Bucket list, Ferðalög

Flórída 2019 – 1. kafli

20190404_164548

Þriggja vikna ferðalag – þrír póstar! Vonandi tekst mér að halda mig innan þess ramma!

Við eiginmaðurinn héldum í okkar fimmtu Flórídaferð á dögunum, þar sem við dvöldum í þrjár vikur. Við erum svo heppin að eiga ættingja þarna úti, þar sem við fáum að dvelja, og þar er sko dekrað við okkur og við njótum lífsins í botn!

20190411_092357

Við flugum út 4. apríl, en allar okkar ameríkuferðir hefjast með því að það er vaknað mjög snemma og keyrt suður til Keflavíkur samdægurs. Það er því langur dagur áður en höfuðið leggst á koddann hinum megin við tjörnina.

Þetta er í annað skiptið sem við tökum dætur okkar með okkur til Ameríku eftir að þær urðu stálpaðar, en eldri dóttir okkar flaut með þegar hún var um eins og hálfs árs.

20190405_021543
Bugun eftir langan dag. Beðið eftir bílaleigubílnum á Orlandoflugvelli.

Við höfum alltaf leigt okkur bíl á Flórída, en eins og flestir flandrarar vita getur það kostað skildinginn að leigja sér bíl. Ég er með þrjú sparnaðarráð (sem einskorðast að sjálfsögðu ekki aðeins við Flórída):

 • Keyptu þér GPS tæki. Það eru til fínustu Garmin GPS tæki í Walmart á ca $100 og upp. Leiga á GPS tæki fyrir hvern dag er oft í kringum $15 – þannig að borgar sig upp á viku, og þú átt það fyrir næstu ferð og næstu ferð og næstu ferð… Við keyptum okkur árið 2016 Garmin tæki fyrir ca. $150 með fríum kortauppfærslum, og höfum notað það ca 35 daga – að leigja tæki í þann tíma væri um $525.
 • Ef þú ert með krakka sem eru orðnir stálpaðir, skaltu frekar kaupa pullu undir þau í bílinn en að leigja hana. Leigan er $8-15 dollarar á dag, en pullur fást fyrir ca $25 dollara í Walmart. Það þarf því ekki langa leigu til að þetta borgi sig. Keyrslan frá flugvellinum í Orlando og í næstu Walmart verslun er nokkrar mínútur. Við höfum svo bara skilið pullurnar eftir í bílnum, ætli þeir nýti sér það ekki bara og leigi næsta manni?
 • Mér hefur oftast gefist best að nota samanburðarsíður eins og t.d. rentalcars.com, og fara svo beint á heimasíðu þeirra fyrirtækja sem bjóða best og bóka beint þar.
 • Og að sjálfsögðu aldrei að leigja bíl (eða kaupa neitt á netinu á amerískri vefsíðu) nema leita fyrst að afsláttarkóða. Google virkar vel til þess, síður eins og Retailmenot.com eru oft með góða afslætti, og svo er viðbót í Google Chrome vafrann sem heitir Honey og leitar sjálfkrafa að afsláttarkóðum fyrir þig. Þar safnarðu líka upp fyrir gjafakortum t.d. á Amazon í leiðinni.

…en aftur að ferðasögunni!

Þegar við vorum komin út af flugvallarsvæðinu var því ferðinni heitið beint í Walmart, þar sem við keyptum okkur pullur fyrir stelpurnar, hressingu og vatn.

Hampton Inn & Suites Orlando Airport at Gateway Village, Orlando, Herbergi - 2 meðalstór tvíbreið rúm - Reyklaust, Herbergi
Mynd fengin að láni hjá Hotels.com

Við áttum bókaða gistingu á Hampton inn&suites Orlando Airport at Gateway Village í eina nótt áður en við héldum til Jacksonville. Ég nota nánast undantekningarlaust Hotels.com til að bóka gistingu, en eftir 10 gistinætur færðu eina nótt fría á hóteli að eigin vali og ef herbergið kostar meira en meðalverð náttanna 10 sem þú greiddir fyrir, þá greiðirðu mismuninn. Við gistum því þarna gegn því að greiða bara skattana af herberginu, um $20. Það er alltaf gleðilegt!

Við höfum oft gist á Hampton Inn, þar er maður býsna öruggur um að fá snyrtilegt herbergi með góðum rúmum. Morgunmaturinn aftur á móti er ekkert voðalega merkilegur, en matur eigi að síður – og ég funkera ekki vel ef ég fæ ekki að borða mjög fljótlega eftir að ég fer á fætur.

20190411_092402
Gengið með hundinn.

Eins og nánast alltaf þegar við förum til Bandaríkjanna vöknuðum við mjög snemma fyrsta morguninn. Það var mjög skýjað og dimmt yfir þegar við fórum á fætur, og mjög fljótlega eftir það byrjuðu þrumur, eldingar og steypiregn. Það var því útséð um tubingferðina okkar sem höfðum áformað á leiðinni til Jacksonville.

IMG_20190404_091022_199
Pissustopp í Varmahlíð

Við eyddum því deginum í rólegheitum, skruppum aðeins í Outlet og dúlluðum okkur. Svo keyrðum við seinni partinn uppeftir til Jacksonville.

Fyrsta vikan okkar fór að mestu bara í að vera í rólegheitum og njóta. Hitinn var hátt í 30° – svo það var varla hægt að hafa það betra.

20190405_133030
Já, ég held að Eyrún sé upprennandi lífsstílsbloggari eða fyrirsæta!

Að sjálfsögðu hófst fríið hjá mér á því að fara í nudd, andlitsbað, fótsnyrtingu og vax hjá Mona Lisa Day Spa. Það er dásamlegt að meðferðin hefst með klukkutíma þar sem þú hefur aðgang að heitum potti og gufubaði og þess háttar – en ég var bara hamingjusöm að fá klukkutíma í friði til að lesa. Allar meðferðirnar voru dásamlegar, og ég var alveg endurnærð í lok dags.

20190406_100504
Slakað á Mona Lisa Day Spa.

Stelpurnar höfðu ekki beðið eftir neinu meira en Chuck E. Cheese’s, bæði þá að borða þar og að leika sér. Við vorum því ekki búin að vera tiltakanlega lengi í henni Ameríkunni þegar það var haldið þangað – og enn og aftur, afsláttarmiðar. Það eru margir afsláttarmiðar á heimasíðunni hjá fyrirtækinu, sem veita betri kjör en annars stendur til boða á staðnum. 

Við fórum í stuttan göngutúr að Spanish Pond í Timucuan Preserve, mikið var það fallegt og kyrrlátt. Stelpurnar voru þó ekki par-hrifnar af því þegar þær voru beðnar að hafa hjá sér augun þar sem það væru Alligatorar allstaðar á Flórída…

Við skruppum einn dagpart á ströndina, Neptune Beach. Það var nú ekki sérlega fjölmennt þar, enda finnst Flórídabúum ekki mjög hlýtt í apríl, og Atlantshafsmegin hefur sjórinn ekki náð að hlýna nóg. Við hinsvegar vorum hin lukkulegustu, þetta var bara alveg akkúrat fyrir hvítu Íslendingana, og heppilegt fyrir skjannahvíta húðina að það var skýjað. Sjórinn var vissulega ekki hlýr, en eftir að hafa farið út í hann í fyrsta skipti fannst þér hann heldur ekkert kaldur. Við dvöldumst að sjálfsögðu á ströndinni þar til hungrið rak okkur heim!

Við litum í minigolf og fórum í trampólíngarð. Velocity Airsports var risavaxinn trampólíngarður með fjórum svampgryfjum, þrautabraut og fleiru. Við hoppuðum smá, en svo vorum við nánast allan tímann í svampgryfjunum, því það var langt um skemmtilegast. Það var svampgryfja með þverslá til að æfa jafnvægið, en ekkert okkar átti séns í að ganga eftir henni! En mikill sviti og mikið hlegið, frábær fjölskylduklukkutími – og það var alveg frábært að við vorum þau einu á staðnum!

Við eiginmaðurinn skildum börnin eftir í pössun hjá frænku þeirra og keyrðum til St. Augustine þar sem við áttum bókað í Ziplineævintýri. Ferðin með Castaway Canopy Zipline Adventure var alveg frábær – og við vorum bara tvö bókuð, þannig við vorum með 2 leiðsögumenn (og þriðji var með okkur í þjálfun) fyrir okkur tvö! Brautin skiptist í 7 Ziplines sem fara milli trjáa yfir sædýragarð. Ég get nú ekki sagt með vissu hvað brautin er í mikilli hæð, en ég giska á að við séum að tala um milli 20 og 30 metra.

Maðurinn minn var nú ekkert sérlega æstur þegar ég lagði þetta til við hann, en hann lét tilleiðast. Þegar við hinsvegar vorum komin á staðinn var hann ekkert smá glaður og sáttur, en ég hef aldrei í lífinu svitnað jafn mikið og það af stressi og hræðslu! En þetta var alveg sjúklega gaman, og hópstjórnarnir voru frábærir.

Á heimasíðu fyrirtækisins má sjá smá yfirlit yfir brautirnar, en fyrst klifrar maður upp risavaxið tré, þaðan sem maður Zipline-ar yfir götuna og bílastæðið yfir í næsta tré. Þaðan gengur maður eftir göngubrú – ef brú skyldi kalla – upp á næstu stöð. Svona gengur þetta koll af kolli, alltaf á milli trjáa. Í eitt skiptið yfir það sem þeir sögðu okkur að væri hákarlabúrið í sædýragarðinum, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það – það var tjaldhiminn yfir, svo við sáum ekki í búrið. Í annað skipti yfir tjörn.

FB_IMG_1555211879771
Sérlega fín í Zipline-útbúnaðnum.

Því miður mátti ekki vera með neitt lauslegt með sér þarna uppi, þar sem það gæti annars vegar skapað hættu fyrir fólk á jörðu niðri og hins vegar geturðu bara kvatt þann hlut sem þú missir úr þessari hæð. Eins og ég hefði viljað eiga myndir af þessu, þá var það því miður ekki hægt.

Því miður urðu þeir fyrir því leiðinlega óhappi að ein af þremur stóru eikunum sem báru brautina uppi drapst, og það varð að fjarlægja hana ekki löngu eftir heimsókn okkar. Fyrirtækið hafði því ekki aðra kosti en að loka í bili.

En það er nauðsynlegt að ögra sér, og þetta var frábær upplifun með eiginmanninum! Og nú er það bara á áætlun að skella sér í Zipline í Vík í Mýrdal!

Bucket list, Ferðalög

Róm, borgin eilífa – annar hluti

Hér er fyrsti hlutinn.

Eftir að skoða Sistínsku kapelluna fórum við með fornleifafræðingi undir Péturskirkjuna, en þar er að finna Necropolis (borg hinna dauðu) og menn vilja meina að þar sé Pétur postuli grafinn (og þaðan dregur kirkjan nafn sitt).

20190125_090552
Péturstorgið er nánast tómt um 9 leytið á föstudagsmorgni í janúar.

Scavi, sem er báknið sem heldur utan um fornleifauppgröft á svæðinu, býður upp á skoðunarferðir niður á uppgraftrarsvæðið, en það er mjög erfitt að komast að skilst mér. Það eru hið mesta teknir 12 manns í hvern hóp, og held ég ekki fleiri en 20 hópar á dag. Á háannatíma þá þarf að bóka túrinn með margra mánaða fyrirvara – en við vorum heppin og fengum miða þótt við pöntuðum bara með 2 vikna fyrirvara, en það er einn kostur þess að ferðast utan aðalferðamannatímans.

cq5dam.web.1280.1280
Teikning sem sýnir grafhvelfingarnar og borg hinna dauðu undir Péturskirkjunni. Grafhvelfingar páfanna eru fyrir neðan kirkjuna og fyrir neðan þær kemur Necropolis. Mynd fengin að láni hjá Scavi.va.

Til að komast að uppgraftrarsvæðinu er fyrst gengið inn í sal þar sem er módel af kirkjunni og einskonar lítið safn. Gangurinn þar inn eru u.þ.b. 10 metra þykkur, en vegna burðarþols kirkjunnar eru útveggir hennar gríðarlega þykkir neðst, og verða svo þynnri eftir því sem ofar dregur. Það var samt óraunverulegt að ganga í gegnum vegginn, og virkilega sjá hvað hann er þykkur!

Árið 64 er talið að Pétur postuli hafi verið krossfestur, en hann bað um að vera krossfestur með höfuðið niður, því hann ætti ekki skilið að deyja á sama hátt og frelsarinn. Á þeim tíma var Neró keisari í Róm, og haldnar voru kappreiðar og leikar á þessu svæði sem kallaðist Circus Nero. Þegar líftóran hafði yfirgefið Pétur var honum varpað í dys, stuttu frá torginu, en þar var að finna kirkjugarð.

peter-s-tomb-exclusive-visit-of-the-basilica-and-its-necropolis-in-rome-444816
Mynd úr Necropolis. Fengin að láni hjá mylittleadventure.com

Á þessum tíma skiptist Róm í nokkur hverfi, en aðeins eitt hverfi borgarinnar var á þessum árbakka, hinn hluti Rómar var á hinum bakkanum. Rómverjar vissu að í líkum gátu grafið um sig sýkingar og þau breitt út sjúkdóma, og því ákváðu þeir að grafa þá dauðu á þessum árbakka – utan borgarinnar.

En grafreitir í „den tid“ voru örlítið annað en þeir eru í dag. Þetta var í raun og veru borg hinna dauðu, því það voru byggð lítil hús – eiginleg grafhýsi. Oftast átti fjölskyldan eitt grafhýsi, og safnaði þangað sínum dauðu. Í Róm var skylda hvers borgara að halda uppi minningu forfeðra sinna, því það var ekki fyrr en þeir gleymdust sem þeir raunverulega yfirgáfu heiminn. Þeir grófu þá dauðu með pening, fyrir farinu yfir dauðaána (sbr. Styx), og komu reglulega í heimsóknir og þá með veisluföng.

Þegar Pétur postuli var krossfestur var það enn ólöglegt að vera kristinn í Rómaveldi. Þeir kristnu komu líkinu af honum fyrir í gröf, en svo eftir því sem kirkjugarðurinn þandist út greip um sig ótti að byggt yrði grafhýsi fyrir Rómverja á grafreitnum hans Péturs. Þeir tóku sig til, keyptu reitinn og byggðu á honum grafhýsi eins og um Rómverja væri að ræða, og tókst þannig að tryggja að gröfin hans væri óhreyfð.

20190125_074113
Hvolfþak Péturskirkjunnar.

Á fjórðu öld lögleiddi Konstantín kristni í Róm, og lét reisa það sem er kallað í dag „Old St. Peter’s“ eða Péturskirkjuna gömlu. Hún var byggð á þessum grafreit, og altarið var haft beint ofan á gröf Péturs. Á sextándu öld var Péturskirkjan sem stendur í dag byggð á rústum fyrri kirkjunnar. Péturskirkjan myndar kross, og í samskeytum krossins er risavaxið hvolfþak. Miðja krossins, og þar með hvolfþakið, er staðsett beint fyrir ofan gröf Péturs.

Að sjálfsögðu er aldrei hægt að vera fullviss um að þetta séu í raun réttri bein Péturs, en þessi saga hefur geymst í munnmælum í mörg hundruð ár, og það er talið að hún standist. Til að renna rökum undir þessa munnmælasögu, þá hafa fundist skriflegar heimildir sem stemma við hana og einnig hafa beinin verið rannsökuð. Rannsókn leiddi í ljós að aldur beinanna stemmir við tímann sem liðinn er frá láti Péturs, beinin eru af fullorðnum manni (á sjötugsaldri, sem var mjög hár aldur á þeim tíma) og mjög virkum manni (Pétur var fiskimaður áður en hann varð postuli).

20190125_105926

Vissulega eru fornleifafræðingar á báðum áttum með þetta, og fólkið sem starfar við þetta gera sér alveg grein fyrir að það er ómögulegt að færa sönnur á þetta endanlega. Þetta er líka spurning um trú – en þeir sem í raun og sann eru kristinnar trúar, þeir trúa að þetta séu bein postulans. Enda er þetta talinn einn af helgustu stöðum kristinnar trúar.

Í biblíunni er sagt að Jesú hafi sagt við Pétur að hann væri kletturinn sem kirkjan myndi grundvallast á. Það má segja að það hafi staðist, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu!

20190125_105011
Baldacchino Berninis, maður áttar sig engan veginn á stærðinni, en fólkið er ágætt til viðmiðunar.

En eins og ég sagði, þá er búið að grafa töluvert þarna undir kirkjunni, en þeir hafa að mestu grafið það sem er öruggt að grafa sökum burðarþols kirkjunnar. Beint fyrir ofan gröf Péturs er páfaaltari, en það er altari þar sem aðeins páfinn má halda guðsþjónustu. Yfir altarinu er svo „Baldacchino“ Berninis, en það er tæplega 30 metra hár tjaldhiminn, sem vegur marga tugi tonna. Hann er búinn til úr hreinu bronsi, sem fékkst úr þakinu á Pantheon.

20190125_105237
Stærð kirkjunnar er alls ekkert gríðarleg, fyrr en þú sérð fólkið sem gengur um gólfið.

Venjulega endar skoðunarferðin í „The Vatican Grottoes“ sem er grafhvelfing páfanna. Hins vegar voru einhverjar framkvæmdir í gangi þar þegar við vorum á staðnum og því vorum við leidd beint upp í kirkjuna.

ufficio-scavi-map-vatican
Hér má sjá hvar maður finnur skrifstofu Scavi. Mynd fengin að láni hjá yourtravelspark.com

 

Ef þið hafið áhuga á að fara í þessa skoðunarferð, þá þarf að sækja um miða með töluverðum fyrirvara (margra mánaða á háannatíma) og þeir úthluta þér degi og tíma. Umsóknir skulu berast með tölvupósti á scavi [hjá] fsp.va, og innihalda full nöfn allra sem óska eftir að fá að koma, hvaða tungumál viðkomandi talar (eða geta skilið) upp á að hægt sé að setja þig hóp með réttum leiðsögumanni, hvaða dagar koma til greina og netfang. Þú færð tölvupóst frá þeim þar sem kemur fram hvenær það er í boði fyrir þig að koma (ef það er laust), og þú þarft að staðfesta það. Þá færðu upplýsingar til að greiða, en það kostar 13 evrur fyrir manninn (að mínu áliti er það gjöf en ekki gjald!).

20190125_111300
Pieta. Michelangelo var 23 ára þegar hann gerði styttuna.

Péturskirkjan er risavaxin. Nei, sko – hún er risavaxin! Tjaldhimininn er 30 metra hár, en þú sérð það samt ekki, þér finnst hann ekkert svo hár – það eru líka tæpir 137m upp í topp á hvolfþakinu! Í Péturskirkjunni er líka að finna Pieta, frægustu höggmynd Michelangelos. Þar má sjá Maríu Mey sitja og syrgja með líkama Jesú eftir krossfestinguna.

20190125_112502
Péturskirkjan frá Péturstorginu.

Vatíkanið er 0,44 ferkílómetrar og það eru 836 einstaklingar sem eru með ríkisborgararétt þar. Það eru bara prestar, kardinálar og páfar sem eru með ríkisborgararétt, allir aðrir sem vinna þar eru ítalskir ríkisborgarar. Í Vatíkaninu er páfahöll, þar sem páfarnir hafa almennt búið. Núverandi páfi neitaði að flytja inn í páfahöllina, honum fannst íburðurinn þar of mikill.

domitillacat
Kirkja St. Domitillu. Mynd fengin að láni hjá phys.org.

Eftir skoðunarferðirnar tvær fengum við okkur að borða, og fórum upp á hótel. Þangað vorum við svo sótt í næstu skoðunarferð. Sú skoðunarferð var í Catacombur st. Domitillu og tvær basilíkur. Catacombur eru neðanjarðarkirkjugarðar sem má finna á ýmsum stöðum í evrópu. Domitilla nokkur gaf kristna söfnuðinum landspildu þar sem kristnir gátu grafið sína látnu neðanjarðar. Kirkjugarðurinn er á fjórum hæðum, en búið er að grafa upp 12 kílómetra af göngum (talið að göngin séu alls um 17 kílómetrar) en þrátt fyrir stærðina er hann ekki sá stærsti í Róm – en hann er, að mér skilst, með einn af þeim best varðveittu.

catacomb-sdomitilla-tunnel
Mynd úr göngum neðanjarðarkirkjugarðsins. Mynd fengin að láni hjá Reidsitaly.com

Grafin voru hólf inn í veggina, þar sem líkin voru lögð, en síðan var gröfinni lokað og hjá betra fólki gjarnan settir marmaraplattar til minningar, eða málverk. Það voru allt að 4-5 hólf á hverjum stað, byrjað í gólfi og upp í loft. Það er búið að opna flestar grafirnar, en margar eru þó enn lokaðar. Gengið er niður í Catacomburnar í gegnum kirkju, eða kapellu, sem er í dag að mestu leyti neðanjarðar.

20190125_155329
St. Johns in Laterano

Eftir heimsóknina neðanjarðar fórum við í Basilíku St. Giovanni in Laterano, sem er ein af fjórum erkibasilíkum í Róm (eða þrem, og einni í Vatíkaninu). Erkibasilíka þýðir að páfinn einn má messa frá aðalaltarinu, og að á þeim eru helgar dyr – það eru dyr sem eru múraðar lokaðar í 24 ár, en svo opnar í 1 ár. Kaþólikkar streyma þá að til að öðlast fyrirgefningu synda sinna.

Basilíkan er fyrsta kristna kirkjan sem var byggð í Róm, en hún var upphaflega byggð á fjórðu öld. Sú sem nú stendur var þó byggð á sautjándu öld, og hönnuð af Borromini. Það má sjá í kirkjunni töluverða endurvinnslu, en aðalhurðirnar eru úr dómhúsinu á Imperial Forum torginu og eru einar af fáum fornhurðum sem eru enn í notkun í borginni í dag. Þær eru tvöþúsund ára gamlar, úr bronsi, hátt í 8 metra háar, en það þarf bara tvo menn til að opna þær, því lamirnar eru svo vel gerðar.

20190125_160546
Meistaraleg endurnýting á marmara

Í marmaragólfi kirkjunnar er mikið mynstur úr hringjum, en þar er verið að endurnýta súlur úr gömlum byggingum sem búið er að sneiða niður eins og pylsur. Það er búið að nýta marmarann í gullfalleg mósaíklistaverk.

20190125_171856
Santa Maria Maggiore.

Seinni basilíkan sem við heimsóttum var líka erkibasilíka, Santa Maria Maggiore. Sagan segir að María mey hafi birst páfanum í draumi og sagt honum að reisa sér kirkju, hún myndi sýna honum hvar. Þá sömu nótt, í ágúst, á að hafa snjóað á þessari hæð, og páfinn fyrirskipaði byggingu kirkjunnar. Líklegri skýring er þó talin vera öskufall, en ekki er vitað um nein eldgos á þeim tíma sem geta rennt stoðum undir þá skýringu.

Þá var föstudeginum, fyrri deginum í Róm, loksins lokið. Við skruppum inn í eina verslun þarna við Santa Maria Maggiore til að kaupa smá glaðning handa dætrum okkar, og drifum okkur svo á veitingastað til að seðja sárasta hungrið. Að því loknu dröttuðumst við upp á hótel þar sem við steinsofnuðum – rétt upp úr 20.00! Góð byrjun á fimmtugsaldri bóndans!

20190125_171036

Bucket list, Ferðalög, Lífið

Róm, borgin eilífa – fyrsti hluti

Capture

Maðurinn minn átti stórafmæli á dögunum, þegar kallinn komst á fimmtugsaldurinn. Honum stóð til boða að halda stórt partý eða stinga af og fela sig. Hann valdi að sjálfsögðu síðari kostinn! Og Lína hans bókaði handa honum helgarferð til Rómar, en þangað hefur hann langað að koma alveg síðan ég kynntist honum.

20190124_154459
Stórkostlegt útsýni yfir Alpana.

Norwegian var með alveg djóktilboð á pakkaferðum til Rómar, en janúar er að sjálfsögðu algjör lágannatími á þessum slóðum. Við fengum flug, töskur og 3* hótel með morgunmat á í kringum 80.000 kr. fyrir okkur bæði – samtals. Eini gallinn á gjöf njarðar var sá að flugtímarnir voru þannig að í rauninni höfðum við bara rúma tvo daga – en það eru kostir við allt, við þurftum nefnilega ekki að vakna fyrir allar aldir á ferðadegi, og því vorum við bara flott stemmd þann seinnipart.

20190126_091044

En að fara til Borgarinnar eilífu þýðir að það er nóg að skoða, þótt maður væri þar í margar vikur. Þannig þessir tveir dagar voru vel rúmlega troðfullir af dagskrá! Ég hafði mestar áhyggjur af því að fólk héldi að maðurinn minn hefði farið í felur yfir fimmtugsafmælið en ekki fertugsafmælið því hann yrði svo þreyttur þegar hann kæmi heim! Við fórum út með bókað í tvö flóttaherbergi og fimm skoðunarferðir…

Hótelið sem við bókuðum heitir Hotel XX Settembre (Venti Settembre), og er mjög nálægt Termini lestarstöðinni (aðallestarstöðinni). Hótelið er mjög lítið, aðeins einhver 20 herbergi. Það sést nú töluvert á innanstokksmunum, en allt var mjög hreint og fínt. Þeir bjuggu svo fínt að hafa lyftu, en hún tók í mesta lagi 2 manneskjur, og ferðataskan komst eiginlega ekki með! Morgunmaturinn var evrópskur; þ.e.a.s. brauð og jógúrt og þess lags, og þjónustan í lobbýinu var alveg fyrsta flokks! Ég hafði samband við þau fyrirfram til að láta vita af pökkum á leiðinni frá Amazon, og hvort þau gætu ekki sett kaldan bjór á herbergið fyrir afmæliskallinn minn – það var nú minna en ekkert mál, og þau bókuðu fyrir okkur á veitingastað og voru einstaklega hjálpsöm og liðleg.

20190125_074911
í páfagarði.

Við munum það bara næst að þriggja stjörnu hótel í Róm er ekkert líkt t.d. þriggja stjörnu hóteli í USA. En við getum samt ekki kvartað yfir hótelinu á nokkurn hátt, þau m.a. opnuðu morgunmatinn fyrr en venjulega fyrir okkur á föstudagsmorguninn, þar sem við þurftum að vera mætt í Vatíkanið kl. 7 – en morgunmaturinn var venjulega frá 7 til 10.

20190126_130544

Veitingastaðurinn, Il Cuore di Napoli, sem var nánast við hótelið var dásamlegur ekta ítalskur staður, með pitsur, pasta, sjávarrétti og nefndu það. Þau tóku á móti okkur með freyðivínsstaupi, og pitsurnar þeirra voru alveg dásamlegar! Staðurinn var alveg einstaklega lítill, en í salnum voru 8 borð, og við hvert þeirra geta í mesta lagi fjórir setið.

20190124_204304
Kvöldverður á Il Cuore di Napoli.

Eftir matinn áttum við bókað í flóttaherbergi hjá Locked Roma, en þetta var í fyrsta skipti sem við fórum í flóttaherbergi sem var 90 mínútur. Við leystum það með glæsibrag og áttum 15 mínútur eftir. Það hinsvegar hægði aðeins á okkur að það var gert ráð fyrir að maður vissi hvað verk Da Vincis heita, en þrátt fyrir að við hefðum átt að vita það mundum við það ekki – það er hins vegar almenn þekking á Ítalíu.

20190124_224825

Við ákváðum að ganga heim frá flóttaherberginu, því þetta var nánast eina stundin sem ekki var skipulögð – og á leiðinni heim gætum við séð Castel Sant’Angelo. Hins vegar áttum við ekki von á að nánast detta um Piazza Navona og Largo di Torre Argentina.

20190124_231223
Séð aftan á Péturskirkjuna frá Castel Sant’Angelo.
20190124_231336
Tíber-áin að kvöldi til.

Áður en við fórum út horfðum við að sjálfsögðu á Angels and Demons myndina sem byggir á sögu Dan Brown, en lokaatriðið í þeirri mynd gerist að mestu í Castel Sant’Angelo. Hins vegar höfðum við engan tíma til að skoða bygginguna, langaði bara aðeins að sjá hana. Í beinni línu frá kastalanum má svo sjá bakhliðina á Péturskirkjunni. Keisarinn Hadrían lét byggja Castel Sant’Angelo á annarri öld eftir krist, og ætlaði kastalann sem grafhýsi sitt og fjölskyldu sinnar. Hadrían og fjölskyldu hans var komið fyrir þar, auk líkamsleifa einhverra fleiri keisara. Á fimmtu öld var byggingin notuð sem virki, og á fimmtándu öld var kastalinn tengdur Péturskirkjunni með göngum, en sagan segir að þar sé um að ræða flóttaleið fyrir páfann.

20190124_233821
Gosbrunnur stórfljótanna fjögurra.

Á Piazza Navona skoðuðum við gosbrunn Berninis, Fontana de Quattro Fiumi (gosbrunnur stórfljótanna fjögurra), sem táknar heimsálfurnar fjórar sem heyrðu undir páfadóm.

20190124_235220
Largo di Torre Argentina.

Largo di Torre Argentina er torgið þar sem talið er að Júlíus Sesar hafi verið myrtur. Þetta eru afgirtar fornleifar í miðri borg, sem samanstanda af rústum fjögurra hofa. Torgið er núna griðastaður fyrir heimilislausa ketti, en það er talið að um 100 kettir haldi til þar. Í myrkrinu tókst okkur ekki að sjá einn einasta en þeir eru víst snillingar í að fela sig og koma sér fyrir á furðulegum stöðum þessar elskur.

20190125_072525

Við drifum okkur á fætur kl. 6.00 á föstudagsmorguninn, því við áttum pantað í skoðunarferð um Sistínsku kapelluna fyrir opnun. Við fórum með Vasco, portúgölskum leiðsögumanni, í gegnum Vatíkönsku söfnin þar sem hann benti okkur á það merkilegasta að sjá. Næst þegar ég fer til Rómar, og ég ætla aftur, þá langar mig að fara í mun lengri og stærri skoðunarferð um söfnin, því þau geyma engar smá gersemar. Því miður sáum við ekki Aþenuskólann hans Rafaels, en það er bara eitt af því fjölmarga sem okkur tókst ekki að sjá.

Það má ekki tala í Sistínsku kapellunni (né taka myndir), svo Vasco fór fyrirfram yfir það með okkur hverju við ættum að taka eftir, og hvað við værum að fara að sjá. Kapellan sjálf er býsna stórkostleg, maður á bara erfitt með að trúa sínum eigin augum.

(Hér verð ég að gera eina athugasemd, að gefnu tilefni: það er ekkert x í Sistínsku kapellunni)

20190126_090757

Loftið í Sistínsku kapellunni er yfir 500 fm, og er í 20,7 m. hæð frá gólfi. Michelangelo hafði ekki áhuga á að taka verkið að sér, þar sem hann taldi sig ekki vera málara, hann hafði bara áhuga á marmara og höggmyndum, og taldi sig eingöngu vera myndhöggvara og arkitekt. Hann var nánast neyddur til að taka verkið að sér, en hann málaði allt loftið einn – engir aðstoðarmenn að mála eftir hans forskrift.

20190125_082552
Hluti af einu af fjölmörgum veggteppum á Vatíkönsku söfnunum eftir forskrift Rafaels. Þetta er ekki málverk, heldur vefnaður. Hann hannaði teppin, en svo voru þau gerð í Belgíu, þar sem bestu vefarar Evrópu voru. Rafael lést þó áður en framleiðslunni lauk, og sá þau því aldrei. Þetta teppi er t.d. svo listilega gert að það er eins og augu Jesú fylgi þér þegar þú gengur fram hjá.

Sumir halda því fram að Michelangelo hafi legið á bakinu og málað, en það er ekki rétt. Hefði hann legið hefði hann ekki getað fært sig til, nema með ærinni fyrirhöfn, til að sjá verkið frá ýmsum sjónarhornum. Vegna lofthæðarinnar í kapellunni má segja að hann hafi á hverjum degi lagt sig í lífshættu, þar sem hann stóð og hallaði sér aftur á bak til að mála. Þegar hann hafði lokið við loftið fór hann aftur heim til Flórens. Hann var innan við fertugt en var ónýtur maður eftir fjögur ár af löngum vinnudögum í slæmum stellingum.

20190125_082835
Kortasalurinn í Vatíkaninu. Sjáið loftið!

En hann var ekki sloppinn enn, því þegar hann varð sextugur var hann fenginn aftur í kapelluna, nú til að mála altaristöfluna. Verk hans, the Last Judgment, þekur megnið af annarri skammhlið kapellunnar, og er um 160 fermetrar (það er jafn stórt og 5 herbergja íbúðin mín með bílskúr og allt). Það var maður sem vann í Vatíkaninu sem kom á hverjum morgni að sjá hvernig verkinu vegnaði, og á hverjum degi gagnrýndi hann verkið á allan mögulegan máta. Michelangelo hefndi sín snilldarlega, en hann notaði andlitið á honum á eina af hræðilegustu skepnunum í þeim hluta verksins sem táknar helvíti.

Myndaniðurstaða fyrir the last judgment
The Last Judgment. Mynd fengin að láni hjá Michelangelo.org.

Öll málverk Michelangelos í Sistínsku kapellunni eru freskur – freskur eru gerðar þannig að veggurinn er gifsaður, og svo er verkið málað í blautt gifsið og þá festist liturinn þegar gifsið þornar. Hins vegar, þá hefur listamaðurinn ekki langan tíma til að athafna sig, og ef hann þarf að leiðrétta eitthvað eftir á þarf að skafa klæðninguna af veggnum og byrja upp á nýtt. Obb-obb-obb.

Myndaniðurstaða fyrir the sistine chapel ceiling
Loftið í Sistínsku kapellunni. Mynd fengin að láni hjá twistedsifter.com
Myndaniðurstaða fyrir the creation of adam
Þekktasti hluti kapelluloftsins; Sköpun Adams (The Creation of Adam). Mynd fengin að láni hjá Wikipedia.org.

Jæja, meira síðar.

Bækur, Bucket list

100 bækur sem ég ætla að lesa

Jæja, nú er ég búin að setja saman lista yfir bækur sem ég ætla að lesa, eins og ég einsetti mér á Bucket listanum.

Á listanum er bæði klassík og nýlegar bækur, eftir íslenska höfunda og erlenda, á íslensku og ensku, fyrir börn og fullorðna…

Ég les nánast einungis á íslensku, og það kemur ekki til af slakri enskukunnáttu, heldur þeirri sannfæringu að við notum ensku svo mikið frá degi til dags, horfum á sjónvarpsefni á ensku, lesum greinar og hlustum á hlaðvörp á ensku o.s.frv., að það veitir ekki af að lesa góðan íslenskan texta til að halda við íslenskunni hjá sér.

Listinn er í stafrófsröð, en engri sérstakri lesröð eða áhugaröð.

1 12 years a slave Solomon Northup
2 Ævintýri Pickwicks Charles Dickens
3 All the light we cannot see Anthony Doerr
4 Allt sundrast Chinua Achebe
5 Anna í Grænuhlíð serían L.M. Montgomery
6 Auðar-þríleikurinn Vilborg Davíðsdóttir
7 X Aulabandalagið John Kennedy Toole
8 Bréf til Láru Þórbergur Þórðarson
9 Búddenbrooks Thomas Mann
10 Býr Íslendingur hér Garðar Sverrisson
11 X Dagbók Önnu Frank Anna Frank
12 Dalalíf Guðrún frá Lundi
13 Dauðar sálir Nikolai Gogol
14 X Davíð Copperfeld Charles Dickens
15 Dimmur hlátur Sherwood Anderson
16 Ditta Mannsbarn Martin Andersen Nexö
17 Dreggjar dagsins Kazuo Ishiguro
18 X Duld Stephen King
19 Duttlungar örlaganna John Steinbeck
20 Ef að vetrarnóttu ferðalangur Italo Calvino
21 X Elskhugi lafði Chatterley D.H. Lawrence
22 Ethan Frome Edith Wharton
23 Faðir, móðir og dulmagn bernskunnar Guðbergur Bergsson
24 Fjötrar W. Somerset Maugham
25 Framúrskarandi dætur Katherine Zoepf
26 X Frankenstein Mary Shelley
27 Gamli maðurinn og hafið Ernest Hemingway
28 X Gerpla Halldór Laxness
29 Glerhjálmurinn Sylvia Plath
30 Glitra daggir, grær fold Margit Söderholm
31 X Gösta Berlingssaga Selma Lagerlöf
32 Græna mílan Stephen King
33 Grænn varstu dalur Richard Llewellyn
34 Grámosinn glóir Thor Vilhjálmsson
35 Greifinn frá Monte Cristo Alexandre Dumas
36 Gróður jarðar Knut Hamsun
37 X Halla og Heiðarbýlið Jón Trausti
38 Harry Potter serían J.K. Rowling
39 Helreiðin Selma Lagerlöf
40 Hetja vorra tíma Mikhail Lermontov
41 Hinir smánuðu og svívirtu Fjodor Dostojevski
42 Hundrað ára einsemd Gabriel Garcia Marquez
43 Hundrað dyr í golunni Steinunn Sigurðardóttir
44 Húsið á sléttunni serían Laura Ingalls Wilder
45 Hvítklædda konan Wilkie Collins
46 Í ættlandi mínu Hulda
47 X Í góðu hjónabandi Doris Lessing
48 Í Skálholti Guðmundur Kamban
49 Íslenskur aðall Þórbergur Þórðarson
50 Kaffihús tregans Carson McCullers
51 Kantaraborgarsögur Geoffrey Chaucer
52 Karamazov bræðurnir Fjodor Dostojevski
53 Konan í dalnum og dæturnar sjö Guðmundur Hagalín
54 Kóralína Neil Gaiman
55 Krókódílastrætið Bruno Schulz
56 Land og synir Indriði G. Þorsteinsson
57 Langur vegur frá Kensington Muriel Spark
58 Lesið í snjóinn Peter Höeg
59 Leyndardómar Parísarborgar Eugene Sue
60 Lolita Vladimir Nabokov
61 María Stúart Stefan Zweig
62 Móðirin Maxim Gorky
63 Mrs. Dalloway Virginia Woolf
64 Nafn rósarinnar Umberto Eco
65 Njósnarinn sem kom inn úr kuldanum John le Carré
66 Nonni og Manni Jón Sveinsson
67 Norwegian Wood Haruki Murakami
68 Nóttin blíð F. Scott Fitzgerald
69 Öreigarnir í Lódz Steve-Sem Sandberg
70 Pelli Sigursæli Martin Andersen Nexö
71 Perlan John Steinbeck
72 Pósturinn hringir alltaf tvisvar James M. Cain
73 Punktur punktur komma strik Pétur Gunnarsson
74 Ráðskona óskast í sveit Snjólaug Bragadóttir
75 Ragtime E.L. Doctorov
76 X Rakel Daphne DuMaurier
77 Réttarhöldin Franz Kafka
78 Rómeó og Júlía William Shakespeare
79 Saga þernunnar Margaret Atwood
80 Saga tveggja borga Charles Dickens
81 Salka Valka Halldór Laxness
82 Spámennirnir í Botnleysufirði Kim Leine
83 Stikilsberja-Finnur Mark Twain
84 Sturlungaaldarbækurnar Einar Kárason
85 Svart blóm John Galsworthy
86 Svipur kynslóðanna John Galsworthy
87 The Other Boleyn Girl Philippa Gregory
88 The Tenant of Wildfell Hall Anne Bronte
89 Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum Erich Maria Remarque
90 X Tíu litlir negrastrákar Agatha Christie
91 Töframaðurinn frá Lúblín Isaac Bashevis Singer
92 Tómas Jónsson metsölubók Guðbergur Bergsson
93 Tvennir tímar Knut Hamsun
94 Umrenningar Knut Hamsun
95 X Útlendingurinn Albert Camus
96 X Veröld ný og góð Aldous Huxley
97 We Need to Talk About Kevin Lionel Shriver
98 Þóra frá Hvammi Ragnheiður Jónsdóttir
99 Þriðjudagar með Morrie Mitch Albom
100 Þúsund og ein nótt

Mikið af titlunum á listanum eru bækur sem ég á nú þegar, bækur eftir höfunda sem ég hef lesið áður, bækur sem mér finnast hálf-ógnvekjandi, eða eftir höfunda sem ég hef aldrei lesið áður! Sumar verða áskorun, en aðrar verða auðveldar – en það er líka það sem þetta snýst um 🙂

Ég setti upp lista þar sem hægt er að merkja við það sem þú hefur lesið, endilega merktu við og deildu með mér hverjar þessara þú hefur lesið!

Það væri gaman að heyra frá þér ef þú hefur lesið eitthvað af þessum, eða ef það er einhver sem þér finnst sárlega vanta á listann!

Lífið

Portrettmyndataka í Regent’s Park

Nú þegar Bucket listinn er kominn á blað, þá er ekki seinna vænna en að byrja að strika út af honum.

Þegar ég fór til London fór ég í förðun og létta hárgreiðslu og skellti mér í myndatöku. Ég mælti mér mót við ljósmyndara, hann hitti mig á hótelinu mínu og við gengum saman í Regent’s Park þar sem við vörðum klukkustund í myndatökur.

© Budget Photographer London

© Budget Photographer London

© Budget Photographer London

10 myndir voru innifaldar í myndatökunni, en það var svo erfitt að velja að ég endaði með að kaupa aðrar 10 af honum.

© Budget Photographer London

© Budget Photographer London

© Budget Photographer London

Ég get ekki annað sagt en ég sé nokkuð ánægð með niðurstöðuna!

Ef einhver er í svipuðum hugleiðingum get ég ekki annað ég mælt með ljósmyndaranum; hann heitir Shen og myndirnar hans og upplýsingar til að ná í hann má finna á heimasíðunni hans. Hann hafði virkilega þægilega nærveru, og var einstaklega faglegur og flottur.

Þótt hann vissi að ég væri á ferðalagi og lægi ekkert á að fá að sjá myndirnar, þar sem ég hefði engan tíma til að skoða og velja fyrr en um viku síðar, þá var hann klár með þær á þrem dögum!

Ferðalög

Vinkonuferð til London – fyrri hluti

Einn morgun í vor var ég að rumska til að mæta í vinnu, þegar ég fékk skilaboð á messenger frá bestu vinkonu minni þar sem mikið óð á henni, þar sem hún hafði frétt það að Britney Spears væri á Evróputúr, en hana hefur alltaf dreymt um að sjá Britney á sviði.

Við bókuðum okkur nánast umsvifalaust til London, og keyptum okkur miða á tónleikana. Biðin var löng, þrátt fyrir að hún væri í dögum talið styttri en oft áður þegar ég og utanlandsferðir eigum í hlut.

20180826_154118

Og loksins kom að því!

Þar sem við vorum bara tvær á ferðinni, þá útveguðum við okkur far til Reykjavíkur, og þaðan þurftum við svo að koma okkur til Keflavíkur. Við vorum svo seint á ferðinni að við vorum ekki vissar um að ná síðustu flugrútunni, þannig þá var fátt um fína drætti og við mútuðum elskulegum ættingja með súkkulaði til að skutla okkur á Keflavík. Muna – greiða skuldir sínar!

20180825_105709

Að sjálfsögðu gistum við á Keflavík Bed and Breakfast, en við vorum komnar til Keflavíkur um 21.00 um kvöldið og áttum flug um 7.45 um morguninn. Því fylgir að „ræs and shæn“ var um 4 og við vorum gríðarferskar.

20180825_120206
Tower Bridge

Meðan við stóðum í röðinni til að ganga um borð glumdi sífellt í hátölurum flugstöðvarinnar tilkynningar um að þessir og hinir ættu að drífa sig í þessar og hinar vélar því þær væru klárar til brottfarar. Inn á milli var svo bent á að það væru fleiri en ein vél að fara á hvern áfangastað, svo fólk var vinsamlega beðið um að athuga vel flugnúmer – að ganga úr skugga að flugnúmerið á flugmiðanum stemmdi við flugnúmerið við hliðið.

20180824_224837
The Greene Man, hverfispöbbinn.

Fyrir framan okkur í röðinni voru tveir strákar. Annar þeirra stökk til þegar upp var lesin tilkynning um að hann ætti að gefa sig fram við upplýsingaborð. Hinn var svo sendur burt úr röðinni þegar upp komst að hann var ekki í réttri röð!

20180825_092342
Melia White House – Hótelið okkar.

Þessi ferð var önnur ferðin okkar beggja til London, en síðast vorum við 16 ára, svo það má nánast segja að við höfum ekki komið þangað áður.

20180825_101542
Lögbundna sjálfan við Buckingham höll.

Við lentum á Gatwick flugvelli og tókum Gatwick Express lestina inn í borgina, en hún endar á Victoria Station lestarstöðinni. Þar keyptum við okkur kort í neðanjarðarlestakerfið, sem heitir Oyster. Kortið virkar þannig að maður kaupir á það inneign, og notar það svo bara sem snertilaust kort. Ótrúlega einfalt og sniðugt!

Við höfðum mikið heyrt um að neðanjarðarlestakerfið í London væri mjög einfalt og auðskiljanlegt, en hafandi ekki mikið notast við lestasamgöngur vorum við örlítið uggandi. Það kom þó í ljós, eins og okkur hafði verið sagt, að kerfið var mjög einfalt og aðeins eftir að nota það tvisvar var maður kominn upp á lag með þetta og gat þvælst út um allt.

Ég átti tíma í myndatöku seinna sama dag, en mig vantaði einhverja skó fyrir myndatökuna, svo eftir að skrá sig inn á hótelið þutum við í Primark, keyptum skó og svo fór ég í förðun og hár hjá Blow ltd. sem er staðsett í Debenhams á Oxford street. Ég borgaði um 7.700 kr. fyrir fulla förðun með augnhárum, hárþvott, blástur og greiðslu, gekk mjög sátt út. Ég bókaði tímann bara á heimasíðu stofunnar, eins einfalt og það verður.

20180825_151440

Hinsvegar – þá ætlaði ég ekki niður í neðanjarðarlestakerfið fyrir myndatökuna, því förðunin hefði öll lekið af í hitanum þar. Þá þótti mér vera kominn tími til að prófa Uber – já ég viðurkenni það, ég er ekki nýjungagjörn og hef aldrei notað Uber áður. Það hinsvegar reyndist líka vera hið sniðugasta tól, eins og sennilega flestir vita!

20180825_111306
Alveg held ég að þetta sé draumadjobbið.

Ég fór upp á hótelið aftur og skipti um föt, og svo hitti ég ljósmyndarann við hótelið. Hann var hinn viðkunnanlegasti maður og ég er í skýjunum með myndatökuna og myndirnar sjálfar. Ég setti inn sér færslu um myndatökuna hér, en hér kemur sýnishorn:

 

Um kvöldið skelltum við okkur á Pizza Hut, en þeir voru með frjálsan aðgang að gosdælunum fyrir eitt verð. Hinsvegar; þá var aðeins hægt að fá sykurskerta gosdrykki á dælu hjá þeim, þar sem sykurskatturinn í Bretlandi er svo hár. Það þótti mér áhugavert.

DreamTrips er ferðaklúbbur sem virkar þannig að maður borgar mánaðargjald gegn inneign sem gengur upp í ferðir sem maður kaupir í gegnum þá. Ferðirnar eru allar þannig að þú kaupir þér sjálfur flug, hvaðan sem þú kemur úr heiminum, en hótel og einhver afþreying er innifalið í pakkanum. (Ef þú hefur einhverjar spurningar um klúbbinn, skal ég glöð svara þeim)

24swtzl8owp25xduy8tuteg3bzzejj35o3qen5ac4fphtnr3gf
Hluti af hópnum á London Eye mynd.

Það hitti þannig á að þessa helgi sem við vorum staddar í London bauð DreamTrips upp á ferð í London, svo við nýttum okkur það. Fyrir 75.000 kr. fengum við gistingu á 4 stjörnu hóteli við Regent’s Park, með morgunverði, aðgang að fararstjóra sem var manni alltaf innan handar ef eitthvað var, drykki með hópnum á hótelbarnum fyrsta kvöldið, hálfsdags skoðunarferð um borgina með miðum í London Eye á laugardagsmorguninn, og þriggja rétta kveðjukvöldverð með hópnum síðasta kvöldið. Það er sama verð og maður fær herbergi á hótelinu á í gegnum hotels.com.

Með því að kaupa flug með Icelandair með tösku, og þessa ferð með DreamTrips, þá var ferðin ódýrari en að kaupa pakka með Gaman ferðum á mun síðra hóteli.

20180825_101336
Minnismerki Viktoríu drottningar við Buckingham höll.

Við hinsvegar mættum ekki í kveðjukvöldverðinn þar sem við vorum á tónleikum þá, og reyndar ekki heldur á hótelbarinn fyrsta kvöldið.. Enda höfum við alltaf verið þekktar fyrir að vera einstaklega félagslyndar!

Hinsvegar sáum við eftir því að hafa ekki getað mætt á kveðjukvöldverðinn, þar sem hópurinn var mjög skemmtilegur. Það vorum um 30 manns í hópnum, frá öllum heimshornum; slatti frá Bandaríkjunum og svo Kína, Kóreu, Ítalíu…

20180825_143232
Sjálfa á toppi London Eye.

Laugardagsmorguninn hófst að sjálfsögðu á indælum hótelmorgunmat áður en haldið var í skoðunarferð um borgina. Meðal þess sem við skoðuðum var Westminster Abbey, Buckingham höll, Tower of London, Tower Bridge, Downingstræti 10, varðmenn á hestum, tókum stutta siglingu um Thames og enduðum svo í London Eye.

20180825_105243
Big Ben var í felum.

Seinni part laugardagsins áttum við pantað í aðra myndatöku (hjá Old&New Photography), og í þetta sinn kom ferðafélaginn með! Myndatakan var einskonar tímaflakksmyndataka, þar sem við vorum klæddar upp í gervi frá Viktoríutímanum. Þetta var stórskemmtileg upplifun og skilaði okkur frábærum myndum! Stúdíóið var rosalega flott, greinilega hugað að hverju smáatriði og vel að öllu staðið!

20180826_151755
Þessi fer klárlega í ramma uppá vegg!

Okkur var fyrst boðið að skoða möppu með kjólamyndum og sýnishorn af myndum, en síðan var okkur fylgt í búningsherbergi þar sem allt úði og grúði af allskonar kjólum og skikkjum, höttum og skarti, og hverju því sem til þurfti. Stúdíóið býður upp á fjórar tegundir af tímaflakksmyndum; frá Viktoríutímanum, frá Tudortímanum, úr villta vestrinu og svo eins konar „gangsta“ myndatöku.

20180830_114038
Þessi verður í leshorninu mínu.

Konan sem tók á móti okkur í búningsherberginu var sérlega fróð og hafði greinilega mikinn metnað fyrir starfi sínu. Hún útbjó okkur af sérstöku næmi, og svo hratt og vel að furðu sætti. Síðan vorum við leiddar í stúdíóið þar sem á móti okkur tók ljósmyndari sem stillti okkur upp í allskonar skemmtilegum útfærslum. Ég mæli eindregið með þessu ef þetta er eitthvað sem þú hefur áhuga á!

Þegar þessu var lokið héldum við aftur inn í miðborgina og fengum okkur kvöldverð á Planet Hollywood. Það var skemmtilegt andrúmsloft á staðnum, há músík og fólk ófeimið við að syngja með.

Eftir kvöldmatinn settumst við í setustofuna við barinn og fengum okkur nokkra kokteila, en á Groupon náðum við okkur í 6 kokteila á 27 pund. Allir kokteilarnir voru dásamlega góðir og ekki skemmdi fyrir hve gaman var að fylgjast með barþjónunum að störfum!

20180823_125632
Vinnufélaginn sendi ferðafélaganum kveðju, og ég bráðnaði!

Hérna má svo lesa það sem eftir stendur af sögunni.

Bucket list

Haustferð Línu og Agnesar 2018

Þægindaramminn er þægilegur staður að vera á, eins og nafnið gefur til kynna. Hins vegar er ólíklegt að maður læri margt nýtt eða upplifi eitthvað sem maður hefur ekki upplifað áður, meðan maður heldur sig innan hans.

Þegar ég sá Tröll Expeditions auglýsa að þeir byðu Íslendingum að koma með sér að snorkla í Silfru sér að kostnaðarlausu, vissi ég að þarna var tækifæri sem ég þurfti að grípa. Ég plataði vinkonu mína í þetta með mér, þar sem ég veit að hún leitast líka við að færa út þægindarammann.

DCIM100GOPROGOPR8190.JPG
Snorklandi.

Til að geta tekið þátt þurftum við að fara yfir spurningalista með ýmsum heilsufarsvandamálum, en honum þurfti svo að skila inn. Við undirbjuggum okkur vel með því að lesa okkur til á heimasíðu Tröllanna, og tölvupóstinn sem við fengum frá þeim. Niður í töskur fóru m.a. hlý undirföt, hlýir og þykkir sokkar, auka föt og sundföt og handklæði (ef við þyrftum að fara í heitan pott til að ná upp líkamshita eftir uppátækið).

Við keyrðum frá Akureyri til Borgarness á föstudagskvöldi, og gistum á Hótel Hafnarfjalli (gamla Mótel Venus). Húsakynnin hafa nú séð sinn fífil fegurri, en það var ekki hægt að kvarta yfir hreinlæti eða viðmóti. Við vorum í þriggja manna herbergi uppi í risi, bara mjög kósý. Morgunmaturinn sem fylgdi var líka bara mjög ásættanlegur.

Á laugardagsmorgni keyrðum við svo í höfuðborgina, þar sem hagsýnu húsmæðurnar héldu í CostCo og svo beina leið yfir í Ikea.

Síðustu mínúturnar í borginni nýttum við, að sjálfsögðu, í að gramsa í gömlum bókum á Nytjamarkaði ABC við Víkurhvarf.

20180915_134519

Þá var komið að því að halda af stað upp á Þingvelli, en þangað hef ég ekki komið síðan fyrir 2000 held ég. Það gekk bara vel að finna planið þar sem við áttum að hittast, en þaðan fórum við inn á bílaplanið (P5) og lögðum bílnum. Gangan yfir á planið þar sem við hittum hópinn var aðeins um 5 mínútur, en á planinu voru sendiferðabílar frá hinum ýmsu fyrirtækjum sem bjóða upp á snorkl í Silfru. Við fundum strax okkar fólk, og hófst þá undirbúningurinn.

20180915_134845
Þingvellir eru virkilega fallegur staður.

Undirbúningurinn tók dágóða stund, en frá upphafi til enda tók þetta um 3 klst, og aðeins ca 40 mín af þeim tíma fór í snorklið. Fyrst fengum við kuldagalla, sem klæddir voru að innan með flís. Yfir þá fengum við þurrgalla, með áföstum skóm. Með þá komna hálfa leið upp settumst við niður og fengum stuttan fyrirlestur frá leiðsögumanninum Dimitris, sem sagði okkur stuttlega frá sögunni, jarðfræðinni og hvað bæri að varast. Að því loknu héldum við áfram að koma okkur í búninginn; koma höfðinu í gegnum hálsmálið sem er níðþröngt. Við fengum svo ólar um úlnliði og háls til að þrengja enn betur að og hindra að vatnið kæmist inn í gallann. Hettur, sundgleraugu, loftpípur, hanskar, froskalappir.

DCIM100GOPROGOPR8166.JPG
Aldrei verið kynþokkafyllri!

Hófst þá gangan að Silfru, þar sem við lögðumst til sunds. Þurrgallinn er bæði vatns- og loftheldur, svo hann virkar eins og flotholt – við vorum eins og blöðrur í vatni og gátum ekki sokkið. Það er léttur straumur í Silfru, þannig maður þarf ekki einu sinni að synda, maður bara flýtur með straumnum.

DCIM100GOPROGOPR8217.JPG
Dásamleg tilfinning, og dásamlegur staður!

Vatnið í Silfru er um 2° heitt – eða kalt, ölluheldur. Þetta er vatn sem kemur frá Langjökli, og ferðast um 50 ár í gegnum hraunið áður en það kemur upp í Silfru. Ótrúlegt en satt finnur maður samt varla fyrir kulda. Varirnar eru kaldar, þar sem þær eru óvarðar, og ef maður hreyfir hendurnar of mikið kemst kalt vatn inn í hanskana, en það var nú samt ekki verra en að keyra bíl um vetur þegar þú gleymir hönskunum… Hinsvegar voru Bandaríkjamennirnir alveg að frjósa, og forðuðu sér uppúr hið fyrsta!

DCIM100GOPROGOPR8251.JPG

Það er talað um að vatnið í Silfru sé tærasta vatn í heimi, en þegar þú snorklar sérðu til botns á 22 metra dýpi. Landslagið neðanvatns er stórkostlegt, og upplifunin í heild! Það var svo slakandi að liggja bara í vatninu, horfa niður og fljóta áfram. Maður heyrir ekki neitt í vatninu, þannig áreitið er lítið sem ekki neitt (sem móður þykir mér þetta sérlegur kostur!). Í rauninni bara liggja, fljóta og njóta! Og ofan á allt þá var leiðsögumaðurinn með GoPro og myndaði helling neðanvatns fyrir okkur – og myndirnar fær maður sér að kostnaðarlausu!

Í lokin fengum við heitt kakó áður en við lögðum af stað heim aftur.

Í lokin langar mig að hrósa Tröll Expeditions fyrir þetta tilboð, og þakka kærlega fyrir mig. Leiðsögumaðurinn okkar var alveg frábær, hafði greinilega mikla reynslu af köfun og snorkli og var virkilega vandvirkur og flottur. Og það var sko ekki leiðinlegt að horfa á þetta gríska goð! Ég veit ekki hve lengi þeir bjóða upp á þetta, en hér eru allar upplýsingar um þetta góða boð.

DCIM100GOPROGOPR8161.JPG
Hópurinn og leiðsögumaðurinn.

Ég get ekki hrósað þessu nóg, fyrirtækinu, boðinu og upplifuninni! Ég vildi bara að ég gæti líka farið í jöklagönguna með þeim!

20180915_195232
Á heimleið á Holtavörðuheiði.
Lífið

Bucket list – hvað langar mig að gera áður en ég dey?

Tíminn sem okkur er skammtaður er takmarkaður, þótt maður geri sér ekki almennilega grein fyrir því. Við verðum ekki hérna að eilífu, og verðum að gera það mesta úr því sem við höfum. Samkvæmt Hagstofunni var meðalævilengd karla á Íslandi árið 2014 80,6 ár og kvenna 83,6 ár.

20161119_102916
Central Park, New York 2016

Ég er 32 ára. Ef við drögum 5 ár af meðal lífslíkum vegna offitu; þá má ég gera ráð fyrir að verða 78,5 ára. Þá eru bara 46,6 ár eftir (eða 17.006 dagar) – styttist í að ég verði hálfnuð. Hvað langar mig að gera áður en ég dey? (Ég geri mér alveg grein fyrir að ég gæti dáið á morgun eða ég gæti orðið 100 ára, en með því að miða við meðaltöl getur maður sett þetta í eitthvert samhengi)

IMG_1785
Taj Mahal, Agra 2012

Þannig ég fór að skoða annarra manna „Bucket list“ á Google og Pinterest, skrifaði niður hvað mig langar að gera og spurði nokkrar vinkonur. Og eftir töluverða yfirlegu telur listinn 110 atriði, sem ég skipti niður í fjóra flokka. Vonandi mun listinn svo lengjast seinna meir. Og það er vert að nefna að röð atriða skiptir engu máli um mikilvægi þeirra.

Tyrkland 028
Pamukkale, Tyrkland 2005

Ferðalög:

 1. Sjá Macchu Picchu (Inkar)
 2. Sjá Chichen Itza (Mayar)
 3. Sjá Miklagljúfur (Grand Canyon)
 4. Ganga um Las Vegas Strip
 5. Sjá Hvíta húsið
 6. Skoða Akrópólis
 7. Sjá Sagrada Familia
 8. Heimsækja Vetrarhöllina
 9. Sjá pýramídana og Sphinxinn
 10. Sjá hringleikahúsið í Róm
 11. Heimsækja Vatíkanið

  San Fran 2006 069
  Golden Gate, San Francisco 2006.
 12. Ganga á Kínamúrnum
 13. Fara til Vín
 14. Fara til Marrakesh
 15. Fara til Möltu
 16. Fara til Mexíkó
 17. Fara til Ítalíu
 18. Fara til Króatíu
 19. Fara til Slóveníu
 20. Fara til Grikklands
 21. Fara til Costa Rika
 22. Fara til Tælands
 23. Fara til Kína
 24. Fara til St. Pétursborgar
 25. Fara til Jerúsalem
 26. Fara til Istanbúl
 27. Fara til Sri Lanka
 28. Fara til Petra í Jórdaníu
 29. Fara í London Eye
 30. Vera á hóteli með öllu inniföldu
 31. Heimsækja Prince Edward Island (Anna í Grænuhlíð)
 32. Fara til Atlanta á slóðir á Hverfanda hveli
 33. Fara í ferð sem snýst um sjálfsrækt
 34. Sjá hin nýju sjö undur veraldar (Kínamúrinn, Kristsstyttan í Rio, Macchu Picchu, Chichen Itza, Colosseum í Róm, Taj Mahal og Petra í Jórdaníu)
 35. Heimsækja 30 lönd fyrir fimmtugt (Bara 12 búin – 17 ef ég má telja hvert ríki í Bandaríkjunum sem „land“)
 36. Sigla á gondól í Feneyjum

  IMG_1292
  Lótushofið, Nýja Dehlí 2012.
 37. Sjá hrísgrjónaakra
 38. Fara á fljótandi markað
 39. Baða mig í dauðahafinu
 40. Heimsækja útrýmingarbúðir
 41. Stelpufrí
 42. Fara á slóðir Vestur-Íslendinga
 43. Sjá Niagara fossana
 44. Fara í siglingu á skemmtiferðaskipi
 45. Fara í ferðalag sem einhver annar skipulagði
 46. Eyða heilum degi (eða svo gott sem) á ströndinni
 47. Komast út úr Escape Room í 10 löndum (Pólland tékk, Ísland tékk, Skotland tékk, Þýskaland tékk, Ítalía tékk, Bandaríkin tékk, England tékk)
 48. Þvælast um slóðir Johns Steinbeck
Tyrkland 210
Köfun, Tyrkland 2005

Sport/adrenalín:

 1. Klifra upp í topp á klifurvegg
 2. Prófa kaðlaþrautabraut (Ropes Course)
 3. Prófa Kayak
 4. Fara í trampólíngarð
 5. Fara í Go Cart (Hef gert það, en langar aftur)
 6. Synda með höfrungum
 7. Fara í íshellinn í Langjökli (Into the Glacier)
 8. Prófa svifflug
 9. Prófa að leika sér á inflatable island
 10. Prófa tubing í á (semsagt ekki tilbúinni á)
 11. Synda með sækúm á Flórída
 12. Prófa SUP
 13. Fara á hundasleða
 14. Stökkva af kletti (hef prófað, en langar aftur)
 15. River Rafting (hef gert það, en langar aftur)
 16. Prófa að Zorba
 17. Zipline!
Tyrkland 073
Ephesus, Tyrkland 2005

Upplifun:

 1. Skjóta af byssu
 2. Fljúga í þyrlu

  IMG_1977
  Minnismerki Mahatma Ghandi, Nýja Delhi 2012
 3. Stökkva fullklædd í sundlaug
 4. Murder Mistery
 5. Vera í sjónvarpssal (erlendis)
 6. Stökkva í foam pit
 7. Prófa froðudiskó – já ég veit, full gömul í þetta!
 8. Fljúga í loftbelg
 9. Sjá sólarupprás og sólarlag
 10. Fara í sumarfrí í alla landsfjórðunga með fjölskyldunni
 11. Fara í alvöru lautarferð
 12. Renna sér á dekkjaslöngu í snjónum
 13. Vera dregin á dekkjaslöngu á Pollinum
 14. Vera farþegi í listflugi
 15. Fá mér kokteil á bar á efstu hæð háhýsis (Rooftop bar)
 16. Fara til Grímseyjar og standa á heimskautsbaugnum
 17. Mæta á ráðstefnu um ZeroWaste eða Green living
 18. Prófa vélsleða (keyra sjálf!)
 19. Sitja aftan á mótorhjóli
 20. Fara í útreiðatúr, helst með eldri dótturinni
 21. Fara á tónleika
 22. Djamma alla nóttina
20150411_123012
Trinity College Library, Dublin 2015

Persónulegt:

 1. Drekka ekkert nema vatn í mánuð
 2. Ferðast ein

  San Fran 2006 113
  Yosemite þjóðgarðurinn, Kalifornía 2006
 3. Mæta á Júbileringu (já, var fjarverandi í öll hin skiptin..)
 4. Skrifa bók (bloggið er skref í áttina, maður skrifar ekki texta sem er tækur til útgáfu nema æfa sig að skrifa fyrst.)
 5. Fara í myndatöku, bara ég. Ekki fjölskyldumyndataka.
 6. Eignast demantshring
 7. Hlaupa 5K (ekki að fara að gerast á morgun eða hinn…)
 8. Aftengjast í viku
 9. Prófa íbúðaskipti
 10. Ná kjörþyngd
 11. Láta einhvern annan velja bók fyrir sig að lesa
 12. Fara í boudoir myndatöku
 13. Borða engin sætindi í mánuð
 14. Klára að lesa 1.000 bækur (592 komnar…)
 15. Taka sjálfsmynd í hverri viku í ár
 16. Búa til lista yfir 100 bækur sem ég verð að lesa, og ljúka við hann.
 17. Klára kvartlaus áskorunina (armbandið komið…)
 18. Klára hrúguna af ólesnum bókum sem ég á (telur hátt í 700 titla – passar fínt með nr. 14)
 19. Þegja í heilan dag
 20. Fá mér húðflúr (já ég veit, ekki líkt mér)
 21. Koma á einhverskonar heimilisbókhaldi (já, I know – þetta er eitthvað sem ég sökka í!)
 22. Skipuleggja jarðarförina mína
 23. Kaupa enga bók í heilt ár (listinn verður að vera metnaðarfullur?)
IMG_1241
Hare Krishna hofið, Nýju Delhi 2012

Ég mun svo uppfæra listann hægt og rólega, eftir því sem hlutirnir gerast. En það er nú bara svo með bucket-lista að þeir klárast sjaldnast, en lengjast frekar. En með því að hafa lista yfir hluti sem þig langar til að upplifa ertu líklegri til að koma því í verk!

IMG_20161121_080345
Frelsisstyttan, New York 2016

Vissulega er margt fleira sem gæti verið á listanum, og þá sérstaklega í ferðalagaflokknum, en hinir þóttu mér örlítið erfiðari.

San Fran 2006 0992
Steiner Street, San Francisco 2006

Það er margt sem ég hefði haft á listanum ef ég hefði ekki nú þegar gert það; t.d. San Francisco og Golden Gate, New York, Pamukkale og Efesus, Tyrkneskt bað (Hammam), söngleikur á Broadway o.fl. o.fl. Sumt er líka á listanum þótt ég hafi gert það áður, t.d. rafting, köfun, stökkva af kletti, Go cart…

Tyrkland 00852
Í hefðbundnum tyrkneskum brúðarbúningi, Tyrkland 2005

Ég óska hér með eftir áhugasömum aðilum til að aðstoða mig við að „tékka“ atriði af listanum og vinum eða félögum sem langar að upplifa eitthvað af þessu með mér! 😀