Skriftir

Kolbrún – skriftir

Hún andvarpaði. Síminn hringdi, og nafnið hans blikkaði. Hann vissi vel að hún vildi ekki heyra meira frá honum, þau voru skilin að skiptum. Hún slökkti á skjánum á símanum, og hélt áfram upp stigann. Ingibergur var alveg að fara með hana, hann gerði bara meiri og meiri kröfur á hana, en hann vissi vel að hún var við það að gefa eftir. Hún var búin að losa sig við sambýlismanninn og mátti ekki við því að missa vinnuna líka, hún treysti sér ekki til þess að snúa lífi sínu algerlega á hvolf og koma upp úr kafinu í heilu lagi.

Hún sneri lyklinum í skránni, og heyrði læsinguna opnast. Hún gekk inn og kveikti ljósin, dagurinn var hafinn. Hún snerti músina, svo skjávarinn hvarf af skjánum. Hún hafði bara búist við stimpilklukkunni, en henni rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Á skjánum var mynd af samstarfskonu hennar keflaðri, og sturlaðri af hræðslu – augun voru glennt upp eins og í hræðsluöskri. Hárið, sem venjulega var vandlega greitt, var í óreiðu eins og hún hefði jafnvel lent í slagsmálum eða ofbeldi. Myndin var greinilega tekin á vinnustaðnum, en þar var allt eins og venjulega. Andrea vissi ekki hvað hún átti að gera. Hvað gerir maður í svona aðstæðum? Hringi ég í lögregluna? Hringi ég í yfirmanninn? Eða í foreldra hennar eða vini? Þar sem hún stóð freðin fyrir framan tölvuskjáinn komu tvær samstarfskonur hennar inn um dyrnar, flissandi. Þegar þær sáu hana frusu þær í sporunum og hættu samstundis að flissa og slúðra.

„Hvað hefur gerst?“ spurði Jóhanna, sú lágvaxnari en frakkari af þeim tveim.

„Er ekki allt í lagi?“ spurði Katrín nánast samtímis.

„Nei… stelpur…“ Andrea vissi ekki hvað hún átti að segja. Hún benti á skjáinn.

Stelpurnar gengu ákveðið til hennar. Jóhanna æpti upp yfir sig, en Katrín greip fyrir munninn þegar þær sáu myndina sem blasti við þeim af skjánum. Við viðbrögð stelpnanna raknaði Andrea við sér.

„Við verðum að láta vita. Við verðum að hringja í lögregluna.“

Hún greip símann sem lá við hliðina á tölvuskjánum og sló inn 112.

„Neyðarlínan góðan dag – hvernig get ég aðstoðað?“

„Eitthvað hefur komið fyrir Kollu… ég veit ekki hvað! Ég mætti bara í vinnuna í morgun og það beið mín mynd af henni!“

„Róaðu þig, væna. Er einhver slasaður? Er þörf á sjúkrabíl?“

„Nei, eða nei. Ég held ekki. A.m.k. ekki hér.“

„Dragðu djúpt andann og segðu mér rólega frá því sem gerst hefur. Byrjaðu á því að segja mér hvað þú heitir og hvaðan þú hringir.“

Andrea dró djúpt andann, og hélt honum í sér þar til hún sleppti honum ákveðið frá sér.

„Ég heiti Andrea Magnúsdóttir og hringi frá KG endurskoðun. Eitthvað hefur komið fyrir Kollu sem vinnur með mér. Kolbrúnu Stefánsdóttur. Ég kom bara í vinnuna í morgun, og í staðinn fyrir að stimpilklukkan væri uppi á tölvunni eins og venjulega var bara ljósmynd af Kollu, hún er greinilega stjörf af skelfingu, og kefluð!“

„Ég sendi lögreglumenn til þín. Reynið að snerta ekkert.“

„Allt í lagi.“

„Þeir verða komnir eftir sirka 3 mínútur. Ég legg á núna, en þú hringir aftur ef eitthvað er.“

„Takk fyrir!“

„Takk sömuleiðis, og gangi ykkur vel.“

Skömmu síðar gengu fjórir lögreglumenn inn á skrifstofuna. Andrea rakti málavöxtu að nýju, og þeir litu á tölvuskjáinn.

Myndin var tekin nálægt andliti Kolbrúnar, en þó sást greinilega í umhverfið á vinnustaðnum. Kolbrún lá á gráum flísunum, í bakgrunni sá í borðið og stólana sem stóðu í anddyrinu, fyrir framan afgreiðsluborðið þar sem bókararnir voru vanir að stimpla sig inn. Lögreglumennirnir litu í kring um sig, en sáu ekki neitt athugavert í fljótu bragði.

„Hafið þið komið auga á eitthvað sem er öðruvísi en venjulega?“ Miðaldra þrekvaxinn lögreglumaðurinn lítur í kring um sig, og svo af einum viðmælandanum á annan. Maðurinn er þrekinn, svo svíramikill að skyrtan virðist vera við það að valda honum öndunarerfiðleikum

„Neeei.. nei..“ stama stelpurnar sem standa þétt saman við einn vegginn eins og hrædd dýr sem hafa verið króuð af. Allar eru þær með handleggina krosslagða, og af og til heyrist Katrín snökta.

„Er þolandinn líkleg..“ byrjar lögreglumaðurinn aftur, rólega.

„Kolbrún, hún heitir Kolbrún. Kölluð Kolla.“ nánast hvæsir Andrea á hann.

„Er… Er Kolbrún líkleg til að gera eitthvað svona að gamni sínu?“

 

Lífið, Skriftir

Lína og stöðumælaverðirnir – gamansaga frá 2015

Einn daginn, sem oft áður, var ég á leið heim úr vinnu. Ég kom að bílnum mínum þar sem hann stóð á fastleigustæði í miðbæ Akureyrar. Hlamma mér inn, legg töskuna frá mér í farþegasætið. Þegar ég lít upp er það fyrsta sem ég sé stöðumælasekt! Ég lít í hornið á rúðunni, og jú, þar liggur fastleigukortið sem heimilar mér að leggja í stæðið þar sem bíllinn stendur. Upphófust nú í huga mér allar hinar óforskömmuðustu formælingar sem ég gat upphugsað – ég tek það fram að ég er almennt mjög skapgóð og umburðarlynd, en ég hafði fyrr um daginn hlustað á ræðu um það hve mikil fornaldartröll og erkibjálfar stöðumælaverðir geta verið. Þarna – beint fyrir framan mig – var svo bara sönnun þess efnis! Fastleigukortið var í glugganum, ég vissi að það var ekki útrunnið og samt – SAMT – höfðu þeir sektað mig!

Ég stökk útur bílnum, alveg tilbúin í fæt. Ég ætlaði sko með þetta beint inn á bæjarskrifstofur að rífa kjaft – það gengi sko ekki að sekta fólk sem legði lögum samkvæmt í stæði sem það hafði heimild til! Reif upp símann, tók af þessu mynd, til að reka framan í grey óheppna bæjarstarfsmanninn sem yrði fyrir barðinu á mér. Myndin tókst bara með ágætum, bæði sást í stöðumælasektina og fastleigukortið.

Ég þreif í plastið sem sektirnar koma í, og stikaði ákveðnum, þungum skrefum að bílstjórasætinu. Það var samt eitthvað sem gekk ekki upp, ég fann það strax. Settist inn í bílinn alveg eins og sannkallað skass á svipinn (trúi ég, í það minnsta) og leit á það sem ég hélt á.

Í plastinu í höndum mér var engin stöðumælasekt, en á plastinu sjálfu stóð: „Mundu að fastleigukortið þitt rennur út í lok vikunnar.“

Ég hreinlega bráðnaði, skammaðist mín, fann hlýjan yl í maganum vegna vinsamlegheita náungans. Ó, hvað hann var indæll, að hafa gefið sér tíma til að skrifa mér svona orðsendingu – og þannig koma í veg fyrir að hann gæti sektað mig í komandi viku.

Náunginn er oft indælli en hann virðist og ekki er allt sem sýnist í fyrstu!

Skriftir

11 Leiðir til að vera fyrirmyndar viðskiptavinur

Reglulega kemur upp umræðan um hve dónalegt fólk getur verið við fólk í þjónustustörfum, og sú umræða á fullan rétt á sér, því það eru ótrúlegustu hlutir sem fólk lætur út úr sér. Ég tók hér saman nokkra punkta sem tryggja það að þú verðir ekki saga í fjölskylduboðum næstu 20 árin, vegna þess hvað þú varst dónaleg/ur eða leiðinleg/ur við starfsfólk í þjónustustörfum.

 1. Starfsfólk verslana þolir ekki þegar vörur í hillunum eru ekki með strikamerki. Viltu gera svo vel, ef þú sérð vöru í hillunni með ekkert strikamerki, að velja það eintak. Starfsmaðurinn á kassanum verður líka svo glaður að fá að hlaupa inn í verslunina til að finna vörunúmer vörunnar, og losna frá kassanum í smá stund.
 2. Þegar afgreiðslustarfsfólk stimplar sig inn í vinnuna skilur það líka persónuleikann, tilfinningarnar og öll einstaklingseinkenni eftir í starfsmannaaðstöðunni. Það er því allt í lagi að hella sér yfir afgreiðslufólkið, það tekur það ekkert nærri sér eða sem persónulegri móðgun.
 3. Verðið á bensínlítranum / mjólkurfernunni / skóparinu er pottþétt bara samsæri gegn þér – afgreiðslufólkið ræður verðinu og er bara með þetta háa verð til að græða persónulega og til að skaprauna þér.
 4. Afgreiðslufólk er sáttast þegar þú talar ekki við það. Þegar það býður góðan daginn á það ekki von á svari, og þegar það segir „gjörðu svo vel“ eða „eigðu góðan dag“ þá er það bara að halda raddböndunum við, svo það þurfi síður að ræskja sig þegar það svo hittir loksins einhvern sem það nennir að tala við.
 5. …og að þakka því fyrir! Til hvers? Það fær borgað fyrir þetta, þetta er bara sjálfsagt mál!
 6. Starfsfólk í þjónustustörfum sem talar ekki fullkomlega rétta íslensku vill endilega heyra hvað þér finnst um það. Það eitt og sér að fá að heyra að þú skiljir það ekki eða að þér finnist asnalegt að það tali ekki íslensku, það mun hjálpa því í framtíðinni – því í hvert sinn sem einhver segir þetta við það þá bætast nefnilega nokkur ný orð í orðaforðann og málfræðin verður auðveldari.
 7. Ef að þú tekur þér vöru úr hillu verslunar, endilega skildu hana eftir annarsstaðar ef þú hættir við hana. Sérstaklega ef þú ert með kælivöru, mjólk eða álegg, skildu það eftir bara hjá hreinlætisvörunum. Það er aldrei nóg að gera í vinnunni hjá þessu fólki, og svona lagað kemur þessu unga fólki til að hreyfa sig.
 8. Og alls ekki nota hyrnurnar til að skilja vörurnar þínar frá annarra á færibandinu.
 9. Jafnvel þótt starfsfólk í þjónustustörfum fari út fyrir það sem það þarf nauðsynlega að gera og er uppálagt, gangi lengra í þjónustu sinni eða sé einstaklega kurteist og vingjarnlegt, þá er best fyrir þig að vera hryssingsleg/ur – við viljum ekki að þetta fólk haldi að það sé eitthvað.
 10. Ferðu stundum í sjoppu að fá þér pylsu? Þá skaltu nú vera með á hreinu í hvaða röð þú vilt sósurnar á pylsuna! Fyrst hráan, tómat og remú, í þessari röð – og tvöfalt sinnep ofan á!
 11. Ef þú álpast inn í fataverslun, þá skaltu nú vera alveg viss um að það heyrist í þér þegar þú lætur vita af því hve dýrt þér þykir þetta allt vera, og hve ljótt og tilgangslaust. Svo ekki sé nú minnst á stærðirnar sem boðið er upp á. Það er nefnilega afgreiðslufólkið á gólfinu sem ræður hvað er keypt inn, verðinu og þeim stærðum sem flíkin er framleidd í.

Ef þú ferð eftir ofangreindum ráðleggingum geturðu verið viss um að hvert sem þú ferð til að versla, að þér verður tekið eins og grískum guði!

Skriftir

Venjulegur dagur í vinnunni – smásaga

Þetta var bara venjulegur dagur í vinnunni.  Ingólfur tuðaði eins og venjulega, það sem einn lítill maður getur átt af uppsöfnuðu tuði.

En hvað um það, frásögnin átti ekki að snúast um Ingólf.

Þennan venjulega dag var ég bara á leiðinni á kaffistofuna, var komin á andlega endastöð hvað uppgjör mánaðarins snerti. Þurfti bara afsökun til að standa upp, svo ég ákvað að sækja mér kaffi í bollann minn. Á leiðinni til baka í básinn minn stoppaði ég hjá glugganum þar sem ég stoppa oft ef ég þarf að hvíla hugann. Útsýnið yfir götuna og húsin í kring er svo fallegt, sér í lagi að vetri til þegar birtan af snjónum og myrkrið takast á um völdin. Myrkrið, ljósin, snjórinn – róin sem þessi þrenning ber með sér. Ég finn hvernig róin að utan síast inn í órólegan huga minn.

En þar og þá, þar sem ég stóð og drakk í mig friðinn að utan þá sá ég hana. Hún stóð hinum megin við götuna, og starði beint á mig. Ég fann kaldan straum leggja frá hnakkagrófinni og niður eftir hryggnum. Ég stirðnaði upp þar sem ég starði út um gluggann. Ég kom til sjálfrar mín við brothljóð, þegar kaffið úr bollanum mínum skvettist yfir buxnaskálmarnar.  Hún hefur ekki vitjað mín í mörg ár.

„Birgitta, Birgitta“ Ég fann höndina á Maríu liggja á öxlinni á mér. „Hvað gerðist? Það var eins og þú værir að sofna, eða að þú værir bara hreint ekki í líkamanum lengur!“

„Ha? Já, æji, sorrý. Bara svaf illa í nótt og Sonja var eitthvað óróleg“

„Elskan mín, er bakflæðið enn að angra hana?“

Síðast þegar hún vitjaði mín var það einmitt á þessum árstíma líka. Hún virðist halda sig í myrkrinu, og skríða aðeins fram þegar minnst varir.

Skriftir

11 skotheldar leiðir til að eignast nýja vini á fullorðinsárum

Maður sér reglulega umræðu um það hve erfitt geti verið að eignast nýja vini á fullorðinsárum, þannig ég ákvað að taka saman nokkrar skotheldar og margprófaðar leiðir, sem hafa reynst mér vel í gegnum árin:

 1. Farðu á kaffihús þar sem er nóg að gera, og ekkert borð laust. Kauptu þér drykk í bolla, alls ekki til að fara með. Spurðu hvort þú megir setjast við eitt borðið þar sem fólk situr, þar sem það séu engin sæti laus. Byrjaðu að tala. Tada – kominn fyrsti vinurinn.
 2. Farðu í fataverslun og bjóddu fólki ókeypis ráð. Fólk vill ekki skrum og innantómt hrós, það vill hreinskilni; segðu því ef þér finnst klúturinn ekki fara því, eða skórnir ljótir. Tala nú ekki um ef gallabuxurnar eru of þröngar, eða vömbin slapir í kjólnum. Þannig eignastu sanna vini.
 3. Farðu í Bónus og stattu við kælinn þar sem kjúklingurinn er, passaðu þig að standa ekki grunsamlega heldur eins og þú sért að skoða kjúklinginn til að finna rétta bakkann. Gott er að líta af og til upp og ganga áfram, en koma svo bara aftur. Áður en líður á löngu kemur einhver til að grípa sér kjúlla, þá skaltu andvarpa og spyrja hvað viðkomandi ætli að elda úr þessu, þú vitir ekkert hvað þú eigir að elda. Ef það kemur á viðkomandi, skaltu bara kasta fram einhverju eins og: bringur með pestó? Reynslan hefur sýnt mér að viðkomandi mun segja annað hvort já eða nei, og ef það kemur nei, þá fylgir oftast á eftir hvað viðkomandi ætlar að gera. Þá geturðu gripið tækifærið og annað hvort spurt hvort þú megir ekki bara kíkja í mat, eða að þú gerir nú svo gríðargóðan svona-og-svona rétt, hvort það megi ekki bara bjóða honum/henni til þín í kvöld?
 4. Áttu börn? farðu með þau á leikvöllinn og segðu þeim að hrinda öðrum krakka. Þá stekkurðu til og hjálpar barninu, en á sama tíma kemur væntanlega foreldri þess. Þá byrjarðu á því að biðjast margfaldlega afsökunar á barninu þínu sem verður svo óviðráðanlegt þegar það sefur lítið, þá ertu búin að opna fyrir að segja þeim alla ævisöguna og þið eruð orðnir mestu mátar áður en þú veist af.
 5. Er mamma þín á elliheimilinu? Keyptu tvo miða í leikhús. Gríptu eina af starfsstúlkunum sem sér um hana blessaða móður þína og þakkaðu henni fyrir bljúgt hjarta hennar og hve göfug hún sé að fórna lífi sínu til að sjá um aldraða. Í þakkarskyni langi þig að gefa henni hérna miða í leikhús. Þegar hún þakkar þér fyrir, gerirðu henni grein fyrir að þú átt annan þeirra, og að þú verðir deitið hennar fyrir kvöldið. Þetta getur bara ekki klikkað!
 6. Fáðu þér hund. Það er aðgöngumiði að hundasvæðum. Á hundasvæðum er tilvalið að gefa sig á tal við aðra hundaeigendur, en mundu bara að segja nógu oft hvað þú elskar hundinn þinn, að það hafi ekki verið neitt líf fyrir hundinn og þú gætir ekki án hans verið. Gott að skella inn einni sögu um hvað þér leið illa þegar hundurinn veiktist eða eitthvað álíka. Bara eitthvað nógu dramatískt til að koma tárunum út á fólki.
 7. Gerðu þér upp verki í brjóstkassa eða kviðarholi, og linntu ekki látum fyrr en þú verður lagður inn. (Eða hvern þann krankleika sem þér dettur í hug, en passaðu þig að hafa hann bara nógu alvarlegan!) Þegar það er búið að leggja þig inn eru miklar líkur á því að það verði fleiri en bara þú á stofunni; þar er fólk sem kemst lítið sem ekki neitt og þið getið orðið perluvinir!
 8. Gefðu þig á tal við Vottana og Mormónana. Bjóddu þeim í mat þegar þeir banka uppá, þú getur eflaust haldið þeim eins lengi og þú hefur löngun til, og þeir koma alltaf aftur og aftur og aftur…
 9. Farðu í sund, gefðu konum góð ráð hvernig losna megi við ör og appelsínuhúð, hvernig stinna megi brjóst og maga – og hvað annað sem fyrir augu ber. Þær munu vera þér þakklátar!
 10. Rúntaðu um bæinn. Í hvert skipti sem þú sérð kött fara yfir götuna skaltu gefa í og reyna að ná honum. Gættu þess bara að hann sé merktur, svo þú getir fundið hvar hann á heima. Þegar þú hefur slasað hann eða drepið, skaltu halda heim til eigandans, bera þig mjög aumlega og hugga svo viðkomandi. Ef þú kemur þér inn úr dyrunum ertu á grænni grein!
 11. Oft þegar líða fer á kvöldin gerist æði rólegt í verslunum og á bensínstöðvum. Þú skalt gerast fastagestur, og með tíð og tíma geturðu stoppað lengur og lengur, þar til þú ert orðinn vel málkunnugur starfsfólkinu, og búinn að eignast vini á hverri vakt!

Öll þessi ráð hafa gefist mér vel, en ég er alltaf til í fleiri. Það gengur misvel að eignast vini, og því miður þarf maður stundum að losa sig við þá á einn eða annan hátt – kannski vegna þess að þeir fundu beinin í kjallaranum, eða kjötið í frystinum. En það sparar bara útgjöld vegna fæðis!

 

Skriftir

Kæra Auður – smásaga

Hún saup á kaffinu. Það var heldur rammara þennan morguninn en venjulega. Kristján hafði tekið Tönju með sér, ætlaði að keyra hana á leikskólann á leið í vinnu.

Hún naut þessara morgunstunda, ein og út af fyrir sig, áður en erill dagsins hæfist. Hún þyrfti ekki að leggja af stað fyrr en 30 dýrmætum mínútum síðar, fyrst Kristján hafði getað tekið Tönju þennan morguninn.

Hún fann hreyfingar í kviðnum, lítil hönd – eða var það fótur? – straukst létt við hana. Hreyfingarnar voru ekki enn orðnar óþægilegar, frekar eins og lítil fiðrildi, sem fóru þó hratt stækkandi. Hugsanirnar leituðu aftur til þess tíma er hún hafði borið Tönju undir belti, stuttu áður en hún kom í heiminn höfðu hreyfingar barnsins verið, oft á tíðum, orðnar helst til óþægilegar, og jafnvel ægilega sárar.

Hún strauk létt yfir kviðinn meðan hún renndi yfir helstu fréttir þennan morguninn á vefmiðlunum. Þar var svosem ekkert annað en venjulega, stjórnmálamenn að baknaga hver annan í stað þess að koma einhverju í verk, í stað þess að vera samfélaginu til hagsbóta. Jarðskjálfti úti í heimi, fólk flýr heimili sín vegna stríða, fræga fólkið heldur áfram að vera frægt. Alltaf þetta sama.

Hún beit í ristaða brauðið, fékk klessu af marmelaði út á kinn. Hún strauk það vandlega af með einum fingri og sleikti hann.

Fyrst ekkert bitastætt var að finna á vefmiðlum, var næsta vers að skoða tölvupóstinn. Þar mátti finna auglýsingapóst frá Rúmfatalagernum, tvo eða þrjá auglýsingapósta frá mismunandi tískuvöruverslunum erlendis þar sem hún var fastur gestur hvenær sem hún slapp út fyrir landsteinana, tilboð frá ferðaskrifstofu og tölvupóstur frá einhverjum.

Þetta var ekki fjölpóstur sendur út sem auglýsing á óteljandi manneskjur sem af mismunandi hvötum höfðu skráð sig á póstlista. Heldur var þetta tölvupóstur frá manneskju til annarrar manneskju. Slíkan póst hafði hún ekki fengið á sitt persónulega netfang svo mánuðum eða árum skipti – það eina sem nokkurn tímann barst á þetta löngu gleymda netfang voru auglýsingapóstarnir sem hún hafði lúmska ánægju af því að skoða.

Pósturinn var frá manneskju sem kallaði sig RMS, með yfirskriftina „Kæra Auður“.

Það var eitthvað við þessa yfirskrift sem fékk hana til að hafa varann á sér, hver sendir henni bréf með nafni á þetta gamla netfang, og er ekki með sitt eigið nafn í reit sendanda?

 

To: auja1206@hotmail.com
Sent 18.4.2016 02:29
From: RMS <RMS@gmail.com>
Subject: Kæra Auður

Kæra Auður,

Síðustu ár hefur aldurinn færst hraðar yfir en venjulegt er, sökum veikinda. Ég hef lengi ætlað mér að nálgast þig til að segja þér að ég elska þig, og nú, þegar ég finn tímann sleppa frá mér eins og vatn rennur milli fingra manns þegar maður ætlar sér að drekka úr læk, sé ég að það gefst ekki langur tími til viðbótar til að hugsa og hugsa um það – því hugsanir einar og sér koma manni ekki neitt.

Án þess að þú gerir þér grein fyrir því hefur þú verið áhrifavaldur mikill í mínu lífi. Mín elsku Auður – ég sá alltaf fyrir mér að við myndum hittast, en ekki að þetta yrði svona. Nú er ég hins vegar nauðbeygð til að senda þér eitt lítið tölvuskeyti til að reyna að tjá þér þann raunveruleika, að úti í þessum stóra heimi er manneskja sem virkilega elskar þig og myndi gefa allt fyrir að geta spólað til baka og breytt því sem liðið er.

Elsku Auður, þar sem ég bíð míns hinsta dægurs, verð ég að óska þér alls hins besta. Njóttu alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða, og ekki bíða þar til það er orðið of seint.

Auður, Auður.

 

Við lestur bréfsins rann henni kalt vatn milli skinns og hörunds.

Skriftir

Unnið fram á kvöld – smásaga

Hún leit á hann útundan sér, skoðaði hann án hans vitundar. Hann var örlítið hærri en hún, en það munaði ekki meiru en svo að háu hælarnir hennar unnu upp muninn. Hann horfði á símann sinn einbeittur, það var lítil einbeitingarhrukka milli augnanna og varirnar leituðu aðeins fram, eins og þær væru á leiðinni að mynda stút. Hún elti augnaráð hans og leit á hendurnar sem héldu á símanum. Hendurnar voru nettar og snyrtilegar, og þumlarnir liðu hratt og óhikað yfir skjáinn.

Þau gengu hlið við hlið, hárið á henni bærðist í golunni. Þau þekktust lítið sem ekki neitt, en vinnan hafði leitt þau saman. Hann var sjálfstætt starfandi vefhönnuður, hún vann hjá bókaútgáfu sem vildi breyta ímynd sinni og koma á fót nýrri heimasíðu. Fyrirtækið hafði verið í viðskiptum við sömu vefhönnuðina svo árum skipti, og nú hafði verið tekin ákvörðun um að prófa eitthvað nýtt. Sigrún starfsmannastjóri hafði heyrt svo ægilega gott af honum, en hann hafði útbúið heimasíðu fyrir sprotafyrirtæki Frikka, mannsins hennar. Vefsíðan reyndist vera mjög flott og neytendavæn, þegar þau tóku sig til og skoðuðu ýmsar íslenskar vefsíður til að reyna að komast að því hvað þau vildu og eftir hverju þau leituðu.

Og nú voru þau þarna. Hún hafði fengið það verk að fara með honum yfir hugmyndir bókaútgáfunnar um nýju síðuna, og eftir að sitja yfir þessu í rúma klukkustund, ákváðu þau að skjótast yfir á næsta kaffihús og sækja sér almennilega drykki, því þau myndu verða eitthvað frameftir.

Henni var alveg sama, það var ekkert sem dró hana heim. Hákon, hennar fyrrverandi, var með börnin, svo það var alveg jafn gott að verja kvöldinu við vinnu eins og að eyða því yfir sjónvarpinu ein heima. Adam reyndist heldur alls ekki vera slæmur félagsskapur, hann hafði þægilega nærveru og kímnigáfa hans var alls ekki ólík hennar.

Þau höfðu nú þegar setið við verkið í tæpa tvo tíma, og þau yrðu sjálfsagt áfram fram á kvöld. Svolítið var síðan vinnufélagarnir yfirgáfu skrifstofuna, svo þau höfðu verið ein síðastliðinn klukkutíma. Þau höfðu lagt undir sig stóra fundaborðið, og sjá mátti gömlu heimasíðu útgáfunnar á vegg fundarherbergisins, þangað sem skjávarpinn í loftinu varpaði henni. Þau höfðu setið hvort við sína fartölvuna, hún með fundargerðir og hugmyndalista við höndina, hann með skrifblokk þar sem hann krotaði hjá sér hugmyndir á einfaldan hátt.

Hún horfði á fingur hans líða yfir skjá símans, og velti fyrir sér hvort hann væri að senda skilaboð og þá hverjum? Ætli hann eigi konu heima, sem situr með grenjandi krakka og bíður eftir að hann komi heim til sín? Ætli hann eigi unga kærustu sem getur ekki beðið eftir að fá hann heim, af því hún vill helst að þau séu saman hverja lausa stund?

Hún var rifin upp úr hugsunum sínum þegar hún tók eftir því að Adam stoppaði.
„Vorum við ekki á leið hingað?“ sagði hann og það lifnaði yfir augum hans þegar hann áttaði sig á því að hún var svo niðursokkin í hugsanir sínar að hún var næstum gengin framhjá kaffihúsinu.
„Ha? jú einmitt,“ tafsaði hún vandræðalega, en greip svo hurðina og hélt opnu fyrir hann meðan hann gekk inn. Ætli hann hafi nokkuð tekið eftir að ég var að horfa á hann? Ætli hann hafi séð á mér hvað ég var að hugsa?

Adam pantaði sér Americano og langloku með skinku og grænmeti. Sandra leit yfir borðið, fékk sér samloku með eggjum og skinku og karamellu Latte.

Það voru bara einir tvö eða þrjú hundruð metrar upp á skrifstofuna aftur, en henni fannst þögnin verða vandræðaleg. Hún gerði sér samt fyllilega grein fyrir að það voru aðeins hugsanir hennar á leiðinni á kaffihúsið sem létu henni finnast félagsskapurinn vandræðalegur núna, því fram að þessu hafði henni bara liðið vel í návist hans.

Þegar þau komu aftur upp á skrifstofuna kveikti hún á útvarpinu eins og hún var vön að gera á morgnana þegar hún mætti manna fyrst. Svo áttaði hún sig á því að hún var ekki ein, svo hún lækkaði í tækinu svo aðeins ómur af tónlist heyrðist í bakgrunninum, en myndi ekki trufla vinnu þeirra.

Eftir stutta gönguna í hauströkkrinu fannst henni ljósin á skrifstofunni vera svo skær og afhjúpandi að hún ákvað að dimma þau örlítið. Bara svo þau myndu ekki stinga svona í augun.

Adam jánkaði þegar hann varð var við að hún dempaði ljósin, sagði þetta vera miklu afslappaðra og þægilegra vinnuumhverfi. Þau fengu sér að borða, og af og til stalst hún til að líta örlítið í áttina að honum. Hann kveikti eitthvað í henni sem hún hafði ekki fundið fyrir síðan áður en börnin komu í heiminn. Hann gerði hana spennta og forvitna, og vakti hjá henni áhuga. Það rifjaðist upp fyrir henni að svona hafði spennan verið hjá þeim Hákoni, áður en börn og heimilisstörf og reikningar tóku allan sjarmann.

Hann hafði ekki kveikt hjá henni neinar sérstakar tilfinningar eða áhuga þegar hún hitti hann fyrst. Hann hafði tekið í hönd hennar og kynnt sig, vinalega og yfirlætislaust, röddin var mjúk og blíð, og brosið einlægt, karlmennskustælar hvergi sjáanlegir. En eftir því sem þau vörðu saman meiri tíma vann hann á.

Yfir matnum voru að ræða tónleika sem höfðu verið nokkrum vikum fyrr í Laugardalshöllinni, en hann hafði verið þar og hún hafði heyrt sögurnar þar sem nokkrar vinkonur hennar höfðu verið þar líka. Hann var eitthvað að bauka í tölvunni, meðan hann sagði henni frá. Hún fylgdist með honum, svipbrigðum andlitsins og vörunum. Þá leit hann upp og augu þeirra mættust. Augu hans voru svo einkennilega dökk, þau pössuðu engan veginn við hann, sem annars var ekkert dökkur yfirlitum. Hún vissi að hún ætti að líta frá, þannig voru kurteisisreglurnar, að stara á fólk var svipað brot og að ráðast inn í persónulegt rými þess. En hún gat ekki slitið augun af honum, svo hún horfði bara á móti. Hann þagnaði. Það var eins og tíminn stöðvaðist.

„Þetta hefur verið upplifun, það hefði verið gaman að vera þarna“ sagði hún og sleit augnsambandið, áður en það sem eftir var af vinnunni yrði of vandræðalegt. Hún potaði í samlokuna sína annars hugar, eins og hún hefði engan áhuga á henni, þrátt fyrir að hún hefði ekkert borðað síðan í morgunkaffinu, og nú var að líða að kvöldmatartíma.

„Jæja, eigum við að halda áfram?“ Adam reisti sig við í sætinu og gerði sig líklegan til að taka til starfa aftur.

Hún var skekin. Það voru komin þrjú ár síðan hún og Hákon skildu og síðan hafði hún ekki haft áhuga á að kynnast öðrum manni. Hún hélt að þessu tímabili væri bara lokið hjá sér, og hún var alveg sátt við að vera ein. Hún hafði búið með Hákoni í 12 ár, og hún elskaði frelsið, að vera sjálfs síns herra.

Hún náði ekki að fylgjast með því sem hann var að segja. Hún var enn skekin af nándinni sem hafði myndast með augnsambandinu. Henni fannst hún berskjölduð og vanmáttug. Hún sem hafði alltaf verið þessi sterka kona sem þurfti aldrei björgun, hún hafði verið konan sem sá um sig sjálf.

Kvöldið leið, hún var fjarhuga og var ekki lengur svo viss um að hún myndi valda verkefninu sem hún hafði tekið að sér. Hún gat sagt honum frá því sem þau höfðu rætt innanhúss á útgáfunni um það sem þau sáu fyrir sér með nýju síðuna, en hún meðtók ekkert af því sem hann lagði til eða reyndi að fræða hana um.

Rétt um níuleytið var hún búin að fara yfir allt sem þau á útgáfunni höfðu rætt, og hún var orðin úrvinda. Allar taugar hennar höfðu verið þandar frá því að augu þeirra mættust á svona afgerandi hátt, eitt augnablik í eilífðinni. Þetta var eitt af augnablikunum sem lífið snérist um; nánd – jafnvel þótt hún byggðist ekki á ást eða vinskap. Ókunnugt fólk gat deilt slíkri nánd, bara ef það leyfði sér það. Leyfði sér að vera berskjaldað, og mæta öðrum á jafningjagrundvelli.

„Erum við ekki bara orðin nokkuð góð?“ Spurði hún þegar henni fannst hann hafa lokið krotinu á skrifblokkina sína.

„Jú, það held ég,“ sagði hann og leit upp. Það lék létt bros um varir hans, hún fann hlýjuna í hjartanu. Þau gengu frá, slökktu á eftir sér og héldu að útidyrunum.

„Ég þakka fyrir,“ sagði hún og rétti honum höndina. Hann tók í útrétta hönd hennar, en dró hana svo að sér og kyssti hana létt á kinnina um leið og hann tók utan um hana. Hún fann mildan ilm af rakspíra og hreinum fötum, mjúkar varir hans við vanga sinn.

„Takk fyrir kvöldið,“ sagði hann um leið og hann bakkaði frá, rétti upp höndina í kveðjuskyni, brosti og bauð henni góða nótt. Síðan gekk hann í átt að bílnum sínum sem hann hafði lagt neðar í götunni. Hún horfði á eftir honum, sneri sér svo við og gekk í gagnstæða átt.

Skriftir

Skelin – saga af þunglyndi

Hún var alein.

Myrkrið þrýsti sér upp að henni. Það var ágengt, leitaði á hana eins og ástleitinn unglingsstrákur. Fór fingrunum um hvern sentimetra líkama hennar, og sálar, og tróð sér hvert sem það komst. Það hafði nú þegar hafið hernám líkamans, útlimirnir voru orðnir þyngri og vöðvarnir slappari, líkt og Elli kerling hefði komið fyrr í heimsókn en áætlað var.

Hún var ekki ein.

Það var fólk allt í kring um hana. Maður sem sá ekki sólina fyrir henni. Foreldrar sem voru við það að springa af stolti. Börn sem elskuðu hana. Samstarfsfélagar sem báru virðingu fyrir henni, vegna þess sem hún hafði áorkað.

En þótt hún væri umvafin öllu þessu fólki, sem elskaði hana og virti, vildi myrkrið bara ekki sleppa af henni hendinni.

Og því var hún ein.

Það gat enginn verið við hlið hennar í myrkrinu. Myrkrið er eins og skel, þunn en þó óbrjótanleg. Hún heyrði skarkalann í kring um sig, heyrði gleðina og sorgina, en gat ekki sýnt þau viðbrögð sem samfélagið ætlaðist til að sýnd væru. Viðbrögðin bara bárust ekki út fyrir skelina.

Skelin var þunn, en dimm, og virkaði bara í aðra áttina. Hún sá út úr myrkrinu, en ljósið komst ekki inn til hennar.

Það var eins og lamandi eitur væri að hefja verkun sína í líkamanum. Hún fann hvernig útlimirnir þyngdust eftir því sem tíminn leið, og vöðvarnir urðu að seigfljótandi leðju.

En dökka skelin brosti og hló. Hafði gaman með þeim sem stóðu henni næst, og leit svo sigri hrósandi í áttina að hræinu. Hræinu sem eitrið var hægt og rólega að éta upp.

Hún horfði á aðfarirnar með viðbjóð í augunum. Það var svo sárt – en sárt var gott. Það er betra að finna til, en að finna alls ekki neitt. Að finna til merkir að enn megi finna innra með henni lífsglóð, jafnvel þótt eitur myrkursins hafi nánast náð yfirhöndinni.

En hvað er það að lifa, ef ekkert annað kemst að en hvenær deginum muni ljúka?

Þannig hún ákvað að gefast bara upp. Það þýddi ekkert að berjast á móti, það væri sennilega bara affarasælast að lifa líflaus, einungis til að vera notuð sem gagnabanki fyrir hina dimmu skel, svo hún gæti fúnkerað í hinu daglega lífi. Lífinu sem myrkrið hafði rænt hana, og úthlutað skelinni.

En skelinni farnaðist vel, svo það var út af fyrir sig ástæða til að gleðjast, jafnvel þótt hún hefði ekki getu til þess að gleðjast lengur. Gleði var tilfinning sem krafðist of mikils af hennar eitraða og lamaða líkama. Skelin lifði lífi hennar, og tókst það bara býsna vel. Og fyrst allir í kring um hana töldu þetta vera hana, þá hlaut það bara að vera fyrir bestu. Meina; ef allir héldu að þetta væri hún, og hún væri að standa sig, gat það varla komið illa við nokkurn mann að vita að í raun væri þetta ekki hún. Hún væri þó til staðar, hvað þá varðaði, og það hlyti að vera betra að hafa hana í þessari mynd en bara alls ekki neitt. Þannig kannski var það bara af hinu góða að skelin hafði tekið yfir hennar hlutverk, því það hefði sennilega komið verr við aðra ef hún hefði bara hætt að fúnkera og ekkert komið í staðinn.

Skelin hélt þó uppi virðingu hennar, að svo miklu leyti sem það var hægt.

Það voru bara maðurinn og börnin sem komu í veg fyrir að skelin gæti hvílt sig. Að myrkrið fengi að ganga til hvílu og leyfa henni að stíga út um sinn. Það þurfti líka að halda blekkingunni hvað þau varðaði.

Útsýnið innan úr skelinni var skert. Hún sá og fékk að finna allt það vonda og sára, líkt og skelinni og myrkrinu þætti gaman að því að leyfa henni að þjást stöku sinnum. En þetta góða endurkastaðist af skelinni, og komst aldrei í gegn. Eins og þegar barn fær gjöf sem er móðurinni ekki þóknanleg, svo hún hverfur áður en hún nær að komast í hendur barnsins. Það var einfaldlega eins og þetta góða væri ekki til.

Hvernig er þá annað hægt en að bíða eftir að deginum ljúki?

Nóttin færir þó vissa fró þjökuðum sálum, hvort sem fróin er sú að kvelja sig eða sofa.

Þannig þrátt fyrir allt var hún alltaf alein. Enginn komst að henni, nema ef vera skyldi fyrir háð eða spott. Og þegar það er það eina sem hún fær, þá er hún alein. Það getur enginn lifað á háði og spotti einu saman, án þess að bíða eftir að deginum ljúki. Svo kemur nýr, þá hefst biðin eftir að deginum ljúki upp á nýtt. Og svona gengur lífið.

Svona vinnur myrkrið. Það einangrar, svo enginn kemst að þér. En með tímanum ferðu að kunna að meta það sem myrkrið býður uppá. Þú hættir að skynja kuldann sem það færir og hversu uppáþrengjandi það virtist í fyrstu. Og þótt sálin öskri og öskri eftir hjálp, milli þess sem hún dormar í sinnuleysi tilfinningaleysisins, þá heyrir enginn. Þú ert bara lokuð inni, djúpt inni, í þinni dimmu skel og enginn nær til þín nema með orðum sem særa svo svíður undan.

Og þá er bara betra að dagurinn sé búinn. Og þú sért alein. Í nóttunni, þegar enginn kærir sig um að ná til þín.

En, til að halda kvölinni áfram, ertu sífellt minnt á að það kemur annar dagur… og annar… og annar…