Ferðalög

Vinkonuferð til London – fyrri hluti

Einn morgun í vor var ég að rumska til að mæta í vinnu, þegar ég fékk skilaboð á messenger frá bestu vinkonu minni þar sem mikið óð á henni, þar sem hún hafði frétt það að Britney Spears væri á Evróputúr, en hana hefur alltaf dreymt um að sjá Britney á sviði.

Við bókuðum okkur nánast umsvifalaust til London, og keyptum okkur miða á tónleikana. Biðin var löng, þrátt fyrir að hún væri í dögum talið styttri en oft áður þegar ég og utanlandsferðir eigum í hlut.

20180826_154118

Og loksins kom að því!

Þar sem við vorum bara tvær á ferðinni, þá útveguðum við okkur far til Reykjavíkur, og þaðan þurftum við svo að koma okkur til Keflavíkur. Við vorum svo seint á ferðinni að við vorum ekki vissar um að ná síðustu flugrútunni, þannig þá var fátt um fína drætti og við mútuðum elskulegum ættingja með súkkulaði til að skutla okkur á Keflavík. Muna – greiða skuldir sínar!

20180825_105709

Að sjálfsögðu gistum við á Keflavík Bed and Breakfast, en við vorum komnar til Keflavíkur um 21.00 um kvöldið og áttum flug um 7.45 um morguninn. Því fylgir að „ræs and shæn“ var um 4 og við vorum gríðarferskar.

20180825_120206
Tower Bridge

Meðan við stóðum í röðinni til að ganga um borð glumdi sífellt í hátölurum flugstöðvarinnar tilkynningar um að þessir og hinir ættu að drífa sig í þessar og hinar vélar því þær væru klárar til brottfarar. Inn á milli var svo bent á að það væru fleiri en ein vél að fara á hvern áfangastað, svo fólk var vinsamlega beðið um að athuga vel flugnúmer – að ganga úr skugga að flugnúmerið á flugmiðanum stemmdi við flugnúmerið við hliðið.

20180824_224837
The Greene Man, hverfispöbbinn.

Fyrir framan okkur í röðinni voru tveir strákar. Annar þeirra stökk til þegar upp var lesin tilkynning um að hann ætti að gefa sig fram við upplýsingaborð. Hinn var svo sendur burt úr röðinni þegar upp komst að hann var ekki í réttri röð!

20180825_092342
Melia White House – Hótelið okkar.

Þessi ferð var önnur ferðin okkar beggja til London, en síðast vorum við 16 ára, svo það má nánast segja að við höfum ekki komið þangað áður.

20180825_101542
Lögbundna sjálfan við Buckingham höll.

Við lentum á Gatwick flugvelli og tókum Gatwick Express lestina inn í borgina, en hún endar á Victoria Station lestarstöðinni. Þar keyptum við okkur kort í neðanjarðarlestakerfið, sem heitir Oyster. Kortið virkar þannig að maður kaupir á það inneign, og notar það svo bara sem snertilaust kort. Ótrúlega einfalt og sniðugt!

Við höfðum mikið heyrt um að neðanjarðarlestakerfið í London væri mjög einfalt og auðskiljanlegt, en hafandi ekki mikið notast við lestasamgöngur vorum við örlítið uggandi. Það kom þó í ljós, eins og okkur hafði verið sagt, að kerfið var mjög einfalt og aðeins eftir að nota það tvisvar var maður kominn upp á lag með þetta og gat þvælst út um allt.

Ég átti tíma í myndatöku seinna sama dag, en mig vantaði einhverja skó fyrir myndatökuna, svo eftir að skrá sig inn á hótelið þutum við í Primark, keyptum skó og svo fór ég í förðun og hár hjá Blow ltd. sem er staðsett í Debenhams á Oxford street. Ég borgaði um 7.700 kr. fyrir fulla förðun með augnhárum, hárþvott, blástur og greiðslu, gekk mjög sátt út. Ég bókaði tímann bara á heimasíðu stofunnar, eins einfalt og það verður.

20180825_151440

Hinsvegar – þá ætlaði ég ekki niður í neðanjarðarlestakerfið fyrir myndatökuna, því förðunin hefði öll lekið af í hitanum þar. Þá þótti mér vera kominn tími til að prófa Uber – já ég viðurkenni það, ég er ekki nýjungagjörn og hef aldrei notað Uber áður. Það hinsvegar reyndist líka vera hið sniðugasta tól, eins og sennilega flestir vita!

20180825_111306
Alveg held ég að þetta sé draumadjobbið.

Ég fór upp á hótelið aftur og skipti um föt, og svo hitti ég ljósmyndarann við hótelið. Hann var hinn viðkunnanlegasti maður og ég er í skýjunum með myndatökuna og myndirnar sjálfar. Ég setti inn sér færslu um myndatökuna hér, en hér kemur sýnishorn:

 

Um kvöldið skelltum við okkur á Pizza Hut, en þeir voru með frjálsan aðgang að gosdælunum fyrir eitt verð. Hinsvegar; þá var aðeins hægt að fá sykurskerta gosdrykki á dælu hjá þeim, þar sem sykurskatturinn í Bretlandi er svo hár. Það þótti mér áhugavert.

DreamTrips er ferðaklúbbur sem virkar þannig að maður borgar mánaðargjald gegn inneign sem gengur upp í ferðir sem maður kaupir í gegnum þá. Ferðirnar eru allar þannig að þú kaupir þér sjálfur flug, hvaðan sem þú kemur úr heiminum, en hótel og einhver afþreying er innifalið í pakkanum. (Ef þú hefur einhverjar spurningar um klúbbinn, skal ég glöð svara þeim)

24swtzl8owp25xduy8tuteg3bzzejj35o3qen5ac4fphtnr3gf
Hluti af hópnum á London Eye mynd.

Það hitti þannig á að þessa helgi sem við vorum staddar í London bauð DreamTrips upp á ferð í London, svo við nýttum okkur það. Fyrir 75.000 kr. fengum við gistingu á 4 stjörnu hóteli við Regent’s Park, með morgunverði, aðgang að fararstjóra sem var manni alltaf innan handar ef eitthvað var, drykki með hópnum á hótelbarnum fyrsta kvöldið, hálfsdags skoðunarferð um borgina með miðum í London Eye á laugardagsmorguninn, og þriggja rétta kveðjukvöldverð með hópnum síðasta kvöldið. Það er sama verð og maður fær herbergi á hótelinu á í gegnum hotels.com.

Með því að kaupa flug með Icelandair með tösku, og þessa ferð með DreamTrips, þá var ferðin ódýrari en að kaupa pakka með Gaman ferðum á mun síðra hóteli.

20180825_101336
Minnismerki Viktoríu drottningar við Buckingham höll.

Við hinsvegar mættum ekki í kveðjukvöldverðinn þar sem við vorum á tónleikum þá, og reyndar ekki heldur á hótelbarinn fyrsta kvöldið.. Enda höfum við alltaf verið þekktar fyrir að vera einstaklega félagslyndar!

Hinsvegar sáum við eftir því að hafa ekki getað mætt á kveðjukvöldverðinn, þar sem hópurinn var mjög skemmtilegur. Það vorum um 30 manns í hópnum, frá öllum heimshornum; slatti frá Bandaríkjunum og svo Kína, Kóreu, Ítalíu…

20180825_143232
Sjálfa á toppi London Eye.

Laugardagsmorguninn hófst að sjálfsögðu á indælum hótelmorgunmat áður en haldið var í skoðunarferð um borgina. Meðal þess sem við skoðuðum var Westminster Abbey, Buckingham höll, Tower of London, Tower Bridge, Downingstræti 10, varðmenn á hestum, tókum stutta siglingu um Thames og enduðum svo í London Eye.

20180825_105243
Big Ben var í felum.

Seinni part laugardagsins áttum við pantað í aðra myndatöku (hjá Old&New Photography), og í þetta sinn kom ferðafélaginn með! Myndatakan var einskonar tímaflakksmyndataka, þar sem við vorum klæddar upp í gervi frá Viktoríutímanum. Þetta var stórskemmtileg upplifun og skilaði okkur frábærum myndum! Stúdíóið var rosalega flott, greinilega hugað að hverju smáatriði og vel að öllu staðið!

20180826_151755
Þessi fer klárlega í ramma uppá vegg!

Okkur var fyrst boðið að skoða möppu með kjólamyndum og sýnishorn af myndum, en síðan var okkur fylgt í búningsherbergi þar sem allt úði og grúði af allskonar kjólum og skikkjum, höttum og skarti, og hverju því sem til þurfti. Stúdíóið býður upp á fjórar tegundir af tímaflakksmyndum; frá Viktoríutímanum, frá Tudortímanum, úr villta vestrinu og svo eins konar „gangsta“ myndatöku.

20180830_114038
Þessi verður í leshorninu mínu.

Konan sem tók á móti okkur í búningsherberginu var sérlega fróð og hafði greinilega mikinn metnað fyrir starfi sínu. Hún útbjó okkur af sérstöku næmi, og svo hratt og vel að furðu sætti. Síðan vorum við leiddar í stúdíóið þar sem á móti okkur tók ljósmyndari sem stillti okkur upp í allskonar skemmtilegum útfærslum. Ég mæli eindregið með þessu ef þetta er eitthvað sem þú hefur áhuga á!

Þegar þessu var lokið héldum við aftur inn í miðborgina og fengum okkur kvöldverð á Planet Hollywood. Það var skemmtilegt andrúmsloft á staðnum, há músík og fólk ófeimið við að syngja með.

Eftir kvöldmatinn settumst við í setustofuna við barinn og fengum okkur nokkra kokteila, en á Groupon náðum við okkur í 6 kokteila á 27 pund. Allir kokteilarnir voru dásamlega góðir og ekki skemmdi fyrir hve gaman var að fylgjast með barþjónunum að störfum!

20180823_125632
Vinnufélaginn sendi ferðafélaganum kveðju, og ég bráðnaði!

Hérna má svo lesa það sem eftir stendur af sögunni.

Ferðalög, Lífið

Armbönd fyrir krakka í utanlandsferðum

Við höfum þvælst svolítið með stelpurnar síðustu tvö árin, en á tveimur árum höfum við farið með þær erlendis þrisvar sinnum, alls í rúmar 4 vikur.

Í fyrsta skipti gripum við svona „ stökktu“ tilboð til Benidorm yfir þrítugsafmælið mitt, svo ég hugsaði ekkert út í þetta; en í seinni tvö skiptin höfðum við vit á því: að merkja börnin ef þau skyldu skiljast við okkur.

img_20180727_111259_9461829639566.jpg

Við keyptum okkur í fyrrasumar armbönd úr plasti sem maður skrifar á með penna sem festist. Þau dugðu ágætlega, en stelpurnar voru frekar þreyttar á þeim og gjarnar á að taka þau af. Lásinn á þeim var úr plasti og auðvelt að taka þau af, en þau voru samt mikið notuð í fyrri ferðinni í fyrra.

Í seinni ferðinni, þá voru þau lítið notuð, og lásinn á öðru þeirra gaf sig.

Þannig að; þegar ég rakst á sílíkon armbönd með stálplötu þar sem upplýsingarnar eru grafnar í, þá stökk ég til.

img_20180730_102329622498087.jpg

Ég borgaði fyrir þau rétt um 2.000 krónur, og svo rúmar 700 þegar ég sótti þau á pósthúsið. Maður ræður textanum alfarið sjálfur, svo gott er að taka fram ofnæmi eða alvarleg veikindi, séu þau til staðar.

img_20180730_1026451194890899.jpg

Ég hafði nöfnin þeirra, símanúmer okkar foreldranna og svo að þær tali íslensku. Hugsunin á bak við það er að ef eitthvað gerist sem gerir það að verkum að við pabbi þeirra verðum ekki til staðar til að tala fyrir þær, þá er einfaldara fyrir yfirvöld að finna túlk, ef þeir vita hvaða tungumál þetta er.

img_20180730_1025411638878505.jpg

Armböndin voru í boði í sex litum, Rakel valdi sér svart en Eyrún bleikt. Auk þess var hægt að fá fjólublátt, blátt, rautt og gult. Eins og sjá má á myndinni er lásinn mjög veglegur.

img_20180730_102457537018960.jpg

Þau koma í einni stærð, en maður klippir sílíkonólina bara til í hæfilega lengd. Lásinn er með klemmum, svo það er auðvelt að losa hann af ólinni og festa hann svo aftur þegar maður er búinn að klippa ólina í rétta lengd. Plötuna með merkingunum má svo bara færa til á réttan stað á ólinni.

img_20180730_102415971898669.jpg

Ég er afskaplega hrifin af þessum armböndum, og hlakka til að nota þau á Flórída í vor. Stelpurnar voru með þau heilan dag um daginn og fannst þau virkilega flott og þægileg, og vildu helst ekki að ég tæki þau og geymdi. En mamma ræður – svo nú liggja þau hjá Evrópsku sjúkratryggingakortunum þeirra og vegabréfunum, og bíða eftir næstu ferð!

Armböndin fengum við hér.

Ferðalög

Flórída – 3. kafli

Fyrri kafla má finna hér.

Eitt af því sem þarf alltaf að gera þegar við förum til Jacksonville er að tína appelsínur í garðinum hjá frænku minni og gera appelsínusafa. Þetta er bara það besta sem ég fæ; appelsínur beint af trjánum og safi sem við gerum sjálf með morgunmatnum.

Eitt kvöldið skruppum við á Pizza Hut í kvöldmat, en það væri ekki í frásögur færandi nema hvað; okkur hefur aldrei orðið jafn kalt á Flórída eins og þarna! Borðin voru álklædd og loftkælingin á fullu. Borðin urðu ísköld svo maður gat ekki hvílt hendur eða olnboga á borðinu án þess að kuldann leiddi upp eftir handleggjunum. Pitsurnar og meðlætið voru geggjað góðar, svo það bætti aðeins upp – en við sátum ekki lengur þar en við þurftum!

Afþví við vorum úti í október kom ekkert annað til greina en að skera grasker fyrir hrekkjavökuna! Dæturnar voru ekki mjög hrifnar af hratinu innan úr, en mamma reddaði því bara. Sem byrjendur í iðninni finnst mér við bara hafa staðið okkur nokkuð vel! Graskerin stóðu svo úti á palli með batterískertum þar til eftir hrekkjavökuna.

20171029_200152
Graskerin flott í myrkrinu!

Chuck E. Cheese’s sló heldur betur í gegn hjá dætrum okkar – og reyndar okkur líka. Chuck E. Cheese’s er svona arcade eða leikjasalur, sem er frekar fyrir yngri börn. Dætur okkar, þá 6 og 8 ára, fannst þetta algjört æði, svo við fórum tvisvar. Þar sem við vorum um hádegi á virkum degi vorum við nánast með salinn fyrir okkur!

Á Chuck E. Cheese’s keyptum við okkur pizzu í hádegismat og gos, og með fylgdu (að mig minnir) einhverjir 100 „tokens“. Þessi Tokens, eða einingar, færðu inn á kort, sem þú skannar svo bara við tækið sem þig langar í. Þegar þú hefur lokið leik færðu miða, en fjöldi þeirra veltur á hversu vel þér gekk. Þegar þú ert búinn geturðu svo keypt þér verðlaun fyrir miðana þína, með því að skanna þá alla inn í tæki og fara með kvittunina á þjónustuborðið. Það fannst ekki bara dætrum mínum, heldur manninum líka, mjög skemmtilegt!

20171030_123253
Stelpurnar eru með lítil hjörtu, það var ekki séns að fá mynd af þeim með Chuck E. Cheese sjálfum, nema pabbi væri með.

Stelpurnar sjá Chuck E. Cheese’s enn í hyllingum, rúmu hálfu ári síðar!

20171031_105830
CostCo

Að sjálfsögðu er það algjör skylda að fara í CostCo þegar maður fer til USA, en við komum fyrst í CostCo í Jacksonville árið 2008. Það verður nú bara að segjast eins og er að langflestar ferðatöskurnar okkar koma úr CostCo í Jax! Við höfum keypt sittlítið af hverju í CostCo í Bandaríkjunum, en í þessari ferð keyptum við ekkert… nema 2 tösku Samsonite Spinner sett!

Við höfðum séð fyrir okkur að finna okkur einhvern leikvöll eða public park bara til að leyfa stelpunum að hlaupa um og leika sér. Það var býsna furðuleg upplifun. Við fundum einn sem kallast Victoria Park og var ekki langt frá þar sem við vorum. Við vorum ein þarna, svo stelpurnar klifruðu og léku sér en pabbi þeirra gekk í hringi og horfði í jörðina, leitandi að sprautunálum (það fundust engar).

Eldri dóttirin þurfti allt í einu svo mikið á klósettið, að pabbi hennar fór með hana á almenningssalerni þarna í garðinum. Þau sneru strax við og höfðu enga löngun til að létta á sér þar. Þar hafði einhver komið sér fyrir, með koddann sinn og allt. Viðkomandi var ekki á staðnum, en þetta var víst ekki spennandi!

20171031_174223

Síðasti dagurinn okkar fyrir brottför var hrekkjavakan. Stelpurnar völdu sér nornabúninga, og fötur til að „Trick or treat“-a með og við klæddum okkur upp og gengum milli húsa. Stelpurnar voru nú nokkuð feimnar fyrst, en svo voru þær farnar að segja „trick or treat“ alveg sjálfar! Þær söfnuðu alveg helling af nammi – og nei, það voru engar sprautunálar eða eitur í því! Haha 🙂

Eins og í öðru hafði fólk mjög mismunandi metnað fyrir skreytingum fyrir hrekkjavökuna, en einn nágranni okkar var alveg „meðidda“ og hefði held ég ekki mögulega geta skreytt meira! Það var stórskemmtilegt að skoða skreytingar, og ef ég byggi í Bandaríkjunum hefði ég sennilega eytt öllum peningunum í hrekkjavökuskreytingadeildunum í WalMart og Target! Það var svo mikið sem mig langaði í – en ég sá, því miður, ekki not fyrir á Íslandi!

20171031_100917
Diddu frænku sem býr á Flórída var svo kalt að hún skipaði stelpunum að klæða sig vel. 😀
20171031_100756
Það voru liðnar einhverjar vikur frá því að fellibylurinn Irma gekk yfir, en enn var garðaúrgangur út um allt.

20171031_100706

 

20171031_100058
Falleg götumyndin!
20171029_140503
Systur í WalMart.

 

En svo var komið að brottför, og það er alltaf leiðinlegt að kveðja. En maður verður að kveðja til að geta komið aftur – og við erum sko búin að bóka aftur. Páskarnir 2019 – þeir verða geggjaðir!

20171031_100311

 

 

 

 

Lífið

Bucket list – hvað langar mig að gera áður en ég dey?

Tíminn sem okkur er skammtaður er takmarkaður, þótt maður geri sér ekki almennilega grein fyrir því. Við verðum ekki hérna að eilífu, og verðum að gera það mesta úr því sem við höfum. Samkvæmt Hagstofunni var meðalævilengd karla á Íslandi árið 2014 80,6 ár og kvenna 83,6 ár.

20161119_102916
Central Park, New York 2016

Ég er 32 ára. Ef við drögum 5 ár af meðal lífslíkum vegna offitu; þá má ég gera ráð fyrir að verða 78,5 ára. Þá eru bara 46,6 ár eftir (eða 17.006 dagar) – styttist í að ég verði hálfnuð. Hvað langar mig að gera áður en ég dey? (Ég geri mér alveg grein fyrir að ég gæti dáið á morgun eða ég gæti orðið 100 ára, en með því að miða við meðaltöl getur maður sett þetta í eitthvert samhengi)

IMG_1785
Taj Mahal, Agra 2012

Þannig ég fór að skoða annarra manna „Bucket list“ á Google og Pinterest, skrifaði niður hvað mig langar að gera og spurði nokkrar vinkonur. Og eftir töluverða yfirlegu telur listinn 112 atriði, sem ég skipti niður í fjóra flokka. Vonandi mun listinn svo lengjast seinna meir. Og það er vert að nefna að röð atriða skiptir engu máli um mikilvægi þeirra.

Tyrkland 028
Pamukkale, Tyrkland 2005

Ferðalög:

 1. Sjá Macchu Picchu (Inkar)
 2. Sjá Chichen Itza (Mayar)
 3. Sjá Miklagljúfur (Grand Canyon)
 4. Ganga um Las Vegas Strip
 5. Sjá Hvíta húsið
 6. Skoða Akrópólis
 7. Sjá Sagrada Familia
 8. Heimsækja Vetrarhöllina
 9. Sjá pýramídana og Sphinxinn
 10. Sjá hringleikahúsið í Róm
 11. Heimsækja Vatíkanið

  San Fran 2006 069
  Golden Gate, San Francisco 2006.
 12. Ganga á Kínamúrnum
 13. Fara til Vín
 14. Fara til Marrakesh
 15. Fara til Möltu
 16. Fara til Mexíkó
 17. Fara til Ítalíu
 18. Fara til Króatíu
 19. Fara til Slóveníu
 20. Fara til Grikklands
 21. Fara til Costa Rika
 22. Fara til Tælands
 23. Fara til Kína
 24. Fara til St. Pétursborgar
 25. Fara til Jerúsalem
 26. Fara til Istanbúl
 27. Fara til Sri Lanka
 28. Fara til Petra í Jórdaníu
 29. Fara í London Eye
 30. Fara í ferðalag með mömmu og systur minni
 31. Vera á hóteli með öllu inniföldu
 32. Heimsækja Prince Edward Island (Anna í Grænuhlíð)
 33. Fara til Atlanta á slóðir á Hverfanda hveli
 34. Fara í ferð sem snýst um sjálfsrækt
 35. Sjá hin nýju sjö undur veraldar (Kínamúrinn, Kristsstyttan í Rio, Macchu Picchu, Chichen Itza, Colosseum í Róm, Taj Mahal og Petra í Jórdaníu)
 36. Heimsækja 50 lönd fyrir fimmtugt (Bara 12 búin – 17 ef ég má telja hvert ríki í Bandaríkjunum sem „land“)
 37. Sigla á gondól í Feneyjum

  IMG_1292
  Lótushofið, Nýja Dehlí 2012.
 38. Sjá hrísgrjónaakra
 39. Fara á fljótandi markað
 40. Baða mig í dauðahafinu
 41. Heimsækja útrýmingarbúðir
 42. Stelpufrí
 43. Fara á slóðir Vestur-Íslendinga
 44. Sjá Niagara fossana
 45. Fara í siglingu á skemmtiferðaskipi
 46. Fara í ferðalag sem einhver annar skipulagði
 47. Eyða heilum degi (eða svo gott sem) á ströndinni
 48. Komast út úr Escape Room í 10 löndum (Pólland tékk, Ísland tékk, Skotland tékk, Þýskaland tékk, Ítalía tékk, Bandaríkin tékk, Engla)
 49. Þvælast um slóðir Johns Steinbeck
Tyrkland 210
Köfun, Tyrkland 2005

Sport:

 1. Prófa pole-fitness

  Snapchat-1847629895
  Tívolí, Kaupmannahöfn 2016
 2. Fara á dansnámskeið
 3. Klifra upp í topp á klifurvegg
 4. Prófa kaðlaþrautabraut (Ropes Course)
 5. Prófa Kayak
 6. Fara í trampólíngarð
 7. Fara í Go Cart (Hef gert það, en langar aftur)
 8. Synda með höfrungum
 9. Fara í íshellinn í Langjökli (Into the Glacier)
 10. Prófa svifflug
 11. Prófa að leika sér á inflatable island
 12. Prófa tubing í á (semsagt ekki tilbúinni á)
 13. Synda með sækúm á Flórída
 14. Prófa SUP
 15. Fara á hundasleða
 16. Stökkva af kletti (hef prófað, en langar aftur)
 17. River Rafting (hef gert það, en langar aftur)
 18. Prófa að Zorba
 19. Zipline!
Tyrkland 073
Ephesus, Tyrkland 2005

Upplifun:

 1. Skjóta af byssu
 2. Fljúga í þyrlu

  IMG_1977
  Minnismerki Mahatma Ghandi, Nýja Delhi 2012
 3. Stökkva fullklædd í sundlaug
 4. Murder Mistery
 5. Vera í sjónvarpssal (erlendis)
 6. Stökkva í foam pit
 7. Prófa froðudiskó – já ég veit, full gömul í þetta!
 8. Fljúga í loftbelg
 9. Sjá sólarupprás og sólarlag
 10. Fara í sumarfrí í alla landsfjórðunga með fjölskyldunni
 11. Fara í alvöru lautarferð
 12. Renna sér á dekkjaslöngu í snjónum
 13. Vera dregin á dekkjaslöngu á Pollinum
 14. Vera farþegi í listflugi
 15. Fá mér kokteil á bar á efstu hæð háhýsis (Rooftop bar)
 16. Fara til Grímseyjar og standa á heimskautsbaugnum
 17. Mæta á ráðstefnu um ZeroWaste eða Green living
 18. Prófa vélsleða (keyra sjálf!)
 19. Sitja aftan á mótorhjóli
 20. Fara í útreiðatúr, helst með eldri dótturinni
 21. Fara á tónleika
 22. Djamma alla nóttina
20150411_123012
Trinity College Library, Dublin 2015

Persónulegt:

 1. Drekka ekkert nema vatn í mánuð
 2. Ferðast ein

  San Fran 2006 113
  Yosemite þjóðgarðurinn, Kalifornía 2006
 3. Mæta á Júbileringu (já, var fjarverandi í bæði hin skiptin..)
 4. Skrifa bók (bloggið er skref í áttina, maður skrifar ekki texta sem er tækur til útgáfu nema æfa sig að skrifa fyrst.)
 5. Fara í myndatöku, bara ég. Ekki fjölskyldumyndataka.
 6. Eignast demantshring
 7. Hlaupa 5K (ekki að fara að gerast á morgun eða hinn…)
 8. Aftengjast í viku
 9. Prófa íbúðaskipti
 10. Ná kjörþyngd
 11. Láta einhvern annan velja bók fyrir sig að lesa
 12. Fara í boudoir myndatöku
 13. Borða engin sætindi í mánuð
 14. Klára að lesa 1.000 bækur (592 komnar…)
 15. Taka sjálfsmynd í hverri viku í ár
 16. Búa til lista yfir 100 bækur sem ég verð að lesa, og ljúka við hann.
 17. Klára kvartlaus áskorunina (armbandið komið…)
 18. Klára hrúguna af ólesnum bókum sem ég á (telur hátt í 700 titla – passar fínt með nr. 14)
 19. Þegja í heilan dag
 20. Fá mér húðflúr (já ég veit, ekki líkt mér)
 21. Koma á einhverskonar heimilisbókhaldi (já, I know – þetta er eitthvað sem ég sökka í!)
 22. Skipuleggja jarðarförina mína
 23. Kaupa enga bók í heilt ár (listinn verður að vera metnaðarfullur?)
IMG_1241
Hare Krishna hofið, Nýju Delhi 2012

Ég mun svo uppfæra listann hægt og rólega, eftir því sem hlutirnir gerast. En það er nú bara svo með bucket-lista að þeir klárast sjaldnast, en lengjast frekar. En með því að hafa lista yfir hluti sem þig langar til að upplifa ertu líklegri til að koma því í verk!

IMG_20161121_080345
Frelsisstyttan, New York 2016

Vissulega er margt fleira sem gæti verið á listanum, og þá sérstaklega í ferðalagaflokknum, en hinir þóttu mér örlítið erfiðari.

San Fran 2006 0992
Steiner Street, San Francisco 2006

Það er margt sem ég hefði haft á listanum ef ég hefði ekki nú þegar gert það; t.d. San Francisco og Golden Gate, New York, Pamukkale og Efesus, Tyrkneskt bað (Hammam), söngleikur á Broadway o.fl. o.fl. Sumt er líka á listanum þótt ég hafi gert það áður, t.d. rafting, köfun, stökkva af kletti, Go cart…

Tyrkland 00852
Í hefðbundnum tyrkneskum brúðarbúningi, Tyrkland 2005

Ég óska hér með eftir áhugasömum aðilum til að aðstoða mig við að „tékka“ atriði af listanum og vinum eða félögum sem langar að upplifa eitthvað af þessu með mér! 😀

Ferðalög

Flórída 2017 – 2. kafli

Lestu fyrri kafla hér.

Alltaf þegar við förum til Flórída förum í við Outlet, eins og flestir Íslendingar. Okkar uppáhalds er St. Augustine Premium Outlets, en þar er að finna t.d. Adidas, Nike, Reebok, Children’s Place, Carter’s, Gap, Skechers o.fl. o.fl. Alltaf þegar maður fer til Bandaríkjanna á maður að prenta út miða frá Icelandair upp á coupon book  í Outlettunum – hver hefur eitthvað á móti auka afslætti? Ég finn ekki afsláttarmiðabókina á síðunni þeirra lengur, en það má þá sækja hana hér.

20171024_101253
Rakel Yrsa fann sér nýjan félaga í Outletinu.

Í þetta skipti fengum við okkur hótelherbergi í St. Augustine, sem var rétt við ströndina. Við lögðum af stað frá Jax snemma morguns, drifum Outletin af, innrituðum okkur og héldum svo á ströndina. Það var áliðið dags þegar við komum á ströndina, og fáir að sóla sig (enda kominn seinni hluti október, þá finnst Flórídabúum ekki hlýtt, þótt Íslendingar svitni!).

Við óðum pínu í sjónum og byggðum svolítið úr sandi. En þá tókum við eftir pari sem stóð í flæðarmálinu og starði út á sjóinn. Svo sáum við það; það var hákarl svamlandi rétt við ströndina, bara örfáa metra frá flæðarmálinu. Bara eiginlega rétt þar sem við stelpurnar höfðum verið að leika okkur nokkrum mínútum fyrr! Við hættum snarlega að svamla í sjónum og byggðum bara meira úr sandi og týndum nokkrar skeljar!

20171025_085544_001
Fallegt að horfa út af svölunum á hótelherberginu í St. Augustine.

Við gistum á La Fiesta Ocean Inn & Suites, sem var uppsett eins og mótel. Herbergið okkar sneri að sjónum og því var fallegt útsýni. Það var svona á að giska þriggja mínútna gangur frá herberginu og á ströndina! Morgunmaturinn var mjög furðulegur, en um kvöldið þurftum við að merkja við hvað við vildum í morgunmat og setja miðann utan á hurðina. Svo um morguninn fengum við hann afhentan, og þetta var lélegasti morgunmatur sem ég hef fengið á hóteli – bara eitthvað grín! Við fórum á Dunkin og fengum okkur örlitla ábót!

Jacksonville Zoo er skemmtilegur dýragarður þar sem hægt er að eyða nokkrum góðum tímum. Þar eru ljón og gíraffar, úlfar og krókódílar, fuglar og tígrisdýr, og margt fleira. Þar er líka apagarður, en hann var lokaður vegna endurbóta. Stelpurnar skemmtu sér vel, og eiginmaðurinn hafði held ég mest gaman að skriðdýrahúsinu!

20171027_115238
Tígrisdýrabúrið var báðu megin við gangveginn, og yfir gangveginn lá svona göngubrú fyrir tígrisdýrin. Þessi var tveggja ára, rosalega falleg.

Adventure landing er eins konar Arcade eða leikjasalur, þar sem má finna sér ýmislegt til dundurs. Þar voru t.d. aligatorar í vatni fyrir utan og það var hægt að fóðra þá. Minigolf, mjög rólegt go-kart, sem hefði hentað stelpunum vel til að keyra o.fl. Við fórum í minigolf, sem var í fyrsta skipti sem stelpurnar fóru í minigolf. Við skemmtum okkur vel, en einn aðilinn var kannski svolítið tapsár… og það var ekki ég!

20171027_184800
Minigolf.

Þá var komið að seinni spa-deginum mínum, en ég fór í Mona Lisa Day Spa and Nail Boutiqe, en ég fann alveg frábært tilboð á Groupon.com. Fyrir $149 fór ég í andlitsmeðferð, nudd, hand- og fótsnyrtingu og klukkutíma aðgang að heitum potti og sauna hjá þeim. Þetta var alveg dásamlegt og ég kom svo endurnærð út! Allar meðferðirnar voru svo vel heppnaðar og yndislegar – ég fer klárlega aftur á þessa snyrtistofu næst þegar ég fer!

Image result for mona lisa day spa jacksonville fl
Heitur pottur og afslöppun í Mona Lisa Day Spa. Mynd fengin að láni hjá themonalisadayspa.com. Hvítt í glasi og slökun!

Lestu áfram um Flórídadvölina hér.

Ferðalög

Flórída 2017 – 1. kafli

Mynd fengin að láni hjá tripadvisor.com

Við lentum í Orlando að kvöldi 16. október. Við vorum búin að plana að vera í þrjár nætur í Orlando, og gistum á Hampton Inn & Suites Orlando International Dr. North. Hótelið völdum við af þrem ástæðum; við vildum vera miðsvæðis/við I-drive, við vildum hótel með morgunmat og við vildum hótel með rúmgóðum herbergjum, þar sem við vorum fjögur og vildum að stelpurnar gætu brallað eitthvað. Rúmin voru fín, en við vorum í herbergi með tveim Queen size rúmum og svaf einn fullorðinn og einn krakki í hvoru rúmi. Herbergið var stórt og rúmgott, yfir 40 fermetrar ef eitthvað er að marka upplýsingarnar á hotels.com, en morgunmaturinn var ekkert mjög spes. En Eyrún fékk hafragraut og við hin ristaðar beyglur og vöfflur með hlynsírópi!

20171019_072956
Í Orlando snýst allt um skemmtigarða, en í morgunmat á hótelinu var m.a. boðið upp á svona Mikka-vöfflur.

Við leigðum okkur Mini-van, en við leigjum okkur nánast alltaf bíl í Bandaríkjunum, og höfum alltaf leigt bíl á Flórída. Maðurinn minn keyrir, almennt er frekar auðvelt að keyra á Flórída, en við erum alltaf með GPS tæki. Umferðin er almennt ekki jafn trekkt og í Reykjavík t.d. og fólk er frekar tillitssamt úti á vegunum.

20171018_110318
Uppstoppaður skógarbjörn í BassPro.

Þar sem maðurinn minn hefur frekar gaman af skotveiði, þá höfum við alltaf komið við í Bass Pro Outdoor World þegar við komum til Orlando. Búðin er risastór (a.m.k. á íslenskan mælikvarða) og meðan hann skoðaði það sem var á boðstólnum, þá settist ég niður með yngri dóttur okkar við fiskabúrið og við lásum einn skólalestur! Í búðinni er að finna allskonar uppstoppuð dýr, t.d. skógarbjörn, og heila tjörn/risafiskabúr með fiskum. Og við erum ekki að tala um neina gullfiska!

20171018_111038_001
Skólalestur í BassPro.
20171018_111048_001
Fiskabúrið í versluninni. Neðst, nálægt hægra horninu má sjá fisk.

Eldri dóttir mín vann á tímabili mikið með hvali og fiska í skólanum, og eftir það hefur hún verið sérlega áhugasöm um hvali og skötur og önnur sjávardýr. Við ákváðum þessvegna að fara á sædýrasafn, en SeaLife er nýlegt sædýrasafn ekki langt frá Universal t.d.

20171018_143910

20171018_144941

20171018_145055
Mæðgur inni í fiskabúri.

SeaLife er mjög flott safn með allskonar skepnum. Þar eru t.d. göng í gegn um eitt búrið, þar sem maður sér hákarla, skötur o.fl. fyrir ofan sig, neðan og til hliðar. Þar eru búr með litlum fiskum, sem hægt er að fara inn í – eða svo að segja. Þar er búr þar sem hægt er að snerta allskonar lífverur sem ég veit ekki hvað skal kalla. Þar var líka klifurkastali sem sló í gegn! Þetta var svona kannski tveggja tíma heimsókn, en mjög skemmtileg.

20171018_145547
Rakel Yrsa í fiskabúri.

Við eyddum svo heilum degi í Disney Magic Kingdom, og hér má lesa nánar um það. Ég tók líka saman upplýsingar sem gætu nýst öðrum sem stefna þangað.

20171018_145634
Meðal annarra var þessi syndandi um í kringum búrið sem var gengið í gegnum.
20171018_145234
Feðgin tylltu sér í göngunum í gegnum stóra fiskabúrið.

Alltaf þegar við erum í Orlando borðum við einu sinni á pitsustað sem heitir Flippers Pizzeria. Í fyrsta skipti sem við vorum í Orlando vorum við á hóteli rétt hjá staðnum, og við urðum alveg ástfangin af brauðstöngunum þeirra… þær eru löðrandi! Svo er bara skemmtilegt að eiga „sinn“ stað!

20171018_185900
Flippers Pizzeria.

Svo héldum við til Jacksonville; það er ca. tveggja eða tveggja og hálfs tíma keyrsla þangað.

Image result for shine holistic wellness center jacksonville beach
Infrarauði saunaklefinn. Mynd fengin að láni hjá yelp.com

Spa er möst þegar maður er erlendis, en í þetta skiptið bókaði ég mér tvo spa tíma. Daginn eftir að við komum til Jax, þá fór ég í Shine Holistic Wellness Center og fékk Body Wrap og Infrared Sauna og svo nudd.

20171023_110146
Sýning um hvali á MOSH.
20171023_115714
Geimfari á MOSH.

Museum of Science and History, eða MOSH, er skemmtilegt lítið fræðslusafn fyrir krakka – og fullorðna. Þetta er í annað skipti sem við hjónin förum þangað – eða jafnvel þriðja? Þar er föst sýning um sögu Flórída, fyrst um frumbyggjana, svo um Evrópumennina sem komu þangað og allt til okkar daga. Auk þess er líka lítil sýning með dýrum sem finnast á Norður-Flórída. Meðal annarra sýninga sem voru í gangi þegar við vorum þarna var um endurnýjanlega orku, geiminn og verkfræði forn-Rómverja.

20171023_111938
Risaeðlubeinagrind á MOSH.

St. Johns Town Center er alveg klárlega uppáhalds verslunarmiðstöðin okkar í Jacksonville, en hún er utandyra. Verslunarmiðstöðin er sett upp eins og Laugavegurinn; verslanir báðu megin við litla götu. Þarna er að finna búðir eins og Old Navy, Target, Gap, Disney, Dick’s, Pottery Barn o.fl.  Og alveg dásamlegt að ganga þarna úti í rúmlega 20° hita og hlusta á jólalög – það er eiginlega alveg uppáhalds.

Image result for st johns town center
St. Johns Town Center. Mynd fengin að láni hjá archinect.com
20171023_170557
Stelpurnar að leika sér á leiksvæði í Town Center.
20171025_120303
Fíflast í Disney búðinni í Town Center.
20171025_121143
Mæðgur í afslöppun í Town Center.

 

Lestu áfram um Flórídadvölina hér.

Ferðalög

París – seinni hluti

Þessi færsla er framhald af þessari hér.

Á laugardagsmorguninn var komið að stóra málinu fyrir mig; Notre Dame. Við höfðum fundið okkur skoðunarferð með Fat Tire Tours þar sem fyrst var farið í Sainte Chapelle og svo í Notre Dame kirkjuna áður en við klifruðum upp í turnana. Við hittum Sophie, leiðsögumanninn, fyrir utan Hæstarétt Frakklands, og héldum svo í Sainte Chapelle.

Image result for sainte chapelle paris outside
Sainte Chapelle utan frá. Mynd fengin að láni hjá jolieaparis.com
Á neðri hæð Sainte Chapelle
Image result for sainte chapelle paris
Efri hæð Sainte Chapelle. Mynd fengin að láni hjá parismuseumpass.com

Sainte Chapelle Kapellan var reist á 13. öld, og glerið í steindu gluggunum er 70% upprunalegt. Kapellan er á tveim hæðum, á þeirri neðri fékk almenningur að biðja, en á efri hæðinni mátti aðeins aðallinn tilbiðja sinn guð. Sagan segir að Lúðvík 9. hafi keypt þyrnikórónu krists, komið með hana til Parísar og byggt Sante Chapelle yfir hana. Þyrnikórónan kostaði fjórfalt meira en byggingin, og byggingin er svo falleg að maður bara trúir því ekki! Mér fannst neðri hæðin svo falleg að ég trúði ekki að efri hæðin gæti verið fallegri – en ég varð hreinlega orðlaus yfir henni.

Þegar við vorum búin að skoða báðar hæðir kapellunnar héldum við í Notre Dame, fyrst í kirkjuna sjálfa, en hún tekur 6.000 manns! Bygging kirkjunnar hófst árið 1163 og tók 250 ár að klára hana. Í samanburði tók aðeins 6 ár að byggja Sante Chapelle. Konungurinn kostaði Sante Chapelle en Notre Dame var byggð fyrir almenningsfé.

Inni í Notre Dame
Útsýnið úr klukkuturnum Notre Dame

Það eru 387 tröppur upp í turna Notre Dame, svo þar með var maður búinn með þrekæfingarnar þann daginn! Útsýnið var mergjað, og mér þótti mjög gaman að „hitta“ ufsagrýlurnar sem Victor Hugo gerði að persónum í Hringjaranum í Notre Dame og Disney vakti til lífsins fyrir lítilli stelpu.

Ufsagrýla í Notre Dame

Eftir tröppuþrekið fórum við aðeins á stúfana að versla, m.a. í C&A, HM og Primark. Ég gat ekki betur séð en að það væri bara ein eða tvær Primark í París, og ég hef sjaldan eða aldrei lent í þvílíkri örtröð! Öryggisverðir hleyptu inn í búðina í hollum, og ég hef aldrei séð svona raðir og troðning. Vá – þetta geri ég ekki aftur.

Fyrir framan Ritz hótelið í Paris Landmark göngutúrnum.

Á sunnudeginum voru allir frekar rólegir nema við hjónin, við drifum okkur í tvo „FreeWalkingTours“ með Discover Walks. Fyrst um morguninn hittum við hópinn og leiðsögumanninn Ben fyrir utan Parísaróperuna, og héldum í Paris Landmarks túrinn. Húsið þótti mér ótrúlega fallegt og virðulegt að utan, en er víst ótrúlegt að innan – því miður höfðum við ekki tök á að skoða hana að innan. Við vorum leidd um hliðargötur og heyrðum sögur af konungum og öðru merku fólki.

Image result for paris ferris wheel close up
Parísarhjólið. Mynd fengin að láni hjá fineartamerica.com
Útsýnið úr Parísarhjólinu.

Eftir gönguna fórum tylltum við okkur aðeins en ákváðum svo að fara í Parísarhjól sem stóð á Place de la Concorde. Ég held ég hafi aldrei verið jafn lofthrædd, og ég er samt lofthrædd! Það voru ca 4-6 í hverjum klefa, en klefinn var ekki meira lokaður en það að maður gat stungið höndunum út úr honum. Auk þess var Parísarhjólið færanlegt, en það ferðast milli staða og hefur t.d. verið í Birmingham og Bangkok. Já, það stóð bara á einhverju gámadóti. En útsýnið var ótrúlegt!

Eftir léttan hádegisverð gengum við upp að Moulin Rouge, þar sem við hittum leiðsögumanninn Audrey frá DiscoverWalks og gengum með henni ásamt hóp um Montmartre-hverfið. Þar gengum við t.d. framhjá vinnustofu Picasso, skoðuðum vínekru og enduðum hjá Sacre Coeur basilíkunni. Fólk safnast greinilega saman við basilíkuna, en þar var þvílík mannmergð. Vegna þess hvað það var löng röð inn í basilíkuna, þá gáfum við okkur ekki tíma til að fara þar inn – enn eitt atriðið sem þarf að gera í næstu Parísarferð! Á leiðinni aftur á hótelið gengum við í gegnum húsagarðinn við Louvre, en enn og aftur hrjáði okkur tímaskortur og því fórum við ekki inn á safnið sjálft.

Image may contain: 16 people, people smiling, people standing and outdoor
Hópmynd úr Montmartre göngutúrnum. Fengin að láni á Facebooksíðu Audrey, leiðsögumannsins (í bleika vestinu).

Sacre Coeur
Bakhliðin á Sacre Coeur – og hamingjusöm hjón!

Það er svo óendanleg saga í París og svo margt að skoða, að ein helgarferð er bara rétt rjóminn, og erfitt að velja hvað á að gera á svona stuttum tíma. En við þurfum klárlega að fara aftur til Parísar, það er svo margt eftir að sjá og skoða!

Ferðalög

París – fyrri hluti

Þegar ég byrjaði að blogga um Varsjá komst ég að því að ég þurfti líka að tjá mig um París, jafnvel þótt það sé orðið ár síðan. Hver veit, kannski kemur meira seinna? Af nógu er að taka!

Við fórum til Parísar í apríl 2017, en hvorugt okkar hafði verið eitthvað voðalega æst yfir að fara þangað. Við höfðum heyrt marga dásama París, og tókum því bara með fyrirvara – en borgin gersamlega heillaði okkur! Þegar við ákváðum að fara til Parísar var eiginlega það eina sem heillaði mig að sjá Notre Dame og fara upp í turnana, en það skrifast á hvað ég hélt mikið á Disney myndina um Hringjarann frá Notre Dame sem barn.

Fallega Notre Dame

Við keyrðum suður, gistum á Keflavík Bed and Breakfast – sem er alveg frábær byrjun á fríinu (eða endir ef því er að skipta), og flugum svo út morguninn eftir með Icelandair. Á Keflavík Bed and Breakfast er boðið upp á að geyma bílinn, sækja og skutla á flugvöll, gistingu og morgunmat. Frá því að við prófuðum þjónustuna þeirra fyrst, höfum við verið þar í öll skipti sem við förum erlendis, að Hollandsferðinni 2017 frátalinni.

Image result for mercure hotel paris centre tour eiffel
Mynd fengin að láni hjá booking.com

Við gistum á Hotel Mercure Paris Centre Tour Eiffel, sem var bara ljómandi fínt og þrifalegt. Hótelið var mjög stutt frá Eiffelturninum, svo maður sá í hann út um gluggann. Morgunmaturinn var góður og hótelbarinn gerði alveg prima kokteila!

Eiffelturninn frá hóteltröppunum.

Við bókuðum okkur ferð með leiðsögumanni í Eiffelturninn, en hann var bara rétt handan við hornið frá hótelinu okkar. Við fórum þangað strax fyrsta daginn, bara eftir að við höfðum innritað okkur á hótelið.

Uppi í Eiffel turninum.

Leiðsögumaðurinn hét Kevin, var mjög klár og þekkti söguna vel. Hann kynnti borgina vel fyrir manni, en hann gekk með okkur hringinn í turninum og benti okkur á helstu kennileiti og sagði okkur sögu þeirra, auk þess að segja sögu turnsins sjálfs. Innifalið í ferðinni var svokallaður „Skip-the-line“ miði, svo við þurftum ekki að bíða í röð – mæli eindregið með því, röðin var heljarlöng.

Dásamlegt útsýni!

Turninn er 324 metra hár, en fyrsta stopp er í 115 metra hæð. Lyftan upp á fyrsta pallinn er utanáliggjandi (en ekki hvað, turninn er bara víravirki!) og hnén voru við það að gefa sig – ég sver það!

Kevin var með okkur í um klukkustund, en svo kvaddi hann okkur í turninum. Þá gátu þeir sem vildu farið alveg upp í topp – og heilög María hvað það var hátt uppi.

Við vorum átta manna hópur í París, svo við bókuðum skoðunarferð um Versali sem var bara fyrir hópinn okkar. Við vorum sótt á hótelið og keyrð í Versali þar sem við hittum leiðsögumanninn okkar, Pauline. Hún var mjög skemmtileg og fróð, sagði okkur margar sögur af kóngafólki og þjónustufólki þar sem hún fylgdi okkur um bæði höllina og garðinn. Ferðin var hálfur dagur, en við vorum komin aftur á hótelið um 14.00.

Versalir
Speglasjálfa Í Versölum
Speglasalurinn

Það er eiginlega ótrúleg upplifun að koma í Versalahöllina, þvílíkur íburður! Öll gylling er ekta gull!

Um kvöldið héldum við í kvöldverðarsiglingu um Signu á fleyinu Le Calife, en það var alveg frábært! Sigling með góðum vinum í frábæru umhverfi á hlýju vorkvöldi – þetta er held ég það sem lífið snýst um!

Image result for le calife paris
Le Calife. Mynd fengin að láni hjá tripadvisor.com
Eiffelturninn frá Signu.

Seinni hlutinn dettur inn fljótlega, en ég mæli klárlega með ferð með leiðsögumanni um Eiffel og Versali!

Lestu um framhald Parísarferðarinnar hér.

Lífið

Ljósmyndabækur

Frá því að við fórum í fyrstu utanlandsferðina með dætur okkar höfum við haft þann sið að gera myndabækur úr ferðunum. Það verður til þess að myndirnar eru skoðaðar miklu oftar, og minningarnar verða ljóslifandi.

Nú þegar eigum við þrjár, en við fórum árið 2016 til Benidorm, og árið 2017 til Flórída. Árið 2017 fórum við líka með tengdafjölskyldunni til Hollands.

Bækurnar hef ég pantað að utan, snapfish.com, og þær hafa reynst vel. Þær hafa verið skoðaðar mikið, ég leyfi stelpunum að ganga í þær og það sér varla á þeim.

Ég hef haft þann háttinn á að vinna bókina á vefsíðunni þeirra, en bíða svo með að panta þar til bækurnar fara á afslátt (best að skrá sig á póstlistann hjá þeim, og fá tilkynningu), en algengt er að þær séu á 40% og upp í tæplega 80% afslætti. Það borgar sig því að vera á póstlistanum, til að fá tilkynningar beint í tölvupósti.

Þetta verður til þess að myndirnar eru skoðaðar oftar, og fríin mikið rædd. Ef myndirnar eru bara geymdar rafrænt sýnir reynslan bara að maður skoðar þær sjaldnar, og börnin hafa lítinn sem engan aðgang að þeim, og því gleyma þau hraðar. Mæli eindregið með þessu, en það eru margir aðilar sem bjóða upp á svona bækur, bæði hérlendis og erlendis!

 

Ferðalög, Lífið

Að fara til tannlæknis í Póllandi

Þegar við vorum búin að panta okkur ferð til Varsjár rakst ég á síðu á Facebook, Tannlæknirinn í Varsjá. Vitandi að ég hefði brotið upp úr jaxli, og að tannlæknirinn minn væri hættur vegna aldurs ákvað ég að afla mér upplýsinga!

Ég hafði samband við Sigrúnu, sem heldur úti síðunni og forvitnaðist um málið.

Capture
Mynd fengin að láni hjá google.com

Hún sagði mér frá því að þau hjónin hefðu farið til þessa tannlæknis í nokkur ár, og fólk hefði alltaf verið að spyrja þau út í það, svo hún hefði á endanum farið að verða milligöngumaður um tímapantanir o.þ.h. og í dag fer hún út með hópa nokkrum sinnum á ári.

Þegar ég skoðaði verðskrá fyrirtækisins, My dental clinic, ákvað ég bara að prófa! Stuttu seinna lenti maðurinn minn líka í því að brjóta tönn, þannig ég ákvað að þetta yrði eins konar óvissuferð fyrir okkur bæði og bókaði tíma fyrir hann líka!

Related image
Stofan þar sem við hittum tannlækninn, allt mjög nýtískulegt og flott. Mynd fengin að láni hjá mydentalclinic.pl

Við áttum semsagt bókaðan tíma kl. 16.00 á föstudeginum, og það væri kannski ekki ofsögum sagt að við hefðum verið pínu stressuð, og þá kannski sér í lagi annað okkar – vísbending: það var ekki ég.

Þegar við mættum á staðinn sáum við þessa fínu og flottu nútímalegu tannlæknastofu. Við byrjuðum bæði í röntgen myndatöku (svona mynd sem sýnir allan tanngarðinn í einu), og svo settist ég inn til læknisins í viðtal. Hann skoðaði myndina, spurði hvort ég vissi um eitthvað og skoðaði svo allt mjög vel.

Biðstofan. Mynd fengin að láni hjá mydentalclinic.pl

Eftir það lagði hann fyrir mig hvað honum finndist þurfa að gera, og hvort ég vildi ekki láta laga það allt. Ég var með einn brotinn jaxl og eina skemmd sem ég vissi um, en svo sá hann að ég var með skammtímafyllingu í einni tönn og einhverja sprungu á öðrum stað. Ég sagði honum bara að byrja, og sá fyrir mér að vera þarna að eilífu!

En viti menn – með tannsteinshreinsun og flúormeðferð, þá var ég í stólnum í minna en einn og hálfan klukkutíma! Maðurinn var fáránlega snöggur (m.v. þá tannlækna sem ég hef verið hjá allavega), vandvirkur og flinkur.

Ef að ég var búin tók hann eiginmanninn inn, og var mjög snöggur með hann. Eftir viðgerðir og hreinsun bað svo læknirinn um að fá að taka selfie með okkur; sem má sjá hér. Já, eins og sjá má er hann fjallmyndarlegur!

received_1658628504251385

Eins og ég sagði, þá voru fjögur atriði hjá mér sem þurfti að lagfæra, auk bara eftirlits og tannsteinshreinsunar, og svo flúor-aði hann líka tennurnar. Reikningurinn fyrir minn hluta var upp á kr. 60.000. Ég hugsaði með mér að það væri kannski svolítið meira en ég gerði ráð fyrir, en aftur á móti hefðu verið tvær viðgerðir sem ég gerði ekki ráð fyrir. Auk þess geri ég ráð fyrir að þetta hefðu verið að lágmarki 3 heimsóknir til tannlæknisins míns hér á landi, og það hefði aldrei kostað minna.

En ég lagðist í smá rannsóknarvinnu, og fann þrjár verðskrár frá tannlæknum hér á landi upp á samanburðinn:

Verð sýna samtals upphæð: deyfingar – 2 stk, stór viðgerð – 1 stk, lítil viðgerð – 3 stk, tannsteinshreinsun, flúor, röntgen (ég geri samt ráð fyrir að í verðskrám íslensku tannlæknanna sé bara átt við venjulegar „gamaldags“ röntgen myndir) og viðtal.

Við tökum þessu samt með þeim fyrirvara að ég er ekki tannlæknir og veit ekki hvort ég hafi alltaf valið rétt af verðlista íslensku læknanna, en ég reyndi þá alltaf að taka ódýrasta kostinn sem gæti passað.

Miðað við þessa töflu mína var ég að spara mér allt að því 50% – og m.v. að ferðin með hóteli og öllu kostaði innan við 60.000, þá er ég mjög sátt.

Aftur á móti hefðum við aldrei gert okkur ferð til Varsjár til að fara í þessar tannviðgerðir, en ég sé vel hvers vegna fólk velur að fara erlendis í stærri tannviðgerðir, þegar það getur sparað hundruð þúsunda – þrátt fyrir að reiknað sé með ferðakostnaði!

En reynslan okkar af þessu var alveg frábær, og við munum klárlega fara aftur til þeirra þegar við förum aftur til Varsjár. Mæli líka eindregið með að hafa samband við Sigrúnu, á Facebook-síðu Tannlæknisins í Varsjá, hún getur svarað öllum spurningum!

Image may contain: screen and indoor
Röntgenherbergið. Mynd fengin að láni á facebooksíðu Tannlæknisins í Varsjá.