Bucket list

Haustferð Línu og Agnesar 2018

Þægindaramminn er þægilegur staður að vera á, eins og nafnið gefur til kynna. Hins vegar er ólíklegt að maður læri margt nýtt eða upplifi eitthvað sem maður hefur ekki upplifað áður, meðan maður heldur sig innan hans.

Þegar ég sá Tröll Expeditions auglýsa að þeir byðu Íslendingum að koma með sér að snorkla í Silfru sér að kostnaðarlausu, vissi ég að þarna var tækifæri sem ég þurfti að grípa. Ég plataði vinkonu mína í þetta með mér, þar sem ég veit að hún leitast líka við að færa út þægindarammann.

DCIM100GOPROGOPR8190.JPG
Snorklandi.

Til að geta tekið þátt þurftum við að fara yfir spurningalista með ýmsum heilsufarsvandamálum, en honum þurfti svo að skila inn. Við undirbjuggum okkur vel með því að lesa okkur til á heimasíðu Tröllanna, og tölvupóstinn sem við fengum frá þeim. Niður í töskur fóru m.a. hlý undirföt, hlýir og þykkir sokkar, auka föt og sundföt og handklæði (ef við þyrftum að fara í heitan pott til að ná upp líkamshita eftir uppátækið).

Við keyrðum frá Akureyri til Borgarness á föstudagskvöldi, og gistum á Hótel Hafnarfjalli (gamla Mótel Venus). Húsakynnin hafa nú séð sinn fífil fegurri, en það var ekki hægt að kvarta yfir hreinlæti eða viðmóti. Við vorum í þriggja manna herbergi uppi í risi, bara mjög kósý. Morgunmaturinn sem fylgdi var líka bara mjög ásættanlegur.

Á laugardagsmorgni keyrðum við svo í höfuðborgina, þar sem hagsýnu húsmæðurnar héldu í CostCo og svo beina leið yfir í Ikea.

Síðustu mínúturnar í borginni nýttum við, að sjálfsögðu, í að gramsa í gömlum bókum á Nytjamarkaði ABC við Víkurhvarf.

20180915_134519

Þá var komið að því að halda af stað upp á Þingvelli, en þangað hef ég ekki komið síðan fyrir 2000 held ég. Það gekk bara vel að finna planið þar sem við áttum að hittast, en þaðan fórum við inn á bílaplanið (P5) og lögðum bílnum. Gangan yfir á planið þar sem við hittum hópinn var aðeins um 5 mínútur, en á planinu voru sendiferðabílar frá hinum ýmsu fyrirtækjum sem bjóða upp á snorkl í Silfru. Við fundum strax okkar fólk, og hófst þá undirbúningurinn.

20180915_134845
Þingvellir eru virkilega fallegur staður.

Undirbúningurinn tók dágóða stund, en frá upphafi til enda tók þetta um 3 klst, og aðeins ca 40 mín af þeim tíma fór í snorklið. Fyrst fengum við kuldagalla, sem klæddir voru að innan með flís. Yfir þá fengum við þurrgalla, með áföstum skóm. Með þá komna hálfa leið upp settumst við niður og fengum stuttan fyrirlestur frá leiðsögumanninum Dimitris, sem sagði okkur stuttlega frá sögunni, jarðfræðinni og hvað bæri að varast. Að því loknu héldum við áfram að koma okkur í búninginn; koma höfðinu í gegnum hálsmálið sem er níðþröngt. Við fengum svo ólar um úlnliði og háls til að þrengja enn betur að og hindra að vatnið kæmist inn í gallann. Hettur, sundgleraugu, loftpípur, hanskar, froskalappir.

DCIM100GOPROGOPR8166.JPG
Aldrei verið kynþokkafyllri!

Hófst þá gangan að Silfru, þar sem við lögðumst til sunds. Þurrgallinn er bæði vatns- og loftheldur, svo hann virkar eins og flotholt – við vorum eins og blöðrur í vatni og gátum ekki sokkið. Það er léttur straumur í Silfru, þannig maður þarf ekki einu sinni að synda, maður bara flýtur með straumnum.

DCIM100GOPROGOPR8217.JPG
Dásamleg tilfinning, og dásamlegur staður!

Vatnið í Silfru er um 2° heitt – eða kalt, ölluheldur. Þetta er vatn sem kemur frá Langjökli, og ferðast um 50 ár í gegnum hraunið áður en það kemur upp í Silfru. Ótrúlegt en satt finnur maður samt varla fyrir kulda. Varirnar eru kaldar, þar sem þær eru óvarðar, og ef maður hreyfir hendurnar of mikið kemst kalt vatn inn í hanskana, en það var nú samt ekki verra en að keyra bíl um vetur þegar þú gleymir hönskunum… Hinsvegar voru Bandaríkjamennirnir alveg að frjósa, og forðuðu sér uppúr hið fyrsta!

DCIM100GOPROGOPR8251.JPG

Það er talað um að vatnið í Silfru sé tærasta vatn í heimi, en þegar þú snorklar sérðu til botns á 22 metra dýpi. Landslagið neðanvatns er stórkostlegt, og upplifunin í heild! Það var svo slakandi að liggja bara í vatninu, horfa niður og fljóta áfram. Maður heyrir ekki neitt í vatninu, þannig áreitið er lítið sem ekki neitt (sem móður þykir mér þetta sérlegur kostur!). Í rauninni bara liggja, fljóta og njóta! Og ofan á allt þá var leiðsögumaðurinn með GoPro og myndaði helling neðanvatns fyrir okkur – og myndirnar fær maður sér að kostnaðarlausu!

Í lokin fengum við heitt kakó áður en við lögðum af stað heim aftur.

Í lokin langar mig að hrósa Tröll Expeditions fyrir þetta tilboð, og þakka kærlega fyrir mig. Leiðsögumaðurinn okkar var alveg frábær, hafði greinilega mikla reynslu af köfun og snorkli og var virkilega vandvirkur og flottur. Og það var sko ekki leiðinlegt að horfa á þetta gríska goð! Ég veit ekki hve lengi þeir bjóða upp á þetta, en hér eru allar upplýsingar um þetta góða boð.

DCIM100GOPROGOPR8161.JPG
Hópurinn og leiðsögumaðurinn.

Ég get ekki hrósað þessu nóg, fyrirtækinu, boðinu og upplifuninni! Ég vildi bara að ég gæti líka farið í jöklagönguna með þeim!

20180915_195232
Á heimleið á Holtavörðuheiði.