Einn daginn, sem oft áður, var ég á leið heim úr vinnu. Ég kom að bílnum mínum þar sem hann stóð á fastleigustæði í miðbæ Akureyrar. Hlamma mér inn, legg töskuna frá mér í farþegasætið. Þegar ég lít upp er það fyrsta sem ég sé stöðumælasekt! Ég lít í hornið á rúðunni, og jú, þar liggur fastleigukortið sem heimilar mér að leggja í stæðið þar sem bíllinn stendur. Upphófust nú í huga mér allar hinar óforskömmuðustu formælingar sem ég gat upphugsað – ég tek það fram að ég er almennt mjög skapgóð og umburðarlynd, en ég hafði fyrr um daginn hlustað á ræðu um það hve mikil fornaldartröll og erkibjálfar stöðumælaverðir geta verið. Þarna – beint fyrir framan mig – var svo bara sönnun þess efnis! Fastleigukortið var í glugganum, ég vissi að það var ekki útrunnið og samt – SAMT – höfðu þeir sektað mig!
Ég stökk útur bílnum, alveg tilbúin í fæt. Ég ætlaði sko með þetta beint inn á bæjarskrifstofur að rífa kjaft – það gengi sko ekki að sekta fólk sem legði lögum samkvæmt í stæði sem það hafði heimild til! Reif upp símann, tók af þessu mynd, til að reka framan í grey óheppna bæjarstarfsmanninn sem yrði fyrir barðinu á mér. Myndin tókst bara með ágætum, bæði sást í stöðumælasektina og fastleigukortið.
Ég þreif í plastið sem sektirnar koma í, og stikaði ákveðnum, þungum skrefum að bílstjórasætinu. Það var samt eitthvað sem gekk ekki upp, ég fann það strax. Settist inn í bílinn alveg eins og sannkallað skass á svipinn (trúi ég, í það minnsta) og leit á það sem ég hélt á.
Í plastinu í höndum mér var engin stöðumælasekt, en á plastinu sjálfu stóð: „Mundu að fastleigukortið þitt rennur út í lok vikunnar.“
Ég hreinlega bráðnaði, skammaðist mín, fann hlýjan yl í maganum vegna vinsamlegheita náungans. Ó, hvað hann var indæll, að hafa gefið sér tíma til að skrifa mér svona orðsendingu – og þannig koma í veg fyrir að hann gæti sektað mig í komandi viku.
Náunginn er oft indælli en hann virðist og ekki er allt sem sýnist í fyrstu!