Ferðalög

Flórída 2019 – 3. kafli: í húsi í Orlando

Það var á tíunda afmælisdegi Rakelar Yrsu að við bönkuðum uppá í einhverju húsi í Orlando og þeim systrum leist nú ekki á blikuna. Þegar frænkur þeirra komu til dyra voru þær gersamlega orðlausar, en það tók nú stutta stund að átta sig á því að þetta yrði geggjuð vika! Og svo var sundlaug við húsið okkar!

Um kvöldið fórum við á Applebee’s í afmæliskvöldverð, og þar var afmælisbarninu færður ís og sungið fyrir hana. Hún varð alveg sérlega vandræðalegt þegar það var sungið fyrir hana, en eftir á þykir henni mjög vænt um minninguna.

Þær frænkur pöruðu sig að sjálfsögðu saman í herbergi eftir aldri og vinskap, og það gekk með eindæmum vel – þótt þessir næstum-unglingar sem við eigum hafi stundum átt erfitt með að sofna fyrir blaðrinu í sjálfum sér!

Það þurfti að sjálfsögðu að fara að versla inn, en meðan stelpurnar áttuðu sig á hlutunum og komu sér fyrir sátum við fullorðnu og skoðuðum verslanir í nágrenninu. Samkvæmt GoogleMaps var mjög stutt frá að finna Super-Walmart, en á Google mátti finna umsagnir um verslunina, sem voru nú alls ekki góðar. Maður finnur nú venjulega engar umsagnir um Walmart upp á 5 stjörnur, en þarna var ein umsögn sem sagði að þessi búð væri hræðilegasta Walmartbúðin, hún væri eins og svartur föstudagur á hverjum degi. Við hlógum.

20190422_152603
Örlítil miðdegisbugun í skemmtigarði.

Við hefðum betur sleppt því. Maðurinn sem skrifaði þessa umsögn um verslunina var sko ekki að ýkja. Það var svo gersamlega stappað í versluninni, að það var varla hægt að tala saman! Raðirnar náðu lengst fram í búð, og það var bara maður við mann allan tímann sem maður var þarna inni. Þangað sórum við að fara aldrei aftur! (Sem okkur reyndar tókst ekki alveg að standa við, en við kusum alltaf frekar næstu Walmartbúð, þótt keyrslan væri ca. 10 mínútum lengri)

Fyrsta daginn saman fórum við í Aquapark úti á litlu vatni hjá Orlando Watersports Complex. Orlando Watersports Complex er með mjög flotta aðstöðu fyrir Wakeboarding / sjóskíði, paddleboarding o.fl. Þeir bjóða líka upp á kennslu og námskeið. Við hinsvegar festum á okkur björgunarvesti og héldum út í vatnið…

Aquaparkið er uppblásin þrautabraut úti á vatninu, svipuð og risa hoppukastalaþrautabraut. Það þarf að synda út að brautinni, sem er allt í góðu – nema þegar þú eða brautin er blaut er hún fluuughál! Þeir fullvissuðu okkur um að það væru ekki krókódílar eða alligatorar í vatninu, en það voru vissulega fiskar!

Við flugum ótal ferðir út í vatnið, en það var bara hlýtt og ekkert að því að slaka þar á í björgunarvestunum. Eins og gengur var fólk mis áhættusækið, sumir vildu frekar slaka í sólinni, aðrir duttu svo oft út í að það verður ekki talið á fingrunum og sennilega ekki þótt þú bætir við tánum!

20190422_102640
„Taking it all in“ – eins og Bandaríkjamaðurinn myndi segja.

Um kvöldið skildum við hjónin stelpurnar eftir hjá ferðafélögunum og drifum okkur í Escape Room. Í þetta skiptið fórum við til Escapology, í herbergi sem kallað er Budapest Express, en þar er verkefnið að komast að því hver farþeganna myrti viðskiptajöfur sem var um borð í lestinni. Herbergið var mjög flott, og staðurinn allur, og okkur langaði mikið í fleiri herbergi hjá fyrirtækinu. Escapology er franchise fyrirtæki, svo það má finna víðsvegar um Bandaríkin.

bf67a39f-6f6e-4727-a905-99d340bc67d0
Budapest Express – 54:51.

Á Skírdag var förinni heitið í Magic Kingdom. Að sjálfsögðu var Lína búin að liggja yfir skipulagi fyrir daginn, og hann gekk alveg glimrandi vel! Um páskahelgina var opið í Disneygörðunum frá 8 um morguninn fram að miðnætti, svo við ákváðum að vera snemma á ferðinni og vorum mætt í garðinn við opnun.

20190418_081531

Ég skrifaði ágætis pistil um Magic Kingdom hér, en mig langar nú samt að bæta við einni ábendingu. Það er snilldin ein að nú er hægt að panta sér mat á skyndibitastöðum garðanna í gegnum snjallforritið Disney World. Þá velurðu veitingastað, pantar af matseðli og greiðir með korti. Þegar þú svo mætir á staðinn ýtirðu á „I’m here“ og stuttu seinna er kallað á þig. Þar með spararðu þér að bíða í röð eftir afgreiðslu, og getur mjög fljótlega eftir að þú kemur á staðinn sest niður og borðað. Og það er miklu þægilegra að ákveða með stelpunum hvað þær vilja borða í rólegheitum heldur en inni á svona stað.

Við fórum að sjálfsögðu aftur í nokkur tæki sem við fórum í síðast, en við bættum líka við öðrum:
Pirates of the Caribbean er mjög flott sigling um lendur sjóræningja. Meðal annars siglir maður í gegnum sjóbardaga, þar sem skotið er af fallbyssum o.fl. Svolítið dimmt og drungalegt að sjálfsögðu, en stelpurnar höfðu gaman af, og við fullorðnu vorum mjög hrifin af þessu; allar persónurnar hreyfðu sig svo eðlilega og þetta var allt svo vel gert.
Splash Mountain er ásamt hinum tveim fjöllunum (Space Mountain og Big Thunder Mountain) stærstu tækin í Magic Kingdom garðinum. Magic Kingdom er gerður fyrir litla krakka, og því er ekki að finna þar risarússíbana. Eins og nafnið gefur til kynna má maður gera ráð fyrir að blotna duglega, en ferðin var mjög skemmtileg.
Big Thunder Mountain Railroad svipar til tækisins hjá Dvergunum sjö, en ferðin er umtalsvert lengri og það má segja að þetta sé næsta stig fyrir ofan Dvergana.
Mickey’s PhilharMagic er 3D bíósýning, og sem slík mjög skemmtileg. Frábær aðeins til að hvíla þreytta fætur, og svo er oftast lítil sem engin bið!

Dagurinn var allt í allt dásamlegur, en hann var vel heitur! Guði sé lof fyrir kælihandklæðin og kalt vatn! Og mundu að taka vel eftir hvar þú lagðir bílnum, en fjöldi bílastæða hleypur sennilega á tugum þúsunda! Bílastæðunum er skipt í svæði sem eru merkt með disneypersónum, og síðan er hver röð númeruð.

Á föstudeginum langa ákváðum við bara að hafa það rólegt. Það var spáð einhverskonar ofsaveðri, þ.e.a.s. það varð mjög hvasst, mikið um þrumur og eldingar og gersamlega úrhelli!

Á laugardeginum áttum við svilkonur tíma í spa, og það var hreinlega dásamlegt! Við vorum einu viðskiptavinirnir sem áttum bókað þennan morgun, svo það voru bara tvær konur sem sinntu okkur að vinna. Stofunni var því bara skellt í lás þegar við vorum komnar og þar eyddum við dásamlegum þrem tímum!

Fyrst fengum við slökunarnudd, svo var andlitsbað og eftir það bæði hand- og fótsnyrting. Maður var gersamlega eins og ný manneskja eftir dekrið! Við mælum heilshugar með Vencci Day Spa. Stelpurnar sem þjónustuðu okkur voru líka alveg dásamlegar.

Eftir dekrið fórum við í stutta stund í Mall of Florida, en Bandaríkjamenn eiga svo margt eftir ólært um hljóðvist, að við hrökkluðumst mjög fljótlega út úr þeirri verslunarmiðstöð.

Þá var ferðinni heitið í Wonderworks. Við hefðum alveg kosið að vera þar í aðeins minni fólksmergð, en stelpurnar skemmtu sér samt prýðilega. Við fengum að prófa að sitja í jarðskjálfta sem mælist um 5 á Richter, við fórum í fyrsta stigs fellibyl, við skoðuðum hitamyndavélar, hvernig talíur virka, nagla„dýnu“ og allskonar skemmtilegt.

Páskadagurinn sjálfur hófst að sjálfsögðu á því að leita að páskaeggjum og gæða sér á þeim. Eftir dágóða stund við þá iðju héldum við í Go Kart hjá Kissimmee GoKarts. Þeir bjóða upp á það sem þeir kalla Rookie Track, sem er mjög lítil braut þar sem krakkar mega keyra sjálfir í körtum í krakkastærð. Stelpurnar gersamlega ljómuðu af gleði og fannst þetta alveg geggjað!

Eftir að þær fengu að spreyta sig fórum við í stærri brautina, öll í tveggja manna körtum, einn fullorðinn og eitt barn. Það var ágætt, en vissulega voru þetta engar keppniskörtur – búið að skrúfa vel niður í þeim, þannig bensíngjöfin var grjótstaðin allan tímann og samt þurfti ekki að slá af í beygjum!

Eyrún Anja var með mér í körtu, og hún bað mig oftar en einu sinni um að fara hraðar – hraðar mamma! Ef ég gæti elskan, ef ég gæti. Næst förum við í alvöru indoor kart racing!

Við fórum svo stutta stund í Disney Springs, sem er einskonar miðbær á Disneysvæðinu. Þar eru allskyns verslanir og veitingastaðir og mikið um að vera. Þar má t.d. finna stærstu Disney verslun í heiminum; World of Disney.

Stelpurnar voru búnar að leggja hart að okkur að prófa sundlaugina, þeirra annað heimili þegar við vorum heima í húsinu. Þennan dag drifum við í því, og allir stukku út í laugina (og flestir fullklæddir!). Það var mjög gaman að hafa þá vatnshelda myndavél, og það náðust margar góðar og dýrmætar myndir.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Öðrum í páskum var varið í Universal Studios garðinum, og við höfðum öll sérlega gaman af því! Universal Studios er garður gerður fyrir eldri markhóp en Magic Kingdom, svo þar voru alveg nokkur tæki sem við tókum stelpurnar ekki með okkur í, en sömuleiðis voru mörg tæki sem voru 4D og því ekkert mál að taka þær með.

20190422_084152
Þvílík dásemd!

Universal gera mikið úr því að vekja þá tilfinningu hjá gestum að þeir séu komnir inn í kvikmyndina. Þeir leggja mikið upp úr að umhverfið allt sé í stíl við tækið og kvikmyndina sem verið er að heimsækja. Sem dæmi má taka the Fast & the Furious, en þar lá röðin gegnum bifreiðaverkstæði og lageraðstöðu.

Universal Studios eru að sjálfsögðu líka með skrúðgöngu eins og Disney, en hún var nú töluvert minni og tilkomuminni – fannst mér a.m.k. þegar maður var svona nýbúinn að vera í Magic Kingdom. En stelpunum fannst samt sem áður mjög gaman að sjá gamla og nýlega vini, eins og t.d. Dóru landkönnuð og félaga, Svamp Sveinsson og félaga og persónurnar úr Secret Life of Pets.

20190422_085847
Ekkert lítið spenntar að vera loksins komnar í Skástræti!

Dagurinn byrjaði að sjálfsögðu í Skástræti vegna ólæknandi Harry Potter ástar frænkanna. Við fórum að sjálfsögðu í Harry Potter tækið, The Escape From Gringotts, og það var alveg í það mesta fyrir stelpurnar. En þeim þótti það sérlega gaman, og við fullorðnu erum sammála um það að þetta sé eitt flottasta tæki sem við höfum nokkurntímann og nokkurstaðar farið í. Hvort sem þú hefur áhuga á Harry Potter eða ekki, ef þú ferð í Universal skaltu prófa þetta tæki!

Skástræti sjálft er náttúrulega alveg sturluð smíði, þetta er nánast eins og þú sért mættur á staðinn. Flestar verslanirnar sem eru nefndar í bókunum eru á staðnum, og þar er hægt að fá sér hressingu t.d. á Leka seiðpottinum (The Leaky Cauldron).

20190422_103408

Uppi á Gringotts banka liggur dreki sem á svona ca. korters fresti spúir eldi. Það er hreinlega magnað, en stelpunum var ekkert alveg sama.

20190422_102042

Við hjónin fórum í Revenge of the Mummy, sem fær toppeinkunn. The Simpson’s Ride er 3D ride sem er alveg stórskemmtileg, og stelpurnar skríktu úr hlátri! Men in Black er, eins og gefur að skilja, gamalt tæki – ég fór í það árið 2001 og það hefur ekkert mikið breyst. Það er því töluvert eldra en mörg önnur í garðinum. Í því eru þátttakendur MiB fulltrúar í þjálfun, og maður skýtur geimverur og safnar stigum. Þótt þetta væri ekki nýjasta nýtt þótti þetta mjög gaman.

20190422_162755
Mörgæsirnar frá Madagaskar.

Race Through New York starring Jimmy Fallon er 3D bílferð með Jimmy Fallon um New York og út í geim. Despicable Me: Minion Mayhem er tæki þar sem Grú er að þjálfa gesti sem minion-a, og það er smá fílingur eins og að koma inn í fyrirlestrasal að koma þar inn, en þetta reynist vera 4D bíó – og mjög skemmtilegt sem slíkt. Kang & Kudos Twirl ‘n’ Hurl er bara gamaldags kolkrabbatæki, en skemmti stelpunum alveg. Shrek 4D er greinilega ekki nýjasta 4D tækið í garðinum, en góð skemmtun engu að síður.

Þegar maður er á Flórída í yfir 30 stiga hita, þá þykir manni vænt um að geta lagt bílnum í skugga, þannig hann sé kannski bara 50 gráðu heitur en ekki 95 gráður þegar maður kemur í hann aftur. Universal hefur það fram yfir Disney að þeir eru með bílastæðahús!

Já og að leggja bíl kostar um $20 á dag, hvort sem um er að ræða Universal eða Disney.

Síðasta deginum okkur á Flórída var vel varið; við fórum í Aquatica garðinn, sem er sundlaugagarður sem tilheyrir SeaWorld. Aquatica fær réttilega mjög góða dóma á netinu, og er töluvert ódýrari en sambærilegir garðar í eigu Universal eða Disney.

Við fórum um hádegi, en það lokaði kl. 17.00. Við hefðum alveg getað hugsað okkur að vera lengur, en það var ágætt að garðurinn hafði vit fyrir okkur. Okkar hvíta íslenska húð hefði sennilegast ekki haft gott af meiri sól! Við hins vegar náðum ekki að prófa helminginn af rennibrautunum einu sinni, við vorum svo upptekin af öldulauginni og flúðunum!

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Flúðirnar, eða Roa’s Rapids, gersamlega slógu í gegn. Það er það sem er kallað á ensku Lazy River, nema hún er ekkert voðalega lazy. Við ströppuðum á okkur björgunarvesti, og þá gat maður bara látið sig fljóta með straumnum. Mig minnir að ég hafi lesið einhversstaðar að hún væri um einnar mílu löng, eða 1,6 km. Straumurinn er það sterkur að þú ferð ekki á móti honum, en það er samt bara býsna kósý að láta sig fljóta með honum. Yfir daginn giska ég á að við höfum farið eina 15 hringi eða svo, en það var bara dásamleg slökun, og stelpunum fannst þetta bara það skemmtilegasta sem þær höfðu komist í held ég!

Sundkunnátta er ekki almenn í Bandaríkjunum, og það eru sundlaugarverðir á hverju strái. Enn fremur var í báðum sundlaugargörðunum sem við fórum í björgunarvesti í öllum stærðum í boði, svo það þurfti ekki að hafa áhyggjur af kútum eða álíka. Muna bara að velja sér frekar þröngt vesti – það er í allan stað mun þægilegra!

Um kvöldið fórum við á Friday’s og fengum okkur góða máltíð til að fagna góðu fríi. Það voru hins vegar allir svo bugaðir eftir daginn að það var heilt yfir mjög rólegt yfir mannskapnum! Við svilkonur höfðum ekki einu sinni af að fá okkur kokteil til að skála fyrir fríinu!

20190424_092956
Erfitt að kveðjast eftir dásamlegt frí!

Heimferðina tókum við í gegnum Boston, en við flugum frá Orlando International (MCO) yfir til Boston Logan International með Spirit Airlines. Það gekk allt mjög vel. Spirit lenti í öðru terminali en Icelandair flýgur frá, en Boston flugvöllur er svo þægilegur að það var innangengt milli terminala, og tók bara um 10 mínútur.

20190424_104758
Síðasta máltíðin að sjálfsögðu tekin á Burger King.

Heimferðin gekk eins og í lygasögu, en eins og venjulega fengum við okkur leggju á Keflavík Bed and Breakfast.

Nú getum við ekkert annað gert en hugsað til baka með stjörnur í augunum og byrjað að skipuleggja næstu ferð!

20190422_212615
Þreytt – en ótrúlega glöð – fjölskylda í lok annasams dags!
Ferðalög

Flórída 2019 – 2. kafli

Fyrsta hluta ferðasögunnar má finna hér.

20190412_094610
Það þarf líka að lesa.

Daginn eftir að við hjónin ögruðum okkur í Ziplineferð, skruppum við með dætur okkar í höfrungaskoðun frá Vilano Beach við St. Augustine. Þetta var rólegheita sigling í dásamlegu veðri, við sáum höfrunga leika sér – en því miður voru þeir hvorki sérlega nálægt okkur né sáum við stökk. En þetta var ljúf sigling engu að síður.

20190411_124644
Vitinn í St. Augustine.

Eftir siglinguna héldum við á St. Augustine Pirate Museum. Það er safn um sögu sjóræningja, en svæðið hefur töluverð tengsl við sjóræningasöguna. Eigandi og stofnandi safnsins er sagnfræðingur sem hefur sérhæft sig í sjóræningjum og safnað að sér alls konar munum sem þeim tengjast. Safnið er lítið, en mjög fróðlegt, og ég hugsa að stelpurnar hefðu haft sérlega gaman af ef þær hefðu skilið enskuna.

20190411_155327
Að sögn ein af fáum (ef ekki eina) heila alvöru sjóræningjakistan í heiminum í dag.
20190411_121039
Í siglingu.

Að sjálfsögðu litum við svo við í Premium Outlets í St. Augustine, en það er, eins og ég hef sagt áður, okkar uppáhalds Outlet.

Það er líka mikil frumbyggjasaga á Flórída, og margar friðlendur draga nöfn sín af örnefnum sem komin eru frá Indjánum. Ein þeirra er Timucuan Preserve, þar sem fundist hafa munir sem taldir eru vera yfir 4.000 ára gamlir. Í Timucuan Preserve má m.a. finna Kingsley Plantation (elsta Plantation innan ríkisins), Spanish Pond, og Fort Caroline. Fort Caroline er virki sem Frakkar reistu þegar þeir numu land á 16. öld, og þrátt fyrir að það sé ekki vitað nákvæmlega hvar það stóð, þá hefur því verið reistur minnisvarði, og búið er að setja upp sýnishorn af því hvernig talið er að það hafi litið út.

20190412_153440
Fort Caroline.

Jon, eiginmaður Diddu frænku minnar, er algjör snillingur í amerískum morgunverði. Eldri dóttir mín hefur þvílíka matarást á honum, finnst hann gera lang bestu egg sem um getur. Ef hún heyrir nafnið hans nefnt, þá talar hún um eggin hans!

20190413_122900
Datt í lukkupottinn – fékk ferskar gulrætur beint frá bónda með grasinu og öllu!

Þau hjónin hafa alltaf tekið sig til og gert ósvikinn amerískan morgunverð fyrir okkur þegar við komum. Egg, beikon, skinka, vöfflur, hlynsíróp, ferskur appelsínusafi og allt sem hugurinn girnist – eða nánast. Í þetta skiptið vorum við samt ekki á uppskerutíma appelsína, en þau áttu enn nokkrar blóðappelsínur frá vetrinum, svo við gerðum okkur alveg dásemdar blóðappelsínusafa.

20190413_102909
Dásemdar morgunverður.

Eftir morgunverðinn héldum við niður í miðbæinn og fórum á Riverside Arts Market. Það er lítill handverksmarkaður sem haldinn er undir einum brúarsporðinum við St. John’s River.

20190413_120001
Riverside Arts Market.

Eftir góða göngu um markaðinn héldum við í Sweet Pete’s, sem er sælgætisverslun á þremur hæðum. Þar er kaffihús, minjagripaverslun, veislusalur, framleiðslusalir og að sjálfsögðu risavaxin sælgætisverslun. Þeir framleiða karamellur, súkkulaði, allskonar sælgætispoppkorn o.fl. Auk þess bjóða þeir upp á ýmislegt innflutt sælgæti og eru með sérlega skemmtilega deild sem þeir kalla Retró.

 

20190413_130020
Sweet Pete’s.

Við skruppum líka með frænku minni og manninum hennar í eitt flóttaherbergi, hjá Breakout í Jacksonville. Breakout er keðja, og þá má finna víðsvegar um Bandaríkin. Við fórum í herbergi sem heitir Kidnapping, og höfðum mjög gaman af. Þau voru að prófa í fyrsta skipti og skemmtu sér konunglega.

crop-1280x720-000
Shipwreck Island Waterpark. Mynd fengin að láni hjá News4jax.com

Shipwreck Island er lítill en mjög skemmtilegur sundlaugargarður nálægt ströndinni. Þar er leiksvæði fyrir litla krakka, með fjölmörgum minni rennibrautum, öldulaug, svokallaðri Lazy River og alveg þónokkrum stærri rennibrautum. Þótt Íslendingunum þætti veðrið dásamlegt, þá þykir Flórídabúum ekkert sérlega hlýtt í apríl, og því voru alls ekki margir í garðinum – oftast var biðtíminn í stóru rennibrautirnar því aðeins nokkrar mínútur, og enginn í þær minni.

waterpark
Hluti af Shipwreck Island. Mynd fengin að láni hjá Tripadvisor.com.

Við drógum stelpurnar með okkur í tvær stærri rennibrautir, og þrátt fyrir að hjörtun væru lítil höfðu þær sérlega gaman af. Það endaði svo þannig að yngri dóttir okkar fór ein í aðra stóru rennibrautina og var ekkert smá sátt við það!

20190414_144752
Þvílíkar gellur á heimleið eftir dásamlegan dag í rennibrautunum.

Báðar voru rennibrautirnar með uppblásnum bátum, og í annarri þeirra endaði ferðin í Lazy River, þar sem maður flaut í makindum. Ég flaut nú kannski í fullmiklum makindum, en seinni part dagsins kom í ljós að ég hafði brunnið svo svakalega á handleggjum og bringu að mig verkjaði. Um kvöldið lá ég með kælihandklæði yfir handleggjunum og tók verkjalyf, en svona er nú bara lífið. Maður þarf að muna að setja á sig sólarvörn aftur og aftur í svona görðum, þótt það sé skýjað! Og heyrirðu það, Lína Rut!

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Í Shipwreck Island með krakkasvæðið í bakgrunni. (Eldri ekki ánægð með snertingu systur sinnar!)

Nágrannar frænku okkar eiga skjaldböku sem býr í garðinum. Meðan ég var inni að vorkenna mér og sleikja sólbrunann rölti frænka mín með stelpurnar að hitta nágrannana og skjaldbökuna. Þær meira að segja gáfu henni að borða, og fannst hún alveg frábær!

20190414_172202
Skjaldbakan stóra. Til viðmiðunar má sjá fæturna á 10 ára dóttur minni.

Það vill nú þannig til að eldri dóttir mín og Didda frænka eiga afmæli sama dag, en það var einmitt meðan við vorum úti. Hins vegar var frænka okkar á leiðinni til Íslands þann dag, svo við héldum upp á afmælið deginum fyrr.

Það hafði verið rætt að fara á ströndina, eða í mini golf – en hætt var við hvort tveggja þar sem mamman var eins og brunarústir, og bæði pabbinn og yngri systirin höfðu látið pínu lítið á sjá í sólinni í sundlaugargarðinum. Við ákváðum því að prófa að fara í leikjasalinn Dave and Buster’s, en það er salur sem er ætlaður eldri krökkum og fullorðnum. Við höfðum samt sem áður mjög gaman af, enda voru fáir í salnum og stelpurnar gengu bara í það sem þær vildu.

20190415_145016
Dave and Buster’s.

Um kvöldið fékk svo dóttirin að velja kvöldmat, og að sjálfsögðu var að pizza. Hún valdi Domino’s, og málsverðurinn heppnaðist bara vel.

Svo rann afmælisdagurinn sjálfur upp og þá var komið að kveðjustund. Stelpurnar áttu virkilega erfitt með að kveðja, enda vissu þær ekki hvað beið þeirra í Orlando!

20190416_113755

Ég skrapp í klippingu og litun, og eftir það héldum við á Chuck E. Cheese’s í hádegismat, en það var stóra ósk afmælisbarnsins. Hins vegar skildu þær ekkert í af hverju við fullorðna fólkið vildum komast snemma af stað til Orlando…

20190423_191916
Húsið okkar og bílaflotinn.

Við höfðum í samráði við mág minn og svilkonu leigt hús með sundlaug í Orlando, en þau eiga stelpur á svipuðum aldri og dætur okkar, og eru þær frænkur mjög góðar vinkonur. Um þetta höfðu þær ekki hugmynd, svo þegar við komum til Orlando og lögðum bílnum fyrir utan eitthvert hús leist þeim ekki meira en svo á blikuna að þær vildu helst bara hætta við. Við þurftum nánast að draga þær út úr bílnum, og þær fengust ekki til að standa nær dyrunum en í svona tveggja metra fjarlægð eftir að við bönkuðum.

Þær voru gersamlega orðlausar þegar þær sáu hverjir komu til dyra, en stuttu seinna voru allir hæstánægðir og yfir sig spenntir yfir vikunni sem í vændum var.

20190416_180401
Hamingjusamar frænkur!

 

Bucket list, Ferðalög

Flórída 2019 – 1. kafli

20190404_164548

Þriggja vikna ferðalag – þrír póstar! Vonandi tekst mér að halda mig innan þess ramma!

Við eiginmaðurinn héldum í okkar fimmtu Flórídaferð á dögunum, þar sem við dvöldum í þrjár vikur. Við erum svo heppin að eiga ættingja þarna úti, þar sem við fáum að dvelja, og þar er sko dekrað við okkur og við njótum lífsins í botn!

20190411_092357

Við flugum út 4. apríl, en allar okkar ameríkuferðir hefjast með því að það er vaknað mjög snemma og keyrt suður til Keflavíkur samdægurs. Það er því langur dagur áður en höfuðið leggst á koddann hinum megin við tjörnina.

Þetta er í annað skiptið sem við tökum dætur okkar með okkur til Ameríku eftir að þær urðu stálpaðar, en eldri dóttir okkar flaut með þegar hún var um eins og hálfs árs.

20190405_021543
Bugun eftir langan dag. Beðið eftir bílaleigubílnum á Orlandoflugvelli.

Við höfum alltaf leigt okkur bíl á Flórída, en eins og flestir flandrarar vita getur það kostað skildinginn að leigja sér bíl. Ég er með þrjú sparnaðarráð (sem einskorðast að sjálfsögðu ekki aðeins við Flórída):

  • Keyptu þér GPS tæki. Það eru til fínustu Garmin GPS tæki í Walmart á ca $100 og upp. Leiga á GPS tæki fyrir hvern dag er oft í kringum $15 – þannig að borgar sig upp á viku, og þú átt það fyrir næstu ferð og næstu ferð og næstu ferð… Við keyptum okkur árið 2016 Garmin tæki fyrir ca. $150 með fríum kortauppfærslum, og höfum notað það ca 35 daga – að leigja tæki í þann tíma væri um $525.
  • Ef þú ert með krakka sem eru orðnir stálpaðir, skaltu frekar kaupa pullu undir þau í bílinn en að leigja hana. Leigan er $8-15 dollarar á dag, en pullur fást fyrir ca $25 dollara í Walmart. Það þarf því ekki langa leigu til að þetta borgi sig. Keyrslan frá flugvellinum í Orlando og í næstu Walmart verslun er nokkrar mínútur. Við höfum svo bara skilið pullurnar eftir í bílnum, ætli þeir nýti sér það ekki bara og leigi næsta manni?
  • Mér hefur oftast gefist best að nota samanburðarsíður eins og t.d. rentalcars.com, og fara svo beint á heimasíðu þeirra fyrirtækja sem bjóða best og bóka beint þar.
  • Og að sjálfsögðu aldrei að leigja bíl (eða kaupa neitt á netinu á amerískri vefsíðu) nema leita fyrst að afsláttarkóða. Google virkar vel til þess, síður eins og Retailmenot.com eru oft með góða afslætti, og svo er viðbót í Google Chrome vafrann sem heitir Honey og leitar sjálfkrafa að afsláttarkóðum fyrir þig. Þar safnarðu líka upp fyrir gjafakortum t.d. á Amazon í leiðinni.

…en aftur að ferðasögunni!

Þegar við vorum komin út af flugvallarsvæðinu var því ferðinni heitið beint í Walmart, þar sem við keyptum okkur pullur fyrir stelpurnar, hressingu og vatn.

Hampton Inn & Suites Orlando Airport at Gateway Village, Orlando, Herbergi - 2 meðalstór tvíbreið rúm - Reyklaust, Herbergi
Mynd fengin að láni hjá Hotels.com

Við áttum bókaða gistingu á Hampton inn&suites Orlando Airport at Gateway Village í eina nótt áður en við héldum til Jacksonville. Ég nota nánast undantekningarlaust Hotels.com til að bóka gistingu, en eftir 10 gistinætur færðu eina nótt fría á hóteli að eigin vali og ef herbergið kostar meira en meðalverð náttanna 10 sem þú greiddir fyrir, þá greiðirðu mismuninn. Við gistum því þarna gegn því að greiða bara skattana af herberginu, um $20. Það er alltaf gleðilegt!

Við höfum oft gist á Hampton Inn, þar er maður býsna öruggur um að fá snyrtilegt herbergi með góðum rúmum. Morgunmaturinn aftur á móti er ekkert voðalega merkilegur, en matur eigi að síður – og ég funkera ekki vel ef ég fæ ekki að borða mjög fljótlega eftir að ég fer á fætur.

20190411_092402
Gengið með hundinn.

Eins og nánast alltaf þegar við förum til Bandaríkjanna vöknuðum við mjög snemma fyrsta morguninn. Það var mjög skýjað og dimmt yfir þegar við fórum á fætur, og mjög fljótlega eftir það byrjuðu þrumur, eldingar og steypiregn. Það var því útséð um tubingferðina okkar sem höfðum áformað á leiðinni til Jacksonville.

IMG_20190404_091022_199
Pissustopp í Varmahlíð

Við eyddum því deginum í rólegheitum, skruppum aðeins í Outlet og dúlluðum okkur. Svo keyrðum við seinni partinn uppeftir til Jacksonville.

Fyrsta vikan okkar fór að mestu bara í að vera í rólegheitum og njóta. Hitinn var hátt í 30° – svo það var varla hægt að hafa það betra.

20190405_133030
Já, ég held að Eyrún sé upprennandi lífsstílsbloggari eða fyrirsæta!

Að sjálfsögðu hófst fríið hjá mér á því að fara í nudd, andlitsbað, fótsnyrtingu og vax hjá Mona Lisa Day Spa. Það er dásamlegt að meðferðin hefst með klukkutíma þar sem þú hefur aðgang að heitum potti og gufubaði og þess háttar – en ég var bara hamingjusöm að fá klukkutíma í friði til að lesa. Allar meðferðirnar voru dásamlegar, og ég var alveg endurnærð í lok dags.

20190406_100504
Slakað á Mona Lisa Day Spa.

Stelpurnar höfðu ekki beðið eftir neinu meira en Chuck E. Cheese’s, bæði þá að borða þar og að leika sér. Við vorum því ekki búin að vera tiltakanlega lengi í henni Ameríkunni þegar það var haldið þangað – og enn og aftur, afsláttarmiðar. Það eru margir afsláttarmiðar á heimasíðunni hjá fyrirtækinu, sem veita betri kjör en annars stendur til boða á staðnum. 

Við fórum í stuttan göngutúr að Spanish Pond í Timucuan Preserve, mikið var það fallegt og kyrrlátt. Stelpurnar voru þó ekki par-hrifnar af því þegar þær voru beðnar að hafa hjá sér augun þar sem það væru Alligatorar allstaðar á Flórída…

Við skruppum einn dagpart á ströndina, Neptune Beach. Það var nú ekki sérlega fjölmennt þar, enda finnst Flórídabúum ekki mjög hlýtt í apríl, og Atlantshafsmegin hefur sjórinn ekki náð að hlýna nóg. Við hinsvegar vorum hin lukkulegustu, þetta var bara alveg akkúrat fyrir hvítu Íslendingana, og heppilegt fyrir skjannahvíta húðina að það var skýjað. Sjórinn var vissulega ekki hlýr, en eftir að hafa farið út í hann í fyrsta skipti fannst þér hann heldur ekkert kaldur. Við dvöldumst að sjálfsögðu á ströndinni þar til hungrið rak okkur heim!

Við litum í minigolf og fórum í trampólíngarð. Velocity Airsports var risavaxinn trampólíngarður með fjórum svampgryfjum, þrautabraut og fleiru. Við hoppuðum smá, en svo vorum við nánast allan tímann í svampgryfjunum, því það var langt um skemmtilegast. Það var svampgryfja með þverslá til að æfa jafnvægið, en ekkert okkar átti séns í að ganga eftir henni! En mikill sviti og mikið hlegið, frábær fjölskylduklukkutími – og það var alveg frábært að við vorum þau einu á staðnum!

Við eiginmaðurinn skildum börnin eftir í pössun hjá frænku þeirra og keyrðum til St. Augustine þar sem við áttum bókað í Ziplineævintýri. Ferðin með Castaway Canopy Zipline Adventure var alveg frábær – og við vorum bara tvö bókuð, þannig við vorum með 2 leiðsögumenn (og þriðji var með okkur í þjálfun) fyrir okkur tvö! Brautin skiptist í 7 Ziplines sem fara milli trjáa yfir sædýragarð. Ég get nú ekki sagt með vissu hvað brautin er í mikilli hæð, en ég giska á að við séum að tala um milli 20 og 30 metra.

Maðurinn minn var nú ekkert sérlega æstur þegar ég lagði þetta til við hann, en hann lét tilleiðast. Þegar við hinsvegar vorum komin á staðinn var hann ekkert smá glaður og sáttur, en ég hef aldrei í lífinu svitnað jafn mikið og það af stressi og hræðslu! En þetta var alveg sjúklega gaman, og hópstjórnarnir voru frábærir.

Á heimasíðu fyrirtækisins má sjá smá yfirlit yfir brautirnar, en fyrst klifrar maður upp risavaxið tré, þaðan sem maður Zipline-ar yfir götuna og bílastæðið yfir í næsta tré. Þaðan gengur maður eftir göngubrú – ef brú skyldi kalla – upp á næstu stöð. Svona gengur þetta koll af kolli, alltaf á milli trjáa. Í eitt skiptið yfir það sem þeir sögðu okkur að væri hákarlabúrið í sædýragarðinum, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það – það var tjaldhiminn yfir, svo við sáum ekki í búrið. Í annað skipti yfir tjörn.

FB_IMG_1555211879771
Sérlega fín í Zipline-útbúnaðnum.

Því miður mátti ekki vera með neitt lauslegt með sér þarna uppi, þar sem það gæti annars vegar skapað hættu fyrir fólk á jörðu niðri og hins vegar geturðu bara kvatt þann hlut sem þú missir úr þessari hæð. Eins og ég hefði viljað eiga myndir af þessu, þá var það því miður ekki hægt.

Því miður urðu þeir fyrir því leiðinlega óhappi að ein af þremur stóru eikunum sem báru brautina uppi drapst, og það varð að fjarlægja hana ekki löngu eftir heimsókn okkar. Fyrirtækið hafði því ekki aðra kosti en að loka í bili.

En það er nauðsynlegt að ögra sér, og þetta var frábær upplifun með eiginmanninum! Og nú er það bara á áætlun að skella sér í Zipline í Vík í Mýrdal!

Ferðalög

Staðurinn minn: Flórída

DSC00237

Flórída er svona eiginlega staðurinn minn; sumir fara endurtekið til Kanarí eða Tenerife, ég hef farið fimm sinnum til Flórída. Það kemur nú aðallega til af því að móðursystir mín býr þar, en svo er þetta náttúrulega dásamlegur staður! Ég setti inn síðasta haust býsna ítarlega ferðasögu af síðustu ferðinni okkar, haustið 2017, en nú ætla ég að segja frá ýmsu sem við höfum stússað þar í öðrum ferðum – og er það mjög við hæfi, þar sem við erum alveg að fara að fara aftur!

Ég fór fyrst árið 2001 með mömmu, en það var fermingargjöfin mín. Við vorum úti í 12 daga í apríl. Í heildina var ferðin frekar róleg, a.m.k. miðað við margar ferðir sem ég hef farið í síðan. Við fórum í Universal Studios, til St. Augustine þar sem við gistum í eina eða tvær nætur, versluðum svolítið, en svo aðallega bara að njóta frísins!

Flórída 8.-20. des 2008 414
Bumban kom bersýnilega í ljós í ferðinni!

Næst fór ég árið 2008 með manninum mínum, við vorum í 12 daga í desember. Þá var ég ófrísk að eldri dóttur okkar, svo ferðalagið tók mið af því. Til að byrja með dvöldum við í Orlando í 2 nætur og fórum í Disneygarðinn Epcot. Daginn sem við fórum frá Orlando tókum við okkur bílaleigubíl og keyrðum upp til Kennedy Space Center, þar sem við stoppuðum í dágóða stund. Við vorum svo gott sem einu gestirnir á safninu – eða þannig, við vorum a.m.k. ein á matsölustaðnum þegar við fengum okkur í gogginn! Því miður var veðrið þá ekki það besta, en það voru leyfar af fellibyl að ganga yfir Flórídaskagann, svo það var grenjandi rigning og rok – ekta íslenskt haustveður! Í þeirri ferð fórum við með frænku minni til St. Augustine, að skoða spænska virkið, og fylgdumst með Night of Lights.

Flórída 8.-20. des 2008 210
Castillo de san Marco í St. Augustine.

Árið 2010 fórum við út milli jóla og nýárs, og vorum í 2 vikur með vinahjónum okkar. Þá var eldri dóttir okkar með, rétt rúmlega eins og hálfs árs, og ég var ólétt að þeirri yngri. Þetta var því kannski ekki alveg skemmtilegasta utanlandsferð sem ég hef farið í – a.m.k. var heilsan og orkan ekki upp á sitt besta. Í þessari ferð fórum við m.a. í Magic Kingdom og Jacksonville Zoo og versluðum alveg helling.

Flórída 8.-20. des 2008 024
Epcot 2008.

2014 fórum við hjónin aftur út með vinahjónum okkar í desember og vorum í viku. Það er allt of stutt! En börnin biðu víst heima, svo samviskan leyfði ekki lengri ferð. Vikan var nánast eingöngu tekin í verslun og át, en alltaf er jafn dásamlegt að vera þarna, og ég elska Flórída í desember. Ég hreinlega elska jólaskreytt pálmatré og jólaskreytingar í rúmlega 20 stiga hita, og að hátalararnir í runnunum í verslunargötunum spili jólatónlist!

Flórída 8.-20. des 2008 365

2017 fórum við fjölskyldan svo út og vorum í 15 daga í október, en ég fjallaði um þá ferð hér, hér og hér, og svo setti ég inn sérstaka færslu um Magic Kingdom.

Ég tel mig því vera farna að þekkja Flórída nokkuð, en við erum oftast einhverja daga í Orlando áður en við höldum uppeftir til Jacksonville þar sem móðursystir mín býr. Nú erum við að leggja upp í næstu ferð, og því er ég löngu farin að skoða hvað við ætlum að brasa og horfa til baka á það sem við höfum gert hingað til!

Flórída 8.-20. des 2008 347
Jólin, jólin, jólin koma brátt…

Epcot garðurinn er einn af Disney görðunum. Það eru 6 Disney garðar í Orlando, þ.e.a.s. 4 skemmtigarðar og 2 sundlaugagarðar. Epcot garðurinn er tvískiptur, annars vegar „world emporium“ sem eru sýnishorn frá einum 13 löndum, og hins vegar er leikjagarðshlutinn, sem samanstendur af geimhluta og Frozen Ever After.

Flórída 8.-20. des 2008 050
Jólasveinninn og frúin hans í Epcot 2008.

Kennedy Space Center er safn um geimferðir NASA, þar má finna eftirlíkingar af helstu geimflaugum Bandaríkjamanna. Þar er gríðarlega mikill fróðleikur og gaman að skoða. Við heimsóttum Kennedy Space Center (sem er staðsett á Canaveral höfða) árið 2008, og þá þótti okkur sýningin vera orðin svolítið þreytt og vanta örlítið upp á endurnýjun en þar sem við höfum ekki komið þangað aftur síðan getum við lítið sagt um hvernig staðan er núna. Samkvæmt heimasíðu safnsins hafa þó verið gerðar töluverðar endurbætur, svo kannski er kominn tími á að fara aftur?

Flórída 8.-20. des 2008 123
Kennedy Space Center 2008.

St. Augustine er lítill strandbær ekki svo ýkja langt frá Jacksonville. Bæjarbúar halda því fram að St. Augustine sé elsti bær í Bandaríkjunum, en þeir telja sig geta rakið byggðina til þess tíma er Spánverjar stunduðu landvinninga í hinum nýja heimi. Þar er t.d. virki, Castillo de san Marco, sem er frá 17. öld, og gaman að skoða.

Flórída 8.-20. des 2008 309
Jacksonville Landing.

Að sjálfsögðu þarf maður að verja eins og einum degi í Outlettum, en outlettin okkar á Flórída eru St. Augustine Outlets. Við erum fastagestir í búðum þar eins og t.d. Children’s Place, Adidas, Skechers, Gap, og fleirum. Það eru líka fín Outlet í Orlando, sem við skruppum aðeins í 2017.

Flórída 8.-20. des 2008 002

Af veitingastöðum eru þrír sem við reynum að heimsækja í hverri ferð. Fyrst ber að nefna Flipper’s Pizzeria í Lake Mary í Orlando. Það er mjög fínn, rólegur og heimilislegur pizzustaður.

DSC00468
Magic Kingdom 2011.

Cheesecake Factory þekkja flestir Íslendingar, en það er frekar billegur staður með mjög stóran og fjölbreyttan matseðli. Þar er oftast mjög mikið að gera, og ekki óalgengt að það þurfti að bíða nokkra stund eftir borði. En skammtarnir eru gríðarlega stórir, og ég held ég hafi aldrei séð manneskju klára allt af diskinum sínum þar! …og ég held ég hafi aldrei fengið vondan mat þar, allt sem ég hef borðað þar er mjög gott.

Góður matur á Cheesecake
Cheesecake Factory.

Og svo er náttúrulega nauðsynlegt að skella sér á Longhorn Steakhouse, og fá sér dásamlega steik. Þar höfum við líka alltaf fengið mjög góðan mat, og meira að segja litla matgranna og matvanda stelpan okkar át 180 gr. krakkasteik nánast upp til agna!

Ég er orðin svo spennt fyrir næstu ferð, að ég hreinlega á stundum erfitt með að ráða við mig. Það er ýmislegt planað, en í þetta skiptið verður áherslan töluvert meira á upplifun en verslun!

Dunkin!
Það er stoppað á Dunkin’ Donuts í hverri ferð!

Svo er bara einn fróðleiksmoli ef þú ert á leiðinni til Bandaríkjanna í fyrsta skipti; verðmerkingar eru án söluskatts, honum er bætt við á kassa!

Flórída 8.-20. des 2008 071
Epcot 2008 – útitekin og fín eftir daginn!
Ferðalög

Disney Magic Kingdom

Image result for magic kingdom
Mynd fengin að láni hjá howtodisney.com

Við fórum með dæturnar í fyrsta skipti til Flórída í fyrra, og að sjálfsögðu fórum við í Magic Kingdom garðinn. Ég stúderaði hann vel fyrirfram til að gera daginn sem auðveldastann, en sömuleiðis að sjá hvað í garðinum myndi höfða helst til okkar, svo við myndum síður missa af því.

Image result for magic kingdom map
Kort af garðinum. Mynd fengin að láni hjá chipandco.com

10 vikum áður en við fórum settum við líka upp lista yfir 10 Disney myndir sem við ætluðum að horfa á áður en við færum, og um hverja helgi höfðum við fjölskyldubíó og horfðum á eina mynd saman. (Við horfðum t.d. á Pétur Pan, Toy Story, Litlu hafmeyjuna, Mjallhvíti, Aladdín..)

Image result for magic kingdom under the sea ride
Under the sea skeljarnar hennar Aríelar. Mynd fengin að láni hjá familyadventureproject.com

Ég las alveg ógrynni af bloggum um garðinn, ábendingum foreldra og skipulagði mig vel.

Garðurinn er almennt opinn frá 9 á morgnana til 11 á kvöldin, og þar sem stakur dagur í garðinn kostar rúmlega $100, þá vill maður nýta tímann. Daginn sem við fórum var hins vegar opið frá 9-19, og það var alveg prýðilegt fyrir stutta fætur.

20171019_083848
Mæðgur í skutlu á leið í garðinn.

Hver dagur hefst á opnunaratriði og lýkur á flugeldasýningu. Það er því mjög gaman að vera kominn í garðinn fyrir 9, til að sjá opnunaratriðið, og vera fram yfir lokun til að sjá flugeldasýninguna. Við ætluðum að vera mætt fyrir 9, en því miður þá tefur lífið stundum fyrir, og breytir plönum! Við vorum komin rétt rúmlega 9 á bílaplanið, þaðan tekur maður skutlu yfir að lestarstöðinni, tekur lest í réttan garð, og þar fer maður í gegnum öryggisleit og sýnir miðann, og þá er maður kominn í garðinn sjálfan! Þannig það má alveg gera ráð fyrir 30 mínútum og jafnvel aðeins meira frá því að maður kemur á bílastæðið þar til maður er kominn inn í garðinn.

Í garðinum er hægt að leigja kerrur fyrir krakka, en einföld kerra kostar $15 fyrir daginn og tvöföld $31. Dagarnir verða langir, og því gott að hafa þetta í huga ef stuttir fætur eru með, eða mikill farangur!

20171019_092501

Það má koma með nesti í garðinn, en þeir setja takmörk á stærð kælitaska og nokkrar reglur eru um hvað má koma með í garðinn, t.d. má ekki vera á hjólaskóm, vera með selfie-stöng eða dróna. Þær reglur má lesa hér.

Þú getur pantað miða í Disney garðana allt upp í 9 mánuði fram í tímann. Það eru mismunandi álagstímar, en á vinsælustu dögunum kosta miðarnir meira. Gott að skipuleggja sig vel fram í tímann, velja dag sem hentar vel plönum fjölskyldunnar – og svo er líka gott að velja frekar dag þar sem gert er ráð fyrir lítilli örtröð, þeir eru bæði ódýrari og styttri bið í tækin.

20171019_122117
Allir að fljúga með Dúmbó!

Miðanum fylgja þrír „Fast Pass“- eða flýtipassar, sem þýðir að þú þarft ekki að bíða í almennri röð í tækin. Flýtipassana þarftu að bóka, en það opnar fyrir bókun flýtipassa 30 dögum fyrr, en 60 dögum ef þú ert á Disney hóteli. Þú bókar passann með því að skrá þig inn á disney síðuna eða hlaða niður smáforritinu og skrá þig inn þar, og þar sérðu þá flýtipassa sem eru í boði fyrir valinn dag. Flýtipassinn gildir fyrir ákveðinn klukkutíma, en þú mátt mæta nokkrum mínútum fyrr en 10 mínútum eftir að tími passans er liðinn er hann ógildur.

20171019_071105
Disney-dressaðar dömur!

Ég var búin að leggjast yfir tækin sem eru í boði, og sjá hvað hentaði okkur best. Þegar opnaði fyrir bókun flýtipassa bókaði ég passa í Lísu í Undralandi bollana, að hitta Ariel í eigin persónu, og Big Thunder rússíbanann (þennan síðasta reyndar notuðum við svo ekki). Ef þú kemur svo að tækinu þegar þú átt flýtipassa og það er lítil eða engin röð, þá geturðu farið í appið og breytt flýtipassanum í eitthvað annað! Og í smáforritinu geturðu alltaf breytt flýtipassabókunum, ef það eru einhverjir aðrir flýtipassar í boði.

Við innganginn er þjónustuborð, þar sem maður stoppar við og fær sér nælu ef þær eiga við; stelpurnar voru að koma í fyrsta skipti og fengu nælur sem á stóð að þetta væri þeirra fyrsta heimsókn. Svo eru líka nælur ef maður á afmæli, brúðkaupsafmæli eða útskrift og örugglega eitthvað fleira  🙂 Þá koma gjarnan persónurnar og óska manni til hamingju, stundum fær maður auka fastpass eða eitthvað skemmtilegt 🙂

20171019_094942
Beðið eftir að hitta fyrstu prinsessurnar!

Gott er að undirbúa sig undir ferð í Disneyworld með því að fara t.d. í Disney WareHouse outlet í Orlando Vineland Premium Outlets eða bara WalMart eða Target og kaupa einhvern Disney varning til að friða börnin þegar þau fara að væla um hitt og þetta í búðunum í garðinum, því þær eru mjög dýrar. Við fórum í WalMart og keyptum boli á stelpurnar, ég var búin að panta bæði band fyrir miðana og Mikkaeyru handa þeim. Þær fengu samt að velja sér sitthvorn hlutinn í lok dags í garðinum sjálfum.

Image result for magic kingdom barnstormer
The Barnstormer. Mynd fengin að láni hjá disneyworld.disney.go.com

Fljótlega eftir að maður kemur í gegnum kastalann og inn á Main Street, þá kemur maður að verslun sem heitir Castle Couture (svo er önnur sem heitir Sir Mickey’s líka) og þar geta krakkar fengið ókeypis glimmer í hárið (ekki biðja um glimmer, biddu um Fairy dust!).

20171019_145848
Þetta var mjög heitur dagur, svo ís var kærkominn!

Varðandi matmálstíma, þá er gott að kynna sér matseðla á stöðunum og finna einhvern sem hentar hópnum. Við fundum bara skyndibitastað þar sem eitthvað var á boðstólnum sem myndi henta stelpunum, Pinocchio Village House, en vorum með nokkra sem hentuðu, og völdum bara þann sem var næst þegar við urðum svöng. Það er líka gott að skoða matseðlana, því sumir veitingastaðirnir eru ekkert mikið dýrari en skyndibitastaðirnir! Svo má líka koma því að að fullorðnir geta keypt sér mat af barnamatseðli.

20171019_173113
Beðið í röð eftir að komast í námulest dverganna sjö!

Það er líka gott að stefna að því að borða annað hvort fyrir eða eftir hádegið, því flestir borða um hádegi og því mest að gera þá. Borða meðan hinir leika sér og leika sér meðan hinir borða, þannig spararðu þér mikla bið!

Eitt sparnaðarráð í Disney; vertu með brúsa, og fylltu á flöskuna í fountains (drykkjarvatnsbrunnum) – en hafðu það hugfast að við Íslendingar erum vanir töluvert betra vatni. Svo áttu líka að fá frítt vatnsglas á skyndibitastöðunum ef þú biður um ísvatn (ice water).

20171019_135410
Allir hjálpast að með sólarvörnina, meðan beðið er eftir skrúðgöngunni. Hér má sjá „first visit“ næluna.

Í verslunum í Disney má fá verkjatöflur, plástra o.þ.h. við afgreiðsluborðið, þrátt fyrir að það sé ekki sýnilegt. Ef þú kaupir þér minjagripi geturðu fengið að sækja þá þegar þú ferð úr garðinum um kvöldið – þetta hef ég ekki prófað samt.

Það eru nýlegar snyrtingar gerðar í Garðabrúðu-stíl, og þær eru mjög vel heppnaðar. Það er svo gaman hvað allt er í „karakter“, snyrtingar, veitingastaðir og allt.

20171019_184534
Farið að líða að lokum dags.

Á degi í skemmtigarði er algjör nauðsyn að hafa meðferðis snarl, brúsa, verkjalyf, sólgleraugu, sólarvörn og derhúfur. Við höfðum líka með okkur handspritt, glow sticks (þeir eru dýrir í garðinum, en margir sem kaupa svoleiðis þegar fer að dimma), blautpoka/poka fyrir blaut föt, varasalva, Mikkaeyru, band fyrir miðana og merkiarmbönd á stelpurnar (með símanúmeri).

Image result for magic kingdom rides
Tebollar Lísu í Undralandi (Mad Tea Party). Mynd fengin að láni hjá travelingmom.com

Kl. 14.00 á hverjum degi er skrúðganga, þar sem allar helstu persónur Disney koma fram, það er mikið dansað og mikið fjör.

Við fórum í nokkur tæki og hittum nokkrar prinsessur. Stelpurnar voru 8 og 6 ára, svo við miðuðum tækjavalið algerlega við þær. Við hittum Öskubusku, Garðabrúðu, Tiönu, Aríel og Elenu of Avalon. Þær voru allar mjög hressar og gaman að hitta þær, en stelpurnar voru svolítið feimnar og skildu náttúrulega ekki neitt þegar prinsessurnar voru að tala við þær.

Tækin sem við fórum í voru eftirfarandi:
Mad Tea Party eru tebollar Lísu í Undralandi. Bara klassískt bollatæki, en stelpurnar elska svoleiðis!
Dúmbótækið, en þar flýgur maður með Dúmbó og fær að stýra hvor maður sé hátt uppi eða lágt niðri eða sífellt flakkandi. Biðsvæðið í Dúmbótækið er sérlega skemmtilegt, en þar er innandyra leikvöllur þar sem hægt er að klifra o.þ.h. Þú færð lítið tæki sem svo pípir þegar það er komin röðin að þér, en á meðan geta börnin leikið sér.
The Barnstormer er lítill rússíbani fyrir krakka sem eru að stíga sín fyrstu skref í rússíbönum, var alveg akkúrat fyrir stelpurnar mínar með litlu hjörtun sín, en við fórum einu sinni um miðjan daginn og aftur seinni partinn.
Under the sea skeljarnar hennar Aríelar, þar sem maður situr í skel og keyrir um sjávardjúpin og fer inn í ævintýrið.
Námulest dverganna sjö fór svolítið hratt og fyrir litlar varkárar stelpur var hún alveg við það mesta, en þær hlógu á sig gat og þótti afskaplega gaman. Biðsvæðið fyrir námulestina var svolítið skemmtilegt, en það voru gagnvirkir leikir á leiðinni.
Hringekja prinsins hennar Öskubusku er hefðbundin hringekja, en stelpurnar hafa gaman að þeim.
It’s a small world tækið náði ég engum tengslum við. Þetta er í rauninni bara sigling í gegnum heiminn, þar sem heimurinn er settur upp með litlum viðarfígúrum. Mér leiddist þetta bara, en við fórum bara óvart í það – ég ruglaði því við annað tæki!
Flugum með Pétri Pan um London, en þar er eins og þú sért staddur í ævintýrinu og fljúgir með Pétri Pan yfir borgina. Hér var líka afþreying meðan maður beið í röð, en röðin lá í gegnum svefnherbergi Vöndu og strákanna. Maður gat leikið við Skellibjöllu, en hún settist á skuggann manns og alls konar. Það er svo dásamlegt hvað það er hugað að öllum smáatriðum!
Draugahúsið þótti skemmtilegt, stelpurnar voru pínu skelkaðar en samt ótrúlega hugrakkar. Við lentum í því að eitthvað bilaði, svo tækið stoppaði í miðjum hring og við sátum föst í nokkrar mínútur. Það fannst stelpunum erfitt, því á meðan heyrðust draugahljóð!
Jungle Cruise var góður staður til að vera í skjóli fyrir sólinni yfir miðjan daginn þar sem öll röðin var undir þaki, og siglingin var í forsælu líka. Siglingin fer eins og í gegnum einskonar safarí, en að sjálfsögðu eru öll dýr bara eftirlíkingar. Skipstjórarnir eru líka leiðsögumenn og segja skemmtilegar sögur og eru með einskonar uppistand, en mér skilst að það sé mismunandi milli skipstjóra. Við fullorðnu höfðum allavega gaman að, og stelpurnar voru fegnar hvíldinni frá sólinni.

Image result for magic kingdom seven dwarfs mine train
Námulest dverganna sjö. Mynd fengin að láni hjá disneyworld.disney.go.com

Maður verður líka að gera sér grein fyrir að dagurinn fer að töluverðum hluta í bið, og maður nær ekki að gera nærri allt sem mann langar að gera. Þessvegna skiptir máli að skipuleggja sig og svo maður nái að gera það sem manni finnst mest spennandi.

Mér finnst algjört grundvallaratriði að vera með Disney snjallforritið í símanum, því þar sérðu biðtímann í tækin.

20171019_191503
Dagur að kvöldi kominn og mæðgur gengnar upp að herðum!

Ég mæli með að skipuleggja sig svolítið fyrirfram, og njóta svo bara dagsins í botn! Já, það verða allir svangir, þreyttir, þyrstir… en þetta verður æðislegt, og þegar frá líður man enginn eftir svengdinni, þreytunni eða þorstanum! En munið; góðir skór eru númer eitt, tvö og þrjú. Engir gelluskór, bara gönguskór!

Ferðalög

Flórída – 3. kafli

Fyrri kafla má finna hér.

Eitt af því sem þarf alltaf að gera þegar við förum til Jacksonville er að tína appelsínur í garðinum hjá frænku minni og gera appelsínusafa. Þetta er bara það besta sem ég fæ; appelsínur beint af trjánum og safi sem við gerum sjálf með morgunmatnum.

Eitt kvöldið skruppum við á Pizza Hut í kvöldmat, en það væri ekki í frásögur færandi nema hvað; okkur hefur aldrei orðið jafn kalt á Flórída eins og þarna! Borðin voru álklædd og loftkælingin á fullu. Borðin urðu ísköld svo maður gat ekki hvílt hendur eða olnboga á borðinu án þess að kuldann leiddi upp eftir handleggjunum. Pitsurnar og meðlætið voru geggjað góðar, svo það bætti aðeins upp – en við sátum ekki lengur þar en við þurftum!

Afþví við vorum úti í október kom ekkert annað til greina en að skera grasker fyrir hrekkjavökuna! Dæturnar voru ekki mjög hrifnar af hratinu innan úr, en mamma reddaði því bara. Sem byrjendur í iðninni finnst mér við bara hafa staðið okkur nokkuð vel! Graskerin stóðu svo úti á palli með batterískertum þar til eftir hrekkjavökuna.

20171029_200152
Graskerin flott í myrkrinu!

Chuck E. Cheese’s sló heldur betur í gegn hjá dætrum okkar – og reyndar okkur líka. Chuck E. Cheese’s er svona arcade eða leikjasalur, sem er frekar fyrir yngri börn. Dætur okkar, þá 6 og 8 ára, fannst þetta algjört æði, svo við fórum tvisvar. Þar sem við vorum um hádegi á virkum degi vorum við nánast með salinn fyrir okkur!

Á Chuck E. Cheese’s keyptum við okkur pizzu í hádegismat og gos, og með fylgdu (að mig minnir) einhverjir 100 „tokens“. Þessi Tokens, eða einingar, færðu inn á kort, sem þú skannar svo bara við tækið sem þig langar í. Þegar þú hefur lokið leik færðu miða, en fjöldi þeirra veltur á hversu vel þér gekk. Þegar þú ert búinn geturðu svo keypt þér verðlaun fyrir miðana þína, með því að skanna þá alla inn í tæki og fara með kvittunina á þjónustuborðið. Það fannst ekki bara dætrum mínum, heldur manninum líka, mjög skemmtilegt!

20171030_123253
Stelpurnar eru með lítil hjörtu, það var ekki séns að fá mynd af þeim með Chuck E. Cheese sjálfum, nema pabbi væri með.

Stelpurnar sjá Chuck E. Cheese’s enn í hyllingum, rúmu hálfu ári síðar!

20171031_105830
CostCo

Að sjálfsögðu er það algjör skylda að fara í CostCo þegar maður fer til USA, en við komum fyrst í CostCo í Jacksonville árið 2008. Það verður nú bara að segjast eins og er að langflestar ferðatöskurnar okkar koma úr CostCo í Jax! Við höfum keypt sittlítið af hverju í CostCo í Bandaríkjunum, en í þessari ferð keyptum við ekkert… nema 2 tösku Samsonite Spinner sett!

Við höfðum séð fyrir okkur að finna okkur einhvern leikvöll eða public park bara til að leyfa stelpunum að hlaupa um og leika sér. Það var býsna furðuleg upplifun. Við fundum einn sem kallast Victoria Park og var ekki langt frá þar sem við vorum. Við vorum ein þarna, svo stelpurnar klifruðu og léku sér en pabbi þeirra gekk í hringi og horfði í jörðina, leitandi að sprautunálum (það fundust engar).

Eldri dóttirin þurfti allt í einu svo mikið á klósettið, að pabbi hennar fór með hana á almenningssalerni þarna í garðinum. Þau sneru strax við og höfðu enga löngun til að létta á sér þar. Þar hafði einhver komið sér fyrir, með koddann sinn og allt. Viðkomandi var ekki á staðnum, en þetta var víst ekki spennandi!

20171031_174223

Síðasti dagurinn okkar fyrir brottför var hrekkjavakan. Stelpurnar völdu sér nornabúninga, og fötur til að „Trick or treat“-a með og við klæddum okkur upp og gengum milli húsa. Stelpurnar voru nú nokkuð feimnar fyrst, en svo voru þær farnar að segja „trick or treat“ alveg sjálfar! Þær söfnuðu alveg helling af nammi – og nei, það voru engar sprautunálar eða eitur í því! Haha 🙂

Eins og í öðru hafði fólk mjög mismunandi metnað fyrir skreytingum fyrir hrekkjavökuna, en einn nágranni okkar var alveg „meðidda“ og hefði held ég ekki mögulega geta skreytt meira! Það var stórskemmtilegt að skoða skreytingar, og ef ég byggi í Bandaríkjunum hefði ég sennilega eytt öllum peningunum í hrekkjavökuskreytingadeildunum í WalMart og Target! Það var svo mikið sem mig langaði í – en ég sá, því miður, ekki not fyrir á Íslandi!

20171031_100917
Diddu frænku sem býr á Flórída var svo kalt að hún skipaði stelpunum að klæða sig vel. 😀
20171031_100756
Það voru liðnar einhverjar vikur frá því að fellibylurinn Irma gekk yfir, en enn var garðaúrgangur út um allt.

20171031_100706

 

20171031_100058
Falleg götumyndin!
20171029_140503
Systur í WalMart.

 

En svo var komið að brottför, og það er alltaf leiðinlegt að kveðja. En maður verður að kveðja til að geta komið aftur – og við erum sko búin að bóka aftur. Páskarnir 2019 – þeir verða geggjaðir!

20171031_100311

 

 

 

 

Ferðalög

Flórída 2017 – 2. kafli

Lestu fyrri kafla hér.

Alltaf þegar við förum til Flórída förum í við Outlet, eins og flestir Íslendingar. Okkar uppáhalds er St. Augustine Premium Outlets, en þar er að finna t.d. Adidas, Nike, Reebok, Children’s Place, Carter’s, Gap, Skechers o.fl. o.fl. Alltaf þegar maður fer til Bandaríkjanna á maður að prenta út miða frá Icelandair upp á coupon book  í Outlettunum – hver hefur eitthvað á móti auka afslætti? Ég finn ekki afsláttarmiðabókina á síðunni þeirra lengur, en það má þá sækja hana hér.

20171024_101253
Rakel Yrsa fann sér nýjan félaga í Outletinu.

Í þetta skipti fengum við okkur hótelherbergi í St. Augustine, sem var rétt við ströndina. Við lögðum af stað frá Jax snemma morguns, drifum Outletin af, innrituðum okkur og héldum svo á ströndina. Það var áliðið dags þegar við komum á ströndina, og fáir að sóla sig (enda kominn seinni hluti október, þá finnst Flórídabúum ekki hlýtt, þótt Íslendingar svitni!).

Við óðum pínu í sjónum og byggðum svolítið úr sandi. En þá tókum við eftir pari sem stóð í flæðarmálinu og starði út á sjóinn. Svo sáum við það; það var hákarl svamlandi rétt við ströndina, bara örfáa metra frá flæðarmálinu. Bara eiginlega rétt þar sem við stelpurnar höfðum verið að leika okkur nokkrum mínútum fyrr! Við hættum snarlega að svamla í sjónum og byggðum bara meira úr sandi og týndum nokkrar skeljar!

20171025_085544_001
Fallegt að horfa út af svölunum á hótelherberginu í St. Augustine.

Við gistum á La Fiesta Ocean Inn & Suites, sem var uppsett eins og mótel. Herbergið okkar sneri að sjónum og því var fallegt útsýni. Það var svona á að giska þriggja mínútna gangur frá herberginu og á ströndina! Morgunmaturinn var mjög furðulegur, en um kvöldið þurftum við að merkja við hvað við vildum í morgunmat og setja miðann utan á hurðina. Svo um morguninn fengum við hann afhentan, og þetta var lélegasti morgunmatur sem ég hef fengið á hóteli – bara eitthvað grín! Við fórum á Dunkin og fengum okkur örlitla ábót!

Jacksonville Zoo er skemmtilegur dýragarður þar sem hægt er að eyða nokkrum góðum tímum. Þar eru ljón og gíraffar, úlfar og krókódílar, fuglar og tígrisdýr, og margt fleira. Þar er líka apagarður, en hann var lokaður vegna endurbóta. Stelpurnar skemmtu sér vel, og eiginmaðurinn hafði held ég mest gaman að skriðdýrahúsinu!

20171027_115238
Tígrisdýrabúrið var báðu megin við gangveginn, og yfir gangveginn lá svona göngubrú fyrir tígrisdýrin. Þessi var tveggja ára, rosalega falleg.

Adventure landing er eins konar Arcade eða leikjasalur, þar sem má finna sér ýmislegt til dundurs. Þar voru t.d. aligatorar í vatni fyrir utan og það var hægt að fóðra þá. Minigolf, mjög rólegt go-kart, sem hefði hentað stelpunum vel til að keyra o.fl. Við fórum í minigolf, sem var í fyrsta skipti sem stelpurnar fóru í minigolf. Við skemmtum okkur vel, en einn aðilinn var kannski svolítið tapsár… og það var ekki ég!

20171027_184800
Minigolf.

Þá var komið að seinni spa-deginum mínum, en ég fór í Mona Lisa Day Spa and Nail Boutiqe, en ég fann alveg frábært tilboð á Groupon.com. Fyrir $149 fór ég í andlitsmeðferð, nudd, hand- og fótsnyrtingu og klukkutíma aðgang að heitum potti og sauna hjá þeim. Þetta var alveg dásamlegt og ég kom svo endurnærð út! Allar meðferðirnar voru svo vel heppnaðar og yndislegar – ég fer klárlega aftur á þessa snyrtistofu næst þegar ég fer!

Image result for mona lisa day spa jacksonville fl
Heitur pottur og afslöppun í Mona Lisa Day Spa. Mynd fengin að láni hjá themonalisadayspa.com. Hvítt í glasi og slökun!

Lestu áfram um Flórídadvölina hér.

Ferðalög

Flórída 2017 – 1. kafli

Mynd fengin að láni hjá tripadvisor.com

Við lentum í Orlando að kvöldi 16. október. Við vorum búin að plana að vera í þrjár nætur í Orlando, og gistum á Hampton Inn & Suites Orlando International Dr. North. Hótelið völdum við af þrem ástæðum; við vildum vera miðsvæðis/við I-drive, við vildum hótel með morgunmat og við vildum hótel með rúmgóðum herbergjum, þar sem við vorum fjögur og vildum að stelpurnar gætu brallað eitthvað. Rúmin voru fín, en við vorum í herbergi með tveim Queen size rúmum og svaf einn fullorðinn og einn krakki í hvoru rúmi. Herbergið var stórt og rúmgott, yfir 40 fermetrar ef eitthvað er að marka upplýsingarnar á hotels.com, en morgunmaturinn var ekkert mjög spes. En Eyrún fékk hafragraut og við hin ristaðar beyglur og vöfflur með hlynsírópi!

20171019_072956
Í Orlando snýst allt um skemmtigarða, en í morgunmat á hótelinu var m.a. boðið upp á svona Mikka-vöfflur.

Við leigðum okkur Mini-van, en við leigjum okkur nánast alltaf bíl í Bandaríkjunum, og höfum alltaf leigt bíl á Flórída. Maðurinn minn keyrir, almennt er frekar auðvelt að keyra á Flórída, en við erum alltaf með GPS tæki. Umferðin er almennt ekki jafn trekkt og í Reykjavík t.d. og fólk er frekar tillitssamt úti á vegunum.

20171018_110318
Uppstoppaður skógarbjörn í BassPro.

Þar sem maðurinn minn hefur frekar gaman af skotveiði, þá höfum við alltaf komið við í Bass Pro Outdoor World þegar við komum til Orlando. Búðin er risastór (a.m.k. á íslenskan mælikvarða) og meðan hann skoðaði það sem var á boðstólnum, þá settist ég niður með yngri dóttur okkar við fiskabúrið og við lásum einn skólalestur! Í búðinni er að finna allskonar uppstoppuð dýr, t.d. skógarbjörn, og heila tjörn/risafiskabúr með fiskum. Og við erum ekki að tala um neina gullfiska!

20171018_111038_001
Skólalestur í BassPro.
20171018_111048_001
Fiskabúrið í versluninni. Neðst, nálægt hægra horninu má sjá fisk.

Eldri dóttir mín vann á tímabili mikið með hvali og fiska í skólanum, og eftir það hefur hún verið sérlega áhugasöm um hvali og skötur og önnur sjávardýr. Við ákváðum þessvegna að fara á sædýrasafn, en SeaLife er nýlegt sædýrasafn ekki langt frá Universal t.d.

20171018_143910

20171018_144941

20171018_145055
Mæðgur inni í fiskabúri.

SeaLife er mjög flott safn með allskonar skepnum. Þar eru t.d. göng í gegn um eitt búrið, þar sem maður sér hákarla, skötur o.fl. fyrir ofan sig, neðan og til hliðar. Þar eru búr með litlum fiskum, sem hægt er að fara inn í – eða svo að segja. Þar er búr þar sem hægt er að snerta allskonar lífverur sem ég veit ekki hvað skal kalla. Þar var líka klifurkastali sem sló í gegn! Þetta var svona kannski tveggja tíma heimsókn, en mjög skemmtileg.

20171018_145547
Rakel Yrsa í fiskabúri.

Við eyddum svo heilum degi í Disney Magic Kingdom, og hér má lesa nánar um það. Ég tók líka saman upplýsingar sem gætu nýst öðrum sem stefna þangað.

20171018_145634
Meðal annarra var þessi syndandi um í kringum búrið sem var gengið í gegnum.
20171018_145234
Feðgin tylltu sér í göngunum í gegnum stóra fiskabúrið.

Alltaf þegar við erum í Orlando borðum við einu sinni á pitsustað sem heitir Flippers Pizzeria. Í fyrsta skipti sem við vorum í Orlando vorum við á hóteli rétt hjá staðnum, og við urðum alveg ástfangin af brauðstöngunum þeirra… þær eru löðrandi! Svo er bara skemmtilegt að eiga „sinn“ stað!

20171018_185900
Flippers Pizzeria.

Svo héldum við til Jacksonville; það er ca. tveggja eða tveggja og hálfs tíma keyrsla þangað.

Image result for shine holistic wellness center jacksonville beach
Infrarauði saunaklefinn. Mynd fengin að láni hjá yelp.com

Spa er möst þegar maður er erlendis, en í þetta skiptið bókaði ég mér tvo spa tíma. Daginn eftir að við komum til Jax, þá fór ég í Shine Holistic Wellness Center og fékk Body Wrap og Infrared Sauna og svo nudd.

20171023_110146
Sýning um hvali á MOSH.
20171023_115714
Geimfari á MOSH.

Museum of Science and History, eða MOSH, er skemmtilegt lítið fræðslusafn fyrir krakka – og fullorðna. Þetta er í annað skipti sem við hjónin förum þangað – eða jafnvel þriðja? Þar er föst sýning um sögu Flórída, fyrst um frumbyggjana, svo um Evrópumennina sem komu þangað og allt til okkar daga. Auk þess er líka lítil sýning með dýrum sem finnast á Norður-Flórída. Meðal annarra sýninga sem voru í gangi þegar við vorum þarna var um endurnýjanlega orku, geiminn og verkfræði forn-Rómverja.

20171023_111938
Risaeðlubeinagrind á MOSH.

St. Johns Town Center er alveg klárlega uppáhalds verslunarmiðstöðin okkar í Jacksonville, en hún er utandyra. Verslunarmiðstöðin er sett upp eins og Laugavegurinn; verslanir báðu megin við litla götu. Þarna er að finna búðir eins og Old Navy, Target, Gap, Disney, Dick’s, Pottery Barn o.fl.  Og alveg dásamlegt að ganga þarna úti í rúmlega 20° hita og hlusta á jólalög – það er eiginlega alveg uppáhalds.

Image result for st johns town center
St. Johns Town Center. Mynd fengin að láni hjá archinect.com
20171023_170557
Stelpurnar að leika sér á leiksvæði í Town Center.
20171025_120303
Fíflast í Disney búðinni í Town Center.
20171025_121143
Mæðgur í afslöppun í Town Center.

 

Lestu áfram um Flórídadvölina hér.