Afþreying, Bucket list, Ferðalög, Lífið

Flóttaleikir (Escape Rooms)

Snapchat-725168957
Inngangurinn að Engima Room í Varsjá veikti örlítið vissu okkar um að við kæmum yfir höfuð út aftur!

Recording Studio hjá Enigma Room í Varsjá er fyrsta flóttaherbergið sem ég fór í, við vorum 4 saman en við hjónin drógum eiginlega vinahjón okkar með okkur. Þau voru ekkert gríðarlega spennt, en létu sig hafa það. Og sjá! Þetta var svo þrusu gaman, að við fórum aftur daginn eftir, og þá voru þau ekkert minna spennt en við!

Söguþráðurinn í Recording Studio var sá að við vorum tónlistarmenn sem höfðum gefið út mjög heita plötu, en svo hafði ekkert gerst í langan tíma. Framleiðandinn var orðinn frekar pirraður, búinn að ganga á eftir okkur svo mánuðum skiptir og kallar okkur loks á fund sem við gátum ekki skorast undan, þar sem spurningin var um líf eða dauða í bransanum. En þegar við mætum á staðinn er hann horfinn. Og við læsumst inni.

Herbergið var mjög vel upp sett, með földum rýmum og skemmtilegum þrautum. Þrautirnar snerust að miklu leyti um eitthvað tónlistartengt, en ekki þurfti neina tónlistarþekkingu til. Herbergið var ráðlagt fyrir 2-5 manns og erfiðleikastig 3/5. Við komumst út þegar um 9 mínútur voru eftir af tímanum, og vorum gersamlega komin með bakteríuna!

IMG_20180512_200150_049

Hacker Room hjá Enigma Room var svo herbergið sem við tókum kvöldið eftir. Sagan er sú að við erum hakkarar, sem vorum beðnir um að aðstoða yfirvöld, þar sem grunur leikur á að hópur hakkara muni ráðast inn í gagnagrunna sem innihalda upplýsingar um borgarana. Það er okkar að stöðva þá.

Herbergið var, eins og gefur að skilja, fullt af tölvudóti og þrautirnar snerust meira um kóða en í fyrra herberginu. Mælt var með að þátttakendur væru 2-5 og erfiðleikastigið var 3/5. Við komumst út þegar 11 mínútur voru eftir af tímanum. Þetta herbergi féll ekki alveg að mínu áhugasviði, en það skiptir svosem ekki öllu máli.

IMG_68221024
Mynd fengin að láni hjá enigmaroom.pl

Kleppur/Asylum hjá Akureyri Escape. Asylum er þriðja herbergið sem Akureyri Escape setur upp, en við misstum af fyrstu tveim herbergjunum (Bankaráninu og mannráninu). Sagan var þannig að við læstumst inni á geðveikrahæli, þar sem voru blóðug handaför á veggjunum og blóðugar dúkkur, o.þ.h. Eitt af því fyrsta sem við fundum var bréf frá fyrrum vistmanni, og kemur þar fram að hinn klikkaði læknir komi til baka eftir 60 mínútur. Ta-Tamm!

Stelpan sem á Escape Akureyri sér um það frá A-Ö. Hún hannar herbergin, smíðar og græjar það sem þarf, semur sögurnar o.s.frv. Hún á alveg heiður skilinn fyrir þetta, þetta er ótrúlega flott hjá henni!

Við vorum fjögur saman, við hjónin og vinahjón okkar. Við áttum eitthvað erfitt með að komast af stað, en svo small eitthvað og allt fór að ganga. Það endaði svo að með við slógum metið í herberginu, en herbergið hafði verið opið í sjö og hálfan mánuð! Við vorum ekki lítið lukkuleg með það – enda svosem bara þriðja herbergið hjá þrem okkar, og annað hjá fjórða leikmanninum. Tíminn var 31:42 og er langbesti tíminn okkar í flóttaherbergi enn þann dag í dag.

IMG_20181019_214347

Þá var komið að því að prófa flóttaherbergi upp á eigið einsdæmi, en þegar við fórum til Glasgow tókum við þrjú herbergi, og þá vorum við aðeins tvö að spila saman hjónin. Það þótti okkur svolítið stressandi tilhugsun, en svo reyndumst við rúlla því upp.

Fyrsta herbergið sem við tókum var Witch House in the Scottish Highlands hjá Locked in. Herbergið var mjög flott, ekkert smá lagt í að vera með rétta stemmningu. Herbergið var svartmálað og mjög takmörkuð lýsing. Það var stemmningstónlist, svona draugaleg skógarhljóð í bakgrunni. Maður byrjar í fremra herbergi, sem er eins og fyrir utan hús nornarinnar, en um miðbik leiksins kemst maður inn í kofann.

Herbergið var mjög vel heppnað, og ég mæli heilshugar með því ef þið eruð á ferðinni í Glasgow. Herbergið er fyrir 2-6 spilara, og sagt af erfiðleikastigi 3,5/5. Á heimasíðu fyrirtækisins segir að hlutfall þeirra sem sleppi sé 78%. Við kláruðum á 52:27, en ég verð að segja að ég hefði ekki boðið í að vera 6 saman í herberginu, það hefði hreinlega verið svolítið þröngt, ég held að 2-4 sé alveg fullkomið.

FB_IMG_1540745673569

Annað herbergið sem við fórum í var Enigmista hjá Escape Reality. Þetta herbergi var nú eiginlega bara aðeins of mikið fyrir mig! Sagan er semsagt þannig að fjöldamorðingi gengur laus, og nú hefur hann náð ykkur. Hann hefur sérlega gaman að því að fylgjast með hvað fórnarlömbin eru tilbúin að gera til að reyna að sleppa.

Maður hefur leik handjárnaður við lagnir, og það er „lík“ fest með keðjum á stólpa í herberginu, og það lítur út fyrir að viðkomandi hafi látið lífið á afar kvalafullan hátt. Það er rökkvað í herberginu, en blóðslettur upp um veggi. Ég átti mjög erfitt með að gera nokkurn skapaðan hlut til að byrja með, eiginlega stóð bara og sagði eiginmanninum að gera þetta, kíkja þarna, athuga þetta! Það var örugglega frekar kómískt að fylgjast með þessu! En með keppnisskapinu óx mér kjarkur og þor, svo á endanum var ég farin að henda til útlimum eins og ekkert væri.

Í eitt skiptið brá mér samt svo mikið að ég öskraði alveg neðan úr maga, af þvílíkri innlifun. Í þessu fyrirtæki var ekki gert mikið úr tímanum, en hann var einhversstaðar um 43:30. Erfiðleikastigið 4/5. Þetta var þrusugaman, en ég hugsa að ég haldi mig frá svona subbulegum herbergjum á næstunni!

FB_IMG_1541011445469

Svona voru fyrstu fimm herbergin sem við fórum í – og við erum alveg háð þessum leikjum! Þetta er svo þrusugaman!

Fyrir áhugafólk um flóttaherbergi bendi ég á facebook hópana Escape Room Enthusiasts og Europe Escape Enthusiasts.

Ferðalög, Lífið

Að fara til tannlæknis í Póllandi

Þegar við vorum búin að panta okkur ferð til Varsjár rakst ég á síðu á Facebook, Tannlæknirinn í Varsjá. Vitandi að ég hefði brotið upp úr jaxli, og að tannlæknirinn minn væri hættur vegna aldurs ákvað ég að afla mér upplýsinga!

Ég hafði samband við Sigrúnu, sem heldur úti síðunni og forvitnaðist um málið.

Capture
Mynd fengin að láni hjá google.com

Hún sagði mér frá því að þau hjónin hefðu farið til þessa tannlæknis í nokkur ár, og fólk hefði alltaf verið að spyrja þau út í það, svo hún hefði á endanum farið að verða milligöngumaður um tímapantanir o.þ.h. og í dag fer hún út með hópa nokkrum sinnum á ári.

Þegar ég skoðaði verðskrá fyrirtækisins, My dental clinic, ákvað ég bara að prófa! Stuttu seinna lenti maðurinn minn líka í því að brjóta tönn, þannig ég ákvað að þetta yrði eins konar óvissuferð fyrir okkur bæði og bókaði tíma fyrir hann líka!

Related image
Stofan þar sem við hittum tannlækninn, allt mjög nýtískulegt og flott. Mynd fengin að láni hjá mydentalclinic.pl

Við áttum semsagt bókaðan tíma kl. 16.00 á föstudeginum, og það væri kannski ekki ofsögum sagt að við hefðum verið pínu stressuð, og þá kannski sér í lagi annað okkar – vísbending: það var ekki ég.

Þegar við mættum á staðinn sáum við þessa fínu og flottu nútímalegu tannlæknastofu. Við byrjuðum bæði í röntgen myndatöku (svona mynd sem sýnir allan tanngarðinn í einu), og svo settist ég inn til læknisins í viðtal. Hann skoðaði myndina, spurði hvort ég vissi um eitthvað og skoðaði svo allt mjög vel.

Biðstofan. Mynd fengin að láni hjá mydentalclinic.pl

Eftir það lagði hann fyrir mig hvað honum finndist þurfa að gera, og hvort ég vildi ekki láta laga það allt. Ég var með einn brotinn jaxl og eina skemmd sem ég vissi um, en svo sá hann að ég var með skammtímafyllingu í einni tönn og einhverja sprungu á öðrum stað. Ég sagði honum bara að byrja, og sá fyrir mér að vera þarna að eilífu!

En viti menn – með tannsteinshreinsun og flúormeðferð, þá var ég í stólnum í minna en einn og hálfan klukkutíma! Maðurinn var fáránlega snöggur (m.v. þá tannlækna sem ég hef verið hjá allavega), vandvirkur og flinkur.

Ef að ég var búin tók hann eiginmanninn inn, og var mjög snöggur með hann. Eftir viðgerðir og hreinsun bað svo læknirinn um að fá að taka selfie með okkur; sem má sjá hér. Já, eins og sjá má er hann fjallmyndarlegur!

received_1658628504251385

Eins og ég sagði, þá voru fjögur atriði hjá mér sem þurfti að lagfæra, auk bara eftirlits og tannsteinshreinsunar, og svo flúor-aði hann líka tennurnar. Reikningurinn fyrir minn hluta var upp á kr. 60.000. Ég hugsaði með mér að það væri kannski svolítið meira en ég gerði ráð fyrir, en aftur á móti hefðu verið tvær viðgerðir sem ég gerði ekki ráð fyrir. Auk þess geri ég ráð fyrir að þetta hefðu verið að lágmarki 3 heimsóknir til tannlæknisins míns hér á landi, og það hefði aldrei kostað minna.

En ég lagðist í smá rannsóknarvinnu, og fann þrjár verðskrár frá tannlæknum hér á landi upp á samanburðinn:

Verð sýna samtals upphæð: deyfingar – 2 stk, stór viðgerð – 1 stk, lítil viðgerð – 3 stk, tannsteinshreinsun, flúor, röntgen (ég geri samt ráð fyrir að í verðskrám íslensku tannlæknanna sé bara átt við venjulegar „gamaldags“ röntgen myndir) og viðtal.

Við tökum þessu samt með þeim fyrirvara að ég er ekki tannlæknir og veit ekki hvort ég hafi alltaf valið rétt af verðlista íslensku læknanna, en ég reyndi þá alltaf að taka ódýrasta kostinn sem gæti passað.

Miðað við þessa töflu mína var ég að spara mér allt að því 50% – og m.v. að ferðin með hóteli og öllu kostaði innan við 60.000, þá er ég mjög sátt.

Aftur á móti hefðum við aldrei gert okkur ferð til Varsjár til að fara í þessar tannviðgerðir, en ég sé vel hvers vegna fólk velur að fara erlendis í stærri tannviðgerðir, þegar það getur sparað hundruð þúsunda – þrátt fyrir að reiknað sé með ferðakostnaði!

En reynslan okkar af þessu var alveg frábær, og við munum klárlega fara aftur til þeirra þegar við förum aftur til Varsjár. Mæli líka eindregið með að hafa samband við Sigrúnu, á Facebook-síðu Tannlæknisins í Varsjá, hún getur svarað öllum spurningum!

Image may contain: screen and indoor
Röntgenherbergið. Mynd fengin að láni á facebooksíðu Tannlæknisins í Varsjá. 
Ferðalög

Varsjá ferðasaga, 3. kafli

Á sunnudeginum voru allar verslanir lokaðar, þar sem í Póllandi eru að ganga í gildi lög sem banna verslun á sunnudögum (að frátöldum matvöruverslunum). Í ár eru verslanir aðeins opnar fyrsta og síðasta sunnudag í mánuði, en árið 2020 eiga verslanir að vera lokaðar alla sunnudaga. Þetta er gert á þeim grundvelli að fólk sem vinnur við verslun fái meiri frítíma. Við höfðum því skipulagt fríið þannig að sunnudagurinn fær í að skoða sig um.

Snapchat-1188300252

Dagurinn hófst á Palace of Culture and Science. Byggingin hét upphaflega Josef Stalin Palace of Culture and Science, þar sem Stalín „gaf“ Pólverjum þessa byggingu. Eftir að kommúnisminn féll var nafn Stalíns afmáð af byggingunni og nafninu líka. Ráðist var í byggingu þessa mannvirkis meðan Varsjá var enn í molum eftir seinni heimsstyrjöldina. Það bjuggu 8-9 manns í hverju herbergi, og deildu baðherbergi og eldhúsi. Fólk átti hvorki í sig né á, og bjó jafnvel í hálfhrundum húsum. Þess vegna hafa Pólverjar aldrei alveg tekið bygginguna í sátt, en í dag hýsir hún m.a. leikhús, bíó, safn, skrifstofur o.fl. og á þrítugustu hæð er útsýnispallur.

Snapchat-1712753965
Ótrúlega sátt með ferðina!
Snapchat-382963882
Útsýnið er gríðarlegt, þar sem borgin er heilt yfir mjög lágreist.

Eftir menningarhöllina skildu leiðir, en við hjónin héldum á myrkari slóðir. Við höfðum mikinn áhuga á sögu borgarinnar og héldum næst í Pawiak fangelsið. Pawiak var reist um 1830, þegar Pólland var hluti af Rússlandi, en þar voru pólitískir fangar geymdir þar til þeir voru sendir til Síberíu í þrælkunarvinnu.

Snapchat-1559552789

Þegar Þjóðverjar hernámu landið, tóku þeir Pawiak undir sig, og notuðu það sem stoppistöð áður en fólk var sent í útrýmingarbúðir. Fangelsið var byggt með það fyrir augum að hægt væri að hýsa 1.000 manns þar, en undir hernámi Þjóðverja voru allt að 3.000 manns hýstir þar. Aðstæður voru vægast sagt ömurlegar.

Snapchat-356671994

Þegar Þjóðverjar yfirgáfu borgina skemmdu þeir eins mikið og þeir gátu af verksummerkjum, og m.a. Pawiak fangelsið. Kjallari annarar álmu aðalbyggingarinnar var endurreistur og gerður að safni, en Pawiak var gríðarlega stór húsaþyrping.

Tilfinningin þarna inni var svolítið yfirþyrmandi, það var þröngt og dimmt. Það var búið að taka einn klefann og breyta honum í snyrtingu, en manni leið nú ekki vel að loka klefahurðinni á eftir sér!

Snapchat-2140876919
Pawiak-tréð.

Þegar Pawiak var sprengt stóð ekkert eftir nema „The Tree of Pawiak“ og hluti hliðsins að svæðinu. Litið er á tréð sem vitni að þjáningum, glæpum, hryllingi og hetjudáðum mannkyns í seinni heimsstyrjöldinni. Tréð dó á tíunda áratugnum, og það var reynt að halda í það eins lengi og mögulegt var, en undir restina var gerð afsteypa af því og reist á sama stað.

Næst lá leiðin í Mausoleum of Struggle and Martyrdom. Á tíma seinni heimsstyrjaldar voru þetta höfuðstöðvar Gestapó, þar sem mikilvægustu fangarnir voru geymdir og hræðilegar pyntingar framkvæmdar. Eftir stríðið fundust 5,6 tonn af ösku mannslíka undir húsinu, en eftir brennslu er mannslíkami nokkur hundruð grömm.

Snapchat-1009786093
Einangrunarklefi í höfuðstöðvum Gestapo.

Ef manni leið ekki vel eftir heimsókn í Pawiak, þá leið manni ömurlega eftir þessa heimsókn. Þarna er allt einhvernveginn ljóslifandi, búið að stilla upp skrifstofu Gestapomanns og pyntingatólunum hans og öskur í bakgrunni.

Snapchat-682794949

Hurðirnar að einangrunarklefunum voru með gægjugati. Þar var ekki aðeins fylgst með föngunum, heldur voru þau nógu stór svo hægt væri að skjóta þá í gegnum gægjugatið.

Snapchat-880158897

Og enn má sjá skotför í veggjum klefanna.

Ég mæli alveg heilshugar með þessu safni fyrir þá sem hafa áhuga á sögu og hafa taugar í að skoða svona lagað. Öll umgjörð safnsins var mjög vönduð, þótt það væri ekki stórt.

Kvöldmaturinn síðasta kvöldið var að sjálfsögðu tekinn á steikhúsi, Steakownia. Matseðillinn var þannig uppsettur að þú valdir þér bara steik (tegund) og þyngd og bættir sjálfur við meðlæti að eigin vali. Hinsvegar vantaði aðeins uppá þetta hjá þeim drengjunum; það voru tvær tegundir af sveppum á matseðlinum, en allir sveppir búnir í húsinu. Þegar gaurarnir fjórir á næsta borði ætluðu að panta sér hamborgara kom í ljós að það voru bara til þrír…

Snapchat-87194586

En maturinn var mjög góður, og heimagerða BBQ sósan þeirra var æðisleg. Þjónustan fín, en við vorum snemma á sunnudagskvöldi og því lítið að gera.

Snapchat-1496270854
150 gr. sirloin steik með frönskum og fersku salati.

Og eins og allt annað var þetta bara hlægilega ódýrt!

Snapchat-717566293

Við öll fjögur kolféllum svo fyrir Escape Room-inu daginn áður að við fórum í annað herbergi þetta kvöld; Hacker Room. Það var líka mjög skemmilegt, en byggðist meira á tölvum og tækni heldur en Recording Studio-ið. Alveg thumbs-up fyrir Enigma Room!

Á mánudagsmorgni eftir að við höfðum skilað inn lyklunum að hótelherbergjunum geymdi hótelið töskurnar okkar og við skruppum í smá verslunarferð. Því þótt við værum búin að fara tvisvar í verslunarmiðstöð, þá vorum við alls ekki búin að versla neitt gríðarlega mikið og bara eiginlega ekkert fyrir stelpurnar!

Í þetta skipti héldum við í Galeria Mokotow, sem er mjög stór verslunarmiðstöð, þar sem m.a. má finna Deichman, Benetton, Smyk, KappAhl, Carrefour og Okaidi. Þarna var tekið smá ofur-versl, áður en við brunuðum aftur upp á hótel og hentum dótinu í töskurnar.

Image result for lewitarium
Flotklefinn, mynd fengin að láni hjá lewitarium.pl.

Við hjónin erum alltaf til í að prófa eitthvað nýtt og í þessari ferð prófuðum við flot! Við vorum saman í klefa, sem var svona sirka 2 x 3 metrar. Vatnið náði svona u.þ.b. upp að hnjám, en vegna saltmagnsins í vatninu var einstaklega auðvelt að fljóta. Vatnið var stillt á líkamshita svo maður fann varla fyrir því og leið eins og maður væri í þyngdarleysi. Auk þess var kolniðamyrkur og þögn. Þetta var frábær upplifun og við komum út alveg endurnærð! Þetta er pottþétt eitthvað sem við eigum eftir að gera aftur! En næst ætla ég að muna að taka með mér eyrnatappa, mér fannst svo óþægilegt að vita af saltvatninu í eyrunum!

Image result for lewitarium
Svona lítur flotklefinn út að innan, því miður er myndin ekki af mér, þá væru örlítið fleiri keppir! Mynd fengin að láni hjá lewitarium.pl.

Snapchat-273992723

En allt tekur enda, líka góð ferðalög. Áður en við brunuðum á flugvöllinn fékk ég mér annan Adel Kebab, sat á tröppunum á hótelinu og naut þess að vera til.

Snapchat-209233451

Við vorum í Varsjá í 5 daga og veðrið var vægast sagt dásamlegt. Það voru svona 25-28 gráður alla dagana, og rigndi aðeins stutta stund síðasta daginn. Borgin er falleg og full af sögu og allskonar afþreyingu, og ég hefði alveg þegið töluvert lengri tíma þarna! En mér skilst að miðað við restina af Póllandi sé Varsjá frekar dýr og ekkert neitt rosalega falleg. Við erum alveg ákveðin í að fara aftur til Póllands, og það sem allra fyrst!

Ferðalög

Varsjá ferðasaga, 2. kafli

Seinni part fimmtudags héldum við í smá leiðangur, þar sem okkur langaði að komast í búð sem sérhæfði sig í hreinum snyrtivörum o.þ.h. BioOrganika hét búðin, og þar eyddum við nokkrum þúsundköllunum!

Image result for bioorganika nowolipki 15
Mynd fengin að láni hjá BioOrganika.pl

Þar við hliðina var krúttlegur lítill ítalskur staður, Pizzeria na Nowolipkach, svo við tylltum okkur í pizzu. Við fengum okkur hvítlauksbrauð í forrétt, sem var gersamlega hulið osti og borið fram með heimagerðri pizzusósu. Pizzurnar voru þunnbotna og dásamlega góðar!

Image result for pizzeria na nowolipkach
Mynd fengin að láni hjá tripadvisor.com

Á föstudagsmorguninn áttum við pantaða borgarferð, bara við fjögur með leiðsögumanni í 5 klst. Hins vegar klúðraðist eitthvað hjá þeim, við vorum sótt klukkutíma of seint, og ferðin var bara 3 klst., þrátt fyrir að ég hefði sent þeim tölvupóst viku fyrr til að staðfesta og þeir hefðu staðfest tíma og dag! Ferðin sjálf var fín, og leiðsögumaðurinn var indæl og þekkti borgina og söguna mjög vel.

20180511_102533
Hópurinn í Lazienki garðinum, stytta af Chopin í bakgrunninum.

Hún fór m.a. með okkur í gamla bæinn, sýndi okkur gömlu borgarveggina, sýndi okkur stærsta almenningsgarðinni í Varsjá; Lazienki, keyrði með okkur um svæðið þar sem gyðingagettóið var í seinni heimsstyrjöldinni, sýndi okkur safnið um sögu gyðinga í Póllandi og ýmis minnismerki. Svo sýndi hún okkur Umchlagplatz; það var lestarstöðin þar sem gyðingum var safnað í gripavagna og þeir fluttir í útrýmingarbúðir.

Image result for umschlagplatz
Mynd fengin að láni hjá memorialmuseums.org
Image result for umschlagplatz
Mynd fengin að láni hjá jewishvirtuallibrary.org

Eftir að borgarferðinni var lokið báðum við um að vera skilin efti á indverskum veitingastað töluvert langt frá miðborginni. Sá staður heitir Mandala, og var örskot frá verslunarmiðstöð sem stefnan var sett á. Við vorum utan álagstíma á staðnum, og vorum því nánast ein. Staðurinn var frekar lítill og notalegur, og andrúmsloftið vinalegt. Við pöntuðum okkur 5 rétti, auk meðlætis og drykkja og maturinn var dásamlegur – frekar mildur miðað við indverskan mat, en góður engu að síður.

Image result for mandala warsaw restaurant
Mynd fengin að láni hjá tripadvisor.com

Við skötuhjúin áttum pantaðan tíma hjá tannlækni seinni partinn, þannig við skyldum við ferðafélagana, sem brugðu sér í bíó og drifum okkur. Ég ætla að skrifa betur um það síðar.

Image result for po wisle
Mynd fengin að láni hjá tripadvisor.com

Um kvöldið drifum við okkur í sólseturssiglingu, 45 mínútna siglingu um Vistulu um borð í krúttlegri flatbytnu. Það vorum bara við og svo einn annar vinahópur um borð í siglingunni, þau voru uppi, en við vorum niðri og því var eins og við værum ein um borð. Þar sem það er ekki leyfilegt að neyta áfengis á almannafæri nema á bökkum Vistulu, myndast skemmtileg partýstemmning þar á kvöldin um helgar. Því var enn skemmtilegra en ella að sigla að kvöldi til.

Snapchat-419988507
Leðursófar og kósý um borð.

20180511_200458

Á heimleið á hótelið komum við við á mexíkóskum veitingastað, Blue Cactus. Okkur var vísað til borðs á veröndinni, og það var yndislegt þar sem hitinn var örugglega rúmlega 20°. Hamborgararnir voru ótrúlegir, 200 gramma kvikindi með frönskum – á aðeins um 750 kr.! Aftur á móti var þjónustan engin; þjónarnir komu aldrei og athuguðu með okkur og það endaði með því að við fórum sjálf að barnum til að biðja um ábót á drykkina. Eftir matinn fengum við okkur Grande Margarita; 1.200 ml jarðarberjarmargarítu og drukkum hana í sameiningu. Staðurinn var krúttlegur, maturinn góður, Margarítan góð, en þjónustan ömurleg.

Image result for blue cactus warsaw
Mynd fengin að láni hjá tripadvisor.com
Image result for blue cactus warsaw
Mynd fengin að láni hjá Warsawfoodie.pl
Snapchat-1674886252
Jarðarbergjamargarítan var gríðar góð – en ég drakk hana ekki ein!

Á laugardagsmorguninn vorum við búin að skipuleggja Spa-dag. Við fórum á snyrtistofu sem heitir Relax in Spa, og var alveg dásamleg. Við fengum nudd, fótsnyrtingu, andlitsnudd og maska, og svo fór ég í klippingu og litun. Allt þetta fyrir rétt í kringum 30.000 kr.! Það má segja að það sé rúmlega 50% afsláttur m.v. íslenskar verðskrár – og við vorum svo í skýjunum með þennan dag!

Image result for
Mynd fengin að láni hjá tripadvisor.com
Image result for
Mynd fengin að láni hjá tripadvisor.co.uk

Alls vorum við á stofunni í 5 klst., okkur var fært hvítvín í fótsnyrtingu og klippingu, og meðan eiginmaðurinn beið eftir mér var honum boðinn bjór. Allar stelpurnar sem þjónustuðu okkur voru alveg frábærar, og við getum svo mælt með þessari stofu! Það var mjög sérstök upplifun að fara í klippingu þar sem klippikonan skildi ekki stakt orð í ensku – þannig við töluðum saman í gegnum aðra stelpu sem túlkaði ef við þurftum eitthvað að tala saman! Annars sýndi ég henni bara mynd af því sem ég var að spá, og hún bara gerði það!

Snapchat-1450660546
Nýklippt í hitanum í Varsjá!

Eftir langan og strangan dag á snyrtistofunni fórum við á pizzustað sem var þar við hliðina, og nutum okkar afslöppuð út í gegn.

Zlote Tarasy er nýleg, flott og snyrtileg verslunarmiðstöð, þar sem finna má allt sem maður þarf. Svo er risastórt C&A, H&M og TKmaxx í göngufæri við verslunarmiðstöðina.

E. Wedel er sælgætisframleiðandi sem rekur líka einskonar súkkulaði-hús (kaffihús, nema áherslan er á allt sem er búið til úr súkkulaði!). Það var ekki hægt að fara til Varsjár nema prófa þetta, svo við settumst niður og fengum okkur hressingu. Þar var t.d. á boðstólnum „heit súkkulaði tríó“ – sem voru litlir bollar af heitu súkkulaði; einn drykkurinn úr hvítu súkkulaði, einn úr mjólkursúkkulaði og einn úr dökku súkkulaði. Einnig voru ýmiskonar mjólkurhristingar og ísréttir, kökur og konfekt, og kalt „heitt“ súkkulaði – þ.e.a.s. súkkulaðidrykkur sem var eins og heitt súkkulaði nema hann var kaldur, og með rjóma. Ákaflega sérstök en skemmtileg upplifun.

Image result for e. wedel cafe zlote tarasy
Mynd fengin að láni hjá zlotetarasy.pl
Snapchat-807521251
Kalt-heitt kakó með rjóma og banana- og súkkulaðisjeik.
Snapchat-1916437127
Súkkulaðitríó

Mig og eiginmanninn hafði langað í dágóðan tíma að prófa að fara í Escape Room. Við fundum eitt, Enigma Room, í Varsjá með góðar umsagnir og pöntuðum bara tíma. Þegar við komum á staðinn fór aðeins um okkur, þar sem við þurftum að hringja dyrasíma á gráu útkrotuðu hliði að húsagarði. Þegar við vorum komin inn um hliðið gengum við upp stigagang í gamalli sovétbyggingu, ekki beint í frábæru ástandi – okkur leist varla á þetta og vorum við það að hætta við. En sem betur fer!

Snapchat-725168957
Dyrnar sem við gengum inn um til að vera læst inni í herbergi í 60 mínútur!

Við fórum í herbergi sem heitir Recording Studio. Sagan er sú að þú ert tónlistarmaður sem hefur ekki staðið þig í að skila á réttum tíma og stjórinn kallar þig til fundar við sig. Þegar þú mætir er búið að ræna pródúsernum og þú lokast inni í stúdíóinu. Við náðum ágætis tíma, áttum rúmar 9 mínútur eftir af tímanum og vorum alveg í skýjunum með þetta! Ferðafélagarnir höfðu ekki verið neitt gríðarlega spennt yfir þessu, en þau voru gersamlega dolfallin yfir þessu eftir á.

Image result for enigma room warsaw
Mynd fengin að láni tripadvisor.com

IMG_20180512_200150_049

Kvöldmaturinn var tekinn á Adel Kebab, þar sem ég gersamlega elska gott Kebab. Þetta var lítill og sjoppulegur staður, en maturinn var mjög góður. Þarna borðuðum við fjögur kvöldmat fyrir alls um 1.700 kr., með drykkjum. Og þetta var bara virkilega gott Kebab!

Snapchat-1978793601
Kebabið var svo gott að ég fór aftur – ein!

Lestu síðasta kafla Varsjárferðasögunnar hér.

Ferðalög

Varsjá ferðasaga, 1. kafli

Ég var búin að hlakka afskaplega mikið til að koma til Varsjár, af mörgum ástæðum. Sumir spurðu hvers vegna við hefðum valið Varsjá – og þá sér í lagi Pólverjar! Í rauninni var þetta bara úllen-dúllen-doff og við fengum hagstæðasta dílinn á flugi og hóteli til Varsjár, hefðum annars farið til Gdansk eða Kraká.

Snapchat-270898243

Við flugum með Wizz Air, og lentum á Chopin flugvellinum. Flugið út var næturflug, og ekki það skemmtilegasta – en hvað lætur maður sig ekki hafa fyrir góðan díl? Wizz Air er vissulega lággjaldaflugfélag, og það kemur berlega í ljós þegar maður ferðast með þeim; það er ekki hægt að halla sætum í vélunum þeirra og þeir borga ekki fyrir rana frá flugstöð út í vél, heldur er fólk selflutt með rútum. Það versta við flugið var að þetta var næturflug; flogið af stað 00.30 og lent 6.30 – þannig þetta var allur nætursvefninn sem var í boði. Það var kannski aðeins af manni dregið eftir það. En ég myndi alveg gera þetta aftur; kannski mögulega bara panta hótelherbergi þannig maður gæti tékkað inn strax og maður kemur, en ekki bara kl. 14.00. En það samt blessaðist alveg.

Image result for regent warsaw hotel
Regent Warsaw Hotel. Mynd fengin að láni hjá tripadvisor.com

Snapchat-1781840356

Mig langar að vekja athygli á því að hjá Wizz Air innritar maður sig sjálfur á netinu, en það kostar aukalega ef þú vilt innrita þig við innritunarborð á flugvellinum. Hins vegar, þá þarftu að skila af þér farangrinum við innritunarborðið, og þau opna ekki fyrr en 2 tímum fyrir flug.

Ég var búin að bóka bíl til að sækja okkur á flugvöllinn og flytja okkur á hótelið, þar sem við geymdum töskurnar. Þetta er í annað skipti sem ég panta akstur milli flugvallar og hótels á Suntransfers, og bæði skiptin hafa gengið vel. Það kom upp einn agnúi í þetta skiptið; en bílstjórinn hafði fengið rangt nafn, og því fundum við hann ekki. Við sáum hann um leið og við komum, svo hann var mættur, en hann var ekki með mitt nafn og því gengum við bara fram hjá honum.

Þá var komið að því að reyna Customer Service hjá þeim, og ég hringdi í þá. Maðurinn sem svaraði mér hringdi strax í bílstjórann og leysti úr málinu. Hann hringdi svo aftur til að vera viss um að við hefðum örugglega hitt hvort á annað, þannig það má alveg segja að þeir séu með toppþjónustu.

IMG_20180510_090627_019
Freyðivín með morgunmatnum!

Við gistum á Regent Warsaw Hotel, sem er mjög fínt og snyrtilegt hótel. Hótelið er ekki alveg miðsvæðis, en það kemur ekki svo að sök þar sem leigubílar eru mjög ódýrir þar í borg.

Image result for bułkę przez bibułkę
Mynd fengin að láni hjá polishessence.wordpress.com

Við geymdum töskurnar okkar á hótelinu, og héldum út í leit að æti. Í u.þ.b. tíu mínútna göngufæri við hótelið var lítill kósý morgunverðarstaður, Bulke Przez Bibulke. Þar tylltum við okkur inn og fengum okkur vel útilátinn morgunmat.

Snapchat-1341125141

Ég fékk mér dásamlega Júlíusar Sesars-samloku; kjúklingur, beikon, parmesan, salat og heimagerð sósa í nýbökuðu ciabatta brauði. Staðurinn býður upp á Prosecco allan daginn alla daga, glasið á kr. 150. Ég stóðst ekki mátið og fékk mér eitt staup. Okkur þótti leiðinlegt að hafa ekki tök á að koma aftur hingað, enda fín þjónusta, góður matur og verðið bara grín. (Samlokan mín kostaði t.d. kr. 480.)

Image result for warsaw old town
Gamli bærinn í Varsjá. Mynd fengin að láni hjá wikipedia.com
Snapchat-572728344
Royal Castle

Eftir morgunhressinguna gripum við leigubíl í gamla bæinn. Gamli bærinn er gullfallegur, en það er talað um að þetta sé „yngsti gamli bær“ í Evrópu. Gamli bærinn, eins og megnið af borginni, var jafnaður við jörðu í seinni heimsstyrjöldinni, en endurbyggður með sama útliti og áður. Í gamla bænum stoppuðum við í fyrstu ísbúðinni, en ísbúðir eru á hverju götuhorni, það er yndislegt í hitanum.

Snapchat-425866029

Image result for regent warsaw hotel
Mynd fengin að láni hjá catdays.net

Við röltum aðeins um og nutum lífsins í hitanum og fallegu umhverfinu, áður en við gripum annan leigubíl og héldum upp á hótel. Starfsfólkið var indælt, og við fengum falleg og snyrtileg herbergi. Herbergið var rúmgott, og sömuleiðis baðherbergið sem var bæði með baðkari og sturtu. Allt var hreint og fínt, og okkur leið mjög vel á hótelinu.

Það breyttist aldeilis ekki þegar kom að morgunmatnum daginn eftir, en úrvalið var frábært. Þjónarnir voru alltaf á tánum, við vorum varla sest þegar okkur var boðið kaffi, t.d. Egg voru gerð eftir pöntun, hvort heldur sem um var að ræða spæld, hrærð eða eggjaköku. Annars var á hlaðborði bæði heitur matur, (s.s. pylsur, beikon, eggjahræra o.fl.), morgunkorn og jógúrt, brauð og álegg. Hótelið býður upp á heimagert hunang, en þeir eru með býflugnabú á þakinu – örvæntið eigi, maður verður ekki var við flugurnar.

Image result for regent warsaw hotel breakfast
Mynd fengin að láni hjá tripadvisor.com
Snapchat-231607021
Ekki insta-worthy morgunverðardiskur!

Takk í dag – meira síðar!

Lestu næsta kafla Varsjárferðasögunnar hér.