Afþreying

Hvað eru flóttaleikir og punktar fyrir óreynda flóttaleikjaspilara

Hvað eru flóttaleikir?

Flóttaleikir (einnig kallaðir flóttaherbergi) eru leikir sem byggjast á þeirri grunnhugmynd að spilararnir eru lokaðir inni og verða að leysa ýmsar þrautir til að komast út áður en tíminn rennur út. Oftast er miðað við 60 mínútur, en ég hef spilað eitt 90 mínútna herbergi og svo hef ég heyrt að það séu til einhver tveggja tíma, og einnig 30 og 45 mínútna. Eftir að hópurinn hefur verið lokaður inni, þá er leiknum lokið ef dyrnar eru opnaðar – það þýðir ekkert að þurfa að fara á klósettið, eða fá sér að drekka.

Sumir leikjanna eru bara eitt herbergi, en oftar eru þó fleiri herbergi – þannig að þegar hópurinn kemst áfram í leiknum opnast nýtt herbergi. Það er alltaf einhver forsaga að því að hópurinn læsist inni í herberginu, og herbergið er innréttað í ákveðnu þema. Vinsæl þemu eru t.d. geðveikrahæli, vísindastofur, galdramenn, fjöldamorðingar, nornir og draugar svo eitthvað sé nefnt.

the_room2-1040x600
Mynd fengin að láni hjá http://www.twobearslife.com

Vistarverurnar eru vel vaktaðar með öryggismyndavélum og hljóðnemum, en svonefndur leikstjóri (Game master) fylgist með þeim sem eru að spila á tölvuskjá og hlustar í heyrnartólum. Þar getur hann séð hvernig leiknum miðar, gefið vísbendingar og látið vita ef fólk er á algjörum villigötum. Það er þó misjafnt hvernig leikstjórinn hefur samband við spilarana, en við höfum reynt þrjár mismunandi aðferðir:

  1. Talstöð; þá talar leikstjórinn við spilarana gegnum talstöðina, og spilararnir geta óskað eftir vísbendingum með sama hætti.
  2. Spjaldtölva; við fengum þá spjaldtölvu meðferðis, en vorum ekki með beint samband við leikstjórann, heldur gátum við sótt okkur vísbendingar í appið. Þetta þykir mér langsísta útfærslan.
  3. Skjár; þá er skjár á veggnum þar sem tíminn telur niður, og sérstakt hljóð spilast ef vísbending birtist á skjánum. Í þessari útfærslu er oftast nóg að biðja bara um vísbendingu eða vinka í eina af myndavélunum. Þetta er uppáhalds útfærslan mín.

Þrautirnar sem leysa þarf eru mismunandi, en oft má finna a.m.k. einn lás, hvort sem hann er talnalás eða hengilás. Þegar lásinn hefur svo verið opnaður má finna einhverjar frekari vísbendingar til að leysa næstu þrautir.

ENIAA_1
Mynd fengin að láni hjá http://www.redletterdays.co.uk

Þrautirnar geta verið frá því að raða saman púsli, setja hluti á réttan stað, hringja í rétt símanúmer, þrýsta á takka í réttri röð o.s.frv., en það er mjög misjafnt hve mikil tækni er notuð. Stundum byggjast herbergin nær alveg upp á einföldum lásum, þar sem þarf að raða saman talnarunu til að geta opnað, en stundum spila flóknari lásar og jafnvel tækni stærra hlutverk. Það þarf stundum að vigta rétta hluti til að opna lása, þylja þulur, snerta ákveðna takka á sama tíma, nota UV-ljós, staðsetja hluti á rétta staði o.s.frv,

Margir fylltust óhug í janúar þegar fréttir bárust frá Póllandi um stelpnahóp sem var að halda upp á afmæli einnar þeirra með því að fara í flóttaherbergi, en það kviknaði í og þær létust allar. Þetta var hræðilegt í alla staði og gersamlega ófyrirgefanlegt að ekki skyldi hafa verið hugsað fyrir því að fólk gæti komið sér út sjálft. Það kom fram við rannsókn að leikstjórinn hafði nú kannski ekki sinnt sínu hlutverki nógu vel – talið er að hann hafi skroppið frá og ekki verið að fylgjast með. Eldurinn var rakinn til lélegs frágangs á rafmagni, og vöntun á öryggisráðstöfunum hafði þetta í för með sér. Af þessu hlaust líka að reglur voru mjög hertar í Póllandi, og eigendur skikkaðir til að gæta að öryggisatriðum.

Hins vegar; þá eru flestir með sín mál í lagi. Stundum er dyrunum ekki læst, í öðrum tilvikum hangir lykillinn á snaga við hurðina. Á sumum stöðum opnast læsingin ef viðvörunarkerfi fer í gang. Ég mæli samt með að vera alltaf viss um að þú hafir undankomuleið, ef eitthvað kemur fyrir.

nt-4
Mynd fengin að láni hjá http://www.nmescaperoom.com

Oftast er tímatöku vel gætt, en sum fyrirtæki leggja minna upp úr því. Þegar herbergin eru með skjá þar sem vísbendingar birtast, þá er tíminn alltaf sjáanlegur. Ef samskiptin fara fram í gegnum talstöð, þá er ekki hægt að fylgjast með tímanum nema klukka sé í herberginu. Ég verð fljótt tímavillt, og finnst þetta því mjög óþægilegt.

Um allan heim má finna fólk sem eru forfallnir spilarar, fólk sem hefur spilað tugi og hundruð leikja. Ég hef séð dæmi um fólk sem ferðast borga á milli til að spila flóttaleiki, og er að taka kannski 25-35 herbergi á 3-4 dögum. Það eru margir hópar á Facebook fyrir forfallna flóttaherbergjaspilara, þar sem allt milli himins og jarðar (sem tengist leiknum) er rætt!

Það eru til ýmis afbrigði af upprunalega leiknum. Það má t.d. finna herbergi þar sem eru leikarar – þ.e.a.s. hópurinn er ekki einn í herberginu. Það má líka finna viðburði, eins og t.d. í Hollandi, þar sem heilar byggingar eru lagðar undir svona leiki og kannski 300 manns að spila í einu. Sá einn viðburð um daginn þar sem 300 manns voru að keppast að því að losna úr fangelsi, og höfðu eina 3 tíma til þess.

c_450x299__escape-room-puzzles
Mynd fengin að láni hjá http://www.escapehour.ca/

Hvað þarf að hafa í huga til að verða góður flóttaherbergisspilari?

Þegar hópurinn mætir á staðinn tekur leikstjóri á móti honum Þeir fara yfir reglurnar með ykkur og svo forsöguna að herberginu. Á sumum stöðum skrifar maður undir eyðublað, að maður þekki áhættuna o.s.frv., en ég held ég hafi hingað til bara gert það í Þýskalandi og öðrum staðnum á Ítalíu.

Það þarf að hafa margt í huga þegar að leiknum sjálfum kemur. Ég ætla að reyna að snerta á því mikilvægasta;

Tjáðu þig!
Það skiptir höfuðmáli að tjá sig. Segið frá því sem þið sjáið og finnið. Það taka ekki allir eftir sömu hlutunum og sumir tengja saman það sem aðrir sjá ekki.
Talið hátt og skýrt, og gætið þess að liðsfélagar ykkar séu meðvitaðir um það sem þið eruð að gera, en fylgist sömuleiðis með því sem hinir eru að gera. Það er því best að venja sig á að einn tali í einu, ekki grípa fram í.
Með því að tala saman getur leikstjórinn líka fylgst betur með og gefið betri vísbendingar.

SAW_escape_room_by_krystal_ramirez_51_WEB
Mynd fengin að láni hjá http://www.vegasseven.com

Þið eruð lið!
Þið eruð lið með sameiginlegt markmið; að leysa þrautirnar og komast út. Þetta er ekki einstaklingskeppni, þannig þið græðið ekkert á að halda upplýsingum frá liðsfélögunum.
Við höfum öll mismunandi styrkleika og veikleika, það sem einn fattar ekki getur legið ljóst fyrir næsta manni. Því er mjög gott að ef þú finnur ekki lausn á ákveðinni gátu eða þraut að láta liðsfélaga prófa. Betur sjá augu en auga – og fólk hefur mismunandi sýn á hlutina.
Segið frá öllu sem þið sjáið og því sem ykkur dettur í hug, ekki afskrifa það þótt það sé asnalegt eða ólíklegt. Ekki allt er eitthvað, en allt gæti verið eitthvað.
Liðið virkar oft betur þegar það er óhrætt við að tjá sig og kasta hugmyndum á milli. Þannig kvikna líka nýjar hugmyndir og finnast jafnvel lausnir.
Setningin „ég er búin að þessu!“ á ekki við í þessum leik – kannski sástu ekki vísbendingu sem er nauðsynleg til lausnar á þraut.

Ekki nota afl!
Í kynningu á leiknum kemur alltaf fram að það þarf ekki að nota afl eða krafta. Það sem tilheyrir leiknum er undantekningarlaust haft þannig að allir spilarar geti náð til þess, fært það eða hvað sem þarf að gera. Fyrsta reglan er því að brjóta ekki neitt eða skemma, ef það er naglfast þarftu ekki að hreyfa það leiksins vegna.
Ykkur er oftast sagt fyrirfram hvað má ekki snerta, og það sem ekki skal snerta, eins og rafmagnsleiðslur og annað er merkt með límbandi eða límmiðum eða álíka. Hinsvegar skuluð þið ekki vera hrædd við að snerta allt sem ekki er merkt að ekki skuli snerta!

hero-home
Mynd fengin að láni hjá http://www.thesecretchambers.com

Fyrstu mínúturnar
Fyrstu mínúturnar í leiknum eru mjög mikilvægar. Skoðið allt, leitið og safnið saman á einn stað öllu sem þið finnið og gæti nýst seinna meir. Leitið eins nákvæmlega og hægt er, prófið að opna alla skápa og rými. Kannið, skoðið og rannsakið. Stafir, tákn, myndir, tölur – segið frá, og sýnið gjarnan öðrum liðsfélögum.
Horfið í kringum ykkur, allt í herberginu er þarna af ástæðu – stundum bara til að afvegaleiða eða skapa stemmningu, en allt hefur tilgang.

Skoðaðu lásana!
Á fyrstu mínútunum verður maður líka að gera sér grein fyrir hvernig lásar eru á svæðinu til að vita hvað vantar. Lásar geta verið með 3, 4 eða 5 talna runum, bókstöfum, örvum, lyklum (hvernig lykill?), en þú finnur ekki rununa eða orðið ef þú veist ekki að þú ert að leita að því.
Þegar kemur að talna- og stafalásum þá á að prófa allt! Ekki horfa framhjá samsetningu afþví „það er örugglega ekki svona“ eða „nei, það er svo ólíklegt“ – það tekur nokkrar sekúndur að slá tölu inn í lás, svo þið tapið engu á því.
Sumir lásar læsast í einhvern tíma, og þá er best að forgangsraða og nota fyrst það sem er líklegast – það má þá snúa sér að einhverju öðru þar til hægt er að prófa lásinn aftur. Það er líka mikilvægt að fylgjast vel með því sem leikstjórinn segir til að vita af því ef slíkir lásar eru í herberginu.

Blog-detail-2
Mynd fengin að láni hjá http://www.clockwiseescape.com

Eftir því sem leiknum vindur fram
Eins og ég sagði þá er gott að safna saman öllum hlutum sem þið finnið á einn stað svo þeir séu allir til taks og auðvelt að skoða þá alla í einu. Þegar þið hafið notað hlut setjið hann þá á annan stað svo notaðir hlutir trufli ekki einbeitinguna.
„Afhverju“ er sterkasta vopnið þitt; spurðu þig afhverju og svo aftur. Afhverju er þetta svona? Afhverju er ljós hér? Afhverju erum við með band hér? Afhverju heyrðist þetta hljóð?
Það er góð regla að þegar maður nær að opna eitthvað skoði fleiri en einn það sem finnst og rýmið sem opnaðist, svo þið missið ekki af einhverju. Sömuleiðis ef þið festist, þá skalt þú skoða eitthvað sem liðsfélagi þinn skoðaði áðan og öfugt.
Ekki eyða of miklum tíma í eitthvað eitt. Snúið ykkur að öðru og skoðið verkefnið aftur síðar – eða skiptið við liðsfélaga.

DSC_0789
Mynd fengin að láni hjá http://www.ikatbag.com

Vísbendingar
Það er misjafnt hvernig tekið er á vísbendingum. Stundum dregst smá tími frá fyrir hverja vísbendingu. Stundum eru fyrstu þrjár „gjaldfrjálsar“. En það hafa ekki verið neinar refsingar á þeim stöðum sem við höfum spilað, og því eru bara gefnar vísbendingar þegar þarf og beðið um vísbendingar þegar þarf.
Þegar leikstjórinn gefur vísbendingu þá skuluð til veita henni athygli. Stundum eru þær óskýrar, og jafnvel fattar maður ekki hvað leikstjórinn er að meina. En þá þarf bara að lesa í hana – og ekki undir neinum kringumstæðum hunsa hana.
Ef þið festist, þá skuluð þið byrja á því að skoða hlutina sem þið eruð með og hvað þið eigið eftir að opna eða leysa. Eins og ég sagði áðan er það góð regla að leggja hluti sem búið er að nota til hliðar, þar sem oftast eru hlutir bara notaðir einu sinni. (Við höfum það fyrir venju að spyrja ef það kemur ekki fram í kynningunni.)
En ef þið eruð enn föst, biðjið þá um vísbendingu. Það er ekkert að því að biðja um vísbendingu – þetta er ekki gáfnapróf, þetta er afþreying og á að vera gaman!
Hafið það líka í huga að þið gætuð þurft að nota vísbendingar snemma í leiknum, bara til að koma honum af stað.

screenshot2
Mynd fengin að láni hjá http://www.escaperoommaster.com

Þrautir og gátur
Oft liggur ekki í augum uppi hvað á að gera eða hvernig á að gera það. Þessvegna er um að gera að hafa hugfast að engar hugmyndir eru vitlausar, og prófa allt.
Ef ykkur finnst þrautin ekki auðskiljanleg, þá getur verið gott að horfa á hana frá öðru sjónarhorni. Orð eru margræð, sem dæmi getur orðið loft þýtt andrúmsloft, háaloft eða loft í herbergi. Geta orðin þýtt annað en það sem þú hugsar fyrst?

Mundu svo bara að;
Það er rosalega gaman að ná að leysa herbergið á góðum tíma, en tíminn er ekki allt. Þetta er afþreying, þetta er skemmtun. Njótið þess sem þið eruð að gera og hafið gaman af því!
Ef þið finnið leiðbeiningar, þá skuluð þið lesa þær vel. Allur texti í herberginu er þarna af ásetningi, og á að segja ykkur eitthvað.
Það er gott að vera í vasalausum fatnaði, eða a.m.k. láta eins og þið séuð ekki með vasa meðan þið eruð í leiknum – það er mjög bagalegt ef maður stingur hlut í vasann og gleymir honum þar! Þetta gildir líka um að halda á hlutum. Hlutir sem þið finnið verða að vera sýnilegir og á sama stað svo hægt sé að lesa eitthvað úr þeim!
Þegar tíminn er farinn að styttast og fjör að færast í leikinn verður erfiðara að halda ró sinni; en ekki missa tökin, þá er erfiðara að komast að rökréttri niðurstöðu og erfiðara að setja réttar tölur í talnalásinn!

c_450x299__top11-puzzles
Mynd fengin að láni hjá http://www.escapehour.ca

Mundu svo bara, þetta er ekki gáfnapróf, þetta er skemmtun.