Ferðalög

Flórída 2019 – 2. kafli

Fyrsta hluta ferðasögunnar má finna hér.

20190412_094610
Það þarf líka að lesa.

Daginn eftir að við hjónin ögruðum okkur í Ziplineferð, skruppum við með dætur okkar í höfrungaskoðun frá Vilano Beach við St. Augustine. Þetta var rólegheita sigling í dásamlegu veðri, við sáum höfrunga leika sér – en því miður voru þeir hvorki sérlega nálægt okkur né sáum við stökk. En þetta var ljúf sigling engu að síður.

20190411_124644
Vitinn í St. Augustine.

Eftir siglinguna héldum við á St. Augustine Pirate Museum. Það er safn um sögu sjóræningja, en svæðið hefur töluverð tengsl við sjóræningasöguna. Eigandi og stofnandi safnsins er sagnfræðingur sem hefur sérhæft sig í sjóræningjum og safnað að sér alls konar munum sem þeim tengjast. Safnið er lítið, en mjög fróðlegt, og ég hugsa að stelpurnar hefðu haft sérlega gaman af ef þær hefðu skilið enskuna.

20190411_155327
Að sögn ein af fáum (ef ekki eina) heila alvöru sjóræningjakistan í heiminum í dag.
20190411_121039
Í siglingu.

Að sjálfsögðu litum við svo við í Premium Outlets í St. Augustine, en það er, eins og ég hef sagt áður, okkar uppáhalds Outlet.

Það er líka mikil frumbyggjasaga á Flórída, og margar friðlendur draga nöfn sín af örnefnum sem komin eru frá Indjánum. Ein þeirra er Timucuan Preserve, þar sem fundist hafa munir sem taldir eru vera yfir 4.000 ára gamlir. Í Timucuan Preserve má m.a. finna Kingsley Plantation (elsta Plantation innan ríkisins), Spanish Pond, og Fort Caroline. Fort Caroline er virki sem Frakkar reistu þegar þeir numu land á 16. öld, og þrátt fyrir að það sé ekki vitað nákvæmlega hvar það stóð, þá hefur því verið reistur minnisvarði, og búið er að setja upp sýnishorn af því hvernig talið er að það hafi litið út.

20190412_153440
Fort Caroline.

Jon, eiginmaður Diddu frænku minnar, er algjör snillingur í amerískum morgunverði. Eldri dóttir mín hefur þvílíka matarást á honum, finnst hann gera lang bestu egg sem um getur. Ef hún heyrir nafnið hans nefnt, þá talar hún um eggin hans!

20190413_122900
Datt í lukkupottinn – fékk ferskar gulrætur beint frá bónda með grasinu og öllu!

Þau hjónin hafa alltaf tekið sig til og gert ósvikinn amerískan morgunverð fyrir okkur þegar við komum. Egg, beikon, skinka, vöfflur, hlynsíróp, ferskur appelsínusafi og allt sem hugurinn girnist – eða nánast. Í þetta skiptið vorum við samt ekki á uppskerutíma appelsína, en þau áttu enn nokkrar blóðappelsínur frá vetrinum, svo við gerðum okkur alveg dásemdar blóðappelsínusafa.

20190413_102909
Dásemdar morgunverður.

Eftir morgunverðinn héldum við niður í miðbæinn og fórum á Riverside Arts Market. Það er lítill handverksmarkaður sem haldinn er undir einum brúarsporðinum við St. John’s River.

20190413_120001
Riverside Arts Market.

Eftir góða göngu um markaðinn héldum við í Sweet Pete’s, sem er sælgætisverslun á þremur hæðum. Þar er kaffihús, minjagripaverslun, veislusalur, framleiðslusalir og að sjálfsögðu risavaxin sælgætisverslun. Þeir framleiða karamellur, súkkulaði, allskonar sælgætispoppkorn o.fl. Auk þess bjóða þeir upp á ýmislegt innflutt sælgæti og eru með sérlega skemmtilega deild sem þeir kalla Retró.

 

20190413_130020
Sweet Pete’s.

Við skruppum líka með frænku minni og manninum hennar í eitt flóttaherbergi, hjá Breakout í Jacksonville. Breakout er keðja, og þá má finna víðsvegar um Bandaríkin. Við fórum í herbergi sem heitir Kidnapping, og höfðum mjög gaman af. Þau voru að prófa í fyrsta skipti og skemmtu sér konunglega.

crop-1280x720-000
Shipwreck Island Waterpark. Mynd fengin að láni hjá News4jax.com

Shipwreck Island er lítill en mjög skemmtilegur sundlaugargarður nálægt ströndinni. Þar er leiksvæði fyrir litla krakka, með fjölmörgum minni rennibrautum, öldulaug, svokallaðri Lazy River og alveg þónokkrum stærri rennibrautum. Þótt Íslendingunum þætti veðrið dásamlegt, þá þykir Flórídabúum ekkert sérlega hlýtt í apríl, og því voru alls ekki margir í garðinum – oftast var biðtíminn í stóru rennibrautirnar því aðeins nokkrar mínútur, og enginn í þær minni.

waterpark
Hluti af Shipwreck Island. Mynd fengin að láni hjá Tripadvisor.com.

Við drógum stelpurnar með okkur í tvær stærri rennibrautir, og þrátt fyrir að hjörtun væru lítil höfðu þær sérlega gaman af. Það endaði svo þannig að yngri dóttir okkar fór ein í aðra stóru rennibrautina og var ekkert smá sátt við það!

20190414_144752
Þvílíkar gellur á heimleið eftir dásamlegan dag í rennibrautunum.

Báðar voru rennibrautirnar með uppblásnum bátum, og í annarri þeirra endaði ferðin í Lazy River, þar sem maður flaut í makindum. Ég flaut nú kannski í fullmiklum makindum, en seinni part dagsins kom í ljós að ég hafði brunnið svo svakalega á handleggjum og bringu að mig verkjaði. Um kvöldið lá ég með kælihandklæði yfir handleggjunum og tók verkjalyf, en svona er nú bara lífið. Maður þarf að muna að setja á sig sólarvörn aftur og aftur í svona görðum, þótt það sé skýjað! Og heyrirðu það, Lína Rut!

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Í Shipwreck Island með krakkasvæðið í bakgrunni. (Eldri ekki ánægð með snertingu systur sinnar!)

Nágrannar frænku okkar eiga skjaldböku sem býr í garðinum. Meðan ég var inni að vorkenna mér og sleikja sólbrunann rölti frænka mín með stelpurnar að hitta nágrannana og skjaldbökuna. Þær meira að segja gáfu henni að borða, og fannst hún alveg frábær!

20190414_172202
Skjaldbakan stóra. Til viðmiðunar má sjá fæturna á 10 ára dóttur minni.

Það vill nú þannig til að eldri dóttir mín og Didda frænka eiga afmæli sama dag, en það var einmitt meðan við vorum úti. Hins vegar var frænka okkar á leiðinni til Íslands þann dag, svo við héldum upp á afmælið deginum fyrr.

Það hafði verið rætt að fara á ströndina, eða í mini golf – en hætt var við hvort tveggja þar sem mamman var eins og brunarústir, og bæði pabbinn og yngri systirin höfðu látið pínu lítið á sjá í sólinni í sundlaugargarðinum. Við ákváðum því að prófa að fara í leikjasalinn Dave and Buster’s, en það er salur sem er ætlaður eldri krökkum og fullorðnum. Við höfðum samt sem áður mjög gaman af, enda voru fáir í salnum og stelpurnar gengu bara í það sem þær vildu.

20190415_145016
Dave and Buster’s.

Um kvöldið fékk svo dóttirin að velja kvöldmat, og að sjálfsögðu var að pizza. Hún valdi Domino’s, og málsverðurinn heppnaðist bara vel.

Svo rann afmælisdagurinn sjálfur upp og þá var komið að kveðjustund. Stelpurnar áttu virkilega erfitt með að kveðja, enda vissu þær ekki hvað beið þeirra í Orlando!

20190416_113755

Ég skrapp í klippingu og litun, og eftir það héldum við á Chuck E. Cheese’s í hádegismat, en það var stóra ósk afmælisbarnsins. Hins vegar skildu þær ekkert í af hverju við fullorðna fólkið vildum komast snemma af stað til Orlando…

20190423_191916
Húsið okkar og bílaflotinn.

Við höfðum í samráði við mág minn og svilkonu leigt hús með sundlaug í Orlando, en þau eiga stelpur á svipuðum aldri og dætur okkar, og eru þær frænkur mjög góðar vinkonur. Um þetta höfðu þær ekki hugmynd, svo þegar við komum til Orlando og lögðum bílnum fyrir utan eitthvert hús leist þeim ekki meira en svo á blikuna að þær vildu helst bara hætta við. Við þurftum nánast að draga þær út úr bílnum, og þær fengust ekki til að standa nær dyrunum en í svona tveggja metra fjarlægð eftir að við bönkuðum.

Þær voru gersamlega orðlausar þegar þær sáu hverjir komu til dyra, en stuttu seinna voru allir hæstánægðir og yfir sig spenntir yfir vikunni sem í vændum var.

20190416_180401
Hamingjusamar frænkur!

 

Bucket list, Ferðalög

Flórída 2019 – 1. kafli

20190404_164548

Þriggja vikna ferðalag – þrír póstar! Vonandi tekst mér að halda mig innan þess ramma!

Við eiginmaðurinn héldum í okkar fimmtu Flórídaferð á dögunum, þar sem við dvöldum í þrjár vikur. Við erum svo heppin að eiga ættingja þarna úti, þar sem við fáum að dvelja, og þar er sko dekrað við okkur og við njótum lífsins í botn!

20190411_092357

Við flugum út 4. apríl, en allar okkar ameríkuferðir hefjast með því að það er vaknað mjög snemma og keyrt suður til Keflavíkur samdægurs. Það er því langur dagur áður en höfuðið leggst á koddann hinum megin við tjörnina.

Þetta er í annað skiptið sem við tökum dætur okkar með okkur til Ameríku eftir að þær urðu stálpaðar, en eldri dóttir okkar flaut með þegar hún var um eins og hálfs árs.

20190405_021543
Bugun eftir langan dag. Beðið eftir bílaleigubílnum á Orlandoflugvelli.

Við höfum alltaf leigt okkur bíl á Flórída, en eins og flestir flandrarar vita getur það kostað skildinginn að leigja sér bíl. Ég er með þrjú sparnaðarráð (sem einskorðast að sjálfsögðu ekki aðeins við Flórída):

  • Keyptu þér GPS tæki. Það eru til fínustu Garmin GPS tæki í Walmart á ca $100 og upp. Leiga á GPS tæki fyrir hvern dag er oft í kringum $15 – þannig að borgar sig upp á viku, og þú átt það fyrir næstu ferð og næstu ferð og næstu ferð… Við keyptum okkur árið 2016 Garmin tæki fyrir ca. $150 með fríum kortauppfærslum, og höfum notað það ca 35 daga – að leigja tæki í þann tíma væri um $525.
  • Ef þú ert með krakka sem eru orðnir stálpaðir, skaltu frekar kaupa pullu undir þau í bílinn en að leigja hana. Leigan er $8-15 dollarar á dag, en pullur fást fyrir ca $25 dollara í Walmart. Það þarf því ekki langa leigu til að þetta borgi sig. Keyrslan frá flugvellinum í Orlando og í næstu Walmart verslun er nokkrar mínútur. Við höfum svo bara skilið pullurnar eftir í bílnum, ætli þeir nýti sér það ekki bara og leigi næsta manni?
  • Mér hefur oftast gefist best að nota samanburðarsíður eins og t.d. rentalcars.com, og fara svo beint á heimasíðu þeirra fyrirtækja sem bjóða best og bóka beint þar.
  • Og að sjálfsögðu aldrei að leigja bíl (eða kaupa neitt á netinu á amerískri vefsíðu) nema leita fyrst að afsláttarkóða. Google virkar vel til þess, síður eins og Retailmenot.com eru oft með góða afslætti, og svo er viðbót í Google Chrome vafrann sem heitir Honey og leitar sjálfkrafa að afsláttarkóðum fyrir þig. Þar safnarðu líka upp fyrir gjafakortum t.d. á Amazon í leiðinni.

…en aftur að ferðasögunni!

Þegar við vorum komin út af flugvallarsvæðinu var því ferðinni heitið beint í Walmart, þar sem við keyptum okkur pullur fyrir stelpurnar, hressingu og vatn.

Hampton Inn & Suites Orlando Airport at Gateway Village, Orlando, Herbergi - 2 meðalstór tvíbreið rúm - Reyklaust, Herbergi
Mynd fengin að láni hjá Hotels.com

Við áttum bókaða gistingu á Hampton inn&suites Orlando Airport at Gateway Village í eina nótt áður en við héldum til Jacksonville. Ég nota nánast undantekningarlaust Hotels.com til að bóka gistingu, en eftir 10 gistinætur færðu eina nótt fría á hóteli að eigin vali og ef herbergið kostar meira en meðalverð náttanna 10 sem þú greiddir fyrir, þá greiðirðu mismuninn. Við gistum því þarna gegn því að greiða bara skattana af herberginu, um $20. Það er alltaf gleðilegt!

Við höfum oft gist á Hampton Inn, þar er maður býsna öruggur um að fá snyrtilegt herbergi með góðum rúmum. Morgunmaturinn aftur á móti er ekkert voðalega merkilegur, en matur eigi að síður – og ég funkera ekki vel ef ég fæ ekki að borða mjög fljótlega eftir að ég fer á fætur.

20190411_092402
Gengið með hundinn.

Eins og nánast alltaf þegar við förum til Bandaríkjanna vöknuðum við mjög snemma fyrsta morguninn. Það var mjög skýjað og dimmt yfir þegar við fórum á fætur, og mjög fljótlega eftir það byrjuðu þrumur, eldingar og steypiregn. Það var því útséð um tubingferðina okkar sem höfðum áformað á leiðinni til Jacksonville.

IMG_20190404_091022_199
Pissustopp í Varmahlíð

Við eyddum því deginum í rólegheitum, skruppum aðeins í Outlet og dúlluðum okkur. Svo keyrðum við seinni partinn uppeftir til Jacksonville.

Fyrsta vikan okkar fór að mestu bara í að vera í rólegheitum og njóta. Hitinn var hátt í 30° – svo það var varla hægt að hafa það betra.

20190405_133030
Já, ég held að Eyrún sé upprennandi lífsstílsbloggari eða fyrirsæta!

Að sjálfsögðu hófst fríið hjá mér á því að fara í nudd, andlitsbað, fótsnyrtingu og vax hjá Mona Lisa Day Spa. Það er dásamlegt að meðferðin hefst með klukkutíma þar sem þú hefur aðgang að heitum potti og gufubaði og þess háttar – en ég var bara hamingjusöm að fá klukkutíma í friði til að lesa. Allar meðferðirnar voru dásamlegar, og ég var alveg endurnærð í lok dags.

20190406_100504
Slakað á Mona Lisa Day Spa.

Stelpurnar höfðu ekki beðið eftir neinu meira en Chuck E. Cheese’s, bæði þá að borða þar og að leika sér. Við vorum því ekki búin að vera tiltakanlega lengi í henni Ameríkunni þegar það var haldið þangað – og enn og aftur, afsláttarmiðar. Það eru margir afsláttarmiðar á heimasíðunni hjá fyrirtækinu, sem veita betri kjör en annars stendur til boða á staðnum. 

Við fórum í stuttan göngutúr að Spanish Pond í Timucuan Preserve, mikið var það fallegt og kyrrlátt. Stelpurnar voru þó ekki par-hrifnar af því þegar þær voru beðnar að hafa hjá sér augun þar sem það væru Alligatorar allstaðar á Flórída…

Við skruppum einn dagpart á ströndina, Neptune Beach. Það var nú ekki sérlega fjölmennt þar, enda finnst Flórídabúum ekki mjög hlýtt í apríl, og Atlantshafsmegin hefur sjórinn ekki náð að hlýna nóg. Við hinsvegar vorum hin lukkulegustu, þetta var bara alveg akkúrat fyrir hvítu Íslendingana, og heppilegt fyrir skjannahvíta húðina að það var skýjað. Sjórinn var vissulega ekki hlýr, en eftir að hafa farið út í hann í fyrsta skipti fannst þér hann heldur ekkert kaldur. Við dvöldumst að sjálfsögðu á ströndinni þar til hungrið rak okkur heim!

Við litum í minigolf og fórum í trampólíngarð. Velocity Airsports var risavaxinn trampólíngarður með fjórum svampgryfjum, þrautabraut og fleiru. Við hoppuðum smá, en svo vorum við nánast allan tímann í svampgryfjunum, því það var langt um skemmtilegast. Það var svampgryfja með þverslá til að æfa jafnvægið, en ekkert okkar átti séns í að ganga eftir henni! En mikill sviti og mikið hlegið, frábær fjölskylduklukkutími – og það var alveg frábært að við vorum þau einu á staðnum!

Við eiginmaðurinn skildum börnin eftir í pössun hjá frænku þeirra og keyrðum til St. Augustine þar sem við áttum bókað í Ziplineævintýri. Ferðin með Castaway Canopy Zipline Adventure var alveg frábær – og við vorum bara tvö bókuð, þannig við vorum með 2 leiðsögumenn (og þriðji var með okkur í þjálfun) fyrir okkur tvö! Brautin skiptist í 7 Ziplines sem fara milli trjáa yfir sædýragarð. Ég get nú ekki sagt með vissu hvað brautin er í mikilli hæð, en ég giska á að við séum að tala um milli 20 og 30 metra.

Maðurinn minn var nú ekkert sérlega æstur þegar ég lagði þetta til við hann, en hann lét tilleiðast. Þegar við hinsvegar vorum komin á staðinn var hann ekkert smá glaður og sáttur, en ég hef aldrei í lífinu svitnað jafn mikið og það af stressi og hræðslu! En þetta var alveg sjúklega gaman, og hópstjórnarnir voru frábærir.

Á heimasíðu fyrirtækisins má sjá smá yfirlit yfir brautirnar, en fyrst klifrar maður upp risavaxið tré, þaðan sem maður Zipline-ar yfir götuna og bílastæðið yfir í næsta tré. Þaðan gengur maður eftir göngubrú – ef brú skyldi kalla – upp á næstu stöð. Svona gengur þetta koll af kolli, alltaf á milli trjáa. Í eitt skiptið yfir það sem þeir sögðu okkur að væri hákarlabúrið í sædýragarðinum, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það – það var tjaldhiminn yfir, svo við sáum ekki í búrið. Í annað skipti yfir tjörn.

FB_IMG_1555211879771
Sérlega fín í Zipline-útbúnaðnum.

Því miður mátti ekki vera með neitt lauslegt með sér þarna uppi, þar sem það gæti annars vegar skapað hættu fyrir fólk á jörðu niðri og hins vegar geturðu bara kvatt þann hlut sem þú missir úr þessari hæð. Eins og ég hefði viljað eiga myndir af þessu, þá var það því miður ekki hægt.

Því miður urðu þeir fyrir því leiðinlega óhappi að ein af þremur stóru eikunum sem báru brautina uppi drapst, og það varð að fjarlægja hana ekki löngu eftir heimsókn okkar. Fyrirtækið hafði því ekki aðra kosti en að loka í bili.

En það er nauðsynlegt að ögra sér, og þetta var frábær upplifun með eiginmanninum! Og nú er það bara á áætlun að skella sér í Zipline í Vík í Mýrdal!

Lífið, Skriftir

Lína og sóðakjafturinn – Gamansaga frá 2015

Einn dag var ég inni í eldhúsinu að sýsla, bara eins og gengur og gerist hjá húsmæðrum almennt (forðist að draga af því ályktanir um hæfni mína sem húsmóður). Ég var nýbúin að tína úr uppþvottavélinni og var að raða í hana aftur, þegar ég heyri innan úr herbergi dóttur minnar yngri hinn hroðalegasta munnsöfnuð og formælingar, en hún var þar að leik.

Ég er í eðli mínu siðprúð kona, vönd að virðingu minni. Ég stóð í þeirri trú að okkur hefði tekist alveg sæmilega upp með uppeldi dætranna hingað til, þær virðast a.m.k. kurteisar og ágætlega upp aldar út á við.

Þið sjáið örugglega fyrir ykkur líkamstjáningu mína – ég stóð bogin yfir uppþvottavélinni þegar þetta berst mér til eyrna. Ég stífna upp, það réttist svo úr bakinu að það verður óeðlilega beint, augun kiprast saman svo aðeins sér út um litlar illskulegar rifur á augnlokunum, varirnar verða þunnar og litlausar þegar ég bít saman kjálkunum og pressa þær saman. Ekki ósvipað og ímynda mér Violet Crowley í Downton Abbey ef hún yrði hressilega móðguð.

Og þá heyrast formælingarnar aftur, en af munni yngri dótturinnar hljóma greinilega orðin „Dick Fuck!“ – Yngri dóttir mín er fjögurra ára, og ég skil ekki hvaðan hún hefur þennan munnsöfnuð.

Violet

Ég stikaði ákveðnum skrefum að herbergi hennar, og geri henni ljóst að svona munnsöfnuð skuli ekki viðhafa undir nokkrum kringumstæðum, og maður eigi yfir höfuð ekki að láta falla af vörum sínum orð sem maður skilur ekki. Dóttirin játar því, og heldur leiknum áfram.

Nokkrum dögum síðar er dóttirin að leika sér í spjaldtölvunni sinni og þá heyrast frá henni sömu orðin aftur – ég stekk til, hvað í ósköpunum er viðkvæm sálin að skoða í spjaldtölvunni? Þarna var þó komin eðlileg útskýring á munnsöfnuðinum, hún hlyti nú að hafa rekist á eitthvað á YouTube sem væri ekki við hennar hæfi.

Ekki var það þó svo, að stúlkukindin væri að horfa á YouTube eða nokkuð annað myndskeið. Hún var einfaldlega að opna litabókarleik, en meðan hann hleður sig hljómaði í eyrum barnsins heiti framleiðandans; Pink Fong.

Pink fong

 

Lífið

Haustmyndataka með stelpurnar

Vinkona mín, hún Guðrún, hefur gaman af ljósmyndun og hún hefur oftar en einu sinni myndað dætur mínar. Í haust tókum við okkur til og mynduðum þær, þar sem það er orðið langt síðan síðast. Út úr því komu jólagjafirnar fyrir ömmurnar og afana.

Ég læt myndirnar bara tala sínu máli.

IMG_9318

IMG_9293

IMG_9267

IMG_9252

IMG_9242

IMG_9238

IMG_9187

IMG_9196

IMG_9198

IMG_9201

IMG_9215

IMG_9226

IMG_9178-2

IMG_9156

Fjörðurinn var gullfallegur þennan kalda fallega haustdag, sem gerir myndirnar enn flottari. En það verður ekki af mér tekið að dætur mínar eru fallegar!

Geðheilsa, Lífið

Geðheilsa: Eru jólin erfið?

Einu sinni var ég algjört jólabarn. Ég vildi helst hafa fleiri skreytingar en komust fyrir með góðu móti, og ég bakaði allan desember. Ég elskaði að kaupa jólagjafir, reyndi að setja mig í spor hvers og eins og lagði gríðarlega hugsun í að velja rétta gjöf fyrir hvern viðtakanda. En það er ekki svoleiðis lengur, núna er desember oft virkilega erfiður fyrir mig, ég er stressuð og kem engu í verk.

Pixabay

Þessi aðventa hefur verið betri en oft áður, en ég ætla aðeins að nefna það sem hefur reynst mér best, í þeirri von að það geti mögulega nýst öðrum.

Ég hef áttað mig á því í gegnum árin að það eru jólagjafirnar sem helst valda mér kvíða í desember. Það hefur reynst mér vel að byrja snemma: síðustu tvö ár hef ég svo gott sem lokið jólagjafainnkaupum í október, og það léttir mikið á mér. Þá get ég notið þess betur að vera til í desember.

woman_sipping_chocolate_reading_book_fireplace.jpg.653x0_q80_crop-smart

Gerðu þér grein fyrir að þessi árstíð er erfið, viðurkenndu það fyrir þér og sættu þig við það. Það þarf ekki að gera allt sem mamma eða amma gerðu alltaf, og alls ekki allt sem þú sérð í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum. Jólin velta ekki á aðventuljósinu eða aðventukransinum. Í mörg ár gerði ég engan aðventukrans, en í fyrra gerðu stelpurnar athugasemd við það. Í ár gerði eldri dóttir mín kransinn, það voru verðlaunin hennar fyrir að vera dugleg að æfa sig á píanóið.

20181201_143410

Það er dásamlegt að eiga vin sem skilur hvað þú ert að ganga í gegnum. Opnaðu þig, ef þú þekkir engan þá má oft finna einhvern í svipuðum sporum í hópum á facebook, t.d. er oftast hægt að finna fólk sem er tilbúið í að spjalla á Geðsjúk.

Ekki ætla þér meira en þú getur, þú þekkir sjálfa þig best. Þú breytist ekki allt í einu í ofurkonu, og það er allt í lagi. Það þurfa ekki að vera 10 sortir af smákökum og búið að þrífa ofninn með eyrnapinna. Verða jólin í alvöru minna gleðileg þótt ofninn sé óhreinn? Í ár gerði ég lista yfir allar kökurnar sem mig langaði að baka, og ég myndi baka ef ég væri sú sama og ég var fyrir 10 árum. Ég merkti við þær 3 sortir sem mér fannst mikilvægast að gera, og svo kemur bara í ljós – ef mig langar að baka meira þegar þær eru klárar þá bara geri ég það. Ef ekki, þá er það bara allt í lagi!

cinnamon-stars-2991174_960_720

Haltu áfram að sinna sjálfri þér þótt það sé margt sem þurfi að gera. Gefðu þér tíma í að sinna einhverju sem nærir þig, og mundu að borða, drekka og hvíla þig.

Jólin eru ekki ónýt þótt þú komir ekki öllu í verk sem þú gerðir í fyrra eða fyrir 5 árum eða 10 árum. Við breytumst og þroskumst, og förum í gegnum mismunandi tímabil í lífinu. Taktu þessu af æðruleysi og mundu að setja sjálfa þig í fyrsta sæti.

Þú þarft ekki að vera með samverudagatal. Samverudagatöl byrjuðu að poppa upp fyrir nokkrum árum síðan, og samfélagsmiðlar láta þetta allt líta út fyrir að vera svo dásamlegt og skemmtilegt. En fyrir suma er þetta bara aukið stress og álag. Þú þarft ekki að vera með samverudagatal, njóttu bara stundanna þegar þær gefast.

20171225_170534
Kötturinn búinn að klifra aðeins of mikið í jólatrénu.

Þú þarft ekki að segja já við öllu. Það er alltaf svo mikið um að vera á aðventunni, það eru sýningar eða foreldratímar í öllum frístundum barnanna, jólaföndur í leikskólanum/skólanum, jólahlaðborð, jólaboð, saumó vill gera eitthvað, og ræktarhópurinn o.fl. o.fl. Fáðu aðstoð, kannski geta ömmur eða afar mætt á einhverja viðburðina, og þú þarft ekki að mæta á allt sem er í boði, þó það sé gott að mæta í eitthvað.

Það þarf ekki allt að vera fullkomið. Í haust skrifaði ég lista yfir allt sem ég myndi vilja gera fyrir jólin. Ef ég man rétt spannaði listinn rúmar tvær A5 blaðsíður. Svo forgangsraðaði ég. Það skiptir mig máli að það sé hreint á rúmum á aðfangadagskvöld, en það má alveg vera smá ryk í bókahillunni og það breytir voða litlu hvort gólfin séu skúruð sama dag.

20161224_112854
Sætu stelpurnar mínar eftir jólabaðið. En þarna var ég búin að gefast upp á að laga jólaseríuna í glugganum eftir köttinn.

Hefðir mega breytast. Við hjónin erum bæði alin upp við það að jólatréð sé sett upp á Þorláksmessukvöld. Þrátt fyrir að það sé farið að tíðkast að setja jólatréð upp miklu fyrr, höfum við viljað halda þessari hefð. En síðustu ár hefur það skapað svo mikið stress, þar sem það er skötuveisla á Þorláksmessukvöld, oft þarf að klára hitt og þetta, jafnvel pakka einhverjum gjöfum eða koma einhverju á sinn stað – í ár ætlum við að færa jólatréð til tuttugasta og annars desember, þá er hægt að njóta þess að dúlla við það, en ekki drífa það upp í stresskasti.

Mundu að samfélagsmiðlar sýna bara það sem fólk vill að þú sjáir. Enginn er fullkominn eða lifir hnökralausu lífi. Allir eru að eiga við sitt, alveg eins og þú. Finndu hópinn Family living – the true story – Iceland á Facebook, og sjáðu að þú ert ekki ein!

all_cosyhygge_shutterstock

Mundu að jólin eru til að njóta. Þú þarft ekki að vera á fullu spani alla daga. Reyndu að hægja á þér. Þú þarft ekki að kaupa hitt og þetta, þú þarft bara að reyna að hægja á þér og njóta. Horfðu á snjóinn, sjáðu hvað hann er fallegur. Lærðu að meta jólaljósin upp á nýtt. Myrkrið í desember gerir okkur kleift að sjá stjörnurnar betur og norðurljósin.

Þótt þú sért döpur, syrgir eða sért niðurdregin þá máttu ekki nota jólin til að berja þig niður. Mundu að þau eru tími til að njóta, þú nýtur á þínum forsendum eins og aðstæður þínar eru núna. Ekki eins og aðstæður annarra eru eða eins og þínar voru fyrir einhverjum árum síðan. Sú sem þú ert í dag, á rétt til að njóta og slaka á um jólin líka.

Taktu þér pásu frá þessu öllu ef þú þarft þess, það er allt í lagi. Þú þarft ekki að þykjast vera ofur hamingjusöm eða glöð, reyndu bara að finna frið og ró í hjartanu, það er það sem jólin snúast um.

da5e4d2763a911fb3324970d2160a5e2-3887

Ef það er eitthvað sérstakt sem eykur álag, þá þarftu ekki að gera það. Ef jólaboðið á jóladag er of mikið fyrir þig þessi jólin, láttu þá bara vita að þú komir ekki. Vissulega eiga örugglega einhverjir erfitt með að skilja það, og jafnvel sárnar einhverjum, en heilsan þín gengur fyrir – er það ekki ?

Í lok hvers dags skaltu gera eitthvað sem þú nýtur að gera, hvort sem það er þáttur á Netflix, bolli af heitu súkkulaði eða kafli í bók. Jólin eru til að njóta!

Við skulum segja jólastressinu stríð á hendur, breytum því í jólahuggulegheit.

received_10154907549397407
Jólakortið síðan í fyrra – var sett á Facebook. Er að hugsa um að líma bara yfir nýtt heimilisfang í ár!
Lífið

Hvers vegna valdi ég heimafæðingu?

Fyrirvari: pósturinn er skrifaður að hluta eftir minni, auk þess sem ég er ekki menntaður heilbrigðisstarfsmaður. Hér lýsi ég ástæðum fyrir vali mínu, og það er ekki ætlunin að móðga neinn. Sé eitthvað í þessum pistli sett fram á særandi hátt hefur það verið óvart, þar sem tilgangurinn er ekki að særa eða niðurlægja aðrar mæður né upphefja sjálfa mig.

quote-we-are-the-only-species-of-mammal-that-doubts-our-ability-to-give-birth-it-s-profitable-ina-may-gaskin-92-72-70

Mörgum þótti undarlegt þegar ég valdi heimafæðingu þegar ég gekk með Eyrúnu Önju. Ég ákvað að segja ekki frá því nema nánasta fólkinu mínu mjög seint á meðgöngunni, ég nennti ekki að hlusta á rakalaus rök og fólk með hræðsluáróður. Ég var búin að kynna mér þetta afskaplega vel, og vissi að þetta var rétt fyrir mig.

IMG_0254
Fæðingarlaugin í stofunni, bíður notkunar. Rakel Yrsa búin að útbúa sér hús undir henni.

Eins og ég sagði þótti mörgum þetta undarlegt. Sumir spurðu í hvert skipti sem ég hitti þá hvort ég væri ekki hætt við? Nei, ég var ekki hætt við.

En hvers vegna valdi ég heimafæðingu? Stutta svarið er að þegar ég var búin að lesa mér til um fæðingar, bæði á sjúkrahúsum og heima þá fannst mér öll rök hneigjast að heimafæðingu. Og það gleður mig í hvert skipti sem ég heyri af konum sem ég þekki sem velja heimafæðingar, og að þeim fari fjölgandi – því þetta er dásamleg upplifun.

En núna, sjö árum seinna, ætla ég að varpa ljósi á það sem mér þótti mikilvægast, og þau rök sem vógu hvað þyngst.

69da24eb05f6c4ba79f1161a51f8c182--birth-quotes-quotes-positive

Eyrún Anja er yngri dóttir mín, og hún kom í heiminn rúmum 2 árum eftir að ég fæddi eldri dóttur okkar, Rakel Yrsu. Það kom mér á óvart þegar ég átti Rakel Yrsu hvað þetta reyndist auðvelt – það er kannski ekki rétt að segja auðvelt, en miðað við allt sem ég hafði lesið og séð og heyrt, þá virtist þetta eiga að vera alveg hræðilegt. En þegar á hólminn var komið fór ég ekki upp á sjúkrahús fyrr en ég var komin með tæpa 10 í útvíkkun og þrátt fyrir rúmlega klukkustundar rembing, þá beið ég alltaf eftir þessum „hræðilegu, ólýsanlegu“ verkjum sem ég hélt ég ætti að ganga í gegnum. Ég var svo hissa! Fyrirfram hafði ég haldið að ég yrði komin allt of snemma upp á sjúkrahús, komin með glaðloft, nálastungur, mænudeyfingu og allt sem byðist löngu áður en barnið kæmi!

images

En semsagt; að sjálfsögðu var eitt af því sem hafði hvað mest áhrif á ákvörðun mína að eiga heima var hve auðveldlega fæðing eldri dótturinnar gekk.

Að því sögðu, þá verður ekki nægileg áhersla lögð á að það tekur engin heimafæðingaljósmóðir að sér verðandi móður til heimafæðingar ef hún er ekki hraust, heilbrigð og í eðlilegri meðgöngu. Ef eitthvað kemur upp á meðgöngunni eða meðgangan flokkast sem áhættumeðganga er heimafæðing ekki valkostur.

IMG_0257
Laugin plöstuð.

Ég hafði lesið töluvert um heimafæðingar á spjallþráðunum á Draumabörnum, og séð að orðið sem fór af báðum ljósunum sem tóku að sér heimafæðingar á Akureyri var mjög gott.

Þrátt fyrir að hafa haft það ágætt í sængurlegunni á fæðingadeildinni með eldri dótturina, þá langaði mig alltaf heim. Mér fannst óþægilegt að vera ekki á mínu svæði, að vera í ókunnum aðstæðum. En þegar kemur að heimafæðingu er maður á sínu eigin heimili, stjórnar sjálfur hvar, hvenær og hvað maður borðar, hjúfrar sig í sínu eigin rúmi með litla hnoðrann og það stormar enginn óboðinn inn til þín.

quote-if-we-want-to-find-safe-alternatives-to-obstetrics-we-must-rediscover-midwifery-to-rediscover-michel-odent-66-42-88

Auk þess getur hægt á fæðingu við raskið við að koma sér á sjúkrahúsið, og gjarnan hægist á fæðingu þegar komið er í óþekktar aðstæður – var eitt af fjölmarga sem ég las á meðgöngunni. Við erum þegar allt kemur til alls bara dýr, eins og hin dýrin, og undirmeðvitundin sig ekki örugga getur heilinn sent líkamanum boð um það. Við finnum þegar allt kemur til alls fyrir mestu öryggi á okkar eigin heimili.

IMG_0495
Komin í laugina!

Sjúkrahús eru gróðrarstía fyrir sýkla. Þar er veiku og deyjandi fólki safnað saman. Ungbörn eru sérlega viðkvæm fyrir sýklum, en heima hjá okkur eru bara okkar eigin sýklar sem við erum ónæm fyrir. Engir utanaðkomandi sýklar frá öðru fólki.

Það er líka mikið öryggi fólgið í því að þekkja ljósmóðurina sína áður en komið er í fæðingu. Ég ákvað (að mig minnir) að fæða heima á 27. viku, og eftir það sinnti ljósmóðirin, sem myndir taka á móti barninu, mér alfarið. Við höfðum því spjallað og kynnst í 14 vikur þegar Eyrúnu loks þóknaðist að mæta. Við höfðum rætt í þaula fyrri fæðinguna, og hvernig ég sæi fyrir mér komandi fæðingu, t.a.m. með tilliti til verkjastillingar.

photo

Í heimafæðingu eru alltaf tvær ljósmæður, sem hjálpast að. Ég vissi að við fæðinguna yrði enginn nema ég, maðurinn minn, og ljósurnar tvær. Ég hafði óskað eftir að ljósan sem tók á móti eldri dóttur minni yrði aðstoðarljósa í fæðingunni, en hún var því miður á vakt á sjúkrahúsinu þegar til kom. Sú sem var aðstoðarljósmóðir hafði aftur á móti sinnt mér svolítið í fyrri sængurlegunni, svo hún var ekki óþekkt andlit.

2655775-Ina-May-Gaskin-Quote-Let-your-monkey-do-it

Eitt af því sem gerir heimafæðingar svo frábærar er að það er ljósmóðir að fylgjast með þér allan tímann. Hún þarf ekki að sinna öðrum konum í fæðingu, svara símtölum, hjálpa við brjóstagjöf o.s.frv. heldur er öll hennar athygli á þér.

Ljósmæður eru sérstaklega vel menntaðar og þær geta oftast sagt til með góðum fyrirvara ef upp eru að koma vandræði í fæðingu. Telji þær eitthvað ekki vera eins og það á að vera, þá ráðleggja þær verðandi foreldrum að fara á spítala. Það eru engir sénsar teknir.

IMG_0508
Litlan mætt!

Akureyri er lítill bær og oft sagt í gríni (en þó alvöru) að maður sé aldrei lengur en 7 mínútur milli staða innan bæjarins. Það miðar við eðlilegan ökuhraða. Ef eitthvað kæmi upp á þá væri maður aldrei lengur en 5 mínútur á sjúkrahúsið, og tvær ljósmæður með manni allan tímann.

Hvað las ég og horfði á til að búa mig undir fæðinguna?

Bækur m.a.
Ina May’s Guide to Childbirth e. Inu May Gaskin
Spiritual Midwifery e. Inu May Gaskin
Birth Matters e. Inu May Gaskin
The Official Lamaze Guide: For a Healthy Pregnancy and Birth e. Judith Lothian o.fl.
Birth and Breastfeeding e. Michel Odent
Ina May’s Guide to Breastfeeding e. Inu May Gaskin

Myndir m.a.
Orgasmic Birth
Birth Into Being
Babies
The Business of Being Born
The Great Sperm Race
Frumgrátur (le Prima Crie)

e758afeb26ed9c25fdf513c2ccf92592

Ferðalög, Lífið

Armbönd fyrir krakka í utanlandsferðum

Við höfum þvælst svolítið með stelpurnar síðustu tvö árin, en á tveimur árum höfum við farið með þær erlendis þrisvar sinnum, alls í rúmar 4 vikur.

Í fyrsta skipti gripum við svona „ stökktu“ tilboð til Benidorm yfir þrítugsafmælið mitt, svo ég hugsaði ekkert út í þetta; en í seinni tvö skiptin höfðum við vit á því: að merkja börnin ef þau skyldu skiljast við okkur.

img_20180727_111259_9461829639566.jpg

Við keyptum okkur í fyrrasumar armbönd úr plasti sem maður skrifar á með penna sem festist. Þau dugðu ágætlega, en stelpurnar voru frekar þreyttar á þeim og gjarnar á að taka þau af. Lásinn á þeim var úr plasti og auðvelt að taka þau af, en þau voru samt mikið notuð í fyrri ferðinni í fyrra.

Í seinni ferðinni, þá voru þau lítið notuð, og lásinn á öðru þeirra gaf sig.

Þannig að; þegar ég rakst á sílíkon armbönd með stálplötu þar sem upplýsingarnar eru grafnar í, þá stökk ég til.

img_20180730_102329622498087.jpg

Ég borgaði fyrir þau rétt um 2.000 krónur, og svo rúmar 700 þegar ég sótti þau á pósthúsið. Maður ræður textanum alfarið sjálfur, svo gott er að taka fram ofnæmi eða alvarleg veikindi, séu þau til staðar.

img_20180730_1026451194890899.jpg

Ég hafði nöfnin þeirra, símanúmer okkar foreldranna og svo að þær tali íslensku. Hugsunin á bak við það er að ef eitthvað gerist sem gerir það að verkum að við pabbi þeirra verðum ekki til staðar til að tala fyrir þær, þá er einfaldara fyrir yfirvöld að finna túlk, ef þeir vita hvaða tungumál þetta er.

img_20180730_1025411638878505.jpg

Armböndin voru í boði í sex litum, Rakel valdi sér svart en Eyrún bleikt. Auk þess var hægt að fá fjólublátt, blátt, rautt og gult. Eins og sjá má á myndinni er lásinn mjög veglegur.

img_20180730_102457537018960.jpg

Þau koma í einni stærð, en maður klippir sílíkonólina bara til í hæfilega lengd. Lásinn er með klemmum, svo það er auðvelt að losa hann af ólinni og festa hann svo aftur þegar maður er búinn að klippa ólina í rétta lengd. Plötuna með merkingunum má svo bara færa til á réttan stað á ólinni.

img_20180730_102415971898669.jpg

Ég er afskaplega hrifin af þessum armböndum, og hlakka til að nota þau á Flórída í vor. Stelpurnar voru með þau heilan dag um daginn og fannst þau virkilega flott og þægileg, og vildu helst ekki að ég tæki þau og geymdi. En mamma ræður – svo nú liggja þau hjá Evrópsku sjúkratryggingakortunum þeirra og vegabréfunum, og bíða eftir næstu ferð!

Armböndin fengum við hér.