanum á þessum tíma og hefði átt að vera að lesa fyrir Rómarrétt, en ég gleypti bókina í mig á sólarhring, og eftir þetta er Ólafur Jóhann Ólafsson einn af mínum uppáhalds íslensku höfundum. Og ég losnaði við fordóma gagnvart þessum hópi rithöfunda!

26420-home_default
Mynd fengin að láni hjá netbokabud.is

 

Doris Lessing fékk nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2007. Grasið syngur er fyrsta bók hennar og einnig fyrsta bókin sem ég nældi mér í eftir hana. Bókin gerist á fimmta áratugnum, þar sem núna er Zimbabwe, og grunnstef bókarinnar er kynþáttamismunun í landinu, sem þá var bresk nýlenda. Bókin byrjar með frásögn af morði; þar sem hvít kona er myrt af svörtum þræl sínum. En bókin sjálf er svo saga konunnar fram að þeim tíma að hún er myrt. Lítil og þunn bók, en vel þess virði að lesa.

hus-ur-husi
Mynd fengin að láni hjá forlagid.is

Kristín Marja Baldursdóttir hefur skrifað margar góðar bækur, en ein þeirra er Hús úr húsi. Bókin fjallar um konu sem flyst heim til móður sinnar eftir skilnað, og tekur að sér að leysa ófríska vinkonu sína af, en sú tekur að sér heimilisþrif. Í gegnum þrifin kynnist hún allskonar fólki, og finnur að lokum lífsneistann aftur. Kristín Marja er einn af mínum uppáhalds íslensku rithöfundum, en bæði bækurnar um Karitas og Mávahlátur eru mjög góðar.

 

Það væri mjög gaman að heyra skoðanir annarra á þessum bókum, ef þið hafið lesið þær. Svo minni ég á að ég skrifa alltaf eitthvað smávægilegt um hverja bók fljótlega eftir að ég lýk henni hér, og öllum er velkomið að fylgjast með og leggja orð í belg! Annars má finna fyrri færslu um uppáhalds bækur hér.

 

Bækur

Uppáhalds bækurnar mínar – 1. hluti

Ég segi „uppáhalds bækurnar“ mínar, en sannleikurinn er sá að ég á ekki uppáhalds bækur. Ég hef lesið of margar bækur sem mér þykja góðar til að geta átt uppáhalds bók eða bækur.

Ég hef haldið lista yfir allt það sem ég hef lesið frá því árið 2006, með titli, höfundi, blaðsíðutali og degi sem ég lauk við bókina. Alls telur listinn í dag rúmlega 550 bækur, en þær væru fleiri ef ég hefði ekki farið í 6 ára háskólanám í millitíðinni og eignast tvö börn – en þeim fjölgar býsna hratt þessar vikurnar.

Mig langar að taka hérna nokkrar eftirminnilegar bækur fyrir, þrátt fyrir að það sé langt síðan ég las sumar þeirra, þá er eitthvað við þær sem fær þær til að festast í minninu.

SVOfogurBEIN
Mynd fengin að láni hjá forlagid.is

Ég hef lesið allar þrjár bækur Alice Sebold sem hafa komið út. Svo fögur bein þótti mér alveg frábær glæpasaga, sem ég held ég muni aldrei gleyma. Síðar sá ég myndina, en eins og gjarnt er með myndir sem eru gerðar eftir bókum og bókaorma; það var ekki að gera sig. Mér fannst myndin ekki bara skemma söguna, heldur fannst mér myndin bara allt of „arty farty“ fyrir sögu sem er í grunninn glæpasaga.

heppin
Mynd fengin að láni hjá forlagid.is 

Bókin Heppin er líka eftir Alice Sebold, en sagan segir frá upplifun Alice af nauðgun, eftirmála hennar og áhrifum nauðgunarinnar á líf hennar. Bókin dregur nafn sitt af því að þegar hún tilkynnti árásina til lögreglu, sögðu lögreglumennirnir henni frá því að þeir hefðu fyrir einhverju síðan fundið stúlku á sama stað og hún varð fyrir árásinni, nema henni hafði verið nauðgað og svo hefði hún verið myrt. Þannig Alice væri heppin!

GlaepurRefsing
Mynd fengin að láni hjá forlagid.is

Glæpur og refsing e. Fjodor Dostojevski er eitt af stóru nöfnunum. Ég man að ég var lengi með hana, þetta var ekki texti sem maður las hratt. En þrátt fyrir að hún væri kannski þyngri en það sem ég las á þessum tíma, þá hugsa ég enn reglulega til Raskolnikovs. Dostojevski skrifar þannig að manni líður eins og Raskolnikov, og finnur örvæntingu hans.

cvr9781416500247_9781416500247_hr
Mynd fengin að láni hjá Simonandschuster.com

Svo náttúrulega er það Jane Eyre e. Charlotte Bronte. Það er í raun lítið um hana að segja en sagan er yndisleg. Sagan er klassísk og ekki ein af þeim þyngri, svo hún er góð byrjun á klassískum bókmenntum!

leidin_til
Mynd fengin að láni hjá holabok.is

Jan Guillou datt ég um á útsölu í Eymundsson fyrir mörgum árum, en ég keypti báðar bækurnar hans sem voru þar; annars vegar Leiðin til Jerúsalem og hins vegar Musterisriddarann. Þessar sögur þóttu mér yndislegar, og ég hef sjaldan orðið jafn spæld og þegar ég komst að því að þriðja bókin hefði aldrei verið þýdd, og þríleikurinn því ófullkomnaður. En samt sem áður voru bækurnar báðar alveg frábærar, og henta vel fólki sem finnst gaman að lesa sögulegar skáldsögur.

musteris
Mynd fengin að láni hjá holabok.is

 

 

Lífið

Ljósmyndabækur

Frá því að við fórum í fyrstu utanlandsferðina með dætur okkar höfum við haft þann sið að gera myndabækur úr ferðunum. Það verður til þess að myndirnar eru skoðaðar miklu oftar, og minningarnar verða ljóslifandi.

Nú þegar eigum við þrjár, en við fórum árið 2016 til Benidorm, og árið 2017 til Flórída. Árið 2017 fórum við líka með tengdafjölskyldunni til Hollands.

Bækurnar hef ég pantað að utan, snapfish.com, og þær hafa reynst vel. Þær hafa verið skoðaðar mikið, ég leyfi stelpunum að ganga í þær og það sér varla á þeim.

Ég hef haft þann háttinn á að vinna bókina á vefsíðunni þeirra, en bíða svo með að panta þar til bækurnar fara á afslátt (best að skrá sig á póstlistann hjá þeim, og fá tilkynningu), en algengt er að þær séu á 40% og upp í tæplega 80% afslætti. Það borgar sig því að vera á póstlistanum, til að fá tilkynningar beint í tölvupósti.

Þetta verður til þess að myndirnar eru skoðaðar oftar, og fríin mikið rædd. Ef myndirnar eru bara geymdar rafrænt sýnir reynslan bara að maður skoðar þær sjaldnar, og börnin hafa lítinn sem engan aðgang að þeim, og því gleyma þau hraðar. Mæli eindregið með þessu, en það eru margir aðilar sem bjóða upp á svona bækur, bæði hérlendis og erlendis!