Ferðalög, Lífið

Armbönd fyrir krakka í utanlandsferðum

Við höfum þvælst svolítið með stelpurnar síðustu tvö árin, en á tveimur árum höfum við farið með þær erlendis þrisvar sinnum, alls í rúmar 4 vikur.

Í fyrsta skipti gripum við svona „ stökktu“ tilboð til Benidorm yfir þrítugsafmælið mitt, svo ég hugsaði ekkert út í þetta; en í seinni tvö skiptin höfðum við vit á því: að merkja börnin ef þau skyldu skiljast við okkur.

img_20180727_111259_9461829639566.jpg

Við keyptum okkur í fyrrasumar armbönd úr plasti sem maður skrifar á með penna sem festist. Þau dugðu ágætlega, en stelpurnar voru frekar þreyttar á þeim og gjarnar á að taka þau af. Lásinn á þeim var úr plasti og auðvelt að taka þau af, en þau voru samt mikið notuð í fyrri ferðinni í fyrra.

Í seinni ferðinni, þá voru þau lítið notuð, og lásinn á öðru þeirra gaf sig.

Þannig að; þegar ég rakst á sílíkon armbönd með stálplötu þar sem upplýsingarnar eru grafnar í, þá stökk ég til.

img_20180730_102329622498087.jpg

Ég borgaði fyrir þau rétt um 2.000 krónur, og svo rúmar 700 þegar ég sótti þau á pósthúsið. Maður ræður textanum alfarið sjálfur, svo gott er að taka fram ofnæmi eða alvarleg veikindi, séu þau til staðar.

img_20180730_1026451194890899.jpg

Ég hafði nöfnin þeirra, símanúmer okkar foreldranna og svo að þær tali íslensku. Hugsunin á bak við það er að ef eitthvað gerist sem gerir það að verkum að við pabbi þeirra verðum ekki til staðar til að tala fyrir þær, þá er einfaldara fyrir yfirvöld að finna túlk, ef þeir vita hvaða tungumál þetta er.

img_20180730_1025411638878505.jpg

Armböndin voru í boði í sex litum, Rakel valdi sér svart en Eyrún bleikt. Auk þess var hægt að fá fjólublátt, blátt, rautt og gult. Eins og sjá má á myndinni er lásinn mjög veglegur.

img_20180730_102457537018960.jpg

Þau koma í einni stærð, en maður klippir sílíkonólina bara til í hæfilega lengd. Lásinn er með klemmum, svo það er auðvelt að losa hann af ólinni og festa hann svo aftur þegar maður er búinn að klippa ólina í rétta lengd. Plötuna með merkingunum má svo bara færa til á réttan stað á ólinni.

img_20180730_102415971898669.jpg

Ég er afskaplega hrifin af þessum armböndum, og hlakka til að nota þau á Flórída í vor. Stelpurnar voru með þau heilan dag um daginn og fannst þau virkilega flott og þægileg, og vildu helst ekki að ég tæki þau og geymdi. En mamma ræður – svo nú liggja þau hjá Evrópsku sjúkratryggingakortunum þeirra og vegabréfunum, og bíða eftir næstu ferð!

Armböndin fengum við hér.

Lífið

Bucket list – hvað langar mig að gera áður en ég dey?

Tíminn sem okkur er skammtaður er takmarkaður, þótt maður geri sér ekki almennilega grein fyrir því. Við verðum ekki hérna að eilífu, og verðum að gera það mesta úr því sem við höfum. Samkvæmt Hagstofunni var meðalævilengd karla á Íslandi árið 2014 80,6 ár og kvenna 83,6 ár.

20161119_102916
Central Park, New York 2016

Ég er 32 ára. Ef við drögum 5 ár af meðal lífslíkum vegna offitu; þá má ég gera ráð fyrir að verða 78,5 ára. Þá eru bara 46,6 ár eftir (eða 17.006 dagar) – styttist í að ég verði hálfnuð. Hvað langar mig að gera áður en ég dey? (Ég geri mér alveg grein fyrir að ég gæti dáið á morgun eða ég gæti orðið 100 ára, en með því að miða við meðaltöl getur maður sett þetta í eitthvert samhengi)

IMG_1785
Taj Mahal, Agra 2012

Þannig ég fór að skoða annarra manna „Bucket list“ á Google og Pinterest, skrifaði niður hvað mig langar að gera og spurði nokkrar vinkonur. Og eftir töluverða yfirlegu telur listinn 110 atriði, sem ég skipti niður í fjóra flokka. Vonandi mun listinn svo lengjast seinna meir. Og það er vert að nefna að röð atriða skiptir engu máli um mikilvægi þeirra.

Tyrkland 028
Pamukkale, Tyrkland 2005

Ferðalög:

 1. Sjá Macchu Picchu (Inkar)
 2. Sjá Chichen Itza (Mayar)
 3. Sjá Miklagljúfur (Grand Canyon)
 4. Ganga um Las Vegas Strip
 5. Sjá Hvíta húsið
 6. Skoða Akrópólis
 7. Sjá Sagrada Familia
 8. Heimsækja Vetrarhöllina
 9. Sjá pýramídana og Sphinxinn
 10. Sjá hringleikahúsið í Róm
 11. Heimsækja Vatíkanið

  San Fran 2006 069
  Golden Gate, San Francisco 2006.
 12. Ganga á Kínamúrnum
 13. Fara til Vín
 14. Fara til Marrakesh
 15. Fara til Möltu
 16. Fara til Mexíkó
 17. Fara til Ítalíu
 18. Fara til Króatíu
 19. Fara til Slóveníu
 20. Fara til Grikklands
 21. Fara til Costa Rika
 22. Fara til Tælands
 23. Fara til Kína
 24. Fara til St. Pétursborgar
 25. Fara til Jerúsalem
 26. Fara til Istanbúl
 27. Fara til Sri Lanka
 28. Fara til Petra í Jórdaníu
 29. Fara í London Eye
 30. Vera á hóteli með öllu inniföldu
 31. Heimsækja Prince Edward Island (Anna í Grænuhlíð)
 32. Fara til Atlanta á slóðir á Hverfanda hveli
 33. Fara í ferð sem snýst um sjálfsrækt
 34. Sjá hin nýju sjö undur veraldar (Kínamúrinn, Kristsstyttan í Rio, Macchu Picchu, Chichen Itza, Colosseum í Róm, Taj Mahal og Petra í Jórdaníu)
 35. Heimsækja 30 lönd fyrir fimmtugt (Bara 12 búin – 17 ef ég má telja hvert ríki í Bandaríkjunum sem „land“)
 36. Sigla á gondól í Feneyjum

  IMG_1292
  Lótushofið, Nýja Dehlí 2012.
 37. Sjá hrísgrjónaakra
 38. Fara á fljótandi markað
 39. Baða mig í dauðahafinu
 40. Heimsækja útrýmingarbúðir
 41. Stelpufrí
 42. Fara á slóðir Vestur-Íslendinga
 43. Sjá Niagara fossana
 44. Fara í siglingu á skemmtiferðaskipi
 45. Fara í ferðalag sem einhver annar skipulagði
 46. Eyða heilum degi (eða svo gott sem) á ströndinni
 47. Komast út úr Escape Room í 10 löndum (Pólland tékk, Ísland tékk, Skotland tékk, Þýskaland tékk, Ítalía tékk, Bandaríkin tékk, England tékk)
 48. Þvælast um slóðir Johns Steinbeck
Tyrkland 210
Köfun, Tyrkland 2005

Sport/adrenalín:

 1. Klifra upp í topp á klifurvegg
 2. Prófa kaðlaþrautabraut (Ropes Course)
 3. Prófa Kayak
 4. Fara í trampólíngarð
 5. Fara í Go Cart (Hef gert það, en langar aftur)
 6. Synda með höfrungum
 7. Fara í íshellinn í Langjökli (Into the Glacier)
 8. Prófa svifflug
 9. Prófa að leika sér á inflatable island
 10. Prófa tubing í á (semsagt ekki tilbúinni á)
 11. Synda með sækúm á Flórída
 12. Prófa SUP
 13. Fara á hundasleða
 14. Stökkva af kletti (hef prófað, en langar aftur)
 15. River Rafting (hef gert það, en langar aftur)
 16. Prófa að Zorba
 17. Zipline!
Tyrkland 073
Ephesus, Tyrkland 2005

Upplifun:

 1. Skjóta af byssu
 2. Fljúga í þyrlu

  IMG_1977
  Minnismerki Mahatma Ghandi, Nýja Delhi 2012
 3. Stökkva fullklædd í sundlaug
 4. Murder Mistery
 5. Vera í sjónvarpssal (erlendis)
 6. Stökkva í foam pit
 7. Prófa froðudiskó – já ég veit, full gömul í þetta!
 8. Fljúga í loftbelg
 9. Sjá sólarupprás og sólarlag
 10. Fara í sumarfrí í alla landsfjórðunga með fjölskyldunni
 11. Fara í alvöru lautarferð
 12. Renna sér á dekkjaslöngu í snjónum
 13. Vera dregin á dekkjaslöngu á Pollinum
 14. Vera farþegi í listflugi
 15. Fá mér kokteil á bar á efstu hæð háhýsis (Rooftop bar)
 16. Fara til Grímseyjar og standa á heimskautsbaugnum
 17. Mæta á ráðstefnu um ZeroWaste eða Green living
 18. Prófa vélsleða (keyra sjálf!)
 19. Sitja aftan á mótorhjóli
 20. Fara í útreiðatúr, helst með eldri dótturinni
 21. Fara á tónleika
 22. Djamma alla nóttina
20150411_123012
Trinity College Library, Dublin 2015

Persónulegt:

 1. Drekka ekkert nema vatn í mánuð
 2. Ferðast ein

  San Fran 2006 113
  Yosemite þjóðgarðurinn, Kalifornía 2006
 3. Mæta á Júbileringu (já, var fjarverandi í öll hin skiptin..)
 4. Skrifa bók (bloggið er skref í áttina, maður skrifar ekki texta sem er tækur til útgáfu nema æfa sig að skrifa fyrst.)
 5. Fara í myndatöku, bara ég. Ekki fjölskyldumyndataka.
 6. Eignast demantshring
 7. Hlaupa 5K (ekki að fara að gerast á morgun eða hinn…)
 8. Aftengjast í viku
 9. Prófa íbúðaskipti
 10. Ná kjörþyngd
 11. Láta einhvern annan velja bók fyrir sig að lesa
 12. Fara í boudoir myndatöku
 13. Borða engin sætindi í mánuð
 14. Klára að lesa 1.000 bækur (592 komnar…)
 15. Taka sjálfsmynd í hverri viku í ár
 16. Búa til lista yfir 100 bækur sem ég verð að lesa, og ljúka við hann.
 17. Klára kvartlaus áskorunina (armbandið komið…)
 18. Klára hrúguna af ólesnum bókum sem ég á (telur hátt í 700 titla – passar fínt með nr. 14)
 19. Þegja í heilan dag
 20. Fá mér húðflúr (já ég veit, ekki líkt mér)
 21. Koma á einhverskonar heimilisbókhaldi (já, I know – þetta er eitthvað sem ég sökka í!)
 22. Skipuleggja jarðarförina mína
 23. Kaupa enga bók í heilt ár (listinn verður að vera metnaðarfullur?)
IMG_1241
Hare Krishna hofið, Nýju Delhi 2012

Ég mun svo uppfæra listann hægt og rólega, eftir því sem hlutirnir gerast. En það er nú bara svo með bucket-lista að þeir klárast sjaldnast, en lengjast frekar. En með því að hafa lista yfir hluti sem þig langar til að upplifa ertu líklegri til að koma því í verk!

IMG_20161121_080345
Frelsisstyttan, New York 2016

Vissulega er margt fleira sem gæti verið á listanum, og þá sérstaklega í ferðalagaflokknum, en hinir þóttu mér örlítið erfiðari.

San Fran 2006 0992
Steiner Street, San Francisco 2006

Það er margt sem ég hefði haft á listanum ef ég hefði ekki nú þegar gert það; t.d. San Francisco og Golden Gate, New York, Pamukkale og Efesus, Tyrkneskt bað (Hammam), söngleikur á Broadway o.fl. o.fl. Sumt er líka á listanum þótt ég hafi gert það áður, t.d. rafting, köfun, stökkva af kletti, Go cart…

Tyrkland 00852
Í hefðbundnum tyrkneskum brúðarbúningi, Tyrkland 2005

Ég óska hér með eftir áhugasömum aðilum til að aðstoða mig við að „tékka“ atriði af listanum og vinum eða félögum sem langar að upplifa eitthvað af þessu með mér! 😀

Umhverfið

Fyrstu skrefin í átt að umhverfisvænni lífsstíl

Fyrstu skrefin í átt að umhverfisvænni lífstíl eru tiltölulega einföld:

IMG_20180113_182559_021

Fjölnota innkaupapokar
Fjölnota innkaupapoka er hægt að fá nánast hvar sem er í dag, þannig það er engin afsökun fyrir því að kaupa plastpoka. Hver fjölnota poki þarf aðeins að vera notaður 20 sinnum til að vera orðinn umhverfisvænni kostur en plastpoki. Ef þú manst ekki eftir pokunum þegar þú ferð í búðina er gott ráð að annað hvort hengja þá alltaf á útidyrahurðina eða hafa þá í bílnum.

received_10155371960226624

Fjölnota grænmetispokar
Fjölnota grænmetispokar gera mikið til að losa okkur við einnota plast. Þessir litlu þunnu skrjáfpokar rifna nánast alltaf, og er sjaldan hægt að nota aftur. Grænmetispokarnir koma í veg fyrir mikið magn af svoleiðis pokum, en margir sleppa því bara að nota poka. Ég persónulega nenni því ekki, en ef maður er bara að kaupa eitt eða tvö epli gerir maður það samt.
Margir velta fyrir sér hvort maður sé ekki að borga mikið fyrir pokann sinn á kassanum í hvert skipti. Ef ég man rétt er stærri fjölnota grænmetispokinn minn 14 grömm. Ef við miðum við að kílóverð á því sem við erum að kaupa sé 600 kr., þá ertu að borga 8,5 krónur fyrir pokann. Ef við spörum 100 plastpoka eru það þá 850 krónur – sem er alveg þess virði í stóra samhenginu. Við eigum bara eina jörð.

IMG_20180113_193407_390

Nestisbox eða fjölnota nestispokar fyrir nestið
Ekki nota plastnestispoka fyrir nestið, notaðu frekar nestisbox eða fjölnota nestispoka. Mæli eindregið með að fjárfesta í vönduðum boxum, og helst úr gleri eða stáli. Ég nota mikið Tupperware, en eftir því sem það týnir tölunni mun ég fara meira í glerið eða stálið. Ég hef heyrt að í CostCo séu til flott glerbox með plastlokum, sem henti vel undir nesti.
Ég nota mikið blautpokana mína, sem eru pokar úr efni sem kallast PUL. Efnið er vatnshelt, og því notað ég pokana gjarnan t.d. utan um nesti sem gæti lekið hjá dætrum mínum, og þá sjaldan þær fara með nesti sem er í einnota umbúðum sem þurfa að koma heim aftur (krakkarnir þurfa að taka umbúðir t.d. drykkjarfernur og skyrdósir með sér heim aftur, þeim má ekki henda í skólanum).

20170530_154225.jpg

Blautpokar fyrir föt o.fl.
Blautpokana mína nota ég mikið fyrir blaut föt, krem o.fl. í ferðalagið eða óhrein nærföt á leiðinni heim, utan um nestið, o.fl. Þessir hafa sparað mér marga plastpoka í gegnum tíðina. Yngri dóttirin hefur stundum með sér blautpoka í skólasundið, því hún nær ekki að vinda sundbolinn nógu vel, og þá blotnar sundpokinn hennar stundum í gegn.
Ég var alltaf með nokkra svona í körfunni í leikskólanum þar sem dæturnar geymdu hrein föt til skiptanna, þannig ef það þurfti að sækja hrein föt var bara sóttur poki undir blautu fötin í leiðinni. Og kennararnir voru alls ekkert óánægðir með þetta, þeir hefðu hvort eð er þurft að sækja plastpoka.

Engan-fjlpst_
Mynd fengin að láni hjá natturan.is

Afþakka ruslpóst og dagblöð
Það er lítið mál að afþakka ruslpóst og dagblöð, en á heimasíðu póstsins er hægt að skrá heimilisfangið sitt og fá límmiða sem á stendur að fjölpóstur sé afþakkaður. Hér má nálgast formið til að fylla út og fá sendan límmiða á lúguna.
Sambærilega límmiða má líka fá hjá Póstdreifingu ef haft er samband við þá, en flestir virða líka bara heimatilbúnar merkingar.

Svo mæli ég að sjálfsögðu með mínu eigin vörumerki; Fjölnota.

 

Lífið

Sjampóstykki

Þegar maður reynir að minnka plastnotkun verður manni ljóst hvað maður notar mikið plast í daglegu lífi. Það er svolítið síðan ég heyrði um sjampóstykki – eða Shampoo Bars, en þegar ég fór til Bandaríkjanna í fyrra tók ég mig til og pantaði mér þannig.

Ég fann mér krúttlegt lítið fjölskyldufyrirtæki í Kaliforníu, Chagrin Valley Soap and Salve, og pantaði mér bæði sápur, sjampó og kremstykki.

Sjampóið tók ég í notkun fyrir nokkru síðan, sennilega þremur mánuðum, og maðurinn minn prófaði það líka. Það er skemmst frá því að segja að við erum bæði himinlifandi og höfum ekki notað fljótandi sjampó síðan!

Mér finnst hárið á mér aldrei hafa verið jafn hreint og mjúkt. Og þetta endist og endist! Við erum búin að nota þetta í ca. 3 mánuði, m.v. sápuhárþvott hjá hvoru okkar 2-3x í viku, og það er kannski búinn ca. þriðjungur af stykkinu! Við höfum líka notað það af og til í hár dætranna, en þær eiga samt enn flöskusjampó.

Ilmurinn er mildur og góður, og hentar báðum kynjum. Maður bara nuddar stykkinu nokkrum sinnum yfir höfuðið og nuddar svo bara með höndunum eins og vant er. Ég hef þó lesið um að sumum finnist betra að nudda stykkið til að fá löður og nudda því svo í hárið, en að setja ekki stykkið sjálft í hárið.

Sápurnar þeirra koma bara í pappaumbúðum, sem auðvelt er að endurvinna.

Nýlega sá ég að Vistvera er farin að flytja inn brot af úrvali Chagrin Valley, og svo má líka fá sjampóstykki á Mena.is.

Mæli eindregið með því að prófa þetta!

Lífið

Týra veiðiljón og nýi kraginn

20180413_094455

Litla kisan okkar, hún Týra, hefur breyst í veiðiljón með vorinu. Hún er rétt að verða eins árs, en kemur inn með reiðinnar býsn af bæði fuglum og músum, dauðum og lifandi.

Hún er með bjöllu, en bjallan gerir lítið gagn. Fyrri kisan okkar, Nala, fékkst aldrei til að vera með ól og bjöllu, og dýralæknirinn sagði að það skipti engu máli, bjöllur væru nú eiginlega bara til að friða mannfólkið, gerðu lítið gagn í að koma í veg fyrir veiði katta. Og nú sjáum við greinilega að hún hafði rétt fyrir sér!

Hins vegar heyrðum við að þegar kettir veiddu mikið væri hægt að setja á þá litríka trúðakraga, því þannig yrðu þeir sýnilegri og fuglarnir sæju þá frekar. Það var þá ekkert annað í stöðunni en að útvega svona kraga.

Snapchat-1378126443

Við fundum þá ekki við fyrstu leit, svo við fórum í Rúmfatalagerinn og keyptum skræpóttasta bómullarefnið sem var til þar. Það er mjög einfalt að útbúa kragann, og tekur mjög litla stund.

Það sem maður þarf er lítill diskur (ca. 20 cm í þvermál) og lítil skál (ca 7 cm í þvermál). Maður leggur efnið tvöfalt saman, og teiknar eftir diskinum á efnið. Svo í miðjan hringinn teiknar maður eftir skálinni.

20180528_212734

Þá þarf bara að klippa hringinn út, og klippa gat á hann á einum stað. Saumum þetta saman á röngunni, snúum þessu við og þræðum kattarólina í gegn. Þá erum við komin með svona skrautlegan trúðakraga á köttinn!

Kötturinn kippti sér lítið upp við þetta, og kom inn með fugl þegar hún var búin að vera með kragann í 4 tíma… en ég held samt að það hafi dregið aðeins úr veiðinni hjá henni, hvort sem það er kraginn eða eitthvað annað.

20180530_092259
Kraginn eftir nokkra daga, farinn að láta örlítið á sjá!

 

Þetta er samt líka ótrúlega krúttlegt!