Skriftir

Kolbrún – skriftir

Hún andvarpaði. Síminn hringdi, og nafnið hans blikkaði. Hann vissi vel að hún vildi ekki heyra meira frá honum, þau voru skilin að skiptum. Hún slökkti á skjánum á símanum, og hélt áfram upp stigann. Ingibergur var alveg að fara með hana, hann gerði bara meiri og meiri kröfur á hana, en hann vissi vel að hún var við það að gefa eftir. Hún var búin að losa sig við sambýlismanninn og mátti ekki við því að missa vinnuna líka, hún treysti sér ekki til þess að snúa lífi sínu algerlega á hvolf og koma upp úr kafinu í heilu lagi.

Hún sneri lyklinum í skránni, og heyrði læsinguna opnast. Hún gekk inn og kveikti ljósin, dagurinn var hafinn. Hún snerti músina, svo skjávarinn hvarf af skjánum. Hún hafði bara búist við stimpilklukkunni, en henni rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Á skjánum var mynd af samstarfskonu hennar keflaðri, og sturlaðri af hræðslu – augun voru glennt upp eins og í hræðsluöskri. Hárið, sem venjulega var vandlega greitt, var í óreiðu eins og hún hefði jafnvel lent í slagsmálum eða ofbeldi. Myndin var greinilega tekin á vinnustaðnum, en þar var allt eins og venjulega. Andrea vissi ekki hvað hún átti að gera. Hvað gerir maður í svona aðstæðum? Hringi ég í lögregluna? Hringi ég í yfirmanninn? Eða í foreldra hennar eða vini? Þar sem hún stóð freðin fyrir framan tölvuskjáinn komu tvær samstarfskonur hennar inn um dyrnar, flissandi. Þegar þær sáu hana frusu þær í sporunum og hættu samstundis að flissa og slúðra.

„Hvað hefur gerst?“ spurði Jóhanna, sú lágvaxnari en frakkari af þeim tveim.

„Er ekki allt í lagi?“ spurði Katrín nánast samtímis.

„Nei… stelpur…“ Andrea vissi ekki hvað hún átti að segja. Hún benti á skjáinn.

Stelpurnar gengu ákveðið til hennar. Jóhanna æpti upp yfir sig, en Katrín greip fyrir munninn þegar þær sáu myndina sem blasti við þeim af skjánum. Við viðbrögð stelpnanna raknaði Andrea við sér.

„Við verðum að láta vita. Við verðum að hringja í lögregluna.“

Hún greip símann sem lá við hliðina á tölvuskjánum og sló inn 112.

„Neyðarlínan góðan dag – hvernig get ég aðstoðað?“

„Eitthvað hefur komið fyrir Kollu… ég veit ekki hvað! Ég mætti bara í vinnuna í morgun og það beið mín mynd af henni!“

„Róaðu þig, væna. Er einhver slasaður? Er þörf á sjúkrabíl?“

„Nei, eða nei. Ég held ekki. A.m.k. ekki hér.“

„Dragðu djúpt andann og segðu mér rólega frá því sem gerst hefur. Byrjaðu á því að segja mér hvað þú heitir og hvaðan þú hringir.“

Andrea dró djúpt andann, og hélt honum í sér þar til hún sleppti honum ákveðið frá sér.

„Ég heiti Andrea Magnúsdóttir og hringi frá KG endurskoðun. Eitthvað hefur komið fyrir Kollu sem vinnur með mér. Kolbrúnu Stefánsdóttur. Ég kom bara í vinnuna í morgun, og í staðinn fyrir að stimpilklukkan væri uppi á tölvunni eins og venjulega var bara ljósmynd af Kollu, hún er greinilega stjörf af skelfingu, og kefluð!“

„Ég sendi lögreglumenn til þín. Reynið að snerta ekkert.“

„Allt í lagi.“

„Þeir verða komnir eftir sirka 3 mínútur. Ég legg á núna, en þú hringir aftur ef eitthvað er.“

„Takk fyrir!“

„Takk sömuleiðis, og gangi ykkur vel.“

Skömmu síðar gengu fjórir lögreglumenn inn á skrifstofuna. Andrea rakti málavöxtu að nýju, og þeir litu á tölvuskjáinn.

Myndin var tekin nálægt andliti Kolbrúnar, en þó sást greinilega í umhverfið á vinnustaðnum. Kolbrún lá á gráum flísunum, í bakgrunni sá í borðið og stólana sem stóðu í anddyrinu, fyrir framan afgreiðsluborðið þar sem bókararnir voru vanir að stimpla sig inn. Lögreglumennirnir litu í kring um sig, en sáu ekki neitt athugavert í fljótu bragði.

„Hafið þið komið auga á eitthvað sem er öðruvísi en venjulega?“ Miðaldra þrekvaxinn lögreglumaðurinn lítur í kring um sig, og svo af einum viðmælandanum á annan. Maðurinn er þrekinn, svo svíramikill að skyrtan virðist vera við það að valda honum öndunarerfiðleikum

„Neeei.. nei..“ stama stelpurnar sem standa þétt saman við einn vegginn eins og hrædd dýr sem hafa verið króuð af. Allar eru þær með handleggina krosslagða, og af og til heyrist Katrín snökta.

„Er þolandinn líkleg..“ byrjar lögreglumaðurinn aftur, rólega.

„Kolbrún, hún heitir Kolbrún. Kölluð Kolla.“ nánast hvæsir Andrea á hann.

„Er… Er Kolbrún líkleg til að gera eitthvað svona að gamni sínu?“