Einn morgun í vor var ég að rumska til að mæta í vinnu, þegar ég fékk skilaboð á messenger frá bestu vinkonu minni þar sem mikið óð á henni, þar sem hún hafði frétt það að Britney Spears væri á Evróputúr, en hana hefur alltaf dreymt um að sjá Britney á sviði.
Við bókuðum okkur nánast umsvifalaust til London, og keyptum okkur miða á tónleikana. Biðin var löng, þrátt fyrir að hún væri í dögum talið styttri en oft áður þegar ég og utanlandsferðir eigum í hlut.
Og loksins kom að því!
Þar sem við vorum bara tvær á ferðinni, þá útveguðum við okkur far til Reykjavíkur, og þaðan þurftum við svo að koma okkur til Keflavíkur. Við vorum svo seint á ferðinni að við vorum ekki vissar um að ná síðustu flugrútunni, þannig þá var fátt um fína drætti og við mútuðum elskulegum ættingja með súkkulaði til að skutla okkur á Keflavík. Muna – greiða skuldir sínar!
Að sjálfsögðu gistum við á Keflavík Bed and Breakfast, en við vorum komnar til Keflavíkur um 21.00 um kvöldið og áttum flug um 7.45 um morguninn. Því fylgir að „ræs and shæn“ var um 4 og við vorum gríðarferskar.

Meðan við stóðum í röðinni til að ganga um borð glumdi sífellt í hátölurum flugstöðvarinnar tilkynningar um að þessir og hinir ættu að drífa sig í þessar og hinar vélar því þær væru klárar til brottfarar. Inn á milli var svo bent á að það væru fleiri en ein vél að fara á hvern áfangastað, svo fólk var vinsamlega beðið um að athuga vel flugnúmer – að ganga úr skugga að flugnúmerið á flugmiðanum stemmdi við flugnúmerið við hliðið.

Fyrir framan okkur í röðinni voru tveir strákar. Annar þeirra stökk til þegar upp var lesin tilkynning um að hann ætti að gefa sig fram við upplýsingaborð. Hinn var svo sendur burt úr röðinni þegar upp komst að hann var ekki í réttri röð!

Þessi ferð var önnur ferðin okkar beggja til London, en síðast vorum við 16 ára, svo það má nánast segja að við höfum ekki komið þangað áður.

Við lentum á Gatwick flugvelli og tókum Gatwick Express lestina inn í borgina, en hún endar á Victoria Station lestarstöðinni. Þar keyptum við okkur kort í neðanjarðarlestakerfið, sem heitir Oyster. Kortið virkar þannig að maður kaupir á það inneign, og notar það svo bara sem snertilaust kort. Ótrúlega einfalt og sniðugt!
Við höfðum mikið heyrt um að neðanjarðarlestakerfið í London væri mjög einfalt og auðskiljanlegt, en hafandi ekki mikið notast við lestasamgöngur vorum við örlítið uggandi. Það kom þó í ljós, eins og okkur hafði verið sagt, að kerfið var mjög einfalt og aðeins eftir að nota það tvisvar var maður kominn upp á lag með þetta og gat þvælst út um allt.
Ég átti tíma í myndatöku seinna sama dag, en mig vantaði einhverja skó fyrir myndatökuna, svo eftir að skrá sig inn á hótelið þutum við í Primark, keyptum skó og svo fór ég í förðun og hár hjá Blow ltd. sem er staðsett í Debenhams á Oxford street. Ég borgaði um 7.700 kr. fyrir fulla förðun með augnhárum, hárþvott, blástur og greiðslu, gekk mjög sátt út. Ég bókaði tímann bara á heimasíðu stofunnar, eins einfalt og það verður.
Hinsvegar – þá ætlaði ég ekki niður í neðanjarðarlestakerfið fyrir myndatökuna, því förðunin hefði öll lekið af í hitanum þar. Þá þótti mér vera kominn tími til að prófa Uber – já ég viðurkenni það, ég er ekki nýjungagjörn og hef aldrei notað Uber áður. Það hinsvegar reyndist líka vera hið sniðugasta tól, eins og sennilega flestir vita!

Ég fór upp á hótelið aftur og skipti um föt, og svo hitti ég ljósmyndarann við hótelið. Hann var hinn viðkunnanlegasti maður og ég er í skýjunum með myndatökuna og myndirnar sjálfar. Ég setti inn sér færslu um myndatökuna hér, en hér kemur sýnishorn:
Um kvöldið skelltum við okkur á Pizza Hut, en þeir voru með frjálsan aðgang að gosdælunum fyrir eitt verð. Hinsvegar; þá var aðeins hægt að fá sykurskerta gosdrykki á dælu hjá þeim, þar sem sykurskatturinn í Bretlandi er svo hár. Það þótti mér áhugavert.
DreamTrips er ferðaklúbbur sem virkar þannig að maður borgar mánaðargjald gegn inneign sem gengur upp í ferðir sem maður kaupir í gegnum þá. Ferðirnar eru allar þannig að þú kaupir þér sjálfur flug, hvaðan sem þú kemur úr heiminum, en hótel og einhver afþreying er innifalið í pakkanum. (Ef þú hefur einhverjar spurningar um klúbbinn, skal ég glöð svara þeim)

Það hitti þannig á að þessa helgi sem við vorum staddar í London bauð DreamTrips upp á ferð í London, svo við nýttum okkur það. Fyrir 75.000 kr. fengum við gistingu á 4 stjörnu hóteli við Regent’s Park, með morgunverði, aðgang að fararstjóra sem var manni alltaf innan handar ef eitthvað var, drykki með hópnum á hótelbarnum fyrsta kvöldið, hálfsdags skoðunarferð um borgina með miðum í London Eye á laugardagsmorguninn, og þriggja rétta kveðjukvöldverð með hópnum síðasta kvöldið. Það er sama verð og maður fær herbergi á hótelinu á í gegnum hotels.com.
Með því að kaupa flug með Icelandair með tösku, og þessa ferð með DreamTrips, þá var ferðin ódýrari en að kaupa pakka með Gaman ferðum á mun síðra hóteli.

Við hinsvegar mættum ekki í kveðjukvöldverðinn þar sem við vorum á tónleikum þá, og reyndar ekki heldur á hótelbarinn fyrsta kvöldið.. Enda höfum við alltaf verið þekktar fyrir að vera einstaklega félagslyndar!
Hinsvegar sáum við eftir því að hafa ekki getað mætt á kveðjukvöldverðinn, þar sem hópurinn var mjög skemmtilegur. Það vorum um 30 manns í hópnum, frá öllum heimshornum; slatti frá Bandaríkjunum og svo Kína, Kóreu, Ítalíu…

Laugardagsmorguninn hófst að sjálfsögðu á indælum hótelmorgunmat áður en haldið var í skoðunarferð um borgina. Meðal þess sem við skoðuðum var Westminster Abbey, Buckingham höll, Tower of London, Tower Bridge, Downingstræti 10, varðmenn á hestum, tókum stutta siglingu um Thames og enduðum svo í London Eye.

Seinni part laugardagsins áttum við pantað í aðra myndatöku (hjá Old&New Photography), og í þetta sinn kom ferðafélaginn með! Myndatakan var einskonar tímaflakksmyndataka, þar sem við vorum klæddar upp í gervi frá Viktoríutímanum. Þetta var stórskemmtileg upplifun og skilaði okkur frábærum myndum! Stúdíóið var rosalega flott, greinilega hugað að hverju smáatriði og vel að öllu staðið!

Okkur var fyrst boðið að skoða möppu með kjólamyndum og sýnishorn af myndum, en síðan var okkur fylgt í búningsherbergi þar sem allt úði og grúði af allskonar kjólum og skikkjum, höttum og skarti, og hverju því sem til þurfti. Stúdíóið býður upp á fjórar tegundir af tímaflakksmyndum; frá Viktoríutímanum, frá Tudortímanum, úr villta vestrinu og svo eins konar „gangsta“ myndatöku.

Konan sem tók á móti okkur í búningsherberginu var sérlega fróð og hafði greinilega mikinn metnað fyrir starfi sínu. Hún útbjó okkur af sérstöku næmi, og svo hratt og vel að furðu sætti. Síðan vorum við leiddar í stúdíóið þar sem á móti okkur tók ljósmyndari sem stillti okkur upp í allskonar skemmtilegum útfærslum. Ég mæli eindregið með þessu ef þetta er eitthvað sem þú hefur áhuga á!
Þegar þessu var lokið héldum við aftur inn í miðborgina og fengum okkur kvöldverð á Planet Hollywood. Það var skemmtilegt andrúmsloft á staðnum, há músík og fólk ófeimið við að syngja með.
Eftir kvöldmatinn settumst við í setustofuna við barinn og fengum okkur nokkra kokteila, en á Groupon náðum við okkur í 6 kokteila á 27 pund. Allir kokteilarnir voru dásamlega góðir og ekki skemmdi fyrir hve gaman var að fylgjast með barþjónunum að störfum!

Hérna má svo lesa það sem eftir stendur af sögunni.