Þessi færsla er framhald af þessari hér.
Á laugardagsmorguninn var komið að stóra málinu fyrir mig; Notre Dame. Við höfðum fundið okkur skoðunarferð með Fat Tire Tours þar sem fyrst var farið í Sainte Chapelle og svo í Notre Dame kirkjuna áður en við klifruðum upp í turnana. Við hittum Sophie, leiðsögumanninn, fyrir utan Hæstarétt Frakklands, og héldum svo í Sainte Chapelle.



Sainte Chapelle Kapellan var reist á 13. öld, og glerið í steindu gluggunum er 70% upprunalegt. Kapellan er á tveim hæðum, á þeirri neðri fékk almenningur að biðja, en á efri hæðinni mátti aðeins aðallinn tilbiðja sinn guð. Sagan segir að Lúðvík 9. hafi keypt þyrnikórónu krists, komið með hana til Parísar og byggt Sante Chapelle yfir hana. Þyrnikórónan kostaði fjórfalt meira en byggingin, og byggingin er svo falleg að maður bara trúir því ekki! Mér fannst neðri hæðin svo falleg að ég trúði ekki að efri hæðin gæti verið fallegri – en ég varð hreinlega orðlaus yfir henni.
Þegar við vorum búin að skoða báðar hæðir kapellunnar héldum við í Notre Dame, fyrst í kirkjuna sjálfa, en hún tekur 6.000 manns! Bygging kirkjunnar hófst árið 1163 og tók 250 ár að klára hana. Í samanburði tók aðeins 6 ár að byggja Sante Chapelle. Konungurinn kostaði Sante Chapelle en Notre Dame var byggð fyrir almenningsfé.


Það eru 387 tröppur upp í turna Notre Dame, svo þar með var maður búinn með þrekæfingarnar þann daginn! Útsýnið var mergjað, og mér þótti mjög gaman að „hitta“ ufsagrýlurnar sem Victor Hugo gerði að persónum í Hringjaranum í Notre Dame og Disney vakti til lífsins fyrir lítilli stelpu.

Eftir tröppuþrekið fórum við aðeins á stúfana að versla, m.a. í C&A, HM og Primark. Ég gat ekki betur séð en að það væri bara ein eða tvær Primark í París, og ég hef sjaldan eða aldrei lent í þvílíkri örtröð! Öryggisverðir hleyptu inn í búðina í hollum, og ég hef aldrei séð svona raðir og troðning. Vá – þetta geri ég ekki aftur.

Á sunnudeginum voru allir frekar rólegir nema við hjónin, við drifum okkur í tvo „FreeWalkingTours“ með Discover Walks. Fyrst um morguninn hittum við hópinn og leiðsögumanninn Ben fyrir utan Parísaróperuna, og héldum í Paris Landmarks túrinn. Húsið þótti mér ótrúlega fallegt og virðulegt að utan, en er víst ótrúlegt að innan – því miður höfðum við ekki tök á að skoða hana að innan. Við vorum leidd um hliðargötur og heyrðum sögur af konungum og öðru merku fólki.


Eftir gönguna fórum tylltum við okkur aðeins en ákváðum svo að fara í Parísarhjól sem stóð á Place de la Concorde. Ég held ég hafi aldrei verið jafn lofthrædd, og ég er samt lofthrædd! Það voru ca 4-6 í hverjum klefa, en klefinn var ekki meira lokaður en það að maður gat stungið höndunum út úr honum. Auk þess var Parísarhjólið færanlegt, en það ferðast milli staða og hefur t.d. verið í Birmingham og Bangkok. Já, það stóð bara á einhverju gámadóti. En útsýnið var ótrúlegt!
Eftir léttan hádegisverð gengum við upp að Moulin Rouge, þar sem við hittum leiðsögumanninn Audrey frá DiscoverWalks og gengum með henni ásamt hóp um Montmartre-hverfið. Þar gengum við t.d. framhjá vinnustofu Picasso, skoðuðum vínekru og enduðum hjá Sacre Coeur basilíkunni. Fólk safnast greinilega saman við basilíkuna, en þar var þvílík mannmergð. Vegna þess hvað það var löng röð inn í basilíkuna, þá gáfum við okkur ekki tíma til að fara þar inn – enn eitt atriðið sem þarf að gera í næstu Parísarferð! Á leiðinni aftur á hótelið gengum við í gegnum húsagarðinn við Louvre, en enn og aftur hrjáði okkur tímaskortur og því fórum við ekki inn á safnið sjálft.



Það er svo óendanleg saga í París og svo margt að skoða, að ein helgarferð er bara rétt rjóminn, og erfitt að velja hvað á að gera á svona stuttum tíma. En við þurfum klárlega að fara aftur til Parísar, það er svo margt eftir að sjá og skoða!