Lífið, Skriftir

Lína og stöðumælaverðirnir – gamansaga frá 2015

Einn daginn, sem oft áður, var ég á leið heim úr vinnu. Ég kom að bílnum mínum þar sem hann stóð á fastleigustæði í miðbæ Akureyrar. Hlamma mér inn, legg töskuna frá mér í farþegasætið. Þegar ég lít upp er það fyrsta sem ég sé stöðumælasekt! Ég lít í hornið á rúðunni, og jú, þar liggur fastleigukortið sem heimilar mér að leggja í stæðið þar sem bíllinn stendur. Upphófust nú í huga mér allar hinar óforskömmuðustu formælingar sem ég gat upphugsað – ég tek það fram að ég er almennt mjög skapgóð og umburðarlynd, en ég hafði fyrr um daginn hlustað á ræðu um það hve mikil fornaldartröll og erkibjálfar stöðumælaverðir geta verið. Þarna – beint fyrir framan mig – var svo bara sönnun þess efnis! Fastleigukortið var í glugganum, ég vissi að það var ekki útrunnið og samt – SAMT – höfðu þeir sektað mig!

Ég stökk útur bílnum, alveg tilbúin í fæt. Ég ætlaði sko með þetta beint inn á bæjarskrifstofur að rífa kjaft – það gengi sko ekki að sekta fólk sem legði lögum samkvæmt í stæði sem það hafði heimild til! Reif upp símann, tók af þessu mynd, til að reka framan í grey óheppna bæjarstarfsmanninn sem yrði fyrir barðinu á mér. Myndin tókst bara með ágætum, bæði sást í stöðumælasektina og fastleigukortið.

Ég þreif í plastið sem sektirnar koma í, og stikaði ákveðnum, þungum skrefum að bílstjórasætinu. Það var samt eitthvað sem gekk ekki upp, ég fann það strax. Settist inn í bílinn alveg eins og sannkallað skass á svipinn (trúi ég, í það minnsta) og leit á það sem ég hélt á.

Í plastinu í höndum mér var engin stöðumælasekt, en á plastinu sjálfu stóð: „Mundu að fastleigukortið þitt rennur út í lok vikunnar.“

Ég hreinlega bráðnaði, skammaðist mín, fann hlýjan yl í maganum vegna vinsamlegheita náungans. Ó, hvað hann var indæll, að hafa gefið sér tíma til að skrifa mér svona orðsendingu – og þannig koma í veg fyrir að hann gæti sektað mig í komandi viku.

Náunginn er oft indælli en hann virðist og ekki er allt sem sýnist í fyrstu!

Skriftir

11 Leiðir til að vera fyrirmyndar viðskiptavinur

Reglulega kemur upp umræðan um hve dónalegt fólk getur verið við fólk í þjónustustörfum, og sú umræða á fullan rétt á sér, því það eru ótrúlegustu hlutir sem fólk lætur út úr sér. Ég tók hér saman nokkra punkta sem tryggja það að þú verðir ekki saga í fjölskylduboðum næstu 20 árin, vegna þess hvað þú varst dónaleg/ur eða leiðinleg/ur við starfsfólk í þjónustustörfum.

 1. Starfsfólk verslana þolir ekki þegar vörur í hillunum eru ekki með strikamerki. Viltu gera svo vel, ef þú sérð vöru í hillunni með ekkert strikamerki, að velja það eintak. Starfsmaðurinn á kassanum verður líka svo glaður að fá að hlaupa inn í verslunina til að finna vörunúmer vörunnar, og losna frá kassanum í smá stund.
 2. Þegar afgreiðslustarfsfólk stimplar sig inn í vinnuna skilur það líka persónuleikann, tilfinningarnar og öll einstaklingseinkenni eftir í starfsmannaaðstöðunni. Það er því allt í lagi að hella sér yfir afgreiðslufólkið, það tekur það ekkert nærri sér eða sem persónulegri móðgun.
 3. Verðið á bensínlítranum / mjólkurfernunni / skóparinu er pottþétt bara samsæri gegn þér – afgreiðslufólkið ræður verðinu og er bara með þetta háa verð til að græða persónulega og til að skaprauna þér.
 4. Afgreiðslufólk er sáttast þegar þú talar ekki við það. Þegar það býður góðan daginn á það ekki von á svari, og þegar það segir „gjörðu svo vel“ eða „eigðu góðan dag“ þá er það bara að halda raddböndunum við, svo það þurfi síður að ræskja sig þegar það svo hittir loksins einhvern sem það nennir að tala við.
 5. …og að þakka því fyrir! Til hvers? Það fær borgað fyrir þetta, þetta er bara sjálfsagt mál!
 6. Starfsfólk í þjónustustörfum sem talar ekki fullkomlega rétta íslensku vill endilega heyra hvað þér finnst um það. Það eitt og sér að fá að heyra að þú skiljir það ekki eða að þér finnist asnalegt að það tali ekki íslensku, það mun hjálpa því í framtíðinni – því í hvert sinn sem einhver segir þetta við það þá bætast nefnilega nokkur ný orð í orðaforðann og málfræðin verður auðveldari.
 7. Ef að þú tekur þér vöru úr hillu verslunar, endilega skildu hana eftir annarsstaðar ef þú hættir við hana. Sérstaklega ef þú ert með kælivöru, mjólk eða álegg, skildu það eftir bara hjá hreinlætisvörunum. Það er aldrei nóg að gera í vinnunni hjá þessu fólki, og svona lagað kemur þessu unga fólki til að hreyfa sig.
 8. Og alls ekki nota hyrnurnar til að skilja vörurnar þínar frá annarra á færibandinu.
 9. Jafnvel þótt starfsfólk í þjónustustörfum fari út fyrir það sem það þarf nauðsynlega að gera og er uppálagt, gangi lengra í þjónustu sinni eða sé einstaklega kurteist og vingjarnlegt, þá er best fyrir þig að vera hryssingsleg/ur – við viljum ekki að þetta fólk haldi að það sé eitthvað.
 10. Ferðu stundum í sjoppu að fá þér pylsu? Þá skaltu nú vera með á hreinu í hvaða röð þú vilt sósurnar á pylsuna! Fyrst hráan, tómat og remú, í þessari röð – og tvöfalt sinnep ofan á!
 11. Ef þú álpast inn í fataverslun, þá skaltu nú vera alveg viss um að það heyrist í þér þegar þú lætur vita af því hve dýrt þér þykir þetta allt vera, og hve ljótt og tilgangslaust. Svo ekki sé nú minnst á stærðirnar sem boðið er upp á. Það er nefnilega afgreiðslufólkið á gólfinu sem ræður hvað er keypt inn, verðinu og þeim stærðum sem flíkin er framleidd í.

Ef þú ferð eftir ofangreindum ráðleggingum geturðu verið viss um að hvert sem þú ferð til að versla, að þér verður tekið eins og grískum guði!

Skriftir

11 skotheldar leiðir til að eignast nýja vini á fullorðinsárum

Maður sér reglulega umræðu um það hve erfitt geti verið að eignast nýja vini á fullorðinsárum, þannig ég ákvað að taka saman nokkrar skotheldar og margprófaðar leiðir, sem hafa reynst mér vel í gegnum árin:

 1. Farðu á kaffihús þar sem er nóg að gera, og ekkert borð laust. Kauptu þér drykk í bolla, alls ekki til að fara með. Spurðu hvort þú megir setjast við eitt borðið þar sem fólk situr, þar sem það séu engin sæti laus. Byrjaðu að tala. Tada – kominn fyrsti vinurinn.
 2. Farðu í fataverslun og bjóddu fólki ókeypis ráð. Fólk vill ekki skrum og innantómt hrós, það vill hreinskilni; segðu því ef þér finnst klúturinn ekki fara því, eða skórnir ljótir. Tala nú ekki um ef gallabuxurnar eru of þröngar, eða vömbin slapir í kjólnum. Þannig eignastu sanna vini.
 3. Farðu í Bónus og stattu við kælinn þar sem kjúklingurinn er, passaðu þig að standa ekki grunsamlega heldur eins og þú sért að skoða kjúklinginn til að finna rétta bakkann. Gott er að líta af og til upp og ganga áfram, en koma svo bara aftur. Áður en líður á löngu kemur einhver til að grípa sér kjúlla, þá skaltu andvarpa og spyrja hvað viðkomandi ætli að elda úr þessu, þú vitir ekkert hvað þú eigir að elda. Ef það kemur á viðkomandi, skaltu bara kasta fram einhverju eins og: bringur með pestó? Reynslan hefur sýnt mér að viðkomandi mun segja annað hvort já eða nei, og ef það kemur nei, þá fylgir oftast á eftir hvað viðkomandi ætlar að gera. Þá geturðu gripið tækifærið og annað hvort spurt hvort þú megir ekki bara kíkja í mat, eða að þú gerir nú svo gríðargóðan svona-og-svona rétt, hvort það megi ekki bara bjóða honum/henni til þín í kvöld?
 4. Áttu börn? farðu með þau á leikvöllinn og segðu þeim að hrinda öðrum krakka. Þá stekkurðu til og hjálpar barninu, en á sama tíma kemur væntanlega foreldri þess. Þá byrjarðu á því að biðjast margfaldlega afsökunar á barninu þínu sem verður svo óviðráðanlegt þegar það sefur lítið, þá ertu búin að opna fyrir að segja þeim alla ævisöguna og þið eruð orðnir mestu mátar áður en þú veist af.
 5. Er mamma þín á elliheimilinu? Keyptu tvo miða í leikhús. Gríptu eina af starfsstúlkunum sem sér um hana blessaða móður þína og þakkaðu henni fyrir bljúgt hjarta hennar og hve göfug hún sé að fórna lífi sínu til að sjá um aldraða. Í þakkarskyni langi þig að gefa henni hérna miða í leikhús. Þegar hún þakkar þér fyrir, gerirðu henni grein fyrir að þú átt annan þeirra, og að þú verðir deitið hennar fyrir kvöldið. Þetta getur bara ekki klikkað!
 6. Fáðu þér hund. Það er aðgöngumiði að hundasvæðum. Á hundasvæðum er tilvalið að gefa sig á tal við aðra hundaeigendur, en mundu bara að segja nógu oft hvað þú elskar hundinn þinn, að það hafi ekki verið neitt líf fyrir hundinn og þú gætir ekki án hans verið. Gott að skella inn einni sögu um hvað þér leið illa þegar hundurinn veiktist eða eitthvað álíka. Bara eitthvað nógu dramatískt til að koma tárunum út á fólki.
 7. Gerðu þér upp verki í brjóstkassa eða kviðarholi, og linntu ekki látum fyrr en þú verður lagður inn. (Eða hvern þann krankleika sem þér dettur í hug, en passaðu þig að hafa hann bara nógu alvarlegan!) Þegar það er búið að leggja þig inn eru miklar líkur á því að það verði fleiri en bara þú á stofunni; þar er fólk sem kemst lítið sem ekki neitt og þið getið orðið perluvinir!
 8. Gefðu þig á tal við Vottana og Mormónana. Bjóddu þeim í mat þegar þeir banka uppá, þú getur eflaust haldið þeim eins lengi og þú hefur löngun til, og þeir koma alltaf aftur og aftur og aftur…
 9. Farðu í sund, gefðu konum góð ráð hvernig losna megi við ör og appelsínuhúð, hvernig stinna megi brjóst og maga – og hvað annað sem fyrir augu ber. Þær munu vera þér þakklátar!
 10. Rúntaðu um bæinn. Í hvert skipti sem þú sérð kött fara yfir götuna skaltu gefa í og reyna að ná honum. Gættu þess bara að hann sé merktur, svo þú getir fundið hvar hann á heima. Þegar þú hefur slasað hann eða drepið, skaltu halda heim til eigandans, bera þig mjög aumlega og hugga svo viðkomandi. Ef þú kemur þér inn úr dyrunum ertu á grænni grein!
 11. Oft þegar líða fer á kvöldin gerist æði rólegt í verslunum og á bensínstöðvum. Þú skalt gerast fastagestur, og með tíð og tíma geturðu stoppað lengur og lengur, þar til þú ert orðinn vel málkunnugur starfsfólkinu, og búinn að eignast vini á hverri vakt!

Öll þessi ráð hafa gefist mér vel, en ég er alltaf til í fleiri. Það gengur misvel að eignast vini, og því miður þarf maður stundum að losa sig við þá á einn eða annan hátt – kannski vegna þess að þeir fundu beinin í kjallaranum, eða kjötið í frystinum. En það sparar bara útgjöld vegna fæðis!

 

Lífið, Skriftir

Lína og sóðakjafturinn – Gamansaga frá 2015

Einn dag var ég inni í eldhúsinu að sýsla, bara eins og gengur og gerist hjá húsmæðrum almennt (forðist að draga af því ályktanir um hæfni mína sem húsmóður). Ég var nýbúin að tína úr uppþvottavélinni og var að raða í hana aftur, þegar ég heyri innan úr herbergi dóttur minnar yngri hinn hroðalegasta munnsöfnuð og formælingar, en hún var þar að leik.

Ég er í eðli mínu siðprúð kona, vönd að virðingu minni. Ég stóð í þeirri trú að okkur hefði tekist alveg sæmilega upp með uppeldi dætranna hingað til, þær virðast a.m.k. kurteisar og ágætlega upp aldar út á við.

Þið sjáið örugglega fyrir ykkur líkamstjáningu mína – ég stóð bogin yfir uppþvottavélinni þegar þetta berst mér til eyrna. Ég stífna upp, það réttist svo úr bakinu að það verður óeðlilega beint, augun kiprast saman svo aðeins sér út um litlar illskulegar rifur á augnlokunum, varirnar verða þunnar og litlausar þegar ég bít saman kjálkunum og pressa þær saman. Ekki ósvipað og ímynda mér Violet Crowley í Downton Abbey ef hún yrði hressilega móðguð.

Og þá heyrast formælingarnar aftur, en af munni yngri dótturinnar hljóma greinilega orðin „Dick Fuck!“ – Yngri dóttir mín er fjögurra ára, og ég skil ekki hvaðan hún hefur þennan munnsöfnuð.

Violet

Ég stikaði ákveðnum skrefum að herbergi hennar, og geri henni ljóst að svona munnsöfnuð skuli ekki viðhafa undir nokkrum kringumstæðum, og maður eigi yfir höfuð ekki að láta falla af vörum sínum orð sem maður skilur ekki. Dóttirin játar því, og heldur leiknum áfram.

Nokkrum dögum síðar er dóttirin að leika sér í spjaldtölvunni sinni og þá heyrast frá henni sömu orðin aftur – ég stekk til, hvað í ósköpunum er viðkvæm sálin að skoða í spjaldtölvunni? Þarna var þó komin eðlileg útskýring á munnsöfnuðinum, hún hlyti nú að hafa rekist á eitthvað á YouTube sem væri ekki við hennar hæfi.

Ekki var það þó svo, að stúlkukindin væri að horfa á YouTube eða nokkuð annað myndskeið. Hún var einfaldlega að opna litabókarleik, en meðan hann hleður sig hljómaði í eyrum barnsins heiti framleiðandans; Pink Fong.

Pink fong